Ferill 38. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1861  —  38. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rúnar Helga Haraldsson frá Fjölmenningarsetri, Nínu Helgadóttur og Margréti Lúthersdóttur frá Rauða krossinum á Íslandi, Eddu Ólafsdóttur og Jóhönnu Vilborgu Ingvarsdóttur frá Félagsráðgjafafélagi Íslands og Kjartan Má Kjartansson og Hilmu Sigurðardóttur frá Reykjanesbæ.
    Nefndinni bárust umsagnir frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Fjölmenningarsetri, Rauða krossinum á Íslandi, Renötu Emilsson Pesková og Reykjanesbæ.

Markmið tillögunnar.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að mótuð verði stefna fyrir einstaklinga og fjölskyldur af erlendum uppruna með það að markmiði að auka gagnkvæman skilning og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins.
    Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur innflytjendum á Íslandi fjölgað stöðugt undanfarin ár. Árið 2012 voru innflytjendur 8% landsmanna en eru nú 14,1% samkvæmt tölum Hagstofunnar frá 1. janúar 2019. Að sama skapi hefur innflytjendum af annarri kynslóð fjölgað og hlutfall fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjenda hefur aldrei verið hærra.
    Mikilvægt er að huga að velferð þessa vaxandi hóps. Aðlögun og þátttaka í samfélaginu er lykilþáttur í velferð innflytjenda sem best verður tryggð með greiðum aðgangi að öllum þáttum samfélagsins. Þá er mikilvægt að bæta stofnanaumgjörð innflytjendamála svo að hlúa megi betur að málaflokknum.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Við meðferð málsins var samhljómur meðal gesta um að mikilvægt væri að taka málaflokkinn til endurskoðunar í heild sinni.
    Í umsögn Rauða kross Íslands kom fram að horfa þyrfti til allra sviða samfélagsins og tryggja að ný stefna hvíldi á vel ígrundaðri framtíðarsýn með það að markmiði að stuðla að samfélagi jafnra tækifæra fyrir alla svo að ekki væri hætta á að hér á landi mótaðist tvískipt samfélag, þar sem innflytjendur fylla lægstu lög samfélagsins og hafa litla möguleika á félagslegum hreyfanleika og á því að nýta til fulls menntun sína, færni og hæfileika. Þá kom fram að unnið væri að þriggja ára áætlun á vegum Sameinuðu þjóðanna um aukna aðstoð við flóttafólk og örugga för þess í skjól.
    Í umsögn Fjölmenningarseturs var bent á að víða um land væri unnið að mikilvægum verkefnum sem koma innflytjendum og flóttamönnum að gagni. Þó væri þörf á auknum framlögum til þróunarsjóðs innflytjendamála svo að bæta mætti stuðning við verkefnin. Þetta ætti sérstaklega við um verkefni á landsbyggðinni.
    Við meðferð málsins var bent á þær hindranir sem standa í vegi menntaðra innflytjenda þegar kemur að atvinnuþátttöku. Margt væri hægt að gera til að bregðast við þeim hindrunum og auðvelda aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi. Auka þyrfti aðgengi að íslenskunámskeiðum og aðlaga þau að ólíkum hópum. Í því sambandi mætti líta til þess að efla nám á nýbúabraut Tækniskólans og fjölga plássum fyrir ungmenni sem búa yfir engri eða lítilli íslenskukunnáttu, óháð fyrri menntun. Þá mætti ekki líta fram hjá mikilvægi hvatningar og stuðnings innan skólakerfisins sem rannsóknir hafa sýnt að skipti verulegu máli hvað varðar þátttöku og brottfall nemenda af erlendum uppruna. Bent var á að efla þyrfti íslenskukennslu á vinnustöðum og auka fræðslu um réttindi á vinnumarkaði. Þá hafi skort á að menntun innflytjenda frá heimalandi sé metin hérlendis. Loks væri nauðsynlegt að tryggja aðgang að túlkaþjónustu á öllum sviðum.
    Nefndin tekur undir ofangreind sjónarmið og leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 24. júní 2020.

Helga Vala Helgadóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Anna Kolbrún Árnadóttir.
Bryndís Haraldsdóttir. Guðmundur Ingi Kristinsson. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Halldóra Mogensen. Orri Páll Jóhannsson.