Ferill 103. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1867  —  103. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um náttúrustofur.

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Róbert Arnar Stefánsson frá Samtökum náttúrustofa, Sigrúnu Ágústsdóttur frá Umhverfisstofnun, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Jórunni Harðardóttur frá Veðurstofu Íslands og Sæunni Stefánsdóttur frá Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands.
    Málið var ekki sent út til umsagnar en á 149. löggjafarþingi bárust umsagnir frá Fjarðabyggð, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Fljótsdalshéraði, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu Vestfjarða, Samtökum náttúrustofa, Sveitarfélaginu Skagafirði, Umhverfisstofnun og Veðurstofu Íslands. Á 145. þingi barst umsögn frá Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands. Við umfjöllun málsins var litið til þessara umsagna.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra komi á fót starfshópi til að meta reynsluna af starfi náttúrustofa og kanna hvort hagkvæmt sé að náttúrustofur taki formlega að sér fleiri svæðisbundin verkefni en þær hafa nú með höndum. Starfshópnum verði falið að móta leiðir til að styrkja samstarf náttúrustofa og stofnana ríkisins í þeim tilgangi að nýta fjármagn til þekkingaröflunar og vöktunar á náttúru landsins sem best og til að auka skilvirkni í samstarfi um náttúruvernd.
    Fyrir nefndinni kom fram almenn ánægja með efni tillögunnar og sérstaklega tekið undir það markmið hennar að mikilvægt væri að auka enn frekar samstarf náttúrustofa og ríkisstofnana í tengslum við umhverfis- og auðlindamál. Það gæti tryggt fjölbreyttari mannauð á landsbyggðinni og nýst á margvíslegan hátt, t.d. við þekkingaröflun og þegar náttúruhamfarir eiga sér stað. Nefndin tekur undir þau sjónarmið og telur að í því geti falist mikil sóknarfæri og hagkvæmni, einkum þar sem sérfræðiþekking er dreifð víða um land. Þá bendir nefndin á að við skoðun á samstarfi náttúrustofa við ríkisstofnanir mætti auka samstarf við stofnanir sem heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og horfa til möguleika á samstarfi við háskólastigið og sjávarútvegs- og landbúnaðargeirann.
    Nefndin fjallaði einnig um mikilvægi þess að starfshópurinn samanstæði m.a. af fulltrúum sem þekktu vel til starfsemi náttúrustofa, þekkingar- og rannsóknastarfsemi á landsbyggðinni og að samráð yrði haft við sveitarfélög við gerð tillagnanna.
    Nefndin lítur svo á að leiði vinna starfshópsins í ljós að lagabreytinga sé þörf til að skýra hlutverk og samstarf stofnana, geti hópurinn komið fram með slíkar tillögur til ráðherra varðandi samstarf um rannsóknir, vöktun, náttúruvernd o.fl.
    Nefndin telur nauðsynlegt að setja vinnunni tímamörk og leggur áherslu á að starfshópurinn verði skipaður sem fyrst og að hann ljúki störfum og skili tillögum til ráðherra fyrir 1. desember 2020.

    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við tillögugreinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Starfshópurinn ljúki störfum og skili tillögum til ráðherra fyrir 1. desember 2020.

    Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Alþingi, 25. júní 2020.

Bergþór Ólason,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Brynjar Níelsson.
Guðjón S. Brjánsson. Hanna Katrín Friðriksson. Karl Gauti Hjaltason.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Ólafur Þór Gunnarsson. Vilhjálmur Árnason.