Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 337  —  302. mál.
Stjórnartillaga.Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2020 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.


Frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2020 frá 23. október 2020 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/631 frá 17. apríl 2019 um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir nýjar fólksbifreiðar og ný, létt atvinnuökutæki og um niðurfellingu reglugerða (EB) nr. 443/2009 og (ESB) nr. 510/2011.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168/2020 frá 23. október 2020 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (fskj. I) og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/631 frá 17. apríl 2019 um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir nýjar fólksbifreiðar og ný, létt atvinnuökutæki og um niðurfellingu reglugerða (EB) nr. 443/2009 og (ESB) nr. 510/2011 (fskj II).
    Þar sem innleiðing fyrrnefndrar gerðar krefst breytinga á lögum var ákvörðun nr. 168/2020 tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir. Þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.

2. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þó er um að ræða tiltölulega lágt hlutfall af heildarfjölda þeirra gerða sem Evrópusambandið samþykkir. Í skýrslu utanríkisráðuneytisins, „Gengið til góðs – skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins“, kemur fram að frá árinu 1994 til ársloka 2016 hafi Ísland tekið upp 13,4% þeirra gerða sem Evrópusambandið samþykkti á sama tímabili.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/631 frá 17. apríl 2019 um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir nýjar fólksbifreiðar og ný, létt atvinnuökutæki og um niðurfellingu reglugerða (EB) nr. 443/2009 og (ESB) nr. 510/2011.
    Það markmið sem að er stefnt með reglugerðinni er að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá ökutækjaflota á Evrópska efnahagssvæðinu í skrefum til ársins 2030.
    Með Parísarsáttmálanum var sett markmið um að halda hækkun loftslagshita á jörðinni frá iðnbyltingu undir 2°C. Í því ljósi er talið óumflýjanlegt að umbylta samgöngukerfi allra aðildarlanda sáttmálans þannig að kolefnisfótspor verði minna en nú er og mögulega ekkert. Var í þeim tilgangi talið nauðsynlegt að herða þau markmið og aðgerðir að draga úr koltvísýringslosun sem mælt hafði verið fyrir um í reglugerðum (EB) nr. 443/2009 og (ESB) nr. 510/2011 er varða mengunarvarnir einkabifreiða annars vegar og hins vegar léttra atvinnuökutækja. Nýja reglugerðin nær yfir gildissvið beggja reglugerðanna, þ.e. bæði til einkabifreiða og léttra atvinnuökutækja. Við undirbúning að setningu reglugerðarinnar innan Evrópusambandsins var haft samráð við efnahags- og félagsmálanefnd Evrópusambandsins sem og svæðanefnd sambandsins.
    Í gerðinni eru settir staðlar um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings frá nýjum ökutækjum sem og um skyldur framleiðenda ökutækja í þeim efnum. Þá eru settar fram reglur um ýmsar heimildir framleiðenda til að ná þessum markmiðum.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar geta framleiðendur þurft að greiða umframlosunargjald þegar þeir ná ekki markmiðum um meðaltalslosun koltvísýrings frá nýjum ökutækjum. Slíkt gjald er í ríkjum ESB greitt til framkvæmdastjórnar ESB, en í drögum að aðlögunartexta við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku gerðarinnar í EES-samninginn kemur fram að í tilvikum þeirra EFTA-ríkja sem jafnframt eru aðilar að EES skuli Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, annast álagningu gjaldsins. Ekki er að finna heimild í umferðarlögum, nr. 77/2019, til að ESA leggi umrætt umframlosunargjald á framleiðendur ökutækja. Því kallar innleiðing gerðarinnar á lagabreytingu hér á landi. Sú lagabreyting mun þó í framkvæmd ekki hafa nein áhrif hér á landi þar sem framleiðendum ökutækja er ekki til að dreifa hér á landi. Framleiðendur færri en 1.000 ökutækja sem eru skráð árlega á Evrópska efnahagssvæðinu verða skv. 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar almennt undanþegnir greiðslu umframlosunargjalds. Þá geta sjálfstæðir framleiðendur færri en 10.000 nýrra farþegabifreiða eða 22.000 nýrra léttra atvinnuökutækja sem skráð eru á Evrópska efnahagssvæðinu árlega óskað eftir skv. 10. gr. reglugerðarinnar almennri undanþágu frá losunarmarkmiðum sem reiknuð eru samkvæmt aðferðum I. viðauka reglugerðarinnar, að nánari skilyrðum uppfylltum.

5. Samráð við Alþingi.
    Í reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála er kveðið á um að ESB-gerðir, sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn en taka ekki gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis, skuli sendar utanríkismálanefnd til umfjöllunar. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/631 var send utanríkismálanefnd til samræmis við framangreindar reglur. Í bréfi frá utanríkismálanefnd Alþingis, 14. október 2020 kemur fram að nefndin hafi fjallað um gerðina og óskað eftir áliti umhverfis- og samgöngunefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Í álitum nefndanna kemur fram að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn. Utanríkismálanefnd gerir ekki heldur athugasemdir við upptöku hennar í EES-samninginn.


Fylgiskjal I.Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 268/2020 frá 23. október 2020
um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn (Umhverfismál).


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s0337-f_I.pdfFylgiskjal II.Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/631 frá 17. apríl 2019 um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir nýjar fólksbifreiðar og ný, létt atvinnuökutæki og um niðurfellingu reglugerða (EB) nr. 443/2009 og (ESB) nr. 510/2011.


www.althingi.is/altext/pdf/151/fylgiskjol/s0337-f_II.pdf