Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Prentað upp.

Þingskjal 653  —  2. mál.
Umræða.

Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Fordæmalausir tímar kalla á fordæmalausar lausnir. Þær vantar í fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Í áætluninni glittir í 5 ára framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar og því miður gæti sú sýn verið mun bjartari en hér birtist.
    Of lítið er gert í atvinnusköpun og fjárfestingum sem þó er eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda í sögulega miklu atvinnuleysi. Of lítið er tekið utan um þá hópa sem reiða sig á opinbera þjónustu og greiðslur hvort sem það eru aldraðir, öryrkjar, sjúklingar, námsmenn, atvinnulausir eða fátækt fólk. Þá er of lítið fjárfest í framtíðinni, hvort sem litið er til loftslagsmála eða nýsköpunar. 1. minni hluti vill beita ríkisfjármálunum af enn meiri þunga svo hægt sé að fjárfesta í fólki og fyrirtækjum. Svo hægt sé að tala um raunverulega viðspyrnu þar sem tölurnar tala sínu máli.
    Sé hins vegar farið yfir tölurnar sem birtast í þessari fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar kemur margt dapurt í ljóst. Förum yfir það:

Hver er þróun framlaga til lykilmálefnasviða hins opinbera?
     1.      Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar:
             Lækkun framlaga um 30% á næstu 5 árum þrátt fyrir allt tal um að hér eigi að veðja á nýsköpun. Lækkunin er mjög mikil og hröð eftir 2022.
     2.      Umhverfismál (loftslagsmálin):
                  a.      Aukningin er einungis um 7,7% á næstu fimm árum þrátt fyrir endalausa blaðamannafundi og blaðagreinar um stórátak í loftslagsmálum. Aukningin á 5 árum er einungis um 1,9 milljarðar sem er minna en 0,1% af landsframleiðslu.
                  b.      Enn fer minna en 1% af landsframleiðslu til umhverfismála eða um 3% af fjárlögunum. Í nýjum fjárlögum ríkisstjórnarinnar er viðbótin til umhverfismála einungis 0,1% af landsframleiðslu.
                  c.      Sé skoðuð aukningin sem varð á milli umræðna um fjármálaáætlun frá því október og núna kemur margt forvitnilegt í ljós. Aukningin til umhverfismála fyrir næsta ár er einungis 0,3%. Aukningin fyrir árið 2022 er 1,2%. Aukningin fyrir árið 2023 er 1,8%, fyrir árið 2024 er breytingin 2,5% og loks er aukningin frá októberplagginu og til desemberplaggsins um 3,5%. Þessi litla aukning til umhverfismála gerist á sama tíma og ríkisstjórnin hefur ítrekað boðað frekari aðgerðir í umhverfismálum.
     3.      Hjúkrunar- og endurhæfingarlífeyrir:
              Stendur nánast í stað næstu 5 árin þrátt fyrir vaxandi öldrun þjóðarinnar.
     4.      Samgöngumál:
             Lækkunin nemur tæplega 30% á næstu 5 árum þrátt fyrir brýna fjárfestingarþörf um allt land.
     5.      Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál:
             Lækkun um tæp 14% á næstu 5 árum þrátt fyrir allt tal um gildi menningar og íþrótta, ekki síst á tímum Covid.
     6.      Framhaldsskólar:
             Lækkunin nemur tæplega 7% á næstu 5 árum þrátt fyrir allt tal um menntasókn.
     7.      Húsnæðisstuðningur:
             Lækkunin nemur rúmlega 14% á næstu 5 árum þrátt fyrir erfiða stöðu fólks á húsnæðismarkaði, ekki síst hjá ungu fólki.
     8.      Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
             Lækkunin nemur tæplega 20% á næstu 5 árum.
    Því til viðbótar er sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu heilbrigðismála, sveitarfélaga og stöðu einstakra hópa, svo sem aldraðra og öryrkja. Þær áhyggjur eru því miður ekki nýjar af nálinni og hefur 1. minni hluti ítrekað þær í fyrri nefndarálitum um fjárlög, fjármálaáætlun og fjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar.

Sérstök aðhaldskrafa á sjúkrahús og skóla.
    Sérstaklega er ámælisverð sú aðhaldskrafa sem kemur fram í þessari fjármálaáætlun. Uppsöfnuð lækkun framlaga ríkisins vegna hennar nemur rúmlega 17 milljörðum á tímabilinu.
    Fyrir næstu 2 ár er sett sérstök aðhaldskrafa á heilbrigðisstofnanir, öldrunarstofnanir og skóla. Þetta er gert á tímum Covid og á tímum þar sem mjög hefur reynt á þessar lykilstofnanir. Þetta er sérkennilegt í ljósi þess að sumar stofnanir ríkisins, svo sem dómstólar, búa ekki við aðhaldskröfu á sama tíma. Því til viðbótar mun þessi aðhaldskrafa á sjúkrahús og skóla falla niður eftir 2 ár.

Niðurskurður eftir 2 ár?
    Í fjármálaáætluninni glittir í sársaukafullan niðurskurð eftir 2 ár en í upprunalegri útgáfu af fjármálaáætluninni áttu „afkomubætandi ráðstafanir“ að nema tæplega 40 milljörðum kr. eftir þann tíma. En meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að aðhald verði aukið enn frekar og núna stefnir í tæplega 43 milljarða kr. aðhald á ári fyrir árin 2023–2025.
    Fyrsti minni hluti hefur talað mjög skýrt um að það sé fullkomlega eðlilegt að hafa meiri halla á ríkissjóði en þann sem þessi ríkisstjórn stefnir að og að tekinn verði lengri tími til að greiða þann halla niður. Ísland er að glíma við dýpstu kreppu sína í 100 ár og verði of lítið gert verður það kostnaðarsamara til lengri tíma en ella.
    Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og OECD hafa hvatt ríki heims til að verja miklum fjármunum til að styðja við atvinnulífið og stofnanir hins opinbera. Þess vegna er réttlætanlegt að mati 1. minni hluta að auka fjárveitingar hins opinbera enn meira og taka lengri tíma í að greiða þann halla niður. Núna er tíminn til að beita ríkisfjármálunum myndarlega þegar kemur að grænum skrefum, fjárfestingu, nýsköpun og opinberri þjónustu.
    Ef farið verður í harkalegan niðurskurð eftir rúm 2 ár mun það bitna á þeim hópum sem njóta opinberrar þjónustu. Og hverjir eru það? Það er fátækt fólk, öryrkjar, eldri borgarar, námsmenn og sjúklingar. Það eru þessir hópar sem nýta sér þjónustu hins opinbera og langstærstur hluti ríkisfjármálanna á að sjálfsögðu fara til félags- og heilbrigðismála.

Atvinnuleysið er meginvandamálið.
    Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár nemur einungis 1% af landsframleiðslu og dugar engan veginn til að mæta einni dýpstu kreppu í 100 ár. Atvinnuleysi á einungis að minnka um 1 prósentustig á næsta ári en beinu störfin sem verða til á næsta ári í svokölluðu fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar eru um 1.200. Það er allt of lítið þegar um 20.000 manns eru atvinnulausir og önnur 18.000 störf hafa horfið af vinnumarkaðnum á árinu. Og þá renna 85% þeirra starfa sem fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar skapar til karla.
    Til að setja þær tölur í samhengi eru 20.000 störf samanlagt öll störfin á Akureyri, Austfjörðum og Vestfjörðum og fari atvinnuleysi upp í 30.000 manns, eins og heyrst hefur, getum við bætt Reykjanesbæ við þennan dapurlega samanburð.
    Því þarf að innleiða miklu öflugra fjárfestingarátak sem byggist á umfangsmikilli atvinnusköpun, bæði hjá hinu opinbera og hjá einkaaðilum.
    Þá eru atvinnuleysisbætur enn of lágar. Auðvitað er verið að setja mikla fjármuni í atvinnuleysisbætur og tekur heildarupphæð atvinnuleysisbótanna að sjálfsögðu mið af þessu mikla atvinnuleysi en að ætlast til að fólk lifi á rúmlega 260.000 kr. eftir skatt þegar tekjutengda tímabilinu lýkur er ekki ásættanlegt. Þá er tímabilið sem fólk á rétt á atvinnuleysisbótum of stutt.

Bjartsýnar forsendur.
    Sem fyrr eru forsendur fjármálaáætlunarinnar fullbjartsýnar að mati 1. minni hluta fjárlaganefndar. Samfylkingin hefur áður bent á of bjartsýnar spár og forsendur stjórnvalda og því miður hefur sú gagnrýni iðulega raungerst. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að verðbólga verði 2,5% árin 2023–2025. Það er sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af verðbólgunni en við svona aðstæður hefur hún iðulega farið á flug, ekki síst eftir breytingar á gengi krónunnar sem svo miklu stjórnar. Krónan er sem fyrr bleiki fíllinn í stofunni sem íslenskt atvinnulíf þarf að ræða mun dýpra á næstu misserum.

Alþingi, 16. desember 2020.

Ágúst Ólafur Ágústsson.