Ferill 181. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1799  —  181. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um félög til almannaheilla.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Stellu Guðmundsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Eyvind G. Gunnarsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, Halldór Sævar Guðbergsson og Aðalstein Sigurðsson frá Öryrkjabandalagi Íslands, Matthildi Magnúsdóttur og Ragnheiði Guðnadóttur frá Skattinum, Jónas Guðmundsson og Árna Einarsson frá Almannaheillum, Guðmund Löve, Sólveigu Hildi Björnsdóttur og Svein Guðmundsson frá SÍBS og Líneyju Rut Halldórsdóttur og Birki Smára Guðmundsson frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Almannaheillum – samtökum þriðja geirans, Barnaheillum, Fræðslu og forvörnum, Hagsmunasamtökum heimilanna, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Ríkisendurskoðun, Skattinum, SÍBS, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Sorgarmiðstöð – félagasamtökum, Ungmennafélagi Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands. Þá bárust nefndinni minnisblöð frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og frá Eyvindi G. Gunnarssyni lagaprófessor.
    Með frumvarpinu er lagt til að gildi taki ný heildarlög þar sem komið verði á nýju félagaformi félaga til almannaheilla og því mótaður lagarammi þar sem fram komi reglur um stofnun, meginefni samþykkta, félagsaðild, ákvarðanatöku og stjórnun slíkra félaga. Meiri hlutinn tekur undir markmið frumvarpsins og telur nauðsynlegt að settur verði lagarammi um félagsform og starfsemi félaga til almannaheilla líkt og lagt er til í frumvarpinu. Hins vegar telur meiri hlutinn að ekki verði hjá því komist að taka til frekari skoðunar þá gagnrýni sem hefur komið fram, m.a. frá stórum heildarsamtökum eins og Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
    Leggur meiri hlutinn því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem það sæti skoðun í ljósi fram kominna athugasemda. Mikilvægt er að við þá skoðun fari fram víðtækt samráð við íþróttahreyfinguna og eftir atvikum önnur hagsmunasamtök sem frumvarpið snertir með það að markmiði að hlýtt verði á öll gjaldgeng sjónarmið áður en frumvarp þessa efnis verði lagt fram á næsta löggjafarþingi.
    Ólafur Þór Gunnarsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara. Hann telur vonbrigði að enn hafi ekki tekist að klára málið.

Alþingi, 23. júní 2020.

Óli Björn Kárason,
form.
Willum Þór Þórsson,
frsm.
Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson,
með fyrirvara.
Smári McCarthy.