Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 660  —  2. mál.
Síðari umræða.Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025.

Frá 4. minni hluta fjárlaganefndar.


    Lög um opinber fjármál hafa vægast sagt fengið eldskírn á yfirstandandi kjörtímabili. Það kemur glögglega í ljós í þeim fjármálaáætlunum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram á kjörtímabilinu. Nú er til umfjöllunar næstsíðasta fjármálaáætlun hennar og tekur til áranna 2021– 2025. Hún leggur línurnar í stefnumótun ríkisstjórnarinnar þar til ný fjármálaáætlun verður lögð fram næsta vor. Gildistími hennar verður því aðeins 4–6 mánuðir. Ef fram fer sem horfir þá tekur sennilega allt önnur ríkisstjórn við stjórnartaumunum að loknum kosningum næsta haust. Ný ríkisstjórn kemur þannig með nýjar áherslur og nýja fjármálaáætlun vorið 2022.
    Fjármálaráð bendir á það í umsögn sinni að við lok kjörtímabils hverrar ríkisstjórnar skapist ákveðinn vandi sem lög um opinber fjármál geri ekki ráð fyrir. Um það segir fjármálaráð: „Vandinn birtist í því að oft getur verið fyrirsjáanlegt að áskoranir séu framundan sem þurfi að bregðast við á næsta kjörtímabili enda þótt úrlausn þeirri eigi sér stað utan kjörtímabils núverandi valdhafa. Að bregðast ekki við vandamálum getur leitt til andvaraleysis og nærsýni.“ 1
    Nú skapa aðstæður hvata fyrir ríkisstjórnina til að fresta erfiðum aðgerðum þar til eftir kosningar. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur gert ráð fyrir því í fjármálaáætlun að stöðva þurfi skuldasöfnun fyrir árið 2025. Ekki er þó gert ráð fyrir sérstökum aðgerðum til að draga úr útgjaldavexti fyrr en á seinni árum áætlunarinnar. Hér er því boltanum kastað til næstu ríkisstjórnar og henni m. a. gert að bæta afkomu ríkissjóðs árlega um 37 milljarða kr. árin 2023–2025.
    Það leynir sér ekki að fjármálaáætlun ber með sér að uppsöfnuðum COVID-vanda þessarar ríkisstjórnar verður kastað í fangið á þeirri næstu. Óvíst er hvort hægt verði að grípa til aðgerða til að draga úr skuldasöfnun á næstu mánuðum án þess að það bitni harkalega á hagkerfinu. Nauðsynlegt er að beita öllum ráðum til varnar tilfærslukerfunum og hamla hvers konar niðurskurði hjá hinu opinbera að svo stöddu. Einnig væri óverjandi að freistast til að drýgja tekjur ríkissjóðs með aukinni skattheimtu á slíkum samdráttartíma. Slíkt myndi einungis leiða til enn frekari niðursveiflu í hagkerfinu og auka ójöfnuð og misskiptingu í samfélaginu. Það er því skiljanlegt að ekki sé áætlað að grípa til afkomubætandi aðgerða fyrr en á seinni árum áætlunarinnar.
    Ný ríkisstjórn fær það vandasama verkefni að draga úr skuldasöfnun og tryggja vöxt hagkerfisins á næstu árum. Það kemur í ljós eftir næstu kosningar hvort það verði gert með gamaldags niðurskurði eða hvort leitað verði nýrra leiða til að koma í veg fyrir að afkomubætandi ráðstafanir bitni á fólkinu.

Heilbrigðis-, öldrunar- og menntastofnanir áfram krafðar um aðhald í rekstri.
    Í fjármálaáætlun eru sett fram aðhaldsmarkmið. Gerð er 2% almenn aðhaldskrafa á árunum 2021–2022 og 0,5% aðhaldskrafa á heilbrigðis-, öldrunar- og menntastofnanir. Hins vegar er fallið frá aðhaldskröfu á þessar stofnanir á árunum 2023–2025 og almenna aðhaldskrafan lækkuð í 1%. Við höfum þegar horft upp á neikvæðar afleiðingar þess að krefja heilbrigðisstofnanir um aðhald í rekstri. Þar er búið að skera niður allt sem hægt er að skera niður og öllum má vera ljóst að frekari niðurskurður kemur harkalega niður á þjónustunni. Það er óskiljanlegt með öllu að þessari niðurskurðarkröfu sé haldið til streitu næstu tvö árin en verði síðan felld brott eftir það. Eðlilegra væri að snúa þessu við og gera minni kröfur um aðhald nú á tímum COVID en auka þær ef þörf krefur, þegar hagvöxturinn tekur við sér og horfur í efnahagsmálum batna.
    Fjórði minni hluti telur þó almennt alrangt að kalla eftir aðhaldsaðgerðum í heilbrigðisþjónustu. Við eigum að sjá til þess að allar heilbrigðisstofnanir séu búnar nýjustu tækni og nægum mannafla. Við eigum ekki að þurfa að horfa upp á nokkurn einstakling finna sig knúinn til útvega Landspítalanum nauðsynleg tæki til bjargar mannslífum af því að heilbrigðisyfirvöld draga lappirnar og gera það ekki. Við eigum ekki að þurfa að horfa upp á fjölda aldraðra í óvissu og vanlíðan í bið eftir varanlegu búsetuúrræði. Aldraðir neyðast jafnvel til að bíða eftir hjúkrunarrými inniliggjandi á Landspítala vegna þess að heilbrigðisyfirvöld vilja ekki semja við einkaaðila um rekstur hjúkrunarrýma.
    Við eigum ekki að þurfa að búa við menntakerfi sem fær hverja falleinkunnina á fætur annarri.

Ráðstafanir árin 2023–2025 til að bæta afkomu.
    Fjármálaáætlun gerði upphaflega ráð fyrir 32 milljarða kr. óútfærðum ráðstöfunum árlega á tímabilinu 2023–2025 til að draga úr útgjaldavexti og auka tekjur ríkissjóðs. Nú liggur fyrir að auka þarf umfangið úr 32 milljörðum kr. í 37 milljarða kr. Til samanburðar er gert ráð fyrir því að aðhaldsmarkmið skili á næsta ári 5 milljarða kr. lækkun á útgjaldavexti. Hér er því um háar fjárhæðir að ræða. Það er eðlilegt að þessum ráðstöfunum sé ekki lýst nánar í fjármálaáætlun, enda verður útfærsla þeirra eitt helsta viðfangsefni næstu ríkisstjórnar.
    Fjármálaráðherra hefur þegar gefið til kynna hvaða leið Sjálfstæðismenn fari í þessum efnum. Á bls. 102 í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun birtast þessi áform. Þar segir: „Ríkið hefur möguleika á að mæta fjárþörf með andvirði af sölu eigna. Áformum um sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka var slegið á frest en ef af þeirri sölu yrði væri unnt að draga úr fjármögnunarþörf eða lækka skuldir á móti. Slík sala gæti verið vænlegur kostur á síðari hluta fjármálaáætlunar og þar með yrði hægt að draga úr skuldaaukningu fyrr en ella.“ 2
    Þeir vilja sem sagt selja gullegg sem hefur skilað ríkissjóði 65 milljörðum kr. í arðgreiðslur frá því árið 2016. Bitur reynslan ætti að hafa kennt okkur að sala ríkiseigna skilar oftar en ekki margföldum gróða til kaupendanna á meðan þjóðin tapar. Við munum vel eftirmála einkavæðingarinnar upp úr síðustu aldamótum. Lítill hópur útvalinna gæðinga hagnaðist stórfenglega en þjóðin sat eftir með sárt ennið. Þá er okkur í fersku minni hvernig staðið var að sölu Landsbankans á eignarhlut hans í Borgun. Enn í dag bíðum við svara við fjölda spurninga um rekstur Lindarhvols sem sá um sölu á eignum sem ríkinu áskotnuðust vegna stöðugleikaframlaga.

Ekki gert ráð fyrir nauðsynlegum úrbótum.

    Lengi hefur verið þörf á nauðsynlegum aðgerðum á hinum ýmsu málefnasviðum en ríkisstjórnin hefur ítrekað hafnað frekari fjárheimildum til úrbóta. Þar vegur þyngst uppsöfnuð kjaragliðnun almannatryggingaþega sem nemur tugum prósenta. Ríkisstjórnin og forverar hennar hafa ekki fylgt settum lögum sem kveða á um lögbundnar leiðréttingar almannatrygginga 1. janúar ár hvert í samræmi við launaþróun, sbr. 69. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.
    Einnig ber að nefna Landspítalann sem glímir við mikinn uppsafnaðan rekstrarhalla sem ríkisstjórnin ætti að afskrifa á stundinni.
    Það er ekki nóg að byggja hjúkrunarrými þó það sé góðra gjalda vert, það er einnig nauðsynlegt að tryggja fjármagn til reksturs þeirra.
    Margar fleiri stofnanir á vegum hins opinbera búa við fjárskort sem hamlar þeim í að sinna lögbundnum skyldum sínum.
    Það er ámælisvert að ríkisstjórnin ætli ekki að taka á vandanum á gildistíma fjármálaáætlunar.

Nýjar aðferðir til að efla velferð nauðsynlegar.
    Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um staðgreiðslu skatta við innborgun í lífeyrissjóði. 3
    Ef staðgreiðslan yrði tekin strax við innborgun í lífeyrissjóði, en ekki við úttekt eins og nú er, myndi það auka tekjur ríkissjóðs um tugi milljarða króna á ári, án þess að það skerti með nokkrum hætti hagsmuni lífeyrisþegans.
    Þeir sem hafa þegar lagt fyrir í lífeyrissjóð þurfa ekkert að óttast, enda eru breytingar á skattkerfinu aldrei afturvirkar.

Alþingi, 16. desember 2020.

Inga Sæland.1    Álitsgerð fjármálaráðs um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025.
2    Sjá bls. 102 á þskj. 2 í 2. máli á 151 löggjafarþingi. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025.
3    Sjá þskj. 129 í 128. máli á 151. löggjafarþingi. Tillaga til þingsályktunar um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóð.