Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 722, 151. löggjafarþing 362. mál: greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.
Lög nr. 155 29. desember 2020.

Lög um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs.


1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um tímabundnar greiðslur vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna íþróttafélaga sem hófu starfsemi fyrir 1. október 2020 en er gert að fella tímabundið niður starfsemi, að hluta eða öllu leyti, á tímabilinu frá 1. október 2020 til og með 30. júní 2021 vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru.

2. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að stuðla að því að íþróttafélög geti hafið óbreytta starfsemi að nýju eftir að þeim hefur verið gert að fella niður starfsemi á tilteknu tímabili skv. 1. gr., að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnaráðstafana í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru. Með þessu er stefnt að því að sem minnstar raskanir verði á íþróttastarfi til lengri tíma litið vegna faraldursins.

3. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
  1. Íþróttafélag: Lögaðili innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þ.m.t. einstakar deildir sem starfa á vegum lögaðilans.
  2. Launakostnaður: Til launakostnaðar teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir skv. 1. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, ásamt iðgjaldi í lífeyrissjóð, að hámarki 11,5% af iðgjaldsstofni skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, allt að 2% af iðgjaldsstofni samkvæmt gildandi samningi um viðbótartryggingavernd, sbr. 2. og 9. gr. sömu laga, auk tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.
  3. Launamaður: Launamaður skv. 1. tölul. 4. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.
  4. Opinberar sóttvarnaráðstafanir: Ákvarðanir ráðherra sem birtar eru á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, í því skyni að hægja á útbreiðslu heimsfaraldurs kórónuveiru.
  5. Verktakagreiðslur: Tilteknar verktakagreiðslur fyrir störf sem snúa beint að íþróttastarfi viðkomandi íþróttafélags.
  6. Verktaki: Sá sem starfar beint við ástundun, þjálfun og aðstoð hjá íþróttafélagi samkvæmt samningi um verktakagreiðslur.


4. gr.

Yfirstjórn og framkvæmd.
     Ráðherra fer með yfirstjórn samkvæmt lögum þessum. Vinnumálastofnun annast framkvæmd laganna.

5. gr.

Greiðslur vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna íþróttafélaga.
     Heimilt er að greiða íþróttafélagi launakostnað og verktakagreiðslur að undanskildum starfstengdum fríðindum og hlunnindum, svo sem bifreiðastyrkjum, dagpeningum eða húsaleigu, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.
     Skilyrði fyrir greiðslum eru að:
  1. íþróttafélagi hafi verið gert að fella niður starfsemi, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnaráðstafana á tilteknu tímabili skv. 1. gr. eða vegna ákvarðana sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands eða sérsambanda innan vébanda þess sem teknar eru í ljósi fyrrnefndra sóttvarnaráðstafana,
  2. launamaður eða verktaki hafi ekki getað sinnt starfi sínu með hefðbundnum hætti fyrir hlutaðeigandi íþróttafélag á því tímabili sem félaginu hafi verið gert að fella niður starfsemi, sbr. a-lið,
  3. önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður eða verktaki hafi getað sinnt starfi sínu með hefðbundnum hætti fyrir hlutaðeigandi íþróttafélag á því tímabili sem félaginu hafi verið gert að fella niður starfsemi, sbr. a-lið, og
  4. íþróttafélag hafi sannanlega greitt launamanni laun eða verktakagreiðslur á því tímabili sem félaginu hafi verið gert að fella niður starfsemi, sbr. a-lið.


6. gr.

Fjárhæð greiðslna.
     Greiðsla til íþróttafélags skal vera jafnhá launakostnaði eða verktakagreiðslum á því tímabili sem íþróttafélagi hefur verið gert að fella niður starfsemi, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnaráðstafana, sbr. a-lið 2. mgr. 5. gr. Greiðsla getur þó ekki orðið hærri en 400.000 kr. á mánuði fyrir hvern launamann eða hvern verktaka þar sem miðað er við almanaksmánuð, en hlutfallslega lægri fyrir styttra tímabil.

7. gr.

Umsókn um greiðslur.
     Í umsókn um greiðslu skal tilgreina þá launamenn og verktaka sem sótt er um greiðslu fyrir, starfssvið þeirra og þá daga sem þeir gátu ekki sinnt starfi sínu með hefðbundnum hætti fyrir hlutaðeigandi íþróttafélag á því tímabili sem félaginu var gert að fella niður starfsemi vegna opinberra sóttvarnaráðstafana. Íþróttafélag skal sýna fram á að greiðslur samkvæmt umsókn séu sambærilegar fyrri greiðslum til launamanns eða verktaka. Umsókn skal vera skrifleg og henni skulu fylgja fullnægjandi gögn og upplýsingar að mati Vinnumálastofnunar svo að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort skilyrði laga þessara fyrir greiðslu séu uppfyllt, svo sem ráðningarsamningar og samningar við verktaka, launaseðlar, reikningar fyrir verktakavinnu, staðfesting á greiðslu launa og staðfesting verktakagreiðslu, upplýsingar um fyrri greiðslur til launamanna og verktaka sem og upplýsingar um ástæður þess að hlutaðeigandi íþróttafélagi var gert að fella tímabundið niður starfsemi sína, að hve miklu leyti starfsemi hafi verið felld niður og í hve langan tíma.
     Umsóknir skulu afgreiddar þegar allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn hafa borist. Vinnumálastofnun er heimilt að synja um greiðslu hafi nauðsynlegar upplýsingar og gögn ekki borist innan 45 daga frá þeim degi er umsókn um greiðslu barst stofnuninni.
     Umsóknir um greiðslur samkvæmt lögum þessum skulu berast Vinnumálastofnun fyrir 30. september 2021. Hafi umsókn ekki borist fyrir þann tíma fellur réttur til greiðslu niður.

8. gr.

Heimild til öflunar og vinnslu upplýsinga.
     Vinnumálastofnun er heimil öflun og vinnsla upplýsinga frá ríkisskattstjóra, embætti landlæknis, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, hlutaðeigandi íþróttafélögum og sveitarfélögum sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að framfylgja lögum þessum og ber framangreindum aðilum að veita stofnuninni þær upplýsingar sem hún óskar eftir, enda búi þeir yfir þeim. Hið sama á við um öflun nauðsynlegra upplýsinga frá launamönnum og verktökum sem hafa ekki getað sinnt störfum sínum vegna opinberra sóttvarnaráðstafana.
     Við afgreiðslu umsóknar eða við endurskoðun ákvörðunar um umsókn getur Vinnumálastofnun óskað eftir því að íþróttafélag sýni með rökstuðningi og gögnum fram á rétt sinn til greiðslu samkvæmt lögum þessum. Vinnumálastofnun getur leitað umsagnar Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, þess ráðherra sem fer með málefni sóttvarna sem og þess ráðherra sem fer með málefni íþrótta um vafaatriði sem lúta að skilyrðum laganna, eins og við á.

9. gr.

Ósamrýmanlegar greiðslur.
     Ekki skal koma til greiðslna samkvæmt lögum þessum fái íþróttafélag greiðslur vegna launakostnaðar eða verktakagreiðslna á grundvelli annarra úrræða á sama tímabili, svo sem á grundvelli laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir eða á grundvelli laga um vinnumarkaðsaðgerðir.

10. gr.

Ofgreiðslur.
     Íþróttafélag sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um það sem kann að hafa áhrif á rétt þess samkvæmt lögum þessum á ekki rétt á greiðslu.
     Hafi íþróttafélag fengið hærri greiðslur en það átti rétt á eða fengið greiðslur fyrir tímabil þar sem skilyrði laganna voru ekki uppfyllt ber því að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.
     Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu á ofgreiðslum til íþróttafélaga eru aðfararhæfar.

11. gr.

Málskot.
     Stjórnvaldsákvarðanir Vinnumálastofnunar samkvæmt lögum þessum sæta kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Úrskurðir úrskurðarnefndarinnar um endurkröfu á ofgreiðslum samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfir. Um málsmeðferð hjá nefndinni fer samkvæmt ákvæðum laga um úrskurðarnefnd velferðarmála.
     Úrskurðir úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laga þessara eru endanlegir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

12. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara í reglugerð, þ.m.t. um málsmeðferð framkvæmdaraðila.

13. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. desember 2020.