Ferill 714. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 1222  —  714. mál.

Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar og matvæla vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.



I. KAFLI
Breyting á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „leyfi ráðherra samkvæmt ákvæðum sem ráðherra setur í reglugerð að fenginni umsögn“ í 2. mgr. kemur: til þess leyfi.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra setur nánari fyrirmæli í reglugerð.
     c.      Fyrri málsl. 3. mgr. fellur brott.
     d.      Í stað orðanna „Heimilt er“ í 6. mgr. kemur: Matvælastofnun er heimilt; og orðin „ef Matvælastofnun mælir með því“ í sömu málsgrein falla brott.

2. gr.

    3. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Vaktsvæði dýralækna skulu afmörkuð í reglugerð sem ráðherra setur.

II. KAFLI
Breyting á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, með síðari breytingum.
3. gr.

    Við 1. málsl. 8. gr. laganna bætist: og annarra áður óþekktra sjúkdóma.

III. KAFLI
Breyting á búvörulögum nr. 99/1993, með síðari breytingum.
4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. mgr. 7. gr. laganna:
     a.      1. málsl. orðast svo: Verðlagsnefnd skal skipuð til fjögurra ára í senn.
     b.      Lokamálsliður fellur brott.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, með síðari breytingum.
5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „vörum sem lög þessi taka til“ í fyrri málsl. 1. mgr. kemur: áburði, sáðvörum, lyfjablönduðu fóðri, fóðuraukefnum og forblöndun þeirra og fóðri sem flutt er inn frá ríkjum utan EES-svæðisins.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Framleiðendum og innflytjendum er skylt að tilkynna til Matvælastofnunar heildarmagn innflutts og framleidds fóðurs á undangengnu ári fyrir 1. febrúar hvers árs. Nánar skal kveðið á um tilkynningar til Matvælastofnunar í reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli 7. gr.
     c.      2. mgr., sem verður 3. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra ákveður með reglugerð hvaða upplýsingar skulu fylgja vörum sem lög þessi ná yfir og kröfur um merkingar og lýsingu á notkun einstakra vöruflokka.

V. KAFLI
Breyting á lögum um matvæli nr. 93/1995, með síðari breytingum.
6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Á eftir 4. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Frumframleiðsla matvælafyrirtækja sem starfrækja fiskeldisstöðvar og eru með gilt rekstrarleyfi samkvæmt lögum um fiskeldi þarfnast ekki starfsleyfis eða tilkynningar til Matvælastofnunar áður en frumframleiðsla hefst.
     b.      Orðin „til tiltekins tíma“ í 1. málsl. 2. mgr.; og orðin „áður en gildistími þess er liðinn“ í lokamálslið sömu málsgreinar falla brott.
     c.      Orðið „gildistíma“ í 4. mgr. fellur brott.
     d.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 5. mgr. kemur: Matvælastofnun.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. mgr. 25. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Matvælastofnunar“ í 2. málsl. kemur: stofnunarinnar.
     b.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 2. og 3. málsl. kemur: Matvælastofnun.
     c.      Í stað orðsins „honum“ í 4. málsl. kemur: ráðherra.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013, með síðari breytingum.
8. gr.

    Orðin „og skulu þær staðfestar af ráðherra“ í síðari málsl. 4. mgr. 7. gr. laganna falla brott.

9. gr.

    4. málsl. 2. mgr. 21. gr. laganna fellur brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986, með síðari breytingum.
10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „viðkomandi umdæmi“ í fyrri málsl. 1. mgr. kemur: að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Fjallskilasamþykkt öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum nema hún hafi að geyma sérstök ákvæði um gildistöku.

11. gr.

    Í stað orðanna „Lömb skulu“ í 3. málsl. 1. mgr. 63. gr. laganna kemur: Heimilt er að eyrnamarka lömb og skal þá miðað við að þau séu.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 66. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „Bændasamtökum Íslands“ í fyrri málslið kemur: eða öðrum aðila.
     b.      Orðin „af starfi Bændasamtaka Íslands“ í síðari málslið falla brott.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „sauðfjársjúkdómanefnd“ í 2. mgr. kemur: Matvælastofnun.
     b.      Í stað orðanna „eða markaverðir verða ekki sammála um úrlausn máls, skal vísa málinu til úrskurðar hjá markanefnd“ í lokamálsl. a-liðar 4. mgr. kemur: skulu markaverðir skera úr ágreiningi.
     c.      Í stað orðanna „umboðsmaður hans eða markavörður sama umdæmis, skotið málinu til úrskurðar markanefndar“ í 1. málsl. b-liðar 4. mgr. kemur: skotið málinu undir úrskurð markavarðar.
     d.      Í stað orðsins „nefndin“ í lokamálsl. b-liðar 4. mgr. kemur: markavörður.
     e.      Í stað orðsins „markanefndar“ í c-lið 4. mgr. kemur: markavarðar.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 69. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „heimilt að skjóta til markanefndar innan 45 daga frá því að ákvörðun var sannanlega tilkynnt hlutaðeiganda“ í fyrri málslið kemur: ekki unnt að bera undir úrskurð ráðherra.
     b.      Síðari málsliður fellur niður.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum.
15. gr.

Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: Matvælastofnun.

VII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 58/2000, um yrkisrétt, með síðari breytingum.
16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „yrkisréttarnefndar“ í síðari málsl. og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, í viðeigandi beygingarmynd, kemur: Matvælastofnunar.
     b.      Tilvísunin „sbr. 22. gr.“ í síðari málslið fellur brott.
     c.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Matvælastofnun skal hafa aðgang að þekkingu á hugverkarétti og ræktun og kynbótum nytjaplantna.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna.
     a.      Í stað orðsins „nefndin“ í síðari málsl. 5. mgr. og hvarvetna annars staðar í lögunum, í viðeigandi beygingarmynd og með eða án greinis, kemur: stofnunin.

18. gr.

    22. og 23. gr. laganna falla brott.

VIII. KAFLI
Gildistaka og brottfallin lög.
19. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Frá sama tíma falla úr gildi eftirfarandi lög:
     1.      Lög um breyting nokkurra laga, sem varða sölu og meðferð íslenskra afurða, nr. 79/1935.
     2.      Lög um gelding húsdýra, nr. 123/1935.
     3.      Lög um búfjártryggingar, nr. 20/1943.
     4.      Lög um að tryggja manneldisgildi hveitis, nr. 30/1947.
     5.      Lög um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, nr. 15/1962.
     6.      Lög um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, nr. 31/1969.
     7.      Lög um greiðslu verðjöfnunargjalds af sauðfjárafurðum, nr. 105/1978.
     8.      Lög um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, nr. 33/1979.
     9.      Lög um skuldbreytingar vegna loðdýraræktar, nr. 112/1989.
     10.      Lög um sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í ein heildarsamtök bænda, nr. 130/1994.
     11.      Lög um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða, nr. 27/1995.
    Lög um flokkun og mat á gærum og ull, nr. 57/1990, falla úr gildi 1. nóvember 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarpið var samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að höfðu samráði við Matvælastofnun og Umhverfisstofnun.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum í því skyni að einfalda regluverk á sviði landbúnaðar og matvæla. Í frumvarpinu er lagt til að felldir verði brott 12 lagabálkar í heild sinni. Um er að ræða lög sem eru úrelt eða hafa þjónað tilgangi sínum og rétt er að fella brott en æskilegt er að lög sem ekki eru til neinna þarfa verði felld brott úr Lagasafninu. Það þykir til einföldunar auk þess sem það er til þess fallið að efla réttarvissu. Með frumvarpinu er lagt til að nefndum verði fækkað í því skyni að einfalda stjórnsýslu og auka skilvirkni. Þá er lagt til að fellt verði brott lögbundið flokkunar- og matskerfi og það verði í höndum framleiðenda að tryggja gæði framleiðslu sinnar.
    Lagt er til að milliganga ráðuneytisins verði afnumin í tilteknum tilvikum í því skyni að stytta boðleiðir þar sem framangreind milliganga þykir til þess fallin að flækja stjórnsýsluna. Auk þess er lagt til að stjórnsýsla við merkingar sauðfjár verði einfölduð t.d. með afnámi markanefndar. Með frumvarpinu er einnig lagt til að yrkisréttarnefnd verði felld brott og verkefnum nefndarinnar fundinn viðeigandi staður innan stjórnsýslunnar.
    Jafnframt er lagt til að starfsleyfisskylda, skráningar- og tilkynningarskylda fyrirtækja falli niður í ákveðnum tilfellum. Breytingarnar miða að því að létta álögum af atvinnulífinu án þess að það sé á kostnað matvælaöryggis. Þá er lagt til að skipunartími verðlagsnefndar sé lengdur úr einu ári í fjögur ár í því skyni að gera störf nefndarinnar markvissari og skilvirkari í stað þess að endurskipa þurfi nefndina árlega.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í sáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og áhersla lögð á skilvirka og réttláta stjórnsýslu. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fundaði með nefnd forsætisráðherra um opinberar eftirlitsreglur vorið 2018. Á fundinum kynnti formaður nefndarinnar meðal annars gagnagrunn frá fulltrúum atvinnulífsins í nefndinni, þar sem er að finna ábendingar atvinnulífsins varðandi reglubyrði gildandi laga.
    Í minnisblaði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til ríkisstjórnar 1. júní 2018 kemur fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi ákveðið að taka ábendingar og tillögur er lúta að málefnasviðum þess til skoðunar og taka afstöðu til þeirra. Jafnframt yrði leitast við að efla rafræna stjórnsýslu í samræmi við markmið sem ríkisstjórnin samþykkti 24. maí 2018. Ráðuneytið sendi í kjölfarið bréf til stofnana og stjórnvalda sem sinna verkefnum á málefnasviðum ráðuneytisins til að kanna möguleika á einföldun og aukinni skilvirkni á verklagi og regluverki þeirra málaflokka. Óskað var eftir athugasemdum hvort heldur er varðar lagasetningu eða reglugerðarbreytingar, verkferla og verklag, rafrænar lausnir og rafrænar gáttir, sem til einföldunar og bóta gæti talist að mati viðkomandi stofnana og stjórnvalda.
    Hinn 15. mars 2019 héldu ráðherrar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fund með forstöðumönnum stofnana sem heyra undir ráðuneytið þar sem heildarendurskoðun á eftirlitsreglum ráðuneytisins var kynnt. Í kjölfarið sendi ráðuneytið bréf til stofnananna þar sem fram kemur að í upphafi myndi einföldun afgreiðsluferla vegna leyfisveitinga og bætt þjónusta við leyfisumsækjendur hafa forgang. Hinn 18. júní 2019 skipuðu ráðherrar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins stýrihóp um endurmat eftirlitsreglna sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins. Í stýrihópnum eiga sæti fulltrúar allra stofnana ráðuneytisins, þ.e. fulltrúar Matvælastofnunar, Ferðamálastofu, Fiskistofu, Neytendastofu, Orkustofnunar og Samkeppniseftirlitsins.
    Verkefni stýrihópsins eru eftirfarandi:
     1.      Afmarka og uppfæra tæmandi skrá yfir eftirlitsreglur ráðuneytisins.
     2.      Fylgja eftir staðfestum verk- og tímaáætlunum stofnana.
     3.      Vera vettvangur, skoðanaskipta, upplýsingamiðlunar og samráðs við hagsmunaaðila.
     4.      Vera samstarfsvettvangur á milli stofnana við tillögugerð og innleiðingu rafrænna lausna.
     5.      Taka við og stuðla að samþættingu matsgerða frá stofnunum áður en þær eru lagðar fyrir ráðherrana.
     6.      Taka saman mánaðarlegt yfirlit yfir framgang verkefnisins.
    Stýrihópurinn hóf störf í kjölfarið og hefur fundað í fjölmörg skipti. Stýrihópurinn hefur tekið saman skrá yfir eftirlitsreglur ráðuneytisins sem er forsenda markvissrar endurskoðunar á gildandi regluverki. Í því skyni að auka og efla þjónustu við almenning og fyrirtæki með rafrænum lausnum hefur stýrihópurinn unnið með verkefnastofu um stafrænt Ísland. Fulltrúar stýrihópsins hafa skilað ráðherrum verk- og tímaáætlunum en hefur auk þess verið falið að útbúa matsskýrslu þar sem hver eftirlitsregla verði metin og stofnanir um tækifæri til hagræðingar eða einföldun regluverks. Fyrirhugað er að matsskýrslum verði skilað til ráðherra atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í apríl 2020.
    Undanfarna mánuði hafa í ráðuneytinu verið að störfum tvö teymi um einföldun regluverks, þ.e. eitt teymi varðandi málefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og annað teymi varðandi málefni ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Teymunum hafa verið falin þau verkefni að rýna regluverk á framangreindum málefnasviðum með einföldun að leiðarljósi auk þess að annast samskipti við stofnanir ráðuneytisins og hagsmunaaðila. Á grunni framangreinds hafa áðurnefnd einföldunarverkefni á vegum ráðuneytisins verið dregin saman og unnin aðgerðaráætlun til næstu þriggja ára. Aðgerðaáætlun um einföldun regluverks á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er skipt í eftirfarandi þrjá áfanga:
     *      Í fyrsta áfanga er bandormur um breytingu á ýmsum lögum um matvæli, sem mælt var fyrir á Alþingi 4. nóvember 2019 og varð að lögum 17. desember 2019 (lög nr. 144/2019). Lögin snúa meðal annars að einföldun regluverks. Með þeim voru tveir lagabálkar felldir brott og regluverk um matvælakeðjuna einfaldað. Í fyrsta áfanga fólst einnig afnám 1.242 reglugerða á sviði landbúnaðar, matvæla, sjávarútvegs og fiskeldis.
     *      Í öðrum áfanga eru atriði sem vinna er þegar hafin við og gert er ráð fyrir að ljúki árið 2020. Má þar annars vegar nefna það frumvarp til breytinga á ýmsum lögum sem hér er ræðir og hins vegar breytingar á reglugerðum í því skyni að einfalda regluverkið.
     *      Í þriðja áfanga er innleiðing tillagna til einföldunar frá stýrihópi um endurmat eftirlitsreglna ráðuneytisins, sbr. framangreint. Gert er ráð fyrir að þriðja áfanga verði lokið eigi síðar en um mitt ár 2021.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins er að:
     1.      Fella brott 12 lög í heild.
     2.      Afnema milligöngu ráðuneytisins og staðfestingar ráðherra með það að leiðarljósi að gera stjórnsýslu skilvirkari.
     3.      Einfalda stjórnsýslu við merkingar sauðfjár.
     4.      Fella brott lögbundið kerfi um flokkun og mat á gærum og ull.
     5.      Fella brott markanefnd, yrkisréttarnefnd, ullarmatsnefnd og gærumatsnefnd.
     6.      Lengja skipunartíma verðlagsnefndar í því skyni að gera störf nefndarinnar markvissari og spara tíma við umsýslu vegna tilnefninga og skipunar nefndarinnar.
     7.      Fella brott starfsleyfisskyldu matvælafyrirtækja sem starfrækja fiskeldisstöðvar og eru með gilt rekstrarleyfi, samkvæmt lögum um fiskeldi, vegna frumframleiðslu.
     8.      Fella brott tilkynningarskyldu innflytjenda og framleiðenda fóðurs innan EES-svæðisins, að undanskildu lyfjablönduðu fóðri, fóðuraukaefnum og forblöndum þeirra.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur hvorki gefið sérstakt tilefni til að meta samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, né aðrar alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Hinn 16. október 2019 héldu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ráðherra ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunar kynningarfund fyrir helstu hagsmunaaðila þar sem verkefni um einföldun regluverks var kynnt. Í kjölfarið voru send út bréf til hagsmunaaðila þar sem óskað var eftir frekari liðsinni við að tryggja einföldun regluverks og betri eftirlitsreglur í íslensku atvinnulífi. Í bréfinu var óskað eftir að ráðuneytinu yrðu sendar forgangsraðaðar umbótatillögur um einföldun regluverks og skilvirkari framkvæmd gildandi leyfisreglna. Tillögur bárust meðal annars frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Bændasamtökum Íslands. Auk framangreinds óskaði ráðuneytið eftir umbótatillögum frá stofnunum sem heyra undir ráðuneytið.
    Vinna við einföldun regluverks og frumvarp þetta er afrakstur víðtæks samráðs sem haft var við helstu hagsmunaaðila og stofnanir ráðuneytisins, svo sem Matvælastofnun, Bændasamtök Íslands og undirsamtök þeirra, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu o.fl.
    Í athugasemdum Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var lögð áhersla á að eftirlit með atvinnustarfsemi verði einfaldað, eftirlitsheimsóknum fækkað hjá fyrirtækjum sem standa sig vel og þeim aðilum fækkað sem heimsækja fyrirtækin og líta eftir tilteknum þáttum í því skyni að draga úr kostnaði. Í því sambandi var meðal annars bent á þann möguleika að fækka þeim tilvikum þegar starfsemi væri leyfisskyld. Þannig séu dæmi um að auk almenns leyfis þurfi fyrirtæki sérstök leyfi til tiltekinna þátta starfsemi sinnar. Þann möguleika ætti að kanna að einungis sérstaklega áhættusöm starfsemi yrði leyfisbundin en önnur starfsemi háð tilkynningu, eftir því sem við ætti.
    Framangreindar tillögur voru reifaðar við stofnanir sem falla undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, einkum Matvælastofnun. Fram kom að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga gefi út þúsundir starfsleyfa og væri hugsanlegt að falla frá kröfum um starfsleyfi og taka upp tilkynningar- eða skráningarskyldu. Á móti kunni að koma önnur sjónarmið. Um er að ræða tekjulind sveitarfélaga en innheimt er fyrir útgáfu starfsleyfa á grundvelli tíu mismunandi gjaldskráa heilbrigðisnefnda. Þá kunni viðbragðsflýtir stjórnvalda að verða minni, en á móti kemur hvernig búið yrði um skyldu til tilkynninga um starfsemi. Loks geti haft þýðingu að ekki verði mögulegt að svipta aðila starfsleyfi vegna brota á reglum. Á móti komi að slíkt úrræði er lítið hagnýtt auk þess að önnur úrræði eru tæk, svo sem álagning sekta eða stöðvun starfsemi, sem þyrfti að skoða sérstaklega.
    Af þessu tilefni athugast að árið 2012 skipaði umhverfisráðuneytið starfshóp um mögulegar útfærslur á framkvæmd við leyfisveitingar og eftirlit samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 66/2017, þskj. 1056, 376. mál, var vísað til vinnu starfshópsins, en þar segir:
    […] [M]ikilvægt [er] að endurskoða og leggja mat á þörfina fyrir að tiltekin starfsemi sé háð starfsleyfi. Í því samhengi þarf að skoða hvort aðrar leiðir en starfsleyfisveitingar séu mögulega færar til að ná fram markmiðum um mengunarvarnir og hollustuhætti, svo sem skráningarskylda. Fyrirtæki bera ábyrgð á að starfa í samræmi við gildandi löggjöf hverju sinni og hafa stjórnvöld m.a. það hlutverk að leiðbeina þeim um gildandi reglur. Telja verður að þeirri leiðbeiningarskyldu sé í einhverjum tilvikum unnt að sinna nógu vel án þess að starfsleyfisskylda sé til staðar. Stjórnvöld hafa síðan eftirlit með starfseminni til að ganga úr skugga um að hún sé í samræmi við löggjöfina. Með hliðsjón af framangreindu er í frumvarpinu lagt til að dregið verði úr vægi starfsleyfiskyldu og miðað við að einungis verði gerð krafa um að starfsemi sé starfsleyfisskyld þegar þess er þörf með tilliti til umfangs og eðli starfseminnar. Af þeim sökum er lagt til að ráðherra hafi heimild til þess að kveða á um að tiltekin starfsemi skuli háð skráningarskyldu í stað starfsleyfis. Verði frumvarpið að lögum er því gert ráð fyrir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, í samvinnu helstu hagsmunaaðila, fari yfir og meti í hvaða tilvikum skráningarskylda geti komið í stað starfsleyfis.
    Rétt er á grundvelli þessara athugasemda meðal annars, að skoðað verði vel hvort unnt sé að fækka starfsleyfum og gera kröfu í staðinn um tilkynningar- eða skráningarskyldu. Ætlunin er að málið verði unnið nánar í framhaldi í samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga.
    Sú athugasemd kom fram hjá Samtökum atvinnulífsins að ástæða gæti verið til að sameina heilbrigðiseftirlit í eina stofnun. Fram kom að opinbert eftirlit með matvælum sé á höndum 11 aðila og þekkt séu dæmi um mismunandi kröfur á milli umdæma. Fyrirtæki sem starfi víða um land geti ekki fengið eitt leyfi fyrir sína starfsemi þótt hún sé rekin eins og undir sama gæðakerfi alls staðar. Ýmiss önnur vandkvæði geti komið upp. Af þessu tilefni athugast að í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um Matvælastofnun frá árinu 2013 kemur fram að leggja þurfi mat á hvort matvælaeftirlit á Íslandi verði skilvirkara, hagkvæmara og árangursríkara ef það yrði sameinað á eina hendi. Hinir ýmsu aðilar hafa bent á ósamræmi í eftirliti þar sem opinbert eftirlit með matvælum er tvískipt og í höndum 11 mismunandi eftirlitsaðila. Einnig hefur verið bent á að eftirlit heilbrigðisnefnda sveitarfélaga sé ekki að öllu leyti óháð enda séu starfsmenn nefndanna ráðnir af viðkomandi sveitarstjórnum. Þá eru gjaldskrár heilbrigðisnefnda mismunandi eftir umdæmum sem leiðir til þess að kostnaður opinbers eftirlits á grundvelli laga um matvæli, nr. 93/1995, er mismunandi eftir landshlutum. Með vísan til þessa þykir rétt að núverandi eftirlitskerfi með matvælum og framleiðslu þeirra verði tekið til heildarendurskoðunar undir forustu ráðuneytisins að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneyti og sveitarfélög.
    Á meðal athugasemda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kemur fram að nauðsynlegt sé að skoða hvort rétt sé að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga sinni því hlutverki sem þeim er ætlað varðandi frammistöðuflokkun matvælafyrirtækja. Skv. a-lið 2. gr. laga um breytingu á lögum um matvæli o.fl., nr. 33/2018, mun flokkun fyrirtækja eftir frammistöðu þeirra samkvæmt matvælaeftirliti verða birt neytendum opinberlega 1. janúar 2021. Unnið er að undirbúningi innleiðingar á slíku kerfi í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytin og verður framangreind ábending tekin til umfjöllunar samhliða þeirri vinnu.
    Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi benda á mikilvægi þess að framsetning reglugerða verði bætt þannig að auðveldara sé að fá heildarsýn yfir þær reglur sem gilda hverju sinni. Um árabil hefur verið kallað eftir því að reglugerðir verði settar fram með skýrari hætti þannig að breytingar á reglugerðum verði felldar inn í stofnreglugerðir en þá aðferðafræði má t.d. sjá varðandi breytingar á lögum í Lagasafninu. Leitað hefur verið leiða til þess að bregðast við framangreindum ábendingum og haft samband við fulltrúa Stjórnartíðinda sem meðal annars annast birtingu reglugerða. Málið verður tekið til nánari skoðunar innan ráðuneytisins og þess verður óskað að málið verði unnið í samráði við dómsmálaráðuneytið.
    Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gera auk þess þá tillögu að eftirlitsdýralæknar Matvælastofnunar taki ekki þátt í að semja reglugerðir sem þeir framfylgja sjálfir í eftirliti. Við ritun reglugerða á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er í sumum tilvikum leitað til sérfræðinga stofnana sem heyra undir ráðuneytið til þess að afla nauðsynlegrar sérfræðiþekkingar á tilteknum sviðum. Umsjón með reglugerðarskrifum er þó ávallt í höndum sérfræðinga ráðuneytisins.
    Bændasamtök Íslands og aðildarfélög þeirra skiluðu 16 ábendingum til ráðuneytisins. Má t.d. nefna ábendingar varðandi reglugerð um innflutning á djúpfrystu svínasæði, eftirlit Matvælastofnunar með fóðri, um skyldu varðandi lokaða haugtanka í alifuglarækt, loðdýraeldi og svínaeldi, um sölu bóluefnis og lyfja á heildsölu- og smásölustigi, varðandi legurými svína í svínabúum, ákvæði byggingarreglugerðar um gróðurhúsabyggingar, reglur um innflutning á plöntum, starfsleyfi til loðdýraeldis samkvæmt reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun o.fl.
    Draga má saman þessar ábendingar og greina frá viðbrögðum með eftirfarandi hætti:
     1.      Fimm ábendingar varða breytingar á reglugerðum sem teknar hafa verið til skoðunar í ráðuneytinu og brugðist verður við að nokkru leyti.
     2.      Fimm ábendingar lúta að regluverki sem heyrir undir önnur stjórnvöld og verða slíkar ábendingar áframsendar til hlutaðeigandi stjórnvalda.
     3.      Þrjár ábendingar varða breytingar á verklagi Matvælastofnunar sem ráðuneytið hefur óskað eftir að stofnunin taki til skoðunar með einföldun að leiðarljósi.
     4.      Tvær ábendinganna lúta að eftirliti með fyrirtækjum og kostnaði vegna þess. Vísað er til fyrri umfjöllunar um fyrirhugaða heildarendurskoðun á núverandi eftirlitskerfi með matvælum og framleiðslu þeirra.
     5.      Ein ábending varðar nauðsyn þess að regluverk tryggi að slátrun fáist á hverjum tíma þrátt fyrir utanaðkomandi aðstæður eins og verkföll. Ekki er unnt að gera slíkar breytingar þar sem regluverk gildir á hverjum tíma varðandi vinnudeilur og verkföll.
    Drög að frumvarpinu voru í opnu samráði í samráðsgátt stjórnvalda dagana 14. til 28. febrúar 2020 (mál nr. S-38/2020). Alls bárust fjórar umsagnir, þ.e. frá Æðarræktarfélagi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Ístex og Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
    Í frumvarpinu eins og það var kynnt í samráðsgáttinni var lagt til að lög um gæðamat á æðardúni yrðu felld brott í heild sinni. Að fenginni umsögn Æðarræktarfélags Íslands var fallið frá þeirri tillögu.
    Í umsögn fulltrúa Ístex var lagst gegn brottfalli laga um flokkun og mat á gærum og ull, nr. 57/1990, í heild sinni og lögð áhersla á að viðhalda ullarmatsnefnd og fyrirkomulagi löggilts ullarmats. Í umsögninni er lagt til að settur verði upp staðall sem kaupendur og seljendur ullar komi sér saman um. Slíkt væri gert í því skyni að kerfið yrði skilvirkara og betur til þess fallið að ná sem mestum verðmætum úr íslenskri ull. Af þessu tilefni athugast að lítil virkni hefur verið í ullarmatsnefnd á síðustu árum. Fjögur erindi hafa borist nefndinni síðustu fjögur ár. Ráðuneytið telur ákjósanlegt að ábyrgð á ullarmati verði í höndum framleiðenda sjálfra líkt og almennt tíðkast í atvinnulífinu. Í því sambandi kann að koma til skoðunar að framleiðendur setji gæðastaðal fyrir ull á grundvelli mælanlegra eiginleika með það að markmiði að framleiðendur eða aðilar á þeirra vegum annist gæðamat á ull. Því var ekki talið rétt að falla frá tillögu um að fella brott lög um flokkun og mat á gærum og ull, nr. 57/1990 og um leið reglugerð um ullarmat. Hins var ákveðið að viðhöfðu frekara samráði við fulltrúa Ístex að seinka brottfalli laganna til 1. nóvember 2021 sem gefur rúman tíma til að vinna að breyttri framkvæmd.
    Í umsögn frá Bændasamtökum Íslands er tekið undir efni umsagna frá Æðarræktarfélagi Íslands og Ístex. Auk þess kemur fram að samtökin gera ekki athugasemd við að afnumin verði skylda til að eyrnamarka lömb. Þá benda samtökin á að með afnámi lögmætiseftirlits ráðuneytisins um gildi fjallskilasamþykkta sé mikilvægt að stjórnir fjallskilaumdæma leiti formlegrar umsagnar eða atbeina samtakanna áður en lokaákvörðun um breytingar á fjallskilasamþykkt er tekin. Með vísan til framangreinds er með 10. gr. gerð tillaga um að skylt verði að leita umsagnar Bændasamtaka Íslands um drög að fjallskilasamþykktum. Til umræðu kom hvort ástæða gæti verið til að gefa út almennar leiðbeiningar um samningu fjallskilasamþykkta og var það sameiginlegt álit ráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands að ekki sé rétt að gera tillögu um það, þar sem aðstæður eru mjög mismunandi eftir héruðum og því er það naumast raunhæft
    Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur kemur m.a. fram að útskýra þurfi betur hvað felist í 5. gr. frumvarpsins varðandi frumframleiðslu matvælafyrirtækja sem starfrækja fiskeldisstöðvar. Í gildandi lögum er kveðið á um að Matvælastofnun beri að gefa út starfsleyfi vegna slíkrar framleiðslu samkvæmt lögum nr. 93/1995, um matvæli, og einnig rekstrarleyfi samkvæmt lögum nr. 71/2008, um fiskeldi. Tillaga um breytingu lýtur að því að falla frá starfsleyfisskyldu samkvæmt lögum, nr. 93/1995, um matvæli og en krafa um rekstrarleyfi á grundvelli laga nr. 71/2008, um fiskeldi, mun standa óbreytt. Auk þess er í umsögninni óskað eftir nánara samráði við heilbrigðisnefndir sveitarfélaga um áframhaldandi verkefni sem tengjast einföldun regluverks sem ráðuneytið mun verða við.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur í sér tillögur að efnisbreytingum á gildandi rétti sem miða að því að einfalda regluverk í þágu atvinnulífs og almennings og auka skilvirkni stjórnsýslunnar. Áhrif frumvarpsins felast einkum í því að verkefni verða ýmist flutt til innan stjórnsýslunnar, einfölduð eða felld niður þannig að stjórnsýslan verði skilvirkari og marvissari. Þá verður álögum létt af atvinnulífinu með einföldun á regluverki í starfsumhverfinu og með niðurfellingu skráningar- og tilkynningarskyldu í ákveðnum tilfellum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð og tilflutningur verkefna rúmist innan útgjaldaramma málefnasviðs 12.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lögð er til sú breyting á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, að heimild til útgáfu leyfisbréfs til starfa sem dýralæknir verði færð til Matvælastofnunar, þar sem yfirdýralæknir starfar. Að auki verði aflétt skyldu dýralækna til að undirrita eiðstaf. Þá þykir með sama hætti rétt að heimild til að veita dýralæknanemum tímabundið leyfi til að starfa undir stjórn dýralæknis verði einnig færð til Matvælastofnunar. Breytingarnar eru gerðar í því skyni að stytta boðleiðir og gera stjórnsýslu skilvirkari. Auk þess eru breytingarnar einnig til þess fallnar að aðilar geti fengið umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum þegar við á.

Um 2. gr.

    Lög er til sú breyting að vaktsvæði samkvæmt lögunum verði skilgreind í reglugerð en ekki í lögunum sjálfum sem þykir til þess fallið að auka sveigjanleika til hagræðingar enda kunna ástæður að vera til að stækka eða minnka vaktsvæði dýralækna.

Um 3. gr.

    Með 8. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim er ráðherra heimilað að fengnum tillögum Matvælastofnunar að fyrirskipa hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að útrýma eða hindra útbreiðslu tilkynningarskyldra og skráningarskyldra sjúkdóma og til að afstýra hættu og tjóni af völdum útbreiðslu þessara sjúkdóma. Þetta er nánar afmarkað í reglugerð sem sett er með heimild í 2. mgr. 7. gr. laganna, nú reglugerð nr. 52/2014, um tilkynningarskylda og skráningarskylda dýrasjúkdóma.
    Með greininni er lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögum með sama hætti að heimilt sé að grípa til aðgerða vegna sjúkdóma sem eru áður óþekktir eða ekki er unnt að bera kennsl á og nauðsynlegt er talið að grípa til aðgerða til að verjast.

Um 4. gr.

    Með greininni er lagt til að verðlagsnefnd verði skipuð til fjögurra ára í senn í stað þess að kveðið verði á um að nefndin skuli fullskipuð 1. júlí ár hvert, en breytingin er til þess fallin að gera störf nefndarinnar markvissari og spara tíma við umsýslu vegna tilnefninga og skipunar nefndarinnar sem fer fram einu sinni á ári samkvæmt gildandi lögum.

Um 5. gr.

    Lagt er til að tilkynningarskylda innflytjenda og framleiðenda fóðurs innan EES-svæðisins sé felld niður, að undanskildum áburði, sáðvörulyfjablönduðu fóðri, fóðuraukefnum og forblöndum þeirra. Tilkynningarskyldan helst hvað varðar innflutning og framleiðslu á áburði og sáðvöru, sem og öllu fóðri sem flutt er inn frá ríkjum utan EES-svæðisins. Þannig verður ferlið við eftirlit með þessum tilteknu fóðurvörum frá ríkjum innan EES-svæðisins einfaldað. Jafnframt mun breytingin leiða til einföldunar og minna umfangs á vinnu innflytjenda við innflutning á fóðri þannig að innflytjendum verður ekki gert að skrá fóður hjá Matvælastofnun né tilkynna um allar sendingar sem berast til landsins. Gert er ráð fyrir að áhrifin verði sambærileg hjá innlendum framleiðendum. Með breytingunni færist áherslan frá skjalaeftirliti yfir í markaðseftirlit með fóðri og fóðurfyrirtækjum.

Um 6. gr.

    Með greininni er lagt til að starfsleyfi eftirlitsaðila skv. 1. mgr. 9. gr. laga um matvæli verði gefin út án tímabindingar en eftir sem áður verði heimilt að svipta eftirlitsaðila leyfi gerist hann brotlegur við ákvæði leyfisveitingar eða ef annars eru til þess skilyrði sem lýst er í 4. mgr. 9. gr. laga um matvæli. Með breytingunni þurfa matvælafyrirtæki ekki að sækja um endurnýjun á starfsleyfum sínum vegna óbreytts reksturs, með tilheyrandi kostnaði, heldur nægir að sækja um starfsleyfi í eitt sinn.
    Jafnframt er lagt til að heimild til að veita undanþágu frá starfsleyfisskyldu vegna búfjárhalds sem ekki er í ábataskyni verði flutt til Matvælastofnunar úr ráðuneytinu. Breytingin er gerð í því skyni að gera stjórnsýslu skilvirkari.
    Þá er lagt til að í ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga um matvæli verði einnig kveðið á um að matvælafyrirtæki sem starfrækja fiskeldisstöðvar og eru með gilt rekstrarleyfi samkvæmt lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, þurfi hvorki starfsleyfi né að tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína áður en hún hefst vegna frumframleiðslu. Með frumframleiðslu er átt við eldi fiska fram að slátrun. Þar sem framleiðsla matvæla við slátrun og frekari meðferð er starfsleyfisskyld skulu slíkir aðilar þó hafa starfsleyfi vegna slátrunar og vinnslu. Breytingin felur í sér tillögu að einföldun fyrir matvælafyrirtæki sem starfrækja fiskeldisstöðvar þannig að rekstrarleyfi verði ígildi skráningar hjá Matvælastofnun og íþyngjandi krafa um útgáfu starfsleyfis falli niður vegna þess þáttar starfseminnar sem fellur undir frumframleiðslu.

Um 7. gr.

    Lagt er til að veita Matvælastofnun heimild til þess að afla umsagna hlutaðeigandi hagsmunasamtaka og kynna þeim efni og forsendur reglugerðar og/eða gjaldskrár, í stað þess að sú heimild verði í höndum ráðherra. Breytingin er lögð til í því skyni að stytta boðleiðir og gera stjórnsýslu skilvirkari. Gert er ráð fyrir að ráðherra staðfesti gjaldskrá Matvælastofnunar.

Um 8. og 9. gr.

    Með greinunum eru lagðar til tvær breytingar á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013. Annars vegar er lagt til að ráðherra verði ekki skylt að staðfesta reglur sveitarstjórna um framkvæmd endurgreiðslna vegna aðstoðar við dýr samkvæmt því sem segir í 4. mgr. sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Hins vegar að felld verði niður tilkynningarskylda til Umhverfisstofnunar vegna gildruveiði á minkum. Þykja þessi ákvæði ekki þjóna tilgangi í framkvæmdinni og breytingarnar til þess fallnar að auka skilvirkni í stjórnsýslunni.

Um 10. gr.

    Með greininni er lagt til að fjallskilasamþykktir öðlist gildi við birtingu en með þessu er lagt til að stjórnir fjallskilaumdæma (héraðsnefnd/sveitarstjórn eða eftir atvikum sveitarstjórnir sameiginlega) annist sjálfar birtingu samþykkta þessara. Þá er um leið lagt til að ákvæði falli brott um að ráðuneytið skuli gæta þess að ákvæði þeirra fari eigi í bága við lög (lögmætiseftirlit). Til eru samþykktir um fjallskil og afréttarmálefni í flestum héruðum landsins, þar sem sameignarafréttum eða upprekstrarheimalöndum er til að dreifa. Yfirlit um gildandi fjallskilasamþykktir eru í landsmarkaskrá sem ráðuneytið gefur út. Sjö slíkar samþykktir hafa verið yfirfarnar, staðfestar og birtar af ráðuneytinu á árunum 2012–2018. Þá er jafnframt lagt til að leitað verði formlegrar umsagnar Bændasamtaka Íslands um drög að fjallskilasamþykktum.

Um 11. gr.

    Lagt er til að látið verði af skyldu til eyrnamörkunar. Sú venja er gömul hér á landi að búfé sé eyrnamarkað þannig að unnt sé að draga það í sundur til hjarðar eftir mörkum en það tengist afréttaskipulagi landsins. Með nýjum tegundum merkinga, plötumerkjum, er ekki sama þörf og áður á eyrnamörkum eða brennimarki. Þó er það svo að ef plata fer úr, svo sem getur gerst af ýmsum ástæðum, t.d. við flutninga eða ágang bitvargs, er áfram dregið eftir eyrnamörkum. Í 64. gr. laga um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986, er kveðið á um að við sönnun á eign á búfé sé örmerki rétthæst, þar næst frostmerki, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark. Nánari ákvæði um merkingar eru í reglugerð nr. 916/2012, um merkingar búfjár, og vísast til þess sem þar er kveðið á um.
    Með greininni er lagt til að selt verði í vald einstakra bænda að ákveða hvort þeir eyrnamerki fjárstofn sinn. Ætla má að nokkur vinnusparnaður geti hlotist af því að láta af skyldu til eyrnamerkinga, en erfitt er að ætla hvað hann gæti verið mikill, þar sem óvíst er hversu margir munu kjósa að nota ekki eyrnamörk.

Um 12. gr.

    Lagt er til að heimilt verði að fela öðrum aðila en Bændasamtökum Íslands að hafa umsjón með samræmingu og gerð nýrra markaskráa og upptöku nýrra marka. Kemur hér til álita t.d. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, búgreinasamtök eða sú deild í ráðuneytinu sem fer með landbúnaðarmál.

Um 13. og 14. gr.

    Með a-lið greinarinnar er lagt til að verkefni svonefndrar sauðfjársjúkdómanefndar verði færð til Matvælastofnunar sem sinnir málefnum sem áður féllu til nefndarinnar þ.m.t. vörnum gegn sauðfjársjúkdómum og viðhaldi varnarlína. Þá er lagt til að svonefnd markanefnd verði lögð af. Lítil virkni hefur verið í markanefnd á síðustu árum en frá árinu 2013 hafa nefndinni borist 3 erindi. Með breytingunum verða ákvarðanir markavarða endanlegar en til þess að taka af vafa þykir rétt að taka fram að úrskurð markavarðar um svo hreinan einkaréttarlegan ágreining sé ekki unnt að bera undir ráðuneyti til úrskurðar.

Um 15. gr.

    Með greininni er lagt til að fullnaðarvald til að veita heimild til þess að heimila innflutning á loðdýrum, frjóvguðum alifuglaeggjum, fiskum og erfðaefni þeirra, svínum og erfðaefni þeirra sem og erfðaefni holdanautagripa verði hjá Matvælastofnun, í stað þess að ráðuneytið gefi út leyfin að fenginni umsögn stofnunarinnar. Er þetta til þess fallið að stytta málsmeðferðartíma og einfalda stjórnsýslu.

Um 16.–18. gr.

    Með greinunum er lagt til að yrkisréttarnefnd verði lögð niður og verkefni hennar verði færð til Matvælastofnunar. Stofnunin er vel í stakk búin til að takast á hendur verkefni nefndarinnar en hjá Matvælastofnun starfar plöntusjúkdómasérfræðingur auk þess að stofnunin starfrækir rafræna þjónustugátt sem nýst getur fyrir starf nefndarinnar. Við framkvæmd laganna þarf þó að hafa samráð við aðrar stofnanir, einkum Hugverkastofu, vegna þekkingar á hugverkarétti, og Landbúnaðarháskóla Íslands, vegna þekkingar á ræktun og kynbótum nytjaplantna. Lítil virkni hefur verið í yrkisréttarnefnd á síðustu árum en þó hafa borist 1–2 erindi á ári til nefndarinnar. Gert er ráð fyrir að kostnaður af þessu verkefni verði leystur innan núverandi fjárheimilda Matvælastofnunar.

Um 19. gr.

    Með greininni er lagt til að felld verði úr gildi eftirfarandi lög í heild sinni.
    Lög nr. 79/1935, um breyting nokkurra laga, sem varða sölu og meðferð íslenskra afurða. Lög þessu eru fyrnd og eru raunar ekki birt í vefútgáfu Lagasafnsins.
    Lög nr. 123/1935, um gelding húsdýra. Lögin eru einnig fyrnd og ekki birt í vefútgáfu Lagasafnsins. Sett ákvæði um þetta efni eru nú í lögum um velferð dýra.
    Lög nr. 20/1943, um búfjártryggingar. Með lögunum var mælt fyrir um starfrækslu sérstakrar deildar við Brunabótafélag Íslands um vátryggingar búfjár. Lögin eru fyrnd.
    Lög nr. 30/1947, um að tryggja manneldisgildi hveitis. Með lögunum var mælt fyrir um heimild ráðherra, að fengnum tillögum svonefnds manneldisráðs, til að skipa fyrir með reglugerð um ráðstafanir til að tryggja sem best manneldisgildi hveitis, sem selt er á íslenskum markaði. Ákvæði laganna eru fyrnd en nú eru sett ákvæði um þetta málefni að finna meðal annars í matvælalöggjöf.
    Lög nr. 15/1962, lög nr. 31/1969 og lög nr. 33/1979 um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán. Lögin eru ekki birt í vefútgáfu Lagasafnsins. Með þeim var veðdeild Búnaðarbanka veitt aukin heimild til lánveitinga til bænda vegna fjárhagserfiðleika vegna fjárfestinga á jörðum. Lögin eru fyrnd.
    Lög nr. 105/1978, um greiðslu verðjöfnunargjalds af sauðfjárafurðum. Lögin eru ekki birt í vefútgáfu Lagasafnsins. Þau vörðuðu fjárhagsráðstafanir vegna sauðfjárræktarinnar árið 1977. Lögin eru fyrnd.
    Lög nr. 112/1989, um skuldbreytingar vegna loðdýraræktar. Lögin eru ekki birt í vefútgáfu Lagasafnsins. Með þeim var mælt fyrir um heimild ríkissjóðs til að gangast í ábyrgðir fyrir lánum sem loðdýrabændur mundu taka í stað lausaskulda sem féllu til á árunum 1986–1989. Lögin eru fyrnd.
    Lög nr. 57/1990, um flokkun og mat á gærum og ull. Lögin varða meðferð og mat á gærum og ull en ekki þykir ástæða lengur til að hafa í gildi sérlög um málefnið. Svonefnd gærumatsnefnd, sem starfa skal samkvæmt lögunum, hefur ekki starfað um árabil. Með sama skapi er ekki þörf á sérstakri ullarmatsnefnd, sem ætlað er að úrskurða um ágreining um ullarmat. Má í þessu sambandi athuga að sláturleyfishöfum og þeim sem vinna úr gæru og ull hefur fækkað mikið frá því lögin voru sett. Áfram verður þó að sjálfsögðu í höndum framleiðenda að tryggja gæði framleiðslu sinnar, án atbeina hins opinbera. Lögin falla úr gildi 1. nóvember 2021 en fram að þeim tíma gefst tækifæri til þess að vinna að breyttri framkvæmd.
    Lög nr. 130/1994, um sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í ein heildarsamtök bænda. Svo sem ráða má af heiti þessara laga vörðuðu þau stofnun Bændasamtaka Íslands á sínum tíma. Ákvæði laganna hafa því fyrir löngu komið til framkvæmdar. Þó má geta þess að í þeim er mælt fyrir um tilteknar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs en sú skylda mun ekki rakna upp verði lögin felld úr gildi.
    Lög nr. 27/1995, um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Með lögunum var komið á þessu átaksverkefni sem nú er lokið fyrir nokkru. Lögin eiga því ekki við lengur.