Ferill 549. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 916  —  549. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskeldis, matvæla og landbúnaðar (einföldun regluverks).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.I. KAFLI

Breyting á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008.

1. gr.

    5. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Skráningarskylda.

    Ráðherra er heimilt að kveða á um í reglugerð að starfræksla fiskeldisstöðva á landi, þar sem hámarkslífmassi er allt að 20 tonn á hverjum tíma og starfrækslan er ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sé háð skráningarskyldu í stað útgáfu rekstrarleyfis.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð kröfur, skilyrði og skilmála sem gilda fyrir starfsemi og eru forsenda skráningar, þ.m.t. kröfur um innra eftirlit, úttektir þegar nauðsyn ber til, skýrslugjöf til Matvælastofnunar og að stofnuninni sé heimilt að afla upplýsinga rafrænt og skylda skráningaraðila til að skrá upplýsingar í gagnagrunn sem stofnunin leggur til. Aðili sem er skráningarskyldur skv. 1. mgr. skal skrá starfsemi sína hjá Matvælastofnun. Matvælastofnun skal staðfesta skráningu rekstraraðila og leiðbeina honum um hvaða reglur gilda um starfsemina. Óheimilt er að flytja eldisfisk eða seiði í fiskeldisstöð áður en staðfesting Matvælastofnunar á skráningu hefur verið gefin út.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „Rekstrarleyfishafi“ í 1. málsl. 1. mgr. og á eftir orðinu „rekstrarleyfishafi“ í 4. og 5. mgr. kemur: eða skráningarskyldur aðili skv. 5. gr.
     b.      Á eftir orðinu „Rekstrarleyfishafa“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: eða skráningarskyldum aðila skv. 5. gr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „Rekstrarleyfishafa“ í 1. málsl. kemur: og skráningarskyldum aðila skv. 5. gr.
     b.      Í stað orðanna „rekstrarleyfishafa endurgjaldslaust að afhenda“ í 1. málsl. kemur: að afhenda endurgjaldslaust.
     c.      Á eftir orðinu „rekstrarleyfishafi“ í 2. málsl. kemur: eða skráningarskyldur aðili skv. 5. gr.

4. gr.

    Við 14. gr. a laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Við skráningu skv. 5. gr. skal aðili greiða þjónustugjald samkvæmt gjaldskrá Matvælastofnunar vegna þess kostnaðar sem fellur til við afgreiðslu skráningarinnar. Fyrir úttekt Matvælastofnunar á starfseminni og framkvæmd eftirlits skal greitt þjónustugjald samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á V. kafla laganna:
     a.      Við bætist ný grein, 16. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Afskráning fiskeldisstöðvar.

                      Matvælastofnun er heimilt að afskrá skráða starfsemi og synja um endurskráningu verði aðili uppvís að því að vanrækja þær kröfur sem gilda um skráningu eða brjóta að öðru leyti gegn skilyrðum og skilmálum skráningarinnar. Matvælastofnun ber að senda skráningaraðila tilkynningu um tilefni afskráningar og skal skráningaraðila veittur frestur til andmæla.
     b.      Fyrirsögn kaflans verður: Afturköllun rekstrarleyfis og afskráning fiskeldisstöðvar.

6. gr.

    Á eftir orðinu „rekstrarleyfishafi“ í 1. málsl. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: eða skráningarskyldur aðili.

7. gr.

    Á eftir orðinu „framleiðsluskýrslum“ í 1. mgr. 19. gr. b laganna kemur: skráningarskyldra aðila og.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. c laganna:
     a.      Við a-lið bætist: og ákvörðun Matvælastofnunar um afskráningu.
     b.      Við b-lið bætist: eða skráningarskylds aðila.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 21. gr. a laganna:
     a.      Á eftir orðinu „rekstrarleyfishafi“ í 1. málsl. kemur: eða skráningarskyldur aðili.
     b.      Á eftir orðinu „leyfishafi“ í 1. málsl. kemur: eða skráningarskyldur aðili.
     c.      Í stað orðsins „leyfishafa“ í 2. málsl. kemur: rekstraraðila fiskeldisstöðvar.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. c laganna:
     a.      Á eftir orðinu „rekstrarleyfi“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: eða staðfest skráning skv. 5. gr.
     b.      Á eftir orðinu „rekstrarleyfis“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: eða staðfestrar skráningar.
     c.      Í stað orðsins „rekstrarleyfishafa“ í 4. málsl. 1. mgr. kemur: rekstraraðila.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Starfsemi án rekstrarleyfis eða staðfestrar skráningar.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. d laganna:
     a.      Í stað orðsins „rekstrarleyfishafa“ í 1. mgr. kemur: aðila.
     b.      Á eftir orðinu „skv.“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: 5. gr.
     c.      Við 2. tölul. 1. mgr. bætist: eða staðfestrar skráningar skv. 5. gr.
     d.      Á eftir orðinu „rekstrarleyfishafa“ í a-lið 3. mgr. kemur: eða skráningarskyldan aðila skv. 5. gr.

12. gr.

    Á eftir orðinu „rekstrarleyfishafa“ í 22. gr. laganna kemur: eða skráningarskylds aðila skv. 5. gr.

II. KAFLI

Breytingar á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. mgr. 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Ráðherra getur, að fengnum meðmælum yfirdýralæknis“ kemur: Matvælastofnun getur.
     b.      Við bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ákvörðun um leyfi til innflutnings skal byggjast á viðeigandi áhættumati sem framkvæmt er í samræmi við viðurkennda alþjóðlega staðla og samninga sem Ísland er aðili að. Heimilt er að krefja innflytjanda um upplýsingar um heilbrigði, rannsóknir og meðhöndlun dýra eða erfðaefnis og hverjar aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að meta áhættu innflutnings.

14. gr.

    3. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

    Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: Matvælastofnun.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. málsl. kemur: Matvælastofnun.
     b.      Í stað 2. málsl. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Umsókn um leyfi til slíks innflutnings skal afgreidd samhliða umsókn til Umhverfisstofnunar um leyfi til innflutnings á grundvelli laga um náttúruvernd. Þegar Matvælastofnun og Umhverfisstofnun hafa lokið vinnslu umsóknar skal tilkynna umsækjanda um niðurstöður beggja stofnana.

17. gr.

    Í stað orðanna „Ráðherra er heimilt, ef fyrir liggja meðmæli yfirdýralæknis“ í 1. málsl. 14. gr. laganna kemur: Matvælastofnun er heimilt.

III. KAFLI

Breytingar á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Til innflutnings lifandi dýra eða plantna skal jafnframt afla leyfis Matvælastofnunar í samræmi við lög um innflutning dýra, lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim eða lög um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að flytja inn eftirfarandi lífverur án leyfis Umhverfisstofnunar:
              a.      Búfé.
              b.      Framandi plöntutegundir sem hafa verið notaðar til garðyrkju, túnræktar, jarðræktar, landgræðslu og skógræktar.
              c.      Tegundir sem ráðherra hefur ákveðið með reglugerð að flytja megi inn án leyfis, sbr. 6. mgr.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                      Með umsókn um leyfi skv. 1. mgr. skal fylgja áhættumat sem umsækjandi hefur aflað hjá óháðum aðila og skal þar m.a. koma fram mat á hættu á því hvort viðkomandi lífverur séu ágengar og þeim áhrifum sem það kann að hafa á líffræðilega fjölbreytni. Umsókninni skal jafnframt fylgja greinargerð um þau áhrif sem gera má ráð fyrir að dreifing eða möguleg útbreiðsla hennar hafi á lífríkið og líffræðilegan fjölbreytileika.
     d.      Í stað tilvísunarinnar „4. mgr.“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: 5. mgr.
     e.      Í stað tilvísunarinnar „4. mgr.“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: 5. mgr.
     f.      Í stað tilvísunarinnar „1. mgr.“ í 3. málsl. 5. mgr. kemur 2. mgr.
     g.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um umsóknir og fylgigögn með umsóknum.

19. gr.

    64. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Móttaka og afgreiðsla umsókna.

    Afhenda skal Matvælastofnun umsóknir um leyfi skv. 63. gr. ásamt fylgigögnum. Matvælastofnun skal framsenda umsóknir um innflutningsleyfi fyrir framandi lífverur ásamt fylgigögnum til Umhverfisstofnunar til meðferðar samkvæmt lögum þessum. Umhverfisstofnun metur hvort umsókn um innflutningsleyfi falli undir lög þessi.
    Umsókn um leyfi til innflutnings á framandi lífverum skal afgreidd samhliða umsókn til Matvælastofnunar um leyfi til innflutnings á grundvelli laga um innflutning dýra eða laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Hvor stofnun fyrir sig skal tilkynna umsækjanda hvort umsókn telst fullnægjandi. Þegar Matvælastofnun og Umhverfisstofnun hafa lokið vinnslu umsóknar skal tilkynna umsækjanda um niðurstöður beggja stofnana.

20. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „4. mgr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 67. gr. laganna kemur: 5. mgr.

21. gr.

    5. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um útflutning hrossa, nr. 27/2011.

22. gr.

    Orðin „frá Bændasamtökum Íslands“ í 1. mgr. 5. gr. laganna falla brott.

23. gr.

    7. gr. laganna fellur brott.

V. KAFLI

Breyting á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 4. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. málsl. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Starfsleyfi sem kveðið er á um í 2. mgr. eru gefin út án tímabindingar, enda uppfylli starfsemin skilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem um hana gilda. Þó er heimilt að gefa út starfsleyfi til bráðabirgða við upphaf starfsemi þannig að fóðurfyrirtæki gefist ráðrúm til nauðsynlegra úrbóta á starfsemi sinni, enda sé um smávægilegar athugasemdir opinbers aðila að ræða.
     b.      Orðin „áður en gildistími þess er liðinn“ í 4. málsl. falla brott.

25. gr.

    2. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ráðherra skipar fagráð um velferð dýra og er skipunartími þess þrjú ár.
     b.      3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     c.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Yfirdýralæknir er formaður fagráðsins.

VII. KAFLI

Breyting á lögum um stofnun Matvælarannsókna hf., nr. 68/2006.

27. gr.

    Orðin „sem nefnist Matvælarannsóknir hf.“ í 1. málsl. 1. gr. laganna falla brott.

28. gr.

    Í stað orðanna „sjö mönnum“ í 1. málsl. 4. gr. laganna kemur: fimm fulltrúum.

29. gr.

    Í stað orðanna „Matvælarannsóknum hf.“ í 1. málsl. 7. gr. laganna kemur: Matís ohf.

30. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um Matís ohf.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986.

31. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 1. mgr. bætist: að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Fjallskilasamþykkt öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum nema hún hafi að geyma sérstök ákvæði um gildistöku.

32. gr.

    Í stað orðsins „sauðfjársjúkdómanefnd“ í 2. mgr. 68. gr. laganna kemur: Matvælastofnun.

IX. KAFLI

Breyting á lögum um búfjárhald, nr. 38/2013.

33. gr.

    Í stað orðanna „Ráðherra staðfestir slíka samþykkt og birtir“ í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: Birta skal slíka samþykkt.

X. KAFLI

Breyting á lögum um uppboðsmarkaði sjávarafla, nr. 79/2005.

34. gr.

    Í stað orðanna „ lög nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða“ í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: lög um matvæli.

XI. KAFLI

Breyting á búvörulögum, nr. 99/1993.

35. gr.

    Á eftir 4. mgr. 38. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ábúanda eða leigutaka lögbýlis er heimilt að kaupa greiðslumark til skráningar á lögbýlið. Skal slíkt greiðslumark sérstaklega skráð á nafn leiguliða. Framsal á greiðslumarki samkvæmt þessari málsgrein er heimilt án samþykkis jarðareiganda.

36. gr.

    Við 54. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ábúanda eða leigutaka lögbýlis er heimilt að kaupa greiðslumark til skráningar á lögbýlið. Skal slíkt greiðslumark sérstaklega skráð á nafn leiguliða. Framsal á greiðslumarki samkvæmt þessari málsgrein er heimilt án samþykkis jarðareiganda.

XII. KAFLI

Breyting á lögum um breytingu á lögum um matvæli, lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu (eftirlit, upplýsingagjöf), nr. 33/2018.

37. gr.

    Í stað orðanna „Birta skal“ í 1. efnismálsl. a-liðar 2. gr. laganna kemur: Heimilt er að birta.

38. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skal 28. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. júlí 2021.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum í því skyni að einfalda regluverk á sviði fiskeldis, matvæla og landbúnaðar. Í frumvarpinu er lagt til að starfsumhverfi í fiskeldi verði einfaldað, sérstaklega fyrir minni framleiðendur. Þá eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem miða að því að auka skilvirkni stjórnsýslu og skýra regluverk til hagsbóta fyrir atvinnulíf og samfélag.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í sáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að átak verði gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og áhersla lögð á skilvirka og réttláta stjórnsýslu. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fundaði með nefnd forsætisráðherra um opinberar eftirlitsreglur vorið 2018. Á fundinum kynnti formaður nefndarinnar meðal annars gagnagrunn frá fulltrúum atvinnulífsins í nefndinni, þar sem er að finna ábendingar atvinnulífsins varðandi reglubyrði gildandi laga.
    Í minnisblaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til ríkisstjórnarinnar 1. júní 2018 kemur fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi ákveðið að taka ábendingar og tillögur er lúta að málefnasviðum þess til skoðunar og taka afstöðu til þeirra. Jafnframt yrði leitast við að efla rafræna stjórnsýslu í samræmi við markmið sem ríkisstjórnin samþykkti 24. maí 2018. Ráðuneytið sendi í kjölfarið bréf til stofnana og stjórnvalda sem sinna verkefnum á málefnasviðum ráðuneytisins til að kanna möguleika á einföldun og aukinni skilvirkni á verklagi og regluverki þeirra málaflokka. Óskað var eftir athugasemdum hvort heldur er varðandi lagasetningu eða reglugerðarbreytingar, verkferla og verklag, rafrænar lausnir og rafrænar gáttir, sem til einföldunar og bóta gætu talist að mati viðkomandi stofnana og stjórnvalda.
    Hinn 15. mars 2019 héldu ráðherrar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fund með forstöðumönnum stofnana sem heyra undir ráðuneytið þar sem heildarendurskoðun á eftirlitsreglum ráðuneytisins var kynnt. Í kjölfarið sendi ráðuneytið bréf til stofnananna þar sem fram kemur að í upphafi mundi einföldun afgreiðsluferla vegna leyfisveitinga og bætt þjónusta við leyfisumsækjendur hafa forgang. Hinn 18. júní 2019 skipuðu ráðherrar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins stýrihóp um endurmat eftirlitsreglna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Í stýrihópnum áttu sæti fulltrúar allra stofnana ráðuneytisins, þ.e. fulltrúar Matvælastofnunar, Ferðamálastofu, Fiskistofu, Neytendastofu, Orkustofnunar og Samkeppniseftirlitsins. Hlutverk hópsins var að taka saman tæmandi skrá yfir eftirlitsreglur ráðuneytisins, fylgja eftir staðfestum verk- og tímaáætlunum stofnana, vera vettvangur skoðanaskipta og upplýsingamiðlunar og samstarfsvettvangur stofnana við tillögugerð og innleiðingu rafrænna lausna. Frumvarpið byggist að hluta á vinnu stýrihópsins um mat á eftirlitsreglum þar sem áhersla er lögð á einföldun afgreiðsluferla við leyfisveitingar og bætta þjónustu.
    Vinna ráðuneytisins um einföldun regluverks á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra byggist á aðgerðaáætlun sem skipt er í þrjá áfanga:
     1.      Fyrsti áfangi sneri að breytingum á ýmsum lögum um matvæli og var frumvarp þess efnis lagt fram á 150. löggjafarþingi. Frumvarpið var samþykkt 17. desember 2019 og varð að lögum nr. 144/2019. Í fyrsta áfanga fólst einnig afnám 1.242 reglugerða á sviði landbúnaðar, matvæla, sjávarútvegs og fiskeldis.
     2.      Í öðrum áfanga voru lögð fram tvö frumvörp í apríl 2020 á Alþingi, annars vegar um breytingu á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar og matvæla vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu, sem varð að lögum nr. 101/2020, og hins vegar um breytingu á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu, sem varð að lögum nr. 88/2020. Með lögunum voru 33 lagabálkar felldir brott, nefndum fækkað og stjórnsýsla einfölduð.
     3.      Í þriðja áfanga er unnið að innleiðingu tillagna til einföldunar frá stýrihópi um endurmat eftirlitsreglna og er frumvarp þetta liður í þeim áfanga verkefnisins.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins snýr að einföldun regluverks og aukinni skilvirkni stjórnsýslunnar. Með breytingum á regluverki um fiskeldi er fyrst og fremst komið til móts við minni aðila í landeldi þar sem stefnt er að því að einfalda stjórnsýslu og draga úr kostnaði. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og lögum um innflutning dýra og náttúruverndarlögum sem snúa einnig að því að einfalda leyfisveitingaferli. Lagt er til að leyfi sem Matvælastofnun gefur út til fóðurfyrirtækja sem nota aukefni eða forblöndur í fóðurvörur, framleiða lyfjablandað fóður eða vinna fóður úr aukaafurðum dýra verði ótímabundin. Leyfin eru nú gefin út til 12 ára í senn. Heimild til að gefa út ótímabundin leyfi mun bæði auka skilvirkni og leiða til hagræðingar með lækkun kostnaðar fyrir eftirlitsaðila. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á regluverki um innflutning dýra sem miða að því að auka skilvirkni stjórnsýslu og einfalda ferla gagnvart umsækjendum. Þá er lagt til að opinber birting frammistöðuflokkunar hefjist ekki 1. janúar 2022 heldur verði ráðherra veitt heimild til þess að taka ákvörðun um upphafstíma opinberrar birtingar frammistöðuflokkana. Aðrar breytingar frumvarpsins snúa að því að auka skilvirkni og einfalda ferla, t.d. með tilfærslu verkefna og aukinni samvinnu innan stjórnsýslunnar.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur hvorki gefið sérstakt tilefni til að meta samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, né alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Vinna við einföldun regluverks og frumvarp þetta er afrakstur víðtæks samráðs við stofnanir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þá voru drög að frumvarpi þessu birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is frá 16. desember 2020 til 5. janúar 2021, mál nr. S-270/2020. Umsögn barst frá Viðskiptaráði Íslands. Þá bárust ráðuneytinu umsagnir frá Samtökum smáframleiðenda matvæla 7. janúar 2021 og Umhverfisstofnun 13. janúar 2021.
    Viðskiptaráð fagnar þeim breytingum á skilyrðum útgáfu rekstrarleyfa til starfrækslu fiskeldisstöðva að mögulegt verði að gera hluta starfseminnar skráningarskylda. Þá sé sú breyting til bóta að leyfi í tilteknum flokkum séu gerð ótímabundin líkt og kveðið er á um í frumvarpinu. Muni sú breyting lækka kostnað og skriffinnsku þeirra fyrirtækja sem þurfa á leyfunum að halda og auka fyrirsjáanleika í rekstri þeirra. Þá telur Viðskiptaráð aðrar breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu til að auka skilvirkni og stjórnsýslu og einfalda ferla gagnvart umsækjendum einnig vera til mikilla bóta. Ráðið vísar til þess í umsögn sinni að hagkvæmari leikreglur leiði til bættra lífskjara og séu til þess fallnar að ýta undir nýliðun og samkeppni á innlendum mörkuðum. Viðskiptaráð hvetur til þess að frumvarpið nái fram að ganga.
    Samtök smáframleiðenda matvæla telja þá lagabreytingu sem lögð er til með frumvarpinu hvað fyrirkomulag um skilyrði um útgáfu rekstrarleyfa til starfrækslu fiskeldisstöðva varðar vera skref í rétta átt. Samtökin telja að lítið eldi á fiski í vötnum, tjörnum og lækjum á lögbýlum ætti ekki að þarfnast sérstaks leyfis eða eftirlits. Nánar ætti að kveða á um slíkt eldi í reglugerð. Þessar athugasemdir leiddu til breytinga á 1. gr. frumvarpsins.
    Umhverfisstofnun telur þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, til bóta en lagði til nokkrar orðalagsbreytingar sem tekið hefur verið tillit til. Stofnunin telur breytingarnar til þess fallnar að einfalda stjórnsýslu og auka skilvirkni.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið felur í sér tillögur að efnisbreytingum á gildandi rétti sem miða að því að einfalda regluverk í þágu atvinnulífs og almennings og auka skilvirkni stjórnsýslunnar. Áhrif frumvarpsins felast einkum í því að verkefni verða ýmist flutt til innan stjórnsýslunnar, einfölduð eða felld niður þannig að stjórnsýslan verði skilvirkari og markvissari. Þá verður álögum létt af atvinnulífinu með einföldun á regluverki í starfsumhverfinu og með niðurfellingu rekstrarleyfisskyldu í ákveðnum tilfellum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að lögfesting þess muni hafa í för með sér óveruleg fárhagsleg áhrif á ríkissjóð sem fyrst og fremst munu felast í tilflutningi verkefna innan útgjaldaramma viðkomandi málefnasviðs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagðar til breytingar á núverandi fyrirkomulagi um skilyrði um útgáfu rekstrarleyfa til starfrækslu fiskeldisstöðva þannig að mögulegt verði að gera hluta þeirrar starfsemi skráningarskylda. Með greininni er lagt til að ákvæðið verði í 5. gr. sem var felld brott með lögum nr. 101/2019.
    Í fyrsta lagi er lagt til að ráðherra hafi heimild til að kveða á um í reglugerð að tiltekin starfsemi sé skráningarskyld í stað þess að vera rekstrarleyfisskyld. Með þessu er fyrst og fremst verið að koma til móts við minni aðila í landeldi með einföldun stjórnsýslu að leiðarljósi. Þá er einnig verið að draga úr þeim kostnaði sem þessir aðilar hafa þurft að bera í tengslum við útgáfu rekstrarleyfa. Vinnan við útgáfu rekstrarleyfa getur numið um 50 klst., eða um 477.000 kr. Áætlað er hins vegar að vinna við skráningu nemi 1–5 klst. og kostnaður nemi því 9.350–46.750 kr.
    Dæmi um sambærilegt ákvæði í lögum er að finna í 1. og 3. mgr. 8. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
    Í greininni eru skilyrðin fyrir heimild ráðherra til að kveða á um skráningarskyldu þau að hámarkslífmassi í landeldi sé ekki meiri en 20 tonn á hverjum tíma og að starfsemin sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.
    Í öðru lagi er í greininni lagt til að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð almennar kröfur, skilyrði og skilmála sem gilda eigi fyrir starfsemi og séu forsenda skráningar. Í þessu sambandi eru sérstaklega tilteknar kröfur um innra eftirlit, úttektir þegar nauðsyn ber til, skýrslugjöf til Matvælastofnunar og að stofnuninni sé heimilt að afla upplýsinga rafrænt og skylda skráningaraðila til að skrá upplýsingar í gagnagrunn sem stofnunin leggur til. Þótt framangreindar kröfur séu sérstaklega tilteknar í greininni er hins vegar ekki um tæmandi talningu að ræða og því hægt að kveða á um ýmsar aðrar kröfur, skilyrði eða skilmála í reglugerð.
    Í þriðja lagi er lagt til að skráningarskyldur aðili skuli skrá starfsemi sína hjá Matvælastofnun. Þá er sérstaklega tiltekið að óheimilt sé að flytja eldisfisk eða seiði í fiskeldisstöð áður en staðfesting Matvælastofnunar á skráningu hefur verið gefin út.
    Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að aðili, sem hyggst starfrækja tiltekna starfsemi, skrái fyrirhugaða starfsemi í þjónustugátt Matvælastofnunar. Í ferlinu fær rekstraraðilinn leiðbeiningar um hvaða kröfur eru gerðar til fyrirhugaðrar starfsemi og þarf rekstraraðilinn að lýsa yfir að hann uppfylli þær við skráningu starfseminnar og mun Matvælastofnun í kjölfarið gefa út staðfestingu fyrir skráningu. Slík staðfesting verður gefin út jafnóðum og aðili skráir starfsemi sína eða í kjölfar úttektar Matvælastofnunar á starfseminni.
    Þá er gert ráð fyrir að í reglugerð verði mögulegt að skipta landeldi undir 20 tonnum í mismunandi flokka hvað varðar þær kröfur, skilyrði og skilmála sem gilda eigi fyrir slíkri starfsemi og séu forsenda skráningar. Við smíði reglugerðarinnar verður haft samráð við undirstofnanir og hagsmunaaðila og þess gætt að viðeigandi kröfur og skilyrði gildi fyrir hvern flokk. Á þennan hátt verður mögulegt að koma til móts við minnstu aðilana í fiskeldi og draga úr þeim kostnaði sem þeir hafa þurft að bera í tengslum við leyfisveitingar í sínu smáa fiskeldi, en þess jafnframt gætt að viðeigandi skilyrði gildi um slíka starfsemi eftir því sem nánar verður kveðið á um í reglugerð. Hér er því verið að bregðast við umsögn Samtaka smáframleiðenda matvæla sem barst í kjölfar birtingar draga frumvarpsins í samráðsgátt stjórnvalda, sbr. 5. kafla frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Með greininni er lagt til að þær aðgerðir sem kveðið er á um í 13. gr. laganna varðandi veiðar á fiski sem strýkur úr eldi taki einnig til skráningarskyldra aðila skv. 5. gr.

Um 3. gr.

    Í 14. gr. laga um fiskeldi er kveðið á um eftirlit og skýrslugjöf. Með greininni er lagt til að 6. mgr. 14. gr. nái einnig til skráningarskyldra aðila skv. 5. gr. Þannig er lagt til að auk rekstrarleyfishafa sé skráningarskyldum aðila skv. 5. gr. eða starfsmönnum hans skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlits og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laganna og beri rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila skv. 5. gr. endurgjaldslaust að afhenda sýni sem talin eru nauðsynleg til eftirlits. Þá er einnig lagt til í 2. málsl. 6. mgr. 14. gr. að opinber eftirlitsaðili geti ákveðið að skráningarskyldur aðili skv. 5. gr. auk rekstrarleyfishafa skuli greiða allan kostnað vegna þvingunarúrræða sem framkvæmd eru samkvæmt lögunum og megi innheimta slíkan kostnað með fjárnámi án dóms eða sáttar.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 6. gr.

    Með greininni er lagt til að ákvæði 18. gr. laganna um skaðabætur taki einnig til skráningarskyldra aðila skv. 5. gr. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 7. gr.

    Með greininni er lagt til að 1. mgr. 19. gr. b laganna um birtingu upplýsinga úr eftirliti og um framleiðslu taki einnig til skráningarskyldra aðila skv. 5. gr. Að öðru leyti skýrir greinin sig sjálf.

Um 8. gr.

    Með greininni er lagðar til breytingar á a- og b-lið 19. gr. c laganna þannig að greinin taki einnig til birtingar á ákvörðunum Matvælastofnunar um afskráningu og til ákvarðana um úrbætur sem unnar verða á kostnað skráningarskylds aðila.

Um 9. gr.

    Með greininni er lagt til að ákvæði 21. gr. a laganna um dagsektir taki einnig til skráningarskyldra aðila skv. 5. gr. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 10. gr.

    Með greininni er lagt til að 1. mgr. 21. gr. c laganna um starfsemi án rekstrarleyfis taki einnig til skráningarskyldra aðila skv. 5. gr. Þannig er lagt til að ef fiskeldisstöð er rekin án staðfestrar skráningar skv. 5. gr. skuli Matvælastofnun stöðva starfsemina rétt eins og henni ber að gera í þeim tilvikum sem fiskeldisstöð er rekin án gilds rekstrarleyfis.

Um 11. gr.

    Með greininni er lagt til að ákvæði 21. gr. d laganna um stjórnvaldssektir taki einnig til skráningarskyldra aðila skv. 5. gr. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 12. gr.

    Með greininni er lagt til að ákvæði 22. gr. laganna um refsingar taki einnig til skráningarskyldra aðila skv. 5. gr. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 13. gr.

    Í II. og III. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á regluverki er snýr að innflutningi dýra. Breytingarnar taka mið af tillögum frá Matvælastofnun og Umhverfisstofnun og miða að því að samþætta stjórnsýslu, auka skilvirkni og einfalda ferla þannig að umsækjendur þurfi að sækja um leyfi til innflutnings dýra hjá einni stofnun í stað tveggja.
    Með 13. gr. er lagt til að heimild til að víkja frá banni um innflutning dýra og erfðaefnis þeirra til landsins verði færð til Matvælastofnunar. Í gildandi lögum er kveðið á um að ráðherra geti vikið frá banninu, að fengnum meðmælum yfirdýralæknis. Breytingin miðar að því að stytta boðleiðir og gera stjórnsýslu skilvirkari. Auk þess eru breytingarnar til þess fallnar að aðilar geti fengið umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum þegar við á. Þá er lagt til að skýrar verði kveðið á um hvernig áhætta við innflutning skuli metin þannig að þess sé gætt að slíkar varúðarráðstafanir séu byggðar á viðeigandi mati á áhættu fyrir líf og heilsu manna, dýra og plantna í samræmi við áhættumatsaðferðir sem hafa verið þróaðar af alþjóðlegum stofnunum. Í því sambandi þykir rétt að líta til dæmis til staðla, leiðbeininga og ráðlegginga Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar (OIE). Rétt er að árétta að frumvarpið felur ekki í sér efnislegar breytingar til rýmkunar á reglum sem gilda um innflutning lifandi dýra.

Um 14. gr.

    Gildandi ákvæði 3. gr. laga um innflutning dýra, nr. 54/1990, tekur mið af því fyrirkomulagi að ráðherra veiti leyfi til innflutnings að fengnum meðmælum yfirdýralæknis. Lagt er til að ákvæðið falli brott vegna breytinga sem lagðar eru til í 13. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að heimild til að víkja frá banni um innflutning dýra og erfðaefnis þeirra verði flutt til Matvælastofnunar. Þá er í 13. gr. lagt til að nánar verði kveðið á um það í lögunum hvernig áhætta við innflutning skuli metin.

Um 15. gr.

    Ákvæðið snýr að tilflutningi verkefna frá ráðuneyti til Matvælastofnunar. Greinin þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 16. gr.

    Með greininni eru lagðar til breytingar á 5. gr. laganna sem snúa að því að Matvælastofnun afli umsagnar erfðanefndar landbúnaðarins. Aðrar breytingar á greininni snúa að samþættingu verkferla Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar, sem nánar er lýst í umfjöllun um 19. gr. frumvarpsins.

Um 17. gr.

    Ákvæðið snýr að tilflutningi verkefna frá ráðuneyti til Matvælastofnunar. Greinin þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 18. gr.

    Með greininni eru lagðar til breytingar á 63. gr. laga um náttúruvernd sem miða að því að skýra nánar í hvaða tilfellum þurfi einnig að liggja fyrir leyfi Matvælastofnunar samkvæmt lögum um innflutning dýra, lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim eða lögum um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum. Þá eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 63. gr., sem verður 3. mgr. verði frumvarpið samþykkt, til að skýra nánar hvaða gögn þurfi að fylgja umsókn.

Um 19. gr.

    Í ákvæði til bráðabirgða í lögum um náttúruvernd kemur fram að endurskoða skuli XI. kafla laganna með það fyrir augum að sameina réttarheimildir um innflutning og dreifingu lífvera hjá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun. Með bréfi, dags. 19. desember 2016, óskuðu umhverfis- og auðlindaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið eftir tillögum Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar að nýjum XI. kafla laganna. Markmið með endurskoðun kaflans er að sameina stjórnsýslu hjá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun. Stofnanirnar skiluðu tillögum til ráðuneytanna og byggjast ákvæði II. og III. kafla frumvarpsins á þeim.
    Samkvæmt lögum um náttúruvernd getur Umhverfisstofnun veitt leyfi til innflutnings á lifandi framandi lífverum. Í lögum um innflutning dýra er fjallað um leyfi til innflutnings að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og hefur Matvælastofnun eftirlit með innflutningi dýra og plantna. Aðkoma stofnananna að veitingu innflutningsleyfa er ólík. Matvælastofnun metur innflutning lífvera, bæði dýra og plantna, með tilliti til smitsjúkdómahættu en Umhverfisstofnun metur áhættuna sem innflutningur kann að hafa á líffræðilega fjölbreytni og er óheimilt að veita leyfi til innflutnings ef ástæða er til að ætla að innflutningur eða dreifing ógni eða hafi veruleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Þá eru tilfelli þar sem innflutningur fellur eingöngu undir náttúruverndarlög eða eingöngu undir lög um innflutning dýra. Vegna ólíkra áherslna við veitingu leyfa og sérfræðiþekkingar innan stofnananna þykir nauðsynlegt að þær komi báðar að leyfisveitingarferlinu. Því er lagt til í 64. gr. laganna að Matvælastofnun taki við umsóknum um innflutningsleyfi framandi lífvera. Hvor stofnun fyrir sig metur síðan hvort umsókn falli undir ákvæði laga um innflutning dýra og laga um náttúruvernd. Telji báðar stofnanir skylt að afgreiða umsókn verða umsóknir unnar samhliða. Þegar vinnslu umsóknar er lokið tilkynnir Matvælastofnun umsækjanda um niðurstöðuna, en umsókn telst þá aðeins samþykkt að veittu samþykki beggja stofnana, nema önnur hvor stofnunin meti umsóknina svo að hún falli ekki undir gildissvið hennar. Markmið breytinganna er að umsækjendur þurfi eingöngu að eiga í samskiptum á einum stað og allar umsóknir og gögn séu send til Matvælastofnunar. Ferlið sé þannig einfaldað gagnvart þeim sem sækja um leyfi til innflutnings á framandi lífverum. Hvað eftirlit varðar er gert ráð fyrir að það verði í höndum þeirrar stofnunar sem setur innflutningsskilyrði.
    Ekki er þörf á að breyta tilvísun í 64. gr. laganna, sem er að finna í 1. mgr. 91. gr., því að með lögum um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, sem samþykkt voru á Alþingi 3. febrúar sl., voru meðal annars þær breytingar gerðar á 1. mgr. 91. gr. laganna að tilvísun í 64. gr. laganna var felld brott úr ákvæðinu.

Um 20. gr.

    Í greininni er tilvísun breytt til samræmis við breytingu á 63. gr. laganna, sbr. 18. gr. frumvarpsins.

Um 21. gr.

    Í 5. tölu. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um náttúruvernd er kveðið á um endurskoðun XI. kafla laganna með það fyrir augum að sameina réttarheimildir um innflutning og dreifingu lífvera hjá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun. Frumvarp þetta er lokaáfangi þeirrar endurskoðunar og er því talið rétt að fella töluliðinn brott.

Um 22. gr.

    Hrossum sem flutt eru úr landi fylgir svokallað hestavegabréf sem staðfestir uppruna, ætterni, eiganda og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru, m.a. til að uppfylla kröfur sem innflutningslönd gera hverju sinni. Með greininni er lagt til að ekki verði kveðið á um að slík vegabréf þurfi að vera gefin út af Bændasamtökum Íslands í því augnamiði að unnt verði að fela öðrum aðilum slíka umsýslu.

Um 23. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að ráðgjafarnefnd um málefni er snerta útflutning hrossa verði lögð niður. Samkvæmt gildandi lögum er hlutverk nefndarinnar að vera samráðsvettvangur stjórnvalda og þeirra sem vinna að þeim málefnum. Nefndin hefur ekki fundað um árabil og hefur engin virkni verið í starfi nefndarinnar. Stjórnvöld hafa þó átt gott samstarf og samráð við hagsmunaaðila um málefni er varða útflutning hrossa. Því er lagt til að ráðgjafarnefndin verði lögð niður en áfram verði tryggt samstarf stjórnvalda og hagsmunaaðila um málefnið, líkt og almennt gildir um samráð stjórnvalda við hagsmunaaðila á öðrum málefnasviðum.

Um 24. gr.

    Með greininni er lagt til að starfsleyfi frá Matvælastofnun til fóðurfyrirtækja sem nota aukefni eða forblöndur í fóðurvörur, framleiða lyfjablandað fóður eða vinna fóður úr aukaafurðum dýra verði ótímabundin. Fjöldi útgefinna starfsleyfa er nú um 100 og eru þau gefin út til 12 ára í senn. Kostnaður við útgáfu starfsleyfa er um 12.000 kr. auk tímagjalds sem er margfaldað með þeim tímum sem fer í úttekt starfsmanna Matvælastofnunar á viðkomandi starfsstöð. Til einföldunar og hagræðingar er lagt til að starfsleyfin verði ótímabundin en Matvælastofnun verði áfram heimilt að endurskoða starfsleyfi vegna breyttra forsendna, svo sem ef breytingar verða á rekstrinum, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um öryggi fóðurs eða framkvæmd opinbers eftirlits með fóðri.
    Lagt er til að heimilt verði að gefa út skilyrt starfsleyfi til bráðabirgða við upphaf starfsemi. Reynslan er sú að oft og tíðum er þörf á úrbótum við upphaf starfsemi, t.d. varðandi verklagsreglur, skráningar og búnað, en talið er rétt að gefa viðkomandi fyrirtækjum færi á að hefja starfsemi með skilyrt, tímabundið starfsleyfi og gefa ráðrúm til nauðsynlegra úrbóta. Gert er ráð fyrir að slík leyfi gildi almennt ekki lengur en í sex mánuði.

Um 25. gr.

    Í gildandi ákvæði er kveðið á um að framleiðendum og innflytjendum sé skylt fyrir 1. febrúar ár hvert að tilkynna til Matvælastofnunar heildarmagn innflutts og framleidds fóðurs á undangengnu ári. Ekki er talin þörf á að framleiðendur og innflytjendur skili slíkum gögnum til Matvælastofnunar. Upplýsingar um innflutt fóður liggja hjá tollyfirvöldum sem skila slíkum upplýsingum til Hagstofunnar. Er því ekki talin þörf á því að innflutningsaðilar tilkynni innflutning sérstaklega til Matvælastofnunar.

Um 26. gr.

    Með greininni er lagt til að ráðherra skipi fagráð um velferð dýra. Samkvæmt gildandi ákvæði staðfestir ráðherra skipan ráðsins en aðrir fulltrúar en formaður eru skipaðir af Bændasamtökum Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, Dýraverndunarsambandi Íslands og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Skipanir hafa í nokkrum tilfellum dregist sem hefur leitt til þess að tafir hafa orðið á afgreiðslu mála hjá nefndinni en nefndin veitir meðal annars umsagnir um leyfi til dýratilrauna þar sem ríkir hagsmunir eru bundnir því að málshraði sé sem stystur. Með vísan til hlutverks nefndarinnar þykir einnig eðlilegra að ráðherra skipi nefndina með hliðsjón af þeim faglegu þáttum sem þarf að líta til á málefnasviðinu. Þar af leiðandi er lagt til að gildandi ákvæði verði breytt og ráðherra skipi alfarið fagráð um velferð dýra. Gert er ráð fyrir að almennt verði leitað til þeirra aðila sem nefndir eru í gildandi lagaákvæði en til að tryggja skilvirka stjórnsýslu verði unnt að leita til annarra aðila með fagþekkingu á málefnasviðinu og því ekki lögð til tæmandi talning hvað það varðar.

Um 27. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 28. gr.

    Með greininni er lagt til að stjórn Matís ohf. verði skipuð fimm fulltrúum í stað sjö líkt og kveðið er á um í gildandi lögum. Ekki er talin þörf á að stjórnin sé svo fjölmenn en algengt er að þrír til fimm skipi stjórn félaga. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með eignarhlut ríkissjóðs í félaginu og skipar í stjórn þess.

Um 29. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 30. gr.

    Haustið 2006 var hlutafélagið Matís ohf. stofnað. Samþykkt var í upphafi stofnfundar að nafn félagsins væri Matís ohf. í stað Matvælarannsókna hf. og hefur félagið borið það nafn síðan. Rétt þykir að nafnið í heiti laganna sem um félagið gilda.

Um 31. gr.

    Með greininni er lagt til að fjallskilasamþykktir öðlist gildi við birtingu en með því er lagt til að stjórnir fjallskilaumdæma (héraðsnefnd/sveitarstjórn eða eftir atvikum sveitarstjórnir sameiginlega) annist sjálfar birtingu samþykkta þessara í stað ráðuneytisins. Þá er um leið lagt til að ákvæði falli brott um að ráðuneytið skuli staðfesta slíkar samþykktir. Til eru samþykktir um fjallskil og afréttamálefni í flestum héruðum landsins þar sem sameignarafréttum eða upprekstrarheimalöndum er til að dreifa. Yfirlit um gildandi fjallskilasamþykktir eru í landsmarkaskrá sem ráðuneytið gefur út og voru sjö slíkar samþykktir yfirfarnar, staðfestar og birtar af ráðuneytinu á árunum 2012–2018. Þá er jafnframt lagt til að leitað verði formlegrar umsagnar Bændasamtaka Íslands um drög að fjallskilasamþykktum.

Um 32. gr.

    Sauðfjársjúkdómanefnd var lögð niður með lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, og verkefni hennar færð innan stjórnsýslunnar. Því er lagt til að ráðherra skuli hafa samráð við Matvælastofnun um það á hvaða svæðum á landinu sammerkingar á sauðfé skuli óheimilar.

Um 33. gr.

    Með greininni er lagt til að samþykktir um búfjárhald öðlist gildi við birtingu og að sveitarstjórnir annist sjálfar birtingu samþykktanna að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands. Samkvæmt gildandi ákvæði staðfestir ráðherra slíka samþykkt að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands og birtir í Stjórnartíðindum en til að einfalda ferlið er lagt til að þessi aðkoma ráðherra verði lögð af og umsýslan lögð í hendur sveitarstjórna.

Um 34. gr.

    Með lögum nr. 144/2019 voru lög um sjávarafurðir, nr. 55/1998, felld brott. Breytingarnar voru liður í vinnu við einföldun regluverks á málefnasviðinu og var markmið laganna að einfalda regluverk og auka samræmi í regluverki sem gildir um matvælakeðjuna. Um sjávarafurðir gilda nú lög um matvæli, nr. 93/1995. Í ljósi framangreindra breytinga á regluverki er lagt til að tilvísun í lögum um uppboðsmarkaði sjávarafla verði breytt þannig að vísað verði til matvælalöggjafar í stað brottfallinna laga um sjávarafurðir.

Um 35. gr.

    Með greininni er lagt til að styrkja heimild til sérgreiningar greiðslumarks ábúenda og leiguliða. Kveðið er á um slíka heimild í reglugerð og hefur framkvæmdin verið þannig síðastliðin ár. Rétt þykir og eðlilegt að ábúendur og leiguliðar geti fært greiðslumark sem þeir hafa sannarlega eignast þegar þeir flytja af viðkomandi jörð. Kveðið er á um sérskráningu greiðslumarks á nafn viðkomandi leiguliða og með því eru mörk milli eignar leiguliða annars vegar og eign jarðareiganda hins vegar gerð skýrari. Þá er ítrekuð heimild leiguliða til að framselja sitt greiðslumark án samþykkis jarðareiganda.

Um 36. gr.

    Um greinina vísast til skýringa við 35. gr. því að ákvæðin eru sambærileg. Rétt þykir að sambærilegar reglur gildi í þessum tilvikum er varðar greiðslumark sauðfjár og mjólkur.

Um 37. gr.

    Með hliðsjón af áherslum ríkisstjórnar um að einfalda regluverk í þágu almennings og atvinnulífs og í ljósi fjölda ábendinga um áskoranir í núverandi eftirlitskerfi með matvælum tóku sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra ákvörðun um að láta fara fram greiningu á almennri framkvæmd eftirlits á grundvelli laga um matvæli, nr. 93/1995, og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Auk þess yrði skoðað hvort þörf væri á að endurskoða eftirlitskerfi á grundvelli framangreindra lagabálka. Í kjölfarið var gengið til samninga við KPMG um að vinna að greiningu á almennri framkvæmd eftirlits. Í maí 2020 lá fyrir skýrsla KPMG þar sem fram koma brotalamir á núverandi eftirlitskerfi. Í skýrslunni kemur m.a. fram að ósamræmis gæti í framkvæmd opinbers eftirlits og skráningum opinberra eftirlitsaðila. Ljóst er að vinna þarf að samræmingu opinbers eftirlits á landinu öllu. Ráðuneytin hafa undanfarna mánuði unnið að því umbótaverkefni og stendur sú vinna yfir.
    Samkvæmt a-lið 2. gr. laga um breytingu á lögum um matvæli, lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu (eftirlit, upplýsingagjöf), nr. 33/2018, átti flokkun fyrirtækja eftir frammistöðu þeirra samkvæmt opinberu eftirliti með matvælum að verða birt neytendum opinberlega 1. janúar 2021. Með lögum nr. 101/2020, um breytingu á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar og matvæla vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu, var gildistöku ákvæðisins frestað til 1. janúar 2022. Ástæða þess var sú að undirbúningur var skammt á veg kominn og samræmt eftirlitskerfi var forsenda þess að birting gæti hafist.
    Lagt er til að opinber birting frammistöðuflokkunar hefjist ekki 1. janúar 2022 heldur verði ráðherra veitt heimild til þess að taka ákvörðun um upphafstíma opinberrar birtingar frammistöðuflokkana við það tímamark þegar eftirlitskerfið fullnægir nauðsynlegum kröfum og opinber birting frammistöðuflokkunar geti hafist án þess að jafnræði matvælafyrirtækja sé teflt í hættu.

Um 38. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi með þeirri undantekningu að 28. gr., sem kveður á um fækkun í stjórn Matvælarannsókna ohf., öðlist gildi eftir næsta aðalfund félagsins. Samkvæmt samþykktum opinbera hlutafélagsins skal aðalfundur haldinn fyrir lok júní ár hvert og er gert ráð fyrir að ný fimm manna stjórn verði skipuð á næsta aðalfundi félagsins og taki til starfa 1. júlí 2021.