Ferill 699. máls. Ferill 695. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1190  —  695. og 699. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020 og tillögu til þingsályktunar um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málin, haft fjarfundi og kallað til alla umsagnaraðila. Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Björn Þ. Hermannsson, Sigurður H. Helgason og Kristinn Bjarnason, kynntu frumvarpið fyrir nefndarmönnum. Á fjarfundi nefndarinnar komu Pétur Þ. Óskarsson og Bergþóra Halldórsdóttir frá Íslandsstofu, Jóhannes Þór Skúlason og Benedikt S. Benediktsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Elías Bj. Gíslason frá Ferðamálastofu og Helga Jónsdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem kom sérstaklega vegna barnabótaauka.
    Einnig komu Sturla Pétursson, Rannveig Júníusdóttir og Ragnar Árni Sigurðarson frá Seðlabanka Íslands, Ásdís Kristjánsdóttir og Davíð Þorláksson frá Samtökum atvinnulífsins, Skúli Eggert Þórðarson og Jón L. Björnsson frá Ríkisendurskoðun, Henný Hinz frá ASÍ, Ásta S. Fjeldsted og Konráð S. Guðjónsson frá Viðskiptaráði Íslands og Katrín Júlíusdóttir og Yngvi Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Karl Björnsson, Guðjón Bragason og Sigurður Snævarr frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Grímur Atlason frá Geðhjálp, Sigurjón Unnar Sveinsson, Þuríður Harpa Sigurðardóttir og Sigríður Hanna Ingólfsdóttir frá Öryrkjabandalagi Íslands, Sigurður Hannesson, Sigríður Mogensen og Ingólfur Bender frá Samtökum iðnaðarins, Heiðrún Lind Marteinsdóttir frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Vilhjálmur Bjarnason og Guðmundur Ásgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna.

Meginefni frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2020.
    Frumvarpinu má skipta í þrjá meginliði, gjaldaheimildir, hækkun lánsfjárheimildar og ýmsar heimildir til handa fjármála- og efnahagsráðherra til breytinga á 6. gr. fjárlaga.
    Í fyrsta lagi er óskað eftir samtals 21,1 milljarðs kr. gjaldaheimildum sem koma fram á þremur málefnasviðum og flokkum. Þar vega þyngst 15 milljarðar kr. til að flýta tímabundið framkvæmdum og fjárfestingum til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu. Þá er óskað eftir 3,1 milljarði kr. vegna sérstaks barnabótaauka sem kemur til útgreiðslu við álagningu opinberra gjalda ársins 2020. Loks er óskað eftir 3 milljörðum kr. til sérstaks markaðsátaks í ferðaþjónustu sem áætlað er að skiptist til helminga, annars vegar verður gerður samningur við Íslandsstofu um kynningarátak erlendis og hins vegar verður ráðist í markaðsátak til að styrkja ferðaþjónustu innan lands.
    Í öðru lagi er óskað eftir hækkun á heimild til lántöku ríkissjóðs í erlendri mynt á árinu og miðað við að taka allt að 140 milljarða kr. lán. Það er hækkun um 95 milljarða kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum.
    Í þriðja lagi er óskað eftir fimm nýjum heimildum sem bætist við 6. gr. fjárlaga um heimildir fjármála- og efnahagsráðherra. Meðal þeirra eru heimildir til að veita framlög í sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, auka hlutafé í opinberum félögum til að efla fjárfestingargetu þeirra og heimild til að ganga til samninga við Íslandsstofu um markaðsstarf erlendis og til stuðnings markaðsátaki innan lands sem hvort tveggja er gert til að bregðast við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á íslenska ferðaþjónustu.
    Að lokum er farið fram á heimild til ráðherra til að veita lánastofnunum ábyrgð ríkissjóðs vegna viðbótarlána þeirra til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Jafnframt er ráðherra heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um framkvæmd á veitingu ábyrgða gagnvart lánastofnunum.
    Í væntanlegum samningi skal tilgreina þau hlutlægu skilyrði sem lögð verða til grundvallar ákvörðunum um skiptingu ábyrgða milli lánastofnana, ásamt nánari skilyrðum um hvernig tryggja megi að fyrirgreiðsla lánastofnana byggist á skýrum, málefnalegum og gagnsæjum forsendum sem leiði til jafnræðis þeirra fyrirtækja sem leita eftir fyrirgreiðslu og hvernig reglubundinni skýrslugjöf til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og til Alþingis skuli háttað.
    Í greinargerð frumvarpsins koma fram skilyrði í 8 töluliðum sem gert er ráð fyrir að komi fram í samningi ráðherra við bankann.
    Gert er ráð fyrir að heildarábyrgð ríkissjóðs vegna viðbótarlána geti að hámarki numið um 50 milljörðum kr. og miðað við að ábyrgðin geti náð allt að 70% af lánunum. Með fyrirgreiðslu lánastofnana getur þetta úrræði í heild mest numið um 70 milljörðum kr.

Vinna nefndarinnar – athugasemdir umsagnaraðila.
Staða atvinnulífsins í kjölfar COVID-19-heimsfaraldursins.
    Umsagnaraðilar voru á einu máli um að efnahagslífið stæði frammi fyrir fordæmalausum tímum með mikilli niðursveiflu sem þó er tímabundin. Er það í samræmi við það sem fram hefur komið áður, sbr. kynningu stjórnvalda á aðgerðum vegna faraldursins.
    Niðursveiflan nú er allt annars eðlis en bankahrunið 2008 og bent er á að að flestu leyti eru heimilin, fyrirtækin og ríkissjóður mjög vel í stakk búin til að takast á við tímabundna erfiðleika. Skuldir þessara aðila eru mun lægri og niðurgreiðsla skulda hefur verið í forgangi hjá ríkissjóði.
    Almennt kemur fram ánægja með aðgerðir stjórnvalda sem birtast í frumvarpinu og í frumvarpi til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, 683. máli, en jafnframt bent á að nauðsynlegt gæti reynst að grípa til enn frekari aðgerða til að mæta þeim efnahagslegum áskorunum sem faraldurinn orsakar.
    Ljóst er að niðursveiflan í hagkerfinu kemur harkalega niður á atvinnulífinu. Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru á meðal þeirra sem verða fyrir einna mestum áföllum vegna faraldursins. Þá stefnir í að tekjur margra fyrirtækja verði því sem næst engar á næstu vikum.
    Mikil óvissa er um efnahagsleg áhrif á fjölmargar atvinnugreinar. Heilbrigðisþátturinn er í algerum forgangi og meðan þetta tímabundna ástand varir er mikilvægt að verja fyrirtæki, heimilin og störfin eins og þeim aðgerðum er ætlað að gera sem hingað til hefur verið gripið til auk þeirra aðgerða sem boðaðar eru í frumvarpi til fjáraukalaga.
    Nú þegar er ljóst að velta margra greina hefur dregist mikið saman. Fjölmargar stéttir sjálfstætt starfandi aðila og lítilla þjónustufyrirtækja hafa ýmist dregið verulega úr starfsemi eða hætt starfsemi tímabundið.
    Önnur fyrirtæki finna einnig fyrir niðursveiflu. Öll velta þjónustufyrirtækja hefur dregist saman, verslanir hafa lokað tímabundið og bent var á að þegar birgjar eiga í erfiðleikum með að fá greitt á réttum tíma hefur það víðtæk áhrif í efnahagslífinu.
    Ljóst þykir að mikill ófyrirséður kostnaður hefur fallið til og mun falla til á næstu vikum og mánuðum. Mikið álag er á heilbrigðiskerfinu og bæði er beinn kostnaður vegna veirufaraldursins en einnig er röskun á hefðbundinni starfsemi heilbrigðiskerfisins sem nokkurn tíma getur tekið að vinna upp að nýju að faraldrinum loknum. Mikilvægt er að halda utan um þann kostnað sem af þessu hlýst svo að hægt sé að mæta honum með markvissum hætti með fjáraukalögum.
    Í tengslum við framangreinda umfjöllun vekur meiri hlutinn sérstaka athygli á stöðu heilbrigðisstarfsmanna. Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana. Eitt af úrræðunum er myndun bakvarðasveita heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar. Þar hefur heilbrigðisstarfsfólk víða að úr samfélaginu þegar skráð sig hundruðum saman og vill þannig taka þátt í að leysa tímabundinn mönnunarvanda.
    Verið er að breyta hefðbundinni starfsemi heilbrigðisstofnana vegna ástandsins, vinnuumhverfið er endurskipulagt og heilbrigðisstarfsfólk breytir vöktum og vinnufyrirkomulagi eftir þörfum þjónustunnar.
    Stéttirnar í framlínunni eru hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og læknar. Á þessum hættutímum sem nú eru er sjálfsagt að viðurkenna og þakka fyrir þeirra störf. Það er ekki sjálfsagður hlutur að þessir starfsmenn okkar kollvarpi lífi sínu og forgangsraði starfi sínu umfram fjölskyldu og eigin hag. Mikilvægi þessa starfsstétta er óumdeilt.

Hagvaxtarhorfur.
    Forsendur fjárlaga byggjast á þjóðhagsspá sem Hagstofan birti 1. nóvember sl. Í kjölfar þeirrar spár voru forsendur fjárlagafrumvarpsins uppfærðar. Þær forsendur eru nú með öllu brostnar vegna heimsfaraldursins. Ekki er von á nýrri spá Hagstofunnar fyrr en um miðjan maí og mun ný fjármálastefna og uppfærð fjármálaáætlun byggjast á þeirri spá. Af þessum sökum ríkir mikil óvissa um framvindu efnahagsmála og opinberra fjármála á næstu vikum og mánuðum.
    Meiri hlutinn gerir ráð fyrir að forsendur fjáraukalaga og frumvarps um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldursins verði endurskoðaðar samhliða þjóðhagsspánni og vel er hugsanlegt að frekari ráðstafanir komi til kasta Alþingis í vor.
    Í stað endurskoðaðrar þjóðhagsspár hefur Seðlabankinn birt tvær sviðsmyndir sem kynntar voru 25. mars sl.
     Mildari sviðsmynd Seðlabankans: Er áætlað að hagvöxtur dragist saman um 2,4% og að atvinnuleysi verði 5,7% á ársgrundvelli. Þá er reiknað með því að einkaneysla dragist saman um 1,1% og ársverðbólgan verið 1,5%. Í mildari sviðsmyndinni er reiknað með að ferðaþjónustan á Íslandi fari að ná sér í lok sumars en þó muni útflutningstekjur dragast saman um 14%.
     Dekkri sviðsmynd Seðlabankans: Er áætlað að hagvöxtur dragist saman um 4,8% og að atvinnuleysi verði 7,0% á ársgrundvelli. Þá er reiknað með því að einkaneysla dragist saman um 3,8% og ársverðbólgan verið 1,4%. Í dekkri sviðsmyndinni er reiknað með að ferðaþjónustan á Íslandi eigi erfitt uppdráttar fram yfir næsta haust og að útflutningstekjur muni dragast saman um 21%.
    Atvinnuleysisspáin í dekkri sviðsmyndinni er nálægt því sem Vinnumálastofnun áætlar og byggð á nýjustu tölum um fjölda þeirra sem sækja um hlutabætur til stofnunarinnar.
     Útlit er fyrir áframhaldandi verðstöðugleika sem hefur tekist að viðhalda þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi gefið eftir á síðustu mánuðum líkt og aðrar smáar myntir. Þá bendir meiri hlutinn á að verðbólguhorfur erlendis eru lágar, vegna mikillar verðlækkunar á hrávörum, sérstaklega olíu. Í nýjustu mælingu Hagstofunnar, frá 27. mars, kom í ljós 0,3% lækkun á vísitölu neysluverðs síðustu 12 mánuði miðað við mælingu frá í febrúar. Það er eitt atriði af mörgum sem er ólíkt þeirri kreppu sem kom í kjölfar bankahrunsins.
    Markmið Seðlabankans um verðstöðugleika hafa gengið eftir undanfarin ár en eftir sem áður leggur meiri hlutinn áherslu á að stjórnvöld meti stöðugt verðlagsþróun, ekki síst með hag heimilanna að leiðarljósi. Umsagnaraðilar komu á framfæri áhyggjum sínum af afkomu heimilanna og áhrif verðbólgu á lán og leigusamninga.
    Meiri hlutinn tekur undir að mikilvægt sé að viðhalda verðstöðugleika og auknum kaupmætti sem náðst hefur á undanförnum árum.

Fjárfestingarátak.
    Ætla má að óvissan sem fylgir faraldrinum valdi miklum samdrætti í atvinnuvegafjárfestingu. Einnig er útlit fyrir meiri samdrátt íbúðarfjárfestingar í ár en spáð hafði verið áður en faraldurinn braust út. Við þessar aðstæður er mikilvægt að hið opinbera ráðist í mannaflsfrekar og arðbærar framkvæmdir og fjárfestingar. Eins og fram hefur komið er ríkissjóður vel í stakk búinn til að ráðast í slíkar framkvæmdir núna þar sem skuldir hafa verið greiddar mikið niður á sl. árum.
    Á sama tíma hafa fjárfestingar ríkisins aukist verulega. Í fjárlögum ársins eru þær 74,3 milljarðar kr. og hafa hækkað um 31,2 milljarða kr. frá fjárlögum 2016 eða um 72%. Að fjárfestingarátakinu meðtöldu hafa þær meira en tvöfaldast frá 2016. Fjárfestingar opinberra fyrirtækja, svo sem Isavia, Landsvirkjunar, Landsnets o.fl., bætast síðan við þessar fjárhæðir.
    Skilyrði fyrir öllum framlögum í fjárfestingarátakið er að framkvæmdir hefjist eigi síðar en 1. september 2020 og verði að fullu lokið eigi síðar en 1. apríl 2021.
    Í greinargerð með frumvarpinu er 15 milljarða kr. átakinu skipt niður í sjö flokka (sjá töflu á bls. 13). Þar kemur fram að mest vegur 6 milljarða kr. flýting samgönguframkvæmda og því næst 2,3 milljarðar kr. í önnur innviðaverkefni og 2 milljarðar kr. í viðhald fasteigna. Önnur verkefni vega minna.
    Fjárfestingarátakið fær almennt mjög jákvæð viðbrögð umsagnaraðila. Nokkrir þeirra leggja til að bætt verði fjármunum í átakið og benda á ýmsar leiðir í því sambandi, svo sem hækkun framlags í Tækniþróunarsjóð, aukna endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði og samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir, sbr. frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, 662. mál. Með því frumvarpi færast umfangsmiklar framkvæmdir framar í tíma og skapa mikinn fjölda ársverka bæði hjá verktökum en ekki síður hjá ráðgjöfum og hönnuðum.
    Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að í undirbúningi er stærra fjárfestingarátak sem lagt verður fram síðar og mun taka til áranna 2021–2023. Fjölmörg brýn verkefni verða að bíða þess átaks þar sem ljóst er að þau þarfnast meiri undirbúnings til að hægt sé að hrinda þeim af stað með raunhæfum hætti. Meiri hlutinn væntir þess að með því átaki verði forgangsraðað til rannsókna og nýsköpunar auk innviðafjárfestinga í samgöngum og til byggingar hjúkrunarheimila.
    Nánar er fjallað um fjárfestingarátakið síðar í áliti þessu en tillaga til þingsályktunar um sérstakt fjárfestingarátak er afgreidd samhliða fjáraukalagafrumvarpinu og umfjöllun meiri hlutans um málin bæði eru í þessu áliti.
    Meiri hlutinn gerir nokkrar breytingartillögur til hækkunar framlaga til fjárfestingarátaks sem eru, auk annarra breytingartillagna, skýrðar í sérstökum kafla.

Barnabótaauki.
    Í frumvarpinu er óskað eftir 3,1 milljarðs kr. framlagi til sérstaks barnabótaauka. Miðað er við að hann nemi 40.000 kr. með hverju barni innan 18 ára aldurs sé tekjuskattsstofn einstæðs foreldris eða þess sambúðaraðila sem hærri hefur tekjur undir 11,1 millj. kr. við álagningu ársins 2020. Ef tekjuskattsstofn er hærri en að framan greinir mun barnabótaaukinn nema 20.000 kr. Barnabótaaukinn telst ekki til skattskyldra tekna. Um er að ræða einskiptisaðgerð til að bæta hag barnafjölskyldna.
    Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir gagnvart þessari tillögu en skiptar skoðanir voru um tekjutenginguna. Bent var á að sú leið sem lögð var til í frumvarpi til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, 683. máli, veldur miklum jaðaráhrifum þar sem barnabótaauki helmingast fari tekjur yfir ákveðna krónutölu. Í öðru lagi hefur sú regla að horfa einungis til tekjuskattsstofns tekjuhærri sambúðaraðila, en ekki á samanlagðan skattstofn samskattaðra líkt og almennt gildir við ákvörðun barnabóta, það í för með sér að samsetning tekna sambúðaraðila hefur veruleg áhrif á ákvarðaðan barnabótaauka.
    Í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar um 683. mál er lögð til önnur útfærsla. Þar er miðað við að þeir sem fá nú þegar barnabætur skuli til viðbótar almennum barnabótum fá sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 42.000 kr. með hverju barni og hins vegar skuli greiða þeim sem ekki eru ákvarðaðar barnabætur vegna tekjuskerðingar sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 30.000 kr. með hverju barni. Gert er ráð fyrir að breytingin rúmist innan fjárheimildarinnar sem lögð er til í fjáraukalagafrumvarpinu.

Markaðsátak í ferðaþjónustu.
    Í frumvarpinu er óskað eftir samtals 3 milljörðum kr. vegna markaðsátaks sem tengist ferðaþjónustunni til að bregðast við fækkun ferðamanna. Áætlað er að það skiptist til helminga. Annars vegar eru 1,5 milljarðar kr. vegna alþjóðlegs markaðsátaks sem hleypt verður í gang um leið og aðstæður skapast á erlendum mörkuðum, einkum í Evrópu og Norður-Ameríku. Miðað er við að Íslandsstofa stýri verkefninu og nú þegar er í undirbúningi tvíþætt útboð hjá félaginu. Þar er gert ráð fyrir mótframlagi fyrirtækja þegar rofar til í efnahagslífinu. Reynslan af svipuðu verkefni fyrir nokkrum árum, Inspired by Iceland, var mjög góð að áliti Íslandsstofu.
    Hins vegar eru einnig 1,5 milljarðar kr. í innlent verkefni sem yrði á forræði Ferðamálastofu. Verkefninu er ætlað að hvetja landsmenn til að ferðast innan lands í sumar og styðja þannig við innlenda ferðaþjónustu. Meðal þess sem kemur til greina er að nota fjárhæðina til að gefa út stafræn gjafabréf til allra landsmanna 18 ára og eldri. Talið er að veruleg sóknarfæri séu á þessu sviði og bent er á að hlutfall Íslendinga í heildarfjölda gistinátta hérlendis hefur ekki verið mikið meira en 10% af heildinni.

Heimild til lántöku ríkissjóðs.
    Í frumvarpinu er óskað eftir að lánsfjárheimild ríkissjóðs verði hækkuð úr 45 milljörðum kr. í 140 milljarða kr. vegna aukinnar fjárþarfar ríkissjóðs í tengslum við aðgerðir sem miða að því að verja íslenskt efnahagslíf fyrir neikvæðum áhrifum af útbreiðslu kórónuveirunnar.
Nokkrir umsagnaraðilar hafa bent á að þessi 95 milljarða kr. hækkun kunni að vera vanmetin.
Í þessu sambandi má benda á að ríkissjóður átti þónokkurt handbært fé um síðastliðin áramót eða um 70 milljarða kr. innstæðu í Seðlabankanum auk 150 milljarða kr. á gjaldeyrisreikningum, sem er reyndar hluti af gjaldeyrisvaraforðanum.
    Einnig er bent á að ríkissjóður hefur ýmis tæki til að afla lánsfjár til skemmri tíma (t.d. með ríkisvíxlum og peningamarkaðslánum) sem henta vel til að stýra lausafjárstöðunni.
    Það er því mat meiri hlutans að ekki sé þörf á að hækka lánsfjárheimildina að svo stöddu. Meiri hlutinn mun þó fylgjast vel með stöðunni á næstu vikum og mánuðum og hugsanlega þarf að koma til endurskoðunar síðar á árinu.

Aukið hlutafé ríkisfyrirtækja.
    Gerð er tillaga um heimild um að auka hlutafé ríkisfyrirtækja í því skyni að efla fjárfestingargetu þeirra. Umfangið hefur ekki verið afmarkað en gert er ráð fyrir að það gæti numið allt að 8 milljörðum kr.
    Þau félög sem helst er horft til í þessu sambandi eru Isavia ohf. og Farice ehf., en bæði þessi félög eru 100% í eigu ríkisins. Í fjárfestingaráætlun Isavia fyrir árið 2020 er áætlað að fjárfesta fyrir 5,4 milljarða kr. og í flýtiframkvæmdum á vegum félagsins komu til viðbótar um 3,3 milljarðar kr. Við blasir að útbreiðsla kórónuveirunnar hefur haft mjög mikil áhrif á og Isavia og ljóst að félagið mun þurfa að endurskipuleggja rekstur sinn næstu mánuði. Því er útilokað að félagið muni geta staðið undir fyrrgreindu fjárfestingarstigi án stuðnings frá ríkinu.
    Hér er einnig hugað að því að Suðurnes hafa nú þegar orðið hart úti í atvinnulegu tilliti af völdum kórónuveirunnar og atvinnuleysi þar er meira en annars staðar á landinu. Í ljósi áherslna ríkisins um að viðhalda fjárfestingar- og atvinnustigi í landinu og til að tryggja að Isavia geti viðhaldið samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar eftir að fyrrgreindum veiruáhrifum lýkur er líklegt að ríkið muni þurfa og vilja auka hlutafé félagsins talsvert.
    Til skoðunar er að ríkið leggi nýjan gagnasæstreng til Evrópu og líklegast að Farice verði falið það verkefni. Heildarumfang þess gæti orðið um 5,8 milljarðar kr. árin 2020–2022. Einn af mögulegum valkostum er að fjármögnun þessa verkefnis verði í formi hlutafjáraukningar félagsins.

Heimild til að semja við Seðlabanka Íslands um fyrirgreiðslu af hálfu ríkissjóðs til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja.
    Gerð er tillaga um heimild til handa ráðherra að veita lánastofnunum ábyrgð ríkissjóðs sem nemi á bilinu 50–70% höfuðstóls viðbótarlána þeirra til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Jafnframt er honum heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um framkvæmd á veitingu ábyrgða gagnvart lánastofnunum.
    Að gerðum samningi milli ráðherra og Seðlabankans mun bankinn gera samninga við lánastofnanir þar sem umfang og skilyrði ábyrgða væru skilgreind nánar. Meiri hlutinn leggur til að heimilaður verði aukinn sveigjanleiki um hlutfall ábyrgða þannig að þær geti orðið á bilinu 50–70%. Heildarábyrgð ríkissjóðs vegna viðbótarlána gæti því numið á bilinu 35–50 milljörðum kr. og þar af leiðir að úrræði þetta nemur að hámarki um 70 milljörðum kr. Þar sem um er að ræða fyrirtæki í verulegum fjárhagsvanda má gera ráð fyrir því að tapsáhætta ríkissjóðs sé þónokkur.
    Í samningi ráðherra við Seðlabankann er nauðsynlegt að setja fram skilyrði með hvaða hætti bankinn ráðstafar því svigrúmi sem hann hefur til veitingar ábyrgða til einstakra lánastofnana. Tryggja þarf að fyrirgreiðsla lánastofnana byggist á skýrum, málefnalegum og gagnsæjum forsendum sem leiði til jafnræðis þeirra fyrirtækja sem leita eftir fyrirgreiðslu.
    Eigi að síður er í ljósi óvissunnar um stöðu fyrirtækja og umfang og eðli þess rekstrarvanda sem þau standa frammi fyrir nauðsynlegt að veita ákveðinn sveigjanleika við útfærslu þeirra skilyrða sem sett verða við veitingu ábyrgða vegna viðbótarlána þannig að fyrirgreiðslan nýtist þeim fyrirtækjum best sem mest þurfa á henni að halda. Meiri hlutinn metur það svo að afla þurfi nánari upplýsinga um stöðu fyrirtækja á næstu dögum og vikum.
    Í greinargerð með frumvarpinu koma fram skilyrði í 8 töluliðum og munu þau liggja til grundvallar við samningsgerðina. Skilyrðin snúa að því að skilgreina hve mikill tekjumissir gefur rétt til fyrirgreiðslunnar, hámark á lánveitingu í hlutfalli við veltu og launagjöld félaga, auk starfsmannafjölda. Þá yrði ábyrgðin tímabundin til 18 mánaða.
    Til viðbótar þeim skilyrðum sem nefnd eru í greinargerðinni tekur meiri hlutinn undir breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, 683. mál, að ráðherra skipi nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis. Nefndarmenn skulu hafa þekkingu á málefnum fjármálamarkaðar. Forsætisráðherra tilnefnir einn nefndarmann, samstarfsnefnd háskólastigsins einn og skal einn skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Sú nefnd getur kallað eftir upplýsingum og gögnum um framkvæmd samnings bæði frá Seðlabankanum og hlutaðeigandi lánastofnunum. Nefndin skal skila ráðherra skýrslu um framkvæmdina á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn fyrir 1. nóvember 2020, en jafnframt skal hún upplýsa ráðherra án tafar ef hún verður vör við brotalamir í framkvæmdinni. Ráðherra skal leggja skýrslur nefndarinnar fyrir Alþingi.
    Að auki leggur meiri hlutinn til að sett verði skilyrði um að fyrirtækjum með viðbótarlán með ríkisábyrgð sé ekki heimilt að greiða eigendum sínum arð né að kaupa eigin hlutabréf meðan lánin eru útistandandi. Er sú tillaga einnig í samræmi við breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar á fyrrgreindu frumvarpi.
    Þá telur meiri hlutinn að til greina komi að setja fjárhæðarmörk á einstakar lánveitingar og að skylda viðkomandi lánastofnanir til að greiða ekki arð til hluthafa sinna meðan þetta úrræði er til staðar.
    Mögulegt er að hlutfall ábyrgða geti orðið breytilegt eftir atvinnugreinum og stærð fyrirtækja þannig að mestur stuðningur verði við minni fyrirtæki sem orðið hafa fyrir mestu tekjutapi. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þau skilyrði sem fram koma í greinargerðinni liggi til grundvallar og verði útfærð nánar í samningi fjármála- og efnahagsráðherra og Seðlabankans og að þau verði lögð fyrir nefndina til umfjöllunar áður en samningurinn verði undirritaður.

Aðgerðir Seðlabankans í kjölfar faraldursins.
    Að undanförnu hefur Seðlabankinn gripið til margvíslegra aðgerða til þess að vega á móti samdrættinum í efnahagslífinu og auka útlánagetu lánastofnana. Seðlabankar víðs vegar á Vesturlöndum eru að grípa til áþekkra aðgerða. Mestu munar um að:
    –        Meginvextir Seðlabankans hafa verið lækkaðir um samtals eitt prósentustig eða úr 2,75% í 1,75%.
    –        Bindiskyldu innlánsstofnana, sem var 1%, hefur verið aflétt. Við þetta eykst laust fé í innlánsstofnunum um 20 milljarða kr.
    –        Kröfu um 2% sveiflujöfnunarauka var aflétt og áætlað er að það geti losað allt að 350 milljarða kr. í fjármálakerfinu. Krafa er gerð um að þær fjármálastofnanir sem nýta sér lækkun á sveiflujöfnunarauka greiði sér ekki arð á því tímabili sem lækkunin gildir (gildir til fyrsta ársfjórðungs 2022).
    –        Seðlabankinn hefur nú fengið heimild til að kaupa ríkisskuldabréf að andvirði allt að 150 milljörðum kr.
    Þessar aðgerðir hafa allar það meginmarkmið að auka útlánagetu lánastofnana, jafnframt því sem útlánavextir yrðu í sögulegu lágmarki í því skyni að draga úr tímabundinni niðursveiflu í atvinnulífinu og er það sama markmið og ætlunin er að ná með frumvarpinu.

Félagslegar breytingartillögur.
    Meiri hlutinn gerir nokkrar breytingartillögur sem miða að því að styðja við þau heimili í landinu sem lakast standa. Tillögurnar koma þannig til viðbótar við barnabótaaukann sem er að finna í frumvarpinu sjálfu og eru þríþættar.
    Í fyrsta lagi er lögð til einskiptisgreiðsla til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem nemi 20.000 kr. á mann og skal hún vera skatta- og skerðingarlaus. Tillagan er efnislega samhljóða breytingu sem efnahags- og viðskiptanefnd leggur til í þingmáli nr. 683 sem kveður á um skattleysi eingreiðslunnar. Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs nemi um 400 millj. kr. vegna þessa.
    Í öðru lagi er um að ræða 100 millj. kr. sem ætlað er að styrkja úrræði vegna heimilislausra með fjölþættan vanda. Lagt er til að félagsmálaráðuneytið fari í samstarf við Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ um eflingu á þjónustu við þennan hóp.
    Í þriðja lagi er um að ræða 40 millj. kr. framlag til að vinna gegn kvíða og einmanaleika. Sérstakt álag er nú á samtökum sem sinna þjónustu og ráðgjöf á þessu sviði. Lagt er til að fjárhæðin verði veitt til félagsmálaráðuneytisins sem nýti þessa fjármuni til að styrkja frjáls félagasamtök sem sinna mikilvægri þjónustu og ráðgjöf vegna faraldurs kórónuveiru.

Tillaga til þingsályktunar um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.
    Í þingsályktunartillögunni ályktar Alþingi að fela fjármála- og efnahagsráðherra framkvæmd tiltekinna ráðstafana á grundvelli heimilda í fjáraukalögum fyrir árið 2020 um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Þær felast í því að 15.000 millj. kr. fjárheimild til átaksins verði skipt á verkefnaflokka.
    Meiri hlutinn hefur ákveðið að leggja til við Alþingi að framlagið verði aukið um 2.936 millj. kr. þannig að það nemi alls 17.936 millj. kr. Í eftirfarandi töflu kemur skipting þess fram á verkefnategundir.

Tegund verkefna Frumvarp (m.kr.) Breyting Ný staða Vægi
(%)
Viðhald og endurbætur fasteigna 2.008 510 2.518 14%
Nýbyggingar og meiri háttar endurbætur 700 480 1.180 7%
Samgöngumannvirki 6.210 296 6.506 36%
Orkuskipti, grænar lausnir og umhverfismál 1.365 100 1.465 8%
Önnur innviðaverkefni 1.617 300 1.917 11%
Rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar 1.750 1.250 3.000 17%
Stafrænt Ísland og upplýsingatækniverkefni 1.350 1.350 8%
Samtals 15.000 2.936 17.936 100%
                        
    Í þingsályktunartillögunni eru fjárveitingar sem fram koma í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2020 sundurliðaðar nánar eftir fjárfestingarverkefnum. Almennt getur ríkissjóður aukið fjárfestingar sínar til að ná tveimur efnahagslegum markmiðum:
     1.      Að styðja við eftirspurn með áherslu á framkvæmdir sem nýta í sem mestum mæli innlenda framleiðsluþætti.
     2.      Að stuðla að aukinni framleiðni með áherslu á efnahagslega arðbær verkefni.
    Átakinu er ætlað að stuðla að arðbærum fjárfestingum sem auki eftirspurn eftir vinnuafli og framleiðslugetu hagkerfisins. Auk framkvæmda sem fjármagnaðar eru beint af ríkinu kann flýting fjárfestinga hlutafélaga í eigu ríkisins að kalla á aukna innborgun á hlutafé frá ríkinu og er því í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimild til hlutafjáraukningar, svo sem sveitarfélaga, sem nýta tilfærsluna til fjárfestingar.
    Við val á fjárfestingarverkefnum vegna ársins 2020 var sérstök áhersla lögð á mannaflsfrek verkefni sem hægt væri að ráðast í á líðandi ári í fyrsta áfanga átaksins.
    Fyrrgreindur 17,9 milljarða kr. rammi til fjárfestingarverkefna kemur til viðbótar við um 74 milljarða kr. framlög til fjárfestinga sem gert er ráð fyrir í gildandi fjárlögum fyrir árið 2020 og verða því um 91,9 milljarðar kr. til ráðstöfunar.
    Meiri hlutinn áréttar að lokum að ljóst er að aðgerðum stjórnvalda lýkur ekki með samþykkt þessa frumvarps og þeirrar þingsályktunartillögu sem á því byggist. Samþykkt málanna, með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til, er hins vegar stórt skref í rétta átt og mun skipta sköpum við að takmarka þann óhjákvæmilega skaða sem verður vegna áhrifa heimsfaraldursins.

Breytingartillögur meiri hlutans við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020.
Málaflokkur 23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um 350 millj. kr. framlag til að koma til móts við þann mikla viðbótarkostnað sem skapast hefur í heilbrigðiskerfinu og sérstaklega á sérhæfðu sjúkrahúsunum vegna COVID-19-heimsfaraldursins. Miðað er við að 250 millj. kr. gangi til Landspítalans og 100 millj. kr. til Sjúkrahússins á Akureyri. Meiri hlutinn er vel upplýstur um að hér er aðeins um að ræða brot af heildarkostnaðinum og stefnir að því að hann verði að fullu gerður upp í öðrum fjáraukalögum. Stjórnvöld munu taka saman heildaryfirlit um öll ríkisútgjöld sem tengjast faraldrinum og fjárveitingar koma til á fleiri málefnasvið og málefnaflokka.

Málefnaflokkur 24.10 Heilsugæsla.
    Gerð er tillaga um 250 millj. kr. framlag til að koma til móts við þann mikla viðbótarkostnað sem skapast hefur hjá heilsugæslustöðvum vegna COVID-19-heimsfaraldursins. Gert er ráð fyrir að 200 millj. kr. renni til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og 50 millj. kr. til Læknavaktarinnar.

Málaflokkur 27.40 Aðrar örorkugreiðslur (Önnur velferðarmál, lífeyristryggingar).
    Gerð er tillaga um 400 millj. kr. einskiptisframlag til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Greiðslan nemur 20 þús. kr. á mann.
    Samhliða þessari tillögu verður lögð fram breytingartillaga við frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru (683. mál) til að tryggja að þessi viðbótargreiðsla verði skattfrjáls og hafi ekki áhrif á aðrar greiðslur til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, svo sem húsnæðisbætur og sérstakan húsnæðisstuðning. Markmiðið er að aðrar greiðslur haldist óskertar þrátt fyrir þessa uppbót.

Málaflokkur 29.40 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn.
    Gerð er tillaga um 140 millj. kr. framlag til að styrkja ýmis úrræði í tengslum við geðheilbrigðismál og málefni heimilislausra.
    Um er að ræða 100 millj. kr. framlag til að styrkja úrræði vegna heimilislausra með fjölþættan vanda. Lagt er til að félagsmálaráðuneytið fari í samstarf við sveitarfélög, einkum Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ, um eflingu á þjónustu við þennan hóp.
    Einnig er gerð tillaga um 40 millj. kr. framlag til að vinna gegn kvíða og einmanaleika. Sérstakt álag er nú á samtökum sem sinna þjónustu og ráðgjöf er þetta varðar. Lagt er til að fjárhæðin verði veitt til félagsmálaráðuneytisins sem nýti þessa fjármuni til að styrkja frjáls félagasamtök sem sinna mikilvægri þjónustu og ráðgjöf vegna faraldurs kórónuveiru.

Málaflokkur 32.10 Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit.
    Gerð er tillaga um samtals 400 millj. kr. framlag sem ætlað er að fjármagna veiruskimunarpróf fyrir 100 millj. kr. og hlífðarbúnað fyrir 300 millj. kr. vegna COVID-19-sjúkdómsins.

Málaflokkur 34.20 Sérstakar fjárráðstafanir.
    Gerð er tillaga um 2.936 millj. kr. framlag til að bæta við fjárheimild til sérstaks tímabundins fjárfestingarátaks til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Þar munar mest um 1.250 millj. kr. sem ætlað er að styrkja enn frekar rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar með því að auka úthlutunarfé nokkurra sjóða, svo sem Rannsóknasjóðs, Tækniþróunarsjóðs og Innviðasjóðs, og hækka framlög til menningar, lista og íþrótta og annarra sjóða. Næst mest munar um 510 millj. kr. til viðhalds og endurbóta fasteigna. Gerð er tillaga um 480 millj. kr. vegna nýbygginga og stofnkostnaðar endurbóta á húsnæði og 300 millj. kr. í önnur innviðaverkefni þar sem mest munar um 200 millj. kr. framlag til sóknaráætlana landshluta.
    Önnur framlög vega minna en öll sundurliðun tillagna kemur fram í breytingartillögu við þingsályktunartillöguna, en hún breytist til samræmis við þessa tillögu.

Liður 7.32 í 4. gr. frumvarpsins orðist svo:
    Að veita lánastofnunum ábyrgð ríkissjóðs sem nemi 50–70% höfuðstóls viðbótarlána þeirra til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Jafnframt er honum heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um framkvæmd á veitingu ábyrgða gagnvart lánastofnunum. Skulu lánastofnanir við lánveitingarnar uppfylla nánari skilyrði sem fram skulu koma í samningi við Seðlabankann. Í samningnum skulu tilgreind þau hlutlægu skilyrði sem lögð verða til grundvallar ákvörðunum um skiptingu ábyrgða milli lánastofnana, ásamt nánari skilyrðum um hvernig tryggja megi að fyrirgreiðsla lánastofnana byggist á skýrum, málefnalegum og gagnsæjum forsendum sem leiði til jafnræðis þeirra fyrirtækja sem leita eftir fyrirgreiðslu og hvernig reglubundinni skýrslugjöf skuli háttað. Heildarábyrgð ríkissjóðs vegna viðbótarlána getur numið á bilinu 35–50 milljörðum kr.

Breytingartillögur meiri hlutans við tillögu til þingsályktunar um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.
Viðhald og endurbætur fasteigna.
    Landspítalinn hefur lagt í kostnaðarsamar breytingar á húsnæði til að vera betur í stakk búinn til að takast á við COVID-19-sjúkdóminn. Unnið hefur verið að endurbyggingu á gangi við bráðavaktina í Fossvogi sem hefur verið útbúinn fyrir COVID-19-sjúklinga. Til að fjármagna þennan kostnað er lagt til að veitt verði 390 millj. kr. framlag. Þá er lagt til að Sjúkrahúsið á Akureyri fái 120 millj. kr. til breytinga á húsnæði.

Nýbyggingar og meiri háttar endurbætur.
    Gamla ríkið á Seyðisfirði var byggt árið 1917 og hefur ÁTVR verið með verslun í húsinu að Hafnargötu 11 síðan árið 1960. Lagt er til að veittar verði 100 millj. kr. til endurbyggingar hússins.
    Gert er ráð fyrir að Sjúkrahúsið á Akureyri fái 80 millj. kr. til fullnaðarhönnunar á nýrri legudeildarálmu en þarfagreiningu er lokið. Lagt er til að Heilbrigðisstofnun Norðurlands eystra fái 100 millj. kr. Búið er að vinna þarfagreiningu fyrir tvær heilsugæslustöðvar á Akureyri. Í framhaldi af því er að hægt að hefja hönnunarvinnu.
    Gert er ráð fyrir 200 millj. kr. framlagi til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að bæta aðkomu sjúkrabifreiða að húsnæði stofnunarinnar.

Samgöngumannvirki.
    Meiri hlutinn leggur til að veitt verði 126 millj. kr. framlag til Þórshafnarflugvallar. Ástand flugvallarins er ekki nógu gott og því er gerð tillaga um að lagt verði nýtt slitlag á flugbrautina, akbraut og flughlað.
    Lagt er til að veitt verði 80 millj. kr. framlag til að malbika bílastæði við Ísafjarðarflugvöll. Þá er lagt til að veitt verði 90 millj. kr. óskipt framlag til brýnustu viðhaldsverkefna annarra flugvalla.
    Á undanförnum árum hefur lendingarstöðum flugvéla fækkað og takmörkuðu viðhaldi verið sinnt. Vegna slæms viðhalds lendingarstaða víða um landið er komin upp sú staða að þeim þarf að loka vegna þess að þeir teljast ekki lengur öruggir til notkunar. Þessir staðir geta skipt miklu máli þegar litið er til viðbúnaðarþjónustu og hafa þeir einnig verið notaðir fyrir sjúkraflutninga. Því er mikilvægt að leggja í nauðsynlegt viðhald á minni flugvöllum og lendingarstöðum.

Orkuskipti og grænar lausnir.
    Markmið verkefnisins „Verkefni um nýtingu orku og þróun á eldsneyti til samgangna“ er að hraða innviðauppbyggingu til að stuðla að orkuskiptum meðal annars í samgöngum á landi og í haftengdri starfsemi. Sérstaklega verður horft til bílaleiga og þungaflutninga á landi og rafvæðingar hafna. Einnig verði aukið við átak til bindingar kolefnis með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. 50 millj. kr. eru veittar til verkefnisins.
    Mikilvægt er að geta varið fjármagni í orkuskiptaverkefni sem tilbúin eru til framkvæmdar á árinu 2020 í fleiri þáttum en þeim sem snúa að samgöngum á landi og haftengdri starfsemi. Meiri hlutinn leggur til að verkefnið sé útvíkkað þannig að hluti fjármagnsins nýtist til almennra orkuskipta, þó svo að skýrt sé að megináhersla sé áfram á samgöngur á landi og haftengda starfsemi.
    Með 50 millj. kr. framlagi til Loftslagssjóðs er umhverfis- og auðlindaráðherra veitt heimild til að efla nýsköpun í loftslagsmálum. Fjármagnið mun nýtast fyrir nýsköpunarverkefni sem ýmist geta varðað tækninýjungar eða nýjar aðferðir við að ná samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða bindingu þeirra úr andrúmslofti. Aukið fjármagn til sjóðsins á þessu ári nýtist til úthlutunar vorið 2020.

Önnur innviðaverkefni.
    Markmið sóknaráætlana er að færa heimamönnum aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna og tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun. Sóknaráætlanir fjármagna úthlutun uppbyggingarsjóðanna sem styrkja annars vegar menningarstarfsemi og hins vegar atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni á landsbyggðinni. Sjóðirnir eru samkeppnissjóðir sem íbúar og fyrirtæki á starfssvæðum atvinnuþróunarfélaganna geta sótt fjármagn í. Með aukinni fjárveitingu er hægt að veita meira fjármagn til verkefna á landsbyggðinni. Gerð er tillaga um 200 millj. kr. framlag til þessa.
    Verkefnið Brothættar byggðir er ein af aðgerðum byggðaáætlunar og er sértækt verkfæri Byggðastofnunar til að aðstoða byggðarlög sem standa höllum fæti. Verkefninu er ætlað viðkomandi byggðarlögum til að nýta sóknarfæri, einkum þau sem byggjast á sérstöðu þeirra. Hvert þátttökubyggðarlag fær tiltekna upphæð árlega til að styðja frumkvæðisverkefni íbúa. Frumkvæðisverkefnin eru yfirleitt atvinnuskapandi fyrir byggðarlögin og hafa mörg slík verkefni skilað atvinnu og tekjum til viðkomandi byggðarlags. Frumkvæðissjóður „Brothættra byggða“ hefur veitt styrki á bilinu 5–7 millj. kr. til hvers þátttökubyggðarlags og hefur það fjármagn dugað til að koma litlum sprotum á legg. Með aukinni fjárveitingu er hægt að styðja við stærri frumkvæðisverkefni íbúa sem skapa atvinnu í byggðarlögunum og hér er gerð tillaga um 100 millj. kr. framlag.

Rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar.
    Meiri hlutinn leggur til samtals 600 millj. kr. hækkun til Rannsóknasjóðs, Innviðasjóðs og Tækniþróunarsjóðs. Það bætist við 800 millj. kr. hækkun sem fyrir var í þingsályktunartillögunni. Þar með nemur hækkun frá fjárlögum ársins tæpum 30% eða 1.400 millj. kr.
    Nýsköpunarsjóður námsmanna er fjármagnaður með framlögum frá ríki og Reykjavíkurborg. Markmið hans er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarverkefni. Til að styrkja sjóðinn er lagt til að honum verði veitt 100 millj. kr. framlag.
    Nefndin ræddi um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og áskorun um að hækka þau framlög. Unnið er að endurskoðun á fyrirkomulagi endurgreiðslu kostnaðar. Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hefur hægt verulega á verkefnum á þessu sviði og óljóst er um fjárþörf til þess og hvernig aukin framlög mundu á þessu stigi styðja við fjölgun starfa. Meiri hlutinn leggur til að endurskoðun á fyrirkomulagi endurgreiðslu verði hraðað og ýmsar ábendingar úr skýrslu Ríkisendurskoðunar rýndar. Þegar að afstöðnum heimsfaraldri mun meiri hlutinn skora á framkvæmdarvaldið að hækka tímabundið framlög um allt að 35% til að byggja að nýju undir þennan iðnað.
    Meiri hlutinn leggur til hækkun framlaga til grænmetisframleiðslu um 200 millj. kr. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er að ljúka endurskoðun samnings um starfsskilyrði grænmetisframleiðslu á grunni tillagna samráðshóps um búvörusamninga. Þar er eindregið lagt til að efla starfsskilyrði grænmetisframleiðslu til að auka fjölbreytni og efla framleiðslu garðyrkjuafurða, bæði útiræktaðs grænmetis og framleiðslu í gróðurhúsum. Endurskoðun samningsins er mikilvægt innlegg til að fjölga störfum og efla samkeppnishæfni garðyrkju á Íslandi og þannig treysta fæðuöryggi til lengri tíma.
    Framlög til Húsafriðunarsjóðs að fjárhæð 100 millj. kr. eru ætluð til að auka getu sjóðsins við að stuðla að endurnýjun gamalla bygginga sem teljast til menningararfs þjóðarinnar.
    Gerð er tillaga um 250 millj. kr. framlag sem bætist við þær 750 millj. kr. sem fyrir eru í þingsályktunartillögunni og flokkast undir átaksverkefni í menningu, íþróttum og listum með styrkveitingum til menningar- og listaverkefna fyrir almenning.

Stafrænt Ísland og upplýsingatækniverkefni.
    Meiri hlutinn leggur ekki til breytingar á þessum lið.

    Birgir Þórarinsson skrifar undir álitið með fyrirvara sem hann mun gera grein fyrir í ræðu.
    Inga Sæland skrifar undir nefndarálitið með þeim fyrirvara að þegar er viðurkennt að aðgerðum stjórnvalda lýkur ekki með þessum þingmálum. Samþykkt þeirra, með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til, er hins vegar fyrsta skrefið í rétta átt og mun koma að miklu gagni við að takmarka þann óhjákvæmilega skaða sem verður vegna áhrifa heimsfaraldursins er veldur COVID-19-sjúkdómnum. Þó hefði Inga Sæland viljað sjá miklu öflugri stuðning við fátækt fólk og fjölskyldur strax, því að það eru grundvallarmannréttindi að ríkisvaldið uppfylli grunnþarfir borgaranna, þ.e. um fæði, klæði, húsnæði og hvers konar nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að málin verði samþykkt með breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 28. mars 2020.

Willum Þór Þórsson,
form., frsm.
Njáll Trausti Friðbertsson. Páll Magnússon.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Haraldur Benediktsson. Birgir Þórarinsson,
með fyrirvara.
Inga Sæland,
með fyrirvara.