Ferill 968. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2089  —  968. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Ísland er að ganga í gegnum sína dýpstu kreppu í 100 ár. Meginatvinnugrein þjóðarinnar er hrunin, atvinnuleysi hefur aldrei verið meira, virði krónunnar hefur minnkað til muna og eftirspurnin víða í hagkerfinu er hrunin. Þessir þættir hafa sett ríkisfjármálin í uppnám sem að sjálfsögðu kallar á endurskoðun fjármálastefnunnar.

Óraunhæfar stefnur og áætlanir.
    Þess ber hins vegar að minnast að fjármálastefnan á almennt séð að vera óbreytt í fimm ár. Það gekk ekki betur en svo en að hún var einnig endurskoðuð í fyrra og það var fyrir COVID-faraldurinn. Árið 2019 varð afkoma ríkisins um 70 milljörðum kr. verri en til stóð. Og 1. minni hluti ítrekar það að það gerðist „áður“ en veiran barst til landsins. Því var fjármálastjórnun stjórnvalda ekki upp á marga fiska til að byrja með.
    Fyrri fjármálastefnur og fjármálaáætlanir þessarar ríkisstjórnar hafa allar verið gagnrýndar fyrir að vera óraunhæfar og of bjartsýnar. Á þeirri hefð er engin breyting núna.
    Þessi nýja fjármálastefna byggist að mati 1. minni hluta á of bjartsýnum forsendum þar sem m.a. er gert ráð fyrir tæplega 5% hagvexti strax á næsta ári, engum gengisbreytingum, minnkandi atvinnuleysi og lítilli verðbólgu.
    Því miður mun það ekki ganga eftir og munu því allar forsendurnar breytast á nýjan leik. Og virði stefnunnar verður eftir því.
    Þá vekur athygli að hið sjálfstæða fjármálaráð segir að þessi stefna sé bæði „ósamhverf og óskýr“. Samtök iðnaðarins segja í sinni umsögn: „Við þessar aðstæður er hættulegt að ofmeta væntan viðsnúning hagkerfisins.“ Samtök atvinnulífsins eru á svipuðum slóðum og segja: „Í ljósi aðstæðna í heimshagkerfinu og þeirra hörðu sóttvarnaraðgerða sem nú eru við lýði má færa rök fyrir því að efnahagsforsendur fjármálastefnunnar séu heldur bjartsýnar. Gert er ráð fyrir ríflega 8% samdrætti í ár en að efnahagsbatinn verði kominn vel á veg strax á næsta ári. Ekki virðist vera horft til mögulegra breytinga á gengi krónunnar og áhrif þess á verðbólgu eða ríkisfjármál.“

Neyðarástand á íslenskum vinnumarkaði.
    Á þessu ári hefur störfum fækkað um 20.000 talsins í hagkerfinu. Það eru fleiri störf en eru samanlagt á öllu Austurlandi, öllum Vestfjörðum og Akureyri. Sé litið til eins árs hefur fækkað um 30.000 störf á vinnumarkaðinum og væri því hægt að bæta öllum störfum Reykjanesbæjar við þetta dapurlega samhengi.
    Ofan í minni vinnumarkað eru tæplega 20.000 atvinnulaus. Áfallið á íslenskum vinnumarkaði er því algert. Í raun má líta á ástandið sem neyðarástand. Fjármálaráð segir í umsögn sinni: „Stærsta og alvarlegasta efnahagslega afleiðing núverandi ástands er mikið atvinnuleysi ….“
    Samhliða hækkun atvinnuleysisbóta úr 243 þús. kr. eftir skatt skiptir því öllu að stjórnvöld annars vegar verji störf og hins vegar skapi störf. Því miður bólar lítið á slíku.
    Sé litið til viðbragða stjórnvalda í öðrum löndum og viðbragða stjórnvalda við öðrum kreppum er ljóst að mjög mikilvægt er að ríkisstjórnir séu mjög virkar í atvinnusköpun. Á slíkt bæði við um sköpun starfa á einkamarkaðinum og hjá hinu opinbera. Sé litið til hins opinbera er ljóst að fjölmörg störf vantar á þann markað. Fjölgun opinberra starfa hefur verið talsvert minni en sem nemur fjölgun landsmanna undanfarin 10 ár og hefur því framleiðni opinberra starfsmanna án efa aukist á þessu árabili. Enn vantar fjöldann allan af hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og öðrum stéttum í íslenskt heilbrigðiskerfi og fyrir COVID var því lýst af starfsfólki að það byggi við „neyðarástand“.
    Þá væri einnig skynsamlegt að fjölga starfsfólki í menntakerfinu sem býr núna við fordæmalausa eftirspurn og álag. Lögreglumenn eru færri nú en fyrir 10 árum þrátt fyrir mikla fjölgun landsmanna og ferðamanna. Þá er mikil þörf á fleiri sálfræðingum og félagsráðgjöfum innan heilsugæslu, skóla, fangelsa, barnaverndarkerfis og annarra opinberra stofnana svo eitthvað sé nefnt. Allt eru þetta arðbær störf sem skapa verðmæti og bæta opinbera þjónustu gagnvart almenningi.
    Hins vegar skiptir einnig gríðarlegu máli að skapa störf á einkamarkaðinum þar sem orðið hefur gríðarlegt áfall. Hér skiptir nýsköpun miklu máli en slíkur stuðningur skilar sér strax í fjölgun tækifæra á einkamarkaðinum. Því er það dapurlegt að einungis 5% af umfangi COVID-aðgerða stjórnvalda renna til nýsköpunar.

Vantar fjárfestingarátak.
    Hér þurfa stjórnvöld að hugsa stórt og frumlega. Má þar nefna hugmyndir eins og stórátak í nýsköpun, tækni, orkuskiptum og umhverfismálum, sjónvarps- og kvikmyndagerð, umfangsmikla grænmetisframleiðslu, eflingu liststarfsemi, hönnunar og rannsókna, tækniþróun í heilbrigðisþjónustu og tölvulausnum af ýmsum toga, lyfjaþróun, iðnaði, tölvuleikjaþróun og samgönguumbótum, svo eitthvað sé nefnt.
    Í umsögn ASÍ segir: „Ráðast þarf í stórfelldar fjárfestingar í innviðum og mannauði. Fjárfestingar sem búa til verðmæt störf til framtíðar og styðja við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.“
    Í raun vantar umfangsmikið fjárfestingarátak en eftir slíku hefur Samfylkingin kallað frá því að kreppan hófst. Ísland þarf að vaxa upp úr þessari kreppu en svo að það megi vera þarf að huga að undirgróðri íslensks atvinnulífs. BSRB hefur einnig hvatt ríkisstjórnina til að setja sér það markmið að vaxa út úr kreppunni með því að beita afli ríkisfjármála með markvissum hætti.
    Hægt er að taka undir þessi orð SA úr umsögn þeirra þar sem segir: „Það þarf að snúa vörn í sókn með langtímahugsun að leiðarljósi. Leiðin út úr áfallinu felst í efnahagslegum vexti með bættri framleiðni og aukinni verðmætasköpun með hliðsjón af nýjum veruleika.“
Hins vegar vekur það athygli að endurskoðuð fjármálastefna nær einungis til ársins 2022 en ný fjármálaáætlun sem bráðlega verður kynnt og byggist á fjármálastefnunni mun ná til næstu fimm ára eða til 2028.

Enn er haldið í aðhaldskröfu gagnvart sjúkrahúsum og skólum!
    Við lestur þessarar endurskoðunar á fjármálastefnu er virkilega dapurlegt að sjá að ríkisstjórnin vill halda í fyrri aðhaldskröfur á opinberrar stofnanir. Það er meira að segja haldið í aðhaldskröfu á þessu ári og næstu tvö árin á sjúkrahús, heilsugæslur, öldrunarstofnanir og skólana sem eru allt stofnanir sem eru þandar til hins ýtrasta.
    Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin vill halda slíku fram gagnvart fólki í framlínu í heimsfaraldri?
    Þá er einnig aðhaldskrafa á listafólk, menningu, nýsköpun, rannsóknir og fjöldann allan af opinberri starfsemi sem ætti ekki að búa við aðhaldskröfu á þessum tímum.
    Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa sagt að aðhaldskrafan sé nauðsynleg svo að hægt sé að „koma í veg fyrir sóun“ hjá hinu opinbera. 1. minni hluti telur hins vegar að það sé hægt að fullyrða að „sóun“ er ekki vandamál hjá Landspítalanum eða heilsugæslunni sem búa núna við sögulegt álag vegna COVID. Eða hjá skólunum sem eru að drukkna í umsóknum vegna bágs atvinnuástands.
    Þá hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar einnig sagt að þessi aðhaldskrafa sé svo lítil að hún skiptir nánast engu. Það er ekki rétt og því til staðfestingar er hér vitnað í hvað segir í greinargerð með gildandi fjármálaáætlun um aðhaldskröfurnar sem hér er verið að halda í:
    „Gert er ráð fyrir að aðhaldsmarkmiðin skili 5,3 ma.kr. lækkun á útgjaldavexti að nafnvirði á fyrsta ári tímabilsins eða sem svarar til 0,6% veltu frumgjalda ársins 2019. Árlegt aðhald minnkar þegar líður á tímabilið og er áætlað að uppsöfnuð lækkun á útgjaldavexti ríkissjóðs nemi 20,5 ma.kr. í lok tímabilsins. Í heildina nemur uppsafnað aðhald út tímabilið 57,7 ma.kr“

Ekki króna til viðbótar í bótakerfið.
    Samkvæmt þessari nýju endurskoðun á fjármálastefnunni verður ekki bætt í tilfærslur velferðarkerfisins á næstu árum „nema til komi samsvarandi lækkun útgjalda í öðrum tilfærslukerfum“ eins og þar segir.
    Þetta er sömuleiðis virkilega gagnrýnisvert. Tilfærslukerfi er annað orð yfir bótakerfi velferðarkerfisins og það er augljóst að hér þarf sums staðar að bæta í vegna ástandsins.
    Fjármálaráð segir í umsögn sinni: „Áfallið dreifist ójafnt. Þeir sem hafa trygga atvinnu og fá umsamdar kjarabætur halda kjörum sínum og óbreyttri skattbyrði meðan aðrir missa störf sín og sjá fram á verulega skerðingu lífskjara.“
    Fátækt er ekki bara ómanneskjuleg heldur er hún einnig efnahagslega óskynsamleg. Stjórnvöld þurfa því að beita tilfærslukerfum sínum til að sporna við slíku og ekki síst á tímum þar sem atvinnuleysi er sögulegt.
    Fátækt fólk hættir ekki að vera til þótt bætur séu lágar og því skiptir miklu máli að velferðarkerfi sé bæði myndarlegt og örlátt. Að missa fólk í fátækt og hvað þá í langtímafátækt er ömurlegt og ætti því ekki að vera skrifað í fjármálastefnuna að ekki sé stefnt á að setja krónu til viðbótar í bótakerfið nema lækkun komi á móti. Þetta er ekki góð pólitík.

Niðurskurður eftir 2022?
    Í greinargerð með fjármálastefnunni segir: “Gildistími þessarar stefnu er einungis til og með árinu 2022. Til að ná framangreindum markmiðum er ljóst að auka þarf aðhaldsstig opinberra fjármála á síðari hluta gildistíma næstu fjármálaáætlunar með því að hægja á vexti útgjalda og aðlaga þau að umfangi tekjuhliðar hins opinbera. Þannig verði greiðsluafkoma og heildarjöfnuður með þeim hætti að lækka megi skuldir hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu.“
    Þetta þýðir á mannamáli að eftir árið 2022 stefnir að öllu óbreyttu í blóðugan niðurskurð þar sem þá munu hinar ströngu fjármálareglur Sjálfstæðisflokksins aftur taka gildi. Þær reglur gera t.d. ráð fyrir að afkoma hins opinbera verði jákvæð yfir fimm ára tímabil og mjög hröð lækkun ríkisskulda sem er engin leið að ná nema með niðurskurði á þjónustu þeirra sem nýta sér opinbera þjónustu, svo sem aldraðra, námsmanna, sjúklinga, öryrkja og fátækra.
    1. minni hluti vekur sérstaka athygli á stöðu sveitarfélaga en þau eru mörg hver í miklum vanda sem þarf að huga að. Þau eru ábyrg fyrir ýmiss konar nærþjónustu sem er almenningi svo kær.

Hlutverk hins opinberra í kreppu.
    Í svona djúpri kreppu segja fjölmargir fræðimenn að í raun geti hið opinbera ekki gert of mikið. Séu mistök stjórnvalda í fyrri kreppum greind kemur í ljós að þau liggja helst í því að það hafi verið gert of lítið.
    Í umsögn ASÍ segir: „Draga þarf lærdóm af síðustu kreppu og neikvæðri reynslu þeirra þjóða sem réðust í niðurskurð og veikingu félagslegra innviða. Styrkja þarf öryggisnetin fremur en að ráðast í niðurskurð og aðhaldsaðgerðir sem munu dýpka og lengja kreppuna. Þar er forgangsatriði að tryggja framfærslu fólks, einkum með því að hækka grunnbætur atvinnuleysistrygginga, hækka þak tekjutengingar lægstu tekjuhópa, lengja heildarbótatímabilið og fjárfesta í menntun og færni atvinnuleitenda.“
    Þá segir fjármálaráð í sinni umsögn: „Stærsta verkefni opinberra fjármála nú er að kljást við atvinnuleysi og vinna gegn því að það verði langvinnt. Takist það ekki getur það haft alvarlegar efnahagslegar og félagslegar afleiðingar.“
    1. minni hluti tekur undir þessi orð og bendir einnig á að þegar eftirspurnin á einkamarkaðinum hrynur ber hinu opinbera að skapa eftirspurn á móti. Þá ber stjórnvöldum að aðstoða fólk sem lendir tímabundið í vandamálum, svo sem atvinnuleysi. Slíkt heldur fólki frá fátækt en skapar einnig aukna eftirspurn og neyslu þar sem fólk með tiltölulega lágar tekjur neyðist til að eyða þeim öllum.
    Þá þarf atvinnulífið og einkaframtakið súrefni og þar með talið lækkun vissra gjalda og skatta. Ríkið ætti einnig að beina styrkjum inn í ákveðna hluta atvinnulífsins. ASÍ segir: „Stjórnvöld þurfa og eiga að beita ríkisfjármálum til að verja launafólk, heimili og samfélagið í heild fyrir langvarandi skaða af efnahagskrísunni.“
    Þess vegna skiptir miklu máli að hér sé ríkisstjórn sem hugsar um fólk en ekki bara fyrirtæki. Ríkisstjórn sem hugsar um að efla „bæði“ opinbera þjónustu og einkaframtakið. Ríkisstjórn sem skapar störf en niðurgreiðir ekki bara uppsagnir þeirra. Ríkisstjórn sem er starfi sínu vaxin en treystir ekki bara á hina „sjálfvirku sveiflujafnara“ ríkisfjármálanna.

Alþingi, 2. september 2020.

Ágúst Ólafur Ágústsson.