Ferill 627. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1512  —  627. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2022–2026.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Stjórnarflokkarnir samþykktu í desember sl. sameiginlega stefnu sína á öllum málefnasviðum fyrir næsta kjörtímabil. Fjármálaáætlun 2022–2026 uppfærir aðeins tölur miðað við hagspá Hagstofunnar. Það kom mörgum á óvart að framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar fyrir næsta kjörtímabil væri þegar komin fram og samþykkt með fjármálaáætlun 2021–2025. 1. minni hluti bjóst við að í fjármálaáætlun þeirri sem við ræðum hér gripi ríkisstjórnin tækifærið til að segja frá því hvernig hún vildi nýta betri afkomu en búist var við með fyrstu áætlunum á kostnaði vegna kórónuveirufaraldursins, til að bæta heilbrigðiskerfið og mæta fólki og þeim landsvæðum sem verst verða úti í heimsfaraldrinum með sértækum aðgerðum. Stjórnarflokkarnir segðu hvernig þau vildu vinna gegn vaxandi ójöfnuði og styðja hópana sem samkvæmt nýlegri könnun BSRB og ASÍ líða efnislegan skort. En svo er ekki. Ekki er gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga eða atvinnuleysistrygginga, vaxtabætur, húsnæðisbætur, barnabætur eða fæðingarorlofsgreiðslur, hækki til samræmis við laun. Með því er ríkisstjórnin að taka pólitíska ákvörðun um að auka ójöfnuð í landinu. Það er stefnan, skráð og samþykkt, ef flokkarnir verða aftur saman í ríkisstjórn að loknum kosningum.
    Framtíðarsýnin er sú að afkomubatinn verði nýttur til að ná fyrr niður skuldastöðunni, skuldastöðu sem er þó lág fyrir í öllum alþjóðlegum samanburði. Ríkisstjórnin leggur ofuráherslu á að miða við ákveðið skuldahlutfall árið 2025 með tilheyrandi niðurskurði á ríkisútgjöldum.
    Auk þessarar fjármálareglu sem ríkisstjórnin hefur sett sér sjálf um skuldahlutfall ríkissjóðs miðað við verga landsframleiðslu, eiga fjármálareglur laga um opinber fjármál að taka gildi árið 2026. Öll önnur ríki sem við viljum bera okkur saman við hafa vikið fjármálareglum til hliðar nú á óvissutímum og hafa ekki sett sér nýjar líkt og ríkisstjórnin íslenska hefur gert í efnahagslægðinni.
    Fjármálaráð, sem hefur það lögbundna hlutverk að skrifa álitsgerð um fjármálaáætlanir sem ríkisstjórnir leggja fram, hefur uppi varnaðarorð um þetta í álitsgerð sinni um fjármálaáætlunina fyrir árin 2022–2026. Ráðið bendir réttilega á að bæði afkomureglan og skuldalækkunarreglan í lögum um opinber fjármál geti orðið stór biti að kyngja eftir viðlíka efnahagshremmingar og nú er tekist á við. Skuldalækkunin verði mest íþyngjandi á fyrsta ári skuldalækkunarinnar á sama tíma og enn gæti áhrifa faraldursins í efnahagslífinu og töluverðu atvinnuleysi.
    Og þrátt fyrir stöðvun vaxtar skuldahlutfallsins árið 2025 verði afkoman engu að síður neikvæð um 1,5% af vergri landsframleiðslu það ár og einnig árið 2026. Þannig sé fyrirséð að afkomureglan í lögunum verði íþyngjandi við gildistöku hennar á nýjan leik.
    Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að niðurskurður og skattahækkanir hefjist árið 2023, þegar spáð er 6–7% atvinnuleysi. Ábyrga leiðin, leiðin sem við í Samfylkingunni viljum fara, snýst um að beita ekki of hörðum aðgerðum of snemma. Við viljum veita svigrúm og skapa frið um hvernig eigi að skipta tekjum og afla þeirra, dreifa byrðunum sem koma mjög ójafnt niður og allir sjá hverjir bera, þó að stjórnarflokkarnir vilji loka augunum fyrir því. Þegar skuldastaða er metin þarf að hafa í huga samspil fjármagnakostnaðar og hagvaxtar. Á meðan fjármagnskostnaður er lægri en hagvöxturinn er engin ástæða til að grípa til harkalegra aðgerða til að ná niður skuldastöðunni. Skuldir má greiða niður á lengri tíma en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir í áætlun sinni.
    Fjármálaráð bendir á að fyrir COVID-19 hafi fjármálaáætlanir sýnt svigrúm til nýrra verkefna upp á um 2% af landsframleiðslu á ári. Nú boðar ríkisstjórnin aðgerðir frá árinu 2023 sem ná yfir allt þetta svigrúm. Og þegar fjármálareglurnar koma líka til framkvæmda árið 2026 kalla þær á enn frekari niðurskurð á ríkisútgjöldum. Mikilvægir innviðir munu líða fyrir slíka hagstjórn í langan tíma með tilheyrandi kostnaði. Innviðaskuldir munu hlaðast upp ef áætlanir ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga, hvort sem er í vega- og flutningskerfum eða í heilbrigðis- og velferðarkerfinu.

Verðmætasköpun og gengi krónunnar.
    Tímabilið 2010–2020 einkenndist á fyrri hluta þess af veiku raungengi krónunnar sem flýtti fyrir vexti ferðaþjónustunnar. Styrking krónunnar hægði á vextinum þegar leið á tímabilið. Nú þegar treyst er á vöxt ferðaþjónustunnar að nýju til að koma okkur upp úr efnahagslægðinni er ekki hægt að reikna með svo veikri krónu og var eftir bankahrunið 2008. Sá meðbyr með greininni er ekki lengur til staðar. Mikil fjölgun ferðamanna á vinsælum ferðamannastöðum, án þess að nægjanleg innviðauppbygging í greininni færi fram samhliða fjölguninni, varð til þess að góð upplifun ferðamanna fór dvínandi og hækkun gengis krónunnar minnkaði hagnað fyrirtækja í ferðaþjónustu. Nauðsynlegt er að stefnumótun um enduruppbyggingu greinarinnar í kjölfar heimsfaraldursins verði gerð út frá sjálfbærni og loftslagsviðmiðum.
    Fjármálaráð, líkt og svo margir aðrir, bendir á að varasamt sé að treysta um of á endurreisn hagkerfisins byggða á hröðum vexti í einni atvinnugrein. Líklegt sé að gengið styrkist þegar ferðamönnum fjölgar vegna þess að miklum gjaldeyri verði skipt í krónur. Að öðru óbreyttu vinnur sterkara raungengi gegn hraðri viðspyrnu útflutningsgreina. Þó mikilvægt sé að huga að lausn á efnahagsvanda til skamms tíma þá sé verkefnið til lengri tíma að skapa umgjörð og búa til hvata sem leiða til aukinnar framleiðni í hagkerfinu. Finna verður út úr því hvernig hægt er að gera ferðaþjónustuna sjálfbærari til lengri tíma.
    Sjávarútvegur og ferðaþjónusta gefa útflutningstekjur sem byggjast á takmörkuðum auðlindum, náttúru Íslands og gjöfulum fiskimiðum. Við hlið þeirra greina þarf að byggja undir atvinnugreinar sem búa til verðmæti í meira mæli með hugviti fólks. Því ættu stjórnvöld að kalla að borðinu verkalýðsfélög og samtök atvinnurekenda til að vinna saman að slíkum breytingum á íslensku atvinnulífi. Stefnumótunin sem stjórnvöld verða að ráðast í til að stuðla að fleiri góðum störfum og hagvexti er um atvinnustefnu, menntastefnu og skattastefnu. Stjórnvöld verða að sýna fyrirhyggju í þessum efnum, verja hag almennings og læra af mistökum fortíðar.

Böl langtímaatvinnuleysis.
    Kostnaðurinn af Covid-19-kreppunni verður minni til langs tíma ef ríkið stígur inn með miklu myndarlegri hætti en áætlað er. Það þarf að gera með fjölbreyttum vinnumarkaðsaðgerðum og fjárfestingum. Nýta ætti slakan í hagkerfinu og vinna gegn atvinnuleysinu, renna fleiri stoðum undir atvinnulífið, verja velferðina og mæta tekjufalli fólks meðan það er á milli starfa. Veita ætti ungu fólki tækifæri til að nýta menntun sína hér á landi.
    Ríkisstjórnin vill frekar festa sig í ákveðinni skuldatölu undir lok tímabilsins og tekur áhættuna á því um leið að efnahagslífið nái ekki nægilegri fótfestu og við taki lengri og dýpri efnahagslægð.
    Það þarf að taka utan um atvinnuleitendur og fjölskyldur þeirra með sanngjarnari hækkun bóta, lengra bótatímabili og kraftmiklum vinnumarkaðsúrræðum. Miklu máli skiptir að við tökum fast utan um þær aðstæður sem nú eru uppi, ekki bara vegna þess að það er mikilvægt fyrir kjör og heilsu fólks heldur er það líka mikilvægt fyrir efnahag landsins.
    Það þarf að skapa störf, fjárfesta í innviðum og uppbyggingu, hlúa að barnafjölskyldum og vinna markvisst gegn ójöfnuði. Samkvæmt hagspá Hagstofunnar verða um 10.000 manns atvinnulausir eftir fimm ár sem er langt umfram meðaltal síðustu áratuga. Þetta er einmitt nefnt í fjármálaáætluninni þó að ekki sé talað um nýjar aðgerðir eða fleiri fjárfestingarverkefni eða nokkuð annað til að mæta vandanum. Hins vegar er fjallað um kerfislægan vanda, sem kallaður er svo í textanum, undirliggjandi vanda sem felist í verulegri hækkun launastigs umfram framleiðsluaukningu og geti leitt af sér hærra langtímaatvinnuleysi en við höfum áður átt að venjast. Fjárfestingum í menntun, innviðum, rannsóknum og þróun er ætlað að styðja við framleiðniaukningu en með henni geti hagkerfið staðið undir hærri launasetningu en annars, eins og það er orðað í áætluninni.
    Þetta er allt satt og rétt, en hvernig bregst ríkisstjórnin við? Fjárframlög til nýsköpunar voru aukin í ár og hækka lítillega samkvæmt áætluninni á næsta ári en strax tveimur árum seinna hafa framlögin lækkað um 26% og lækka um 34% á fimm árum. Fjármagn til opinbera hluta nýsköpunar hefur farið lækkandi undanfarin ár eins og lesa má um í umsögnum um lagafrumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um niðurlagningu á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
    Kallað er eftir auknu fjármagni til nýsköpunar og það tekur fleiri ár en tvö að uppfylla þær kröfur og þær þarfir. Lausnin á framleiðnivandanum er að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið sem eru til þess fallnar að auka framleiðni. Lausnin er ekki sú að kalla eftir og greiða fyrir óheftum vexti í atvinnugreinum sem skila lítilli framleiðniaukningu og standa ekki undir góðum kjörum í landinu.
    Lausn vandans á vinnumarkaði er kynnt í fjármálaáætluninni. Hún er hvorki fleiri vel launuð störf né færri láglaunastörf heldur þessi sem segir í greinargreðinni:
    „Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins sammælist um nýtt og skilvirkara kjarasamningslíkan sem getur stuðlað að jafnvægi á vinnumarkaði og aukið með því stöðugleika öllum til hagsbóta.“
    Þetta rósamál fjármála- og efnahagsráðherra og ríkisstjórnarinnar skilur 1. minni hluti í þessu samhengi á þann veg að finna þurfi leiðir til að koma í veg fyrir launahækkanir lágra launa, svo sem víða eru í þjónustustörfum sem unnin eru af konum, ungu fólki og innflytjendum.

Innviðir.
    Fjölbreyttar og arðbærar fjárfestingar eru undirstaða aukinnar verðmætasköpunar og aukin innviðafjárfesting mun gegna stóru hlutverki í að koma okkur upp úr atvinnukreppunni. Fjárfesting í innviðum hefur verið of lítil á síðustu árum og það mun bitna á okkur öllum til lengri tíma ef ekki verður bætt úr. Í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins kemur fram að fyrirhuguð aukning í opinberri fjárfestingu mun lítið bíta á þeirri uppsöfnuðu viðhaldsþörf sem skapaðist í kjölfar síðustu niðursveiflu. Til þess að ástand innviða geti talist gott verður að setja enn meiri kraft í opinbera fjárfestingu í innviðum og þörf er á 420 milljarða kr. fjárfestingu til að koma þeim í viðunandi horf, líkt og segir í skýrslunni. Ekki tekst að halda við eðlilega viðhaldsþörf gangi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eftir. Þannig erum við í raun að horfa fram á samdrátt í opinberri fjárfestingu þrátt fyrir mjög umfangsmiklar fjárfestingar Reykjavíkurborgar. Ef fram heldur sem horfir komumst við of seint af stað. Sveitarfélög víða um land sem treyst hafa á ferðaþjónustuna búa við kröpp kjör. Þar er mjög takmarkað svigrúm til fjárfestinga og það mun bitna á þessum viðkvæmu svæðum núna strax og einnig til lengri tíma. Ríkisstjórnin hefur ekki beint sérstökum stuðningi til þessara sveitarfélaga til að mæta tekjufalli þeirra og ákalli um aukna félagsþjónustu og það gerir þeim mun erfiðara að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar.
    Síðasta haust þegar fjármálaáætlun var lögð fram lá fyrir að það stefndi í samdrátt í fjárfestingu hjá sveitarfélögunum og boðaðar framkvæmdir Vegagerðarinnar minnka um 7 milljarða kr. milli ára. Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins 2021 kom fram að framkvæmdir urðu færri en gert var ráð fyrir. Í þessari kreppu þurfum við að dreifa fjármagninu á rétta staði. Fjármunirnir verða að leita í þá uppbyggingu sem skiptir máli og er arðbær til lengri tíma. Fjármunir verða að komast til þess fólks sem lendir í áfallinu núna og í innviðafjárfestingar sem styður við atvinnulífið. Við vitum að þær fjárfestingar gagnast flestar körlum á framkvæmdatíma. Um 85% þeirra starfa sem skapast við framkvæmd fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar eru karlastörf. Það er nauðsynlegt að ráðast einnig í fjárfestingar í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og velferðarkerfinu þar sem eru hefðbundin kvennastörf og mikil mannekla. Við eigum að fjölga hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og fólki í umönnunarstörfum með öllum ráðum. Þetta er framlínufólkið okkar og er undir miklu álagi nú um stundir og atvinnuleysi er mikið meðal kvenna. Þar er mikill og verðmætur kraftur ónýttur og samfélaginu öllu til heilla að nýta hann strax.
    Nýleg rannsókn sem gerð var í sjö aðildarríkjum OECD sýnir að fjárfestingar í umönnun og velferð, svo sem öldrunarþjónustu, heilbrigðiskerfi og leikskólum, séu ekki síður árangursríkar og jafnvel vænlegri til árangurs en fjárfesting í starfsgreinum þar sem meiri hluti starfsmanna eru karlar, svo sem í opinberum framkvæmdum eða í byggingariðnaði.
    Menntamálaráðherra hefur allt kjörtímabilið boðað eitthvað sem kallað hefur verið menntasókn en engir fjármunir eru ætlaðir til átaksins í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem staðfestir því miður að menntastefnan sem nýlega var samþykkt er bara falleg orð á blaði og mun ekki skipta sköpum fyrir menntakerfið. Sennilega hefur þó sjaldan verið mikilvægara að efla menntakerfið en einmitt nú, bæði til að styrkja ungt fólk sem er án atvinnu, en einnig til að búa okkur öll undir fjórðu iðnbyltinguna og allar þær breytingar á störfum og starfsumhverfi sem henni fylgja.

Breytingartillögur við fjármálaáætlun 2022–2026.
    Ef Samfylkingin hefði lagt fram fjármálaáætlun til næstu fimm ára hefði forgangsröðun verið önnur en birtist í áætlun núverandi ríkisstjórnar. 1. minni hluti leggur til nokkrar afar mikilvægar breytingartillögur sem lúta að kjörum og velferð barna, eldra fólks og öryrkja, loftslagsmálum, almennri löggæslu og styrkari umgjörð skattheimtu og samkeppnismála. Einnig er lögð til fjármögnun átaks til að vinna á biðlistum sem hafa vaxið umtalsvert vegna COVID-19. Sérstaklega þarf að vinna að biðlistum skurðaðgerða og geðheilbrigðisþjónustu við börn.

Bilið milli lífeyris og lægstu launa fer stækkandi.
    Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur ítrekað lagt fram frumvörp um réttláta hækkun lífeyris almannatrygginga, sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum stjórnarflokkanna. Frítekjumark vegna launatekna öryrkja hefur haldist óbreytt frá 1. júlí 2009 og ætti með réttu að vera tvöfalt hærra í dag, hefði það fylgt launavísitölu. Þetta eitt og sér dregur úr virkni öryrkja sem annars gætu unnið meira á góðum dögum. Þarna er líka mikill og verðmætur starfskraftur ónýttur. Hætta á fátækt og fjárhagsþrengingum er mest meðal örorkulífeyrisþega og flókin skerðingarákvæði kerfisins ýta undir þá hættu. Hjálparstofnanir hafa á síðustu mánuðum orðið varar við mikla aukningu matarúthlutana. Flestir sem leita til þeirra eru öryrkjar, langveikar, einstæðar mæður og atvinnulaust fólk.
    Ójöfnuður vex vegna atvinnuleysis, en einnig vegna þess að ellilífeyrir og örorkulífeyrir hækka ekki í takti við lægstu laun. Þannig er fjölmennum hópum haldið í fátæktargildru. Það verður að minnka kjaragliðnun undangenginna ára og hækka elli- og örorkulífeyri. Fólk sem ekki hefur tækifæri til að afla sér atvinnutekna hefur sumt engin lífeyrisréttindi, engar fjármagnstekjur og treystir algerlega á almannatryggingakerfið. Eina uppfærslan í fjármálaáætluninni fyrir kjör öryrkja og þá sem eldri eru er vegna fjölda þeirra en ekki til þess að bæta kjörin og 1. minni hluti fær ekki betur sé en að gert sé ráð fyrir fjölgun í fjármálaáætluninni sem er undir áætlun Hagstofunnar. Engin skref eru áformuð um að bæta kjör þeirra sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar.
    Fólkið sem treystir á greiðslur Tryggingastofnunar til að lifa á, fær allt of lágar greiðslur og hækkanir hafa ekki haldið í við lífskjarasamninga. Kjaragliðnun miðað við lágmarkstekjutryggingu er því umtalsverð. Munurinn nú á lágmarkstekjutryggingu og ellilífeyri er 85.000 kr. á mánuði. Við ætlum að gera breytingar á þessu á næsta kjörtímabili komumst við í aðstöðu til þess eftir kosningar. Við leggjum til að elli- og örorkulífeyrir hækki til samræmis við hækkun lægstu launa og miðum kostnaðinn við útreikninga sem fram koma í nýlegri skýrslu Eflingar. Einnig leggjum við til að frítekjumark vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum fari í skrefum upp í 100.000 kr. á mánuði úr 25.000 kr. Frítekjumark vegna atvinnutekna bæði öryrkja og ellilífeyrisþega verði hækkað að lágmarkstekjutryggingu hverju sinni. Þessar breytingar taki gildi í fjórum skrefum og það fyrsta verði tekið á árinu 2022. Þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda kosta þær um 30 milljarða kr. á ári en í því dæmi má gera ráð fyrir að 25% renni aftur til ríkissjóðs í formi skatta.
    Með hækkandi lífaldri Íslendinga er mikilvægt að skýra strax markmið um áhyggjulaust líf og ævikvöld, bæði með betri heilbrigðisþjónustu og hærri lífeyri. Hópurinn sem treystir á þessar greiðslur er stór og óásættanlegt fyrir ríkt samfélag að fólki sé ætlað að búa við fátækt.

Fjölskyldustuðningur.
    Stefna um barnvænt samfélag og leiðir til að uppfylla barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, líkt og lögbundið er, þarf að vera að fullu fjármögnuð. Alþingi Íslendinga þarf að sjá til þess að svo sé. Eitt af því sem verður að fjármagna að fullu er að vinna á biðlistum eftir þjónustu við börn, hvort sem er vegna greiningar eða úrræða. Varnir gegn hvers kyns ofbeldi og vanrækslu barna verður að styrkja og stjórnvöld mega aldrei setja börn í hættulegar aðstæður hvort sem er innan lands eða utan.
    Því fer fjarri að barnafjölskyldur á Íslandi fái jafnmikinn og góðan stuðning og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Ungt fólk með meðallaun fær engar barnabætur. Barnabæturnar eru ekki fyrir þeirra börn, þó að fólkið velti hverri krónu og aldrei sé afgangur um mánaðamót sama hve margir yfirvinnutímar séu unnir. Um leið og foreldrarnir vinna meira til að geta veitt börnum sínum þokkalegt húsnæði, klæði, fæði og tómstundir fá börnin lítinn tíma með foreldrum sínum og streitan við að skutla og sækja inn á milli vinnutarna tekur sinn toll.
    Samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar fá aðeins þær fjölskyldur sem eru með tekjur undir lágmarkstekjutryggingu, óskertar barnabætur. Barnabæturnar hér á landi byrja að skerðast um leið og launin hafa náð 351.000 kr. á mánuði. Þegar mánaðarlaunin eru rétt rúmlega 600.000 kr. á mánuði koma engar barnabætur og hafa minnkað verulega að því marki vegna grimmra tekjuskerðinga sem eru afleiðing af stefnu núverandi ríkisstjórnar.
    Barnabætur eru greiddar út fjórum sinnum á ári. Fyrsta breytingin sem augljóslega þarf að gera er að greiða barnabætur út mánaðarlega til að lágmarka kostnað, m.a. vegna yfirdráttar á bankareikningum, og tryggja þar með að greiðslurnar verði eðlilegur partur af mánaðarlegum rekstri heimilisins.
    Ef jafnháar barnabætur og nú eru yrðu greiddar út mánaðarlega þá næmu þær óskertar 31.000 kr. á mánuði með einu barni undir 7 ára hjá sambúðarfólki en 44.000 kr. til einstæðra foreldra. Ef börnin eru tvö og annað undir 7 ára væri greiðslan 55.000 kr. á mánuði hjá sambúðarfólki en 78.000 kr. hjá einstæðum foreldrum.
    Ef Ísland á að vera barnvænt samfélag, líkt og við jafnaðarmenn ætlum okkur eftir næstu kosningar, verður að styðja við fleiri barnafjölskyldur. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi eru barnabætur ekki tekjutengdar en í Danmörku hefjast skerðingar við háar tekjur. Tekjutengingin er í hinum norrænu ríkjunum í gegnum tekjuskattskerfið. Hugsunin er sú að með barnabótum séu kjör þeirra sem eru með börn á framfæri jöfnuð við kjör þeirra sem eru ekki með börn á framfæri, en tekjuhæstu einstaklingarnir greiða hins vegar hærri tekjuskatta en hinir.
    Við í Samfylkingunni – Jafnaðarmannaflokki Íslands viljum taka örugg skref að barnvænu samfélagi. Fyrsta skrefið við fjárhagslegan stuðning við barnafjölskyldur á næsta kjörtímabili yrði að barnafjölskyldur þar sem foreldrar sem eru með 600.000 kr. á mánuði eða minna fái óskertar barnabætur.
    Þegar það markmið er komið til framkvæmda hafa útgjöld vegna barnabóta farið úr 13 milljörðum kr. á ári í 22,2 milljarða kr. Hækkun barnabóta verði í fjórum skrefum. Í fyrsta skrefi árið 2022 verði miðað við að óskertar barnabætur fáist við 450.000 kr. á mánuði, 500.000 kr. árið 2023, 550.000 kr. árið 2024 og loks 600.000 kr. árið 2025.
    Kostnaðurinn við þessar aðgerðir skilar sér margfalt til baka með betri líðan barna og aukinni hagsæld.

Almennar íbúðir.
    Lög um almennar íbúðir voru samþykkt sumarið 2016. Íbúðakerfið er tilraun til að endurreisa vísi að félagslega húsnæðiskerfinu sem var aflagt undir lok síðustu aldar með þeim afleiðingum að félagslegum íbúðum fækkaði um helming milli áranna 1998 og 2017. Í því sambandi er vert að minnast lengstu ræðu sem haldin hefur verið á Alþingi. Hana flutti Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, til að mótmæla niðurlagningu félagslega íbúðakerfisins, 14. maí árið 1998.
    Markmið laganna um almennar íbúðir er að bæta húsnæðisöryggi þeirra sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Þannig sé stuðlað að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu þeirra sem leigja húsnæðið og fari að jafnaði ekki yfir 25% af tekjum þeirra.
    Fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar áætlar nú að um 3.200 íbúðir verði byggðar á árunum 2016–2022. Stór hluti þessarar uppbyggingar er á vegum Bjargs íbúðafélags, sem var stofnað af ASÍ og BSRB fyrir nokkrum árum síðan, og Bríetar, leigufélags Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem eru rekin án hagnaðarmarkmiða. Íbúðakerfið er fjármagnað þannig að ríkið veitir stofnframlag sem nemur 18% af stofnvirði almennra íbúða. Stofnvirði er kostnaðarverð íbúðarinnar, sama hvort það er við byggingu hennar eða vegna kaupa á henni. Reykjavík hefur byggt langflestar íbúðir í almenna íbúðakerfinu fyrir lágtekjufólk, námsmenn, öryrkja og fatlaða og aðra sem eru í vandræðum með að taka þátt í almennum íbúðamarkaði. Um 73% umfangsins er í Reykjavík.
    Það sveitarfélag sem kemst næst höfuðborginni í uppbyggingu almennra íbúða er Hafnarfjörður. Þar hafa verið veitt framlög fyrir 204 íbúðum, eða 8% allra framlaga úr ríkissjóði. Íbúar Hafnarfjarðar eru 8% landsmanna.
    Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu standa þessum tveimur langt að baki í uppbyggingu á almenna íbúðakerfinu. Í Kópavogi, þar sem rúmlega 10% landsmanna búa, hafa verið veitt framlög vegna 58 íbúa, eða 2,2% heildarfjöldans. Á Seltjarnarnesi, þar sem 1,2% landsmanna búa, eru sex íbúðir sem falla undir almenna íbúðakerfið annaðhvort tilbúnar eða í byggingu og í Garðabæ, þar sem 5% landsmanna býr, eru þær 25, eða 1% heildarfjöldans. Í Mosfellsbæ hafa tvær íbúðir verið keyptar fyrir öryrkja eða fatlaða sem passa inn í almenna íbúðakerfið. Á Akureyri, þar 5,2% landsmanna búa, eru íbúðirnar 67 talsins, eða 2,6% alls almenna íbúðakerfisins. Í Reykjanesbæ hafa ellefu slíkar íbúðir verið byggðar eða keyptar og í Árborg 37. Hér er vitnað í samantekt Kjarnans um uppbyggingu almenna íbúðakerfisins frá 6. nóvember 2020.
    Styrkja þarf almenna íbúðakerfið verulega og halda áfram að byggja óhagnaðardrifnar leiguíbúðir um allt land. Meginmarkmið almenna íbúðakerfisins er aukið framboð leiguhúsnæðis og að húsnæðiskostnaður fólks verði í samræmi við greiðslugetu. Við í Samfylkingunni leggjum til að á árunum 2022–2026 verði byggðar 3.000 íbúðir í almenna íbúðakerfinu og stofnframlögin verði áfram 3,8 milljarðar kr. á ári til ársins 2026 líkt og samkomulag með lífskjarasamningnum gerir ráð fyrir til ársins 2022. Því þarf að bæta 2 milljörðum kr. við fjármálaáætlun áranna 2023–2026.

Húsnæðis- og vaxtabætur.
    Húsnæðisbætur eru almennur stuðningur við leigjendur sem áður var veittur í formi húsaleigubóta. Bæturnar eru mánaðarlegar greiðslur sem miðast við fjölda heimilismanna að teknu tilliti til tekna, eigna og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði. Nú fá þau heimili húsnæðisbætur frá ríkinu þar sem fjöldi heimilisfólks er samtals um 31.000. Sérstakur húsnæðisstuðningur við leigjendur sem heyra undir félagsþjónustu sveitarfélaga er greiddur af sveitarfélögunum. Sveitarfélög hafa farið fram á breytingar á þessu og að kerfin verði sameinuð. Vaxtabætur eru tekju- og eignatengdar bætur til þeirra sem greiða vaxtagjöld af lánum vegna eigin húsnæðis. Viðmiðunarupphæðir vegna vaxtabóta leiða til þess að þær ganga að mestu til þeirra sem ekki þurfa á þeim að halda.
    Við leggjum til hækkun á húsnæðisbótum til leigjenda og breytingu á viðmiðum vaxtabótakerfisins þannig að greiðslurnar nýtist betur fólki undir meðallaunum. Milljarður á ári yrði lagður til lagfæringar og samræmingar á húsnæðisbótakerfunum.

Heilbrigðisþjónusta.
    Helstu áherslur sem birtast í fjármálaáætlun til ársins 2025 vegna sjúkrahúsþjónustu eru að efla mönnun í heilbrigðisþjónustu, auka aðgengi að réttri þjónustu á réttum stað og að stytta biðtíma. Allt eru þetta nauðsynleg markmið en fjármagn skortir til að þeim verði náð. Á fréttavef RÚV 18. desember sl. kom fram að Landspítalinn þurfi ekki að vinna á uppsöfnuðum rekstrarhalla á árinu 2001–2023 samkvæmt samkomulagi heilbrigðisráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Leitað verður eftir sérstökum fjárheimildum í fjármálaáætlun 2022–2026 til uppgjörs á halla Landspítala. Heilbrigðisráðuneytið tilkynnti þetta. Landspítalann hefði annars þurft að skera niður um 4,3 milljarða kr. En það er hins vegar ekki orð um þetta samkomulag í fjármálaáætluninni sem við ræðum hér en því var lofað að svo yrði og hæstvirtur heilbrigðisráðherra sagði í ræðum um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021 að hallinn og hvernig hann yrði réttur yrði ekki til þess að skerða þjónustu við sjúklinga. Ekkert er hins vegar um þetta að finna í fjármálaáætluninni enda nokkuð ljóst að áætlaðar fjárveitingar til Landspítalans duga ekki og því stefnir enn í hallarekstur.
    Vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins hafa biðlistar eftir nauðsynlegum aðgerðum lengst. Biðtími eftir geðheilbrigðisþjónustu hefur einnig lengst bæði hjá börnum og fullorðnum. Bregðast verður við því að heilsugæslur geti ekki veitt öllum íbúum heilbrigðisþjónustu svo vel sé.

Skurðaðgerðir.
    Samkvæmt minnisblaði Landspítalans til heilbrigðisráðuneytis frá því í febrúar sl. hafa biðlistar eftir sérfræðiþjónustu og skurðaðgerðum lengst á milli áranna 2020 og 2021. Flestir bíða eftir skurðaðgerðum á augasteini (1.286 einstaklingar), liðskiptum á hné (827 einstaklingar), liðskiptum á mjöðm (392 einstaklingar) og brennsluaðgerð á hjarta (301 einstaklingur). Alls bíða 3.625 einstaklingar eftir skurðaðgerð en kórónuveirufaraldurinn hefur haft mismikil áhrif á biðtíma eftir tegundum skurðaðgerða. Augljóslega verður að vinna á þessum biðlistum hratt og vel og áætla til þess fjármagn. 1. minni hluti leggur til að 4,4 milljarðar kr. verði veittir í að vinna á biðlistunum samtals á árunum 2022 og 2023.

Geðheilbrigðisþjónusta.
    Biðlistar eftir geðheilbrigðisþjónustu hafa verið viðvarandi en aukning varð á milli áranna 2020 og 2021 hjá átröskunarteymi (86 einstaklingar bíða) og hjá ADHD-teymi (727 einstaklingar bíða). Alls bíða 1.095 einstaklingar eftir geðheilbrigðisþjónustu hjá LSH og 131 barn bíður eftir þjónustu á BUGL. Við leggjum til að 500 milljónir kr. verði veittar á ári út áætlunartímann til að bregðast við þessum alvarlega vanda.

Heilbrigðisstofnanir.
    Brýnt er að bregðast við vanda heilbrigðisstofnana á vaxtarsvæðum. Fjármagn til heilbrigðisstofnana hefur ekki fylgt í kjölfar fjölgunar íbúa. Það hefur orðið til þess að íbúar þessara svæða hafa liðið fyrir ástandið. Þar við bætist álag á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja vegna 25% atvinnuleysis á svæðinu. Að bæta úr þessari stöðu þolir enga bið. 1. minni hluti leggur til að einn milljarður króna verði veittur á ári til þessara stofnana á næstu fimm árum til að bregðast við þessum sértæka vanda.

Loftslagsmál.
    Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál hefur áætlað að verja þurfi 2,5% af heimsframleiðslu árlega til loftslagsmála næstu árin svo takmarka megi hlýnun jarðar við 1,5°C miðað við meðalhitastigið fyrir iðnbyltingu. Rannsóknir benda til þess að næstu fimm til tíu ár skipti sköpum fyrir mannkynið og vistkerfi jarðar. Ríkustu 10% heimsbyggðarinnar eru ábyrg fyrir helmingnum af allri losun gróðurhúsalofttegunda en afleiðingar þessarar losunar koma harðast niður á fátækustu þjóðum heims. Þannig er baráttan gegn hamfarahlýnun óaðskiljanleg baráttunni gegn ójöfnuði á heimsvísu og ábyrgð ríkra þjóða mikil. Losun Íslendinga er aðeins brotabrot af útblæstri á heimsvísu en dæmin sanna að smáríki geta haft afgerandi áhrif með því að taka frumkvæði, sýna gott fordæmi og beita sér fyrir breytingum á alþjóðavettvangi
    OECD ætlar að til þess að halda hnattrænni hlýnun innan 2,0°C þurfi árlegar fjárfestingar að nema því sem samsvarar 6% af landsframleiðslu heimsins, annars vegar 4,0% vegna samgönguinnviða og annara innviða og hins vegar 2,0% vegna orkuvinnslu og orkunýtingar.
    Loftslagsváin er hnattræn áskorun sem Ísland er í kjörstöðu til þess að leiða með góðu fordæmi en ekki síður með hugvit og lausnir að vopni.
    Vinnan gegn loftslagsvá af mannavöldum er eitt stærsta sameiginlega verkefni mannkyns. Allir þurfa að leggja þar sitt af mörkum og framlög íslenska ríkisins þurfa að duga fyrir metnaðarfyllri markmiðum en núverandi stjórnvöld setja sér. Markaðsöflin munu ekki leysa loftslagsvandann upp á eigin spýtur. Þetta gildir jafnt um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerðir til að binda og farga kolefni. Til að Ísland geti dregið með markvissum hætti úr losun gróðurhúsalofttegunda og náð settum markmiðum með grænni uppbyggingu þarf hið opinbera að taka stórt frumkvæði í formi loftslagsvænna fjárfestinga og vísa veginn fyrir einkageirann.
    Engin samfélagssátt næst um hröð orkuskipti og aðrar breytingar á atvinnu- og lifnaðarháttum nema velferðarsjónarmið séu höfð að leiðarljósi og tryggt sé að kostnaður falli ekki á herðar tekjulægri hópa eða íbúa í dreifðum byggðum umfram aðra. Samkvæmt rannsókn sem unnin var af hópi hagfræðinga fyrir Oxford Smith School of Enterprise and the Environment í maí 2020, og byggist á viðtölum við á þriðja hundrað sérfræðinga og stjórnenda í fjármálaráðuneytum og seðlabönkum víða um heim, eru fjárfestingar í grænni nýsköpun og þróun og uppbygging innviða og flutnings- og dreifikerfa fyrir endurnýjanlega orku á meðal þeirra efnahagslegu örvunaraðgerða sem hafa mikil margfeldisáhrif og eru þannig ákjósanlegar á krepputímum.
    Markmið um sjálfbærni og kolefnishlutleysi falla því vel að markmiðum um aukin lífsgæði og fjölgun starfa. Tillögur Samfylkingarinnar til breytinga á fjármálaáætluninni eru í þessa veru. Fimm milljarða kr. aukning á ári 2023–2026 til loftslagsmála þar sem áhersla fjármagnsins yrði sett í að flýta orkuskiptum með niðurgreiðslum og skattaafslætti vegna loftslagsvænni bifreiða, bæta almenningssamgöngur, styrkja hringrásarhagkerfið, græna matvælaframleiðslu og fullvinnslu á loftslagsvænum matvælum, gera breytingar á styrkjaumhverfi landbúnaðarins til að styðja betur við grænmetisframleiðslu og stuðningur við að gera Íslenska stjórnsýslu græna. Auk aukningu til loftslagsmála um fimm milljarða kr. á ári 2023–2026 leggur 1. minni hluti til fjárframlög til græns fjárfestingarsjóðs, sértækra grænna aðgerða í almenningssamgöngum og grænnar nýsköpunar. Jafnframt leggur Samfylkingin til að kolefnisgjald verði hækkað í takt við meðmæli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD, samhliða auknum styrkveitingum og lánum á hagstæðum kjörum til grænna orkuskipta í mengandi iðnaði.

Grænn fjárfestingarsjóður.
    Stofnaður verði grænn fjárfestingarsjóður í eigu hins opinbera sem styðji við loftslagsvæna atvinnuuppbyggingu og grænan hátækniiðnað. Ríkið leggi sjóðnum til 5 milljarða kr. í hlutafé árið 2022. Sjóðurinn leiti eftir samstarfi við einkafjárfesta, taki mið af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og stefnu Vísinda- og tækniráðs í allri sinni starfsemi.

Almenningssamgöngur.
    Framkvæmdum við borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu verði flýtt og 1,5 milljarða kr. viðbótarframlag veitt til uppbyggingar stofnleiða fyrir hjólreiðar á næsta ári. Jafnframt verði stuðningur við landsbyggðarstrætó aukinn til að gera það auðveldara og ákjósanlegra að ferðast milli landshluta með strætisvagni.

Nýsköpun og þróun.
    Framlög til Tækniþróunarsjóðs, Rannsóknasjóðs og Innviðasjóðs verði aukin og úrræðið Stuðnings-Kría fjármagnað þannig að ekki þurfi að skerða mótframlagslán til nýsköpunarfyrirtækja í rekstrarvanda. Sérstök áhersla verði á grænar lausnir í atvinnulífinu og nýjar vaxandi atvinnugreinar. Aukið verði við framlög til nýsköpunar og þróunar um 1,5 milljarða kr. árið 2024 og um 2 milljarða kr. árin 2025 og 2026.

Lögregla.
    Álag á lögregluna hefur vaxið undanfarin ár. Ef áætlanir um fjölda ferðamanna ganga eftir mun afskiptum lögreglunnar af ferðamönnum vegna dauðsfalla, slysa og umferðarlagabrota fjölga á ný. Hætta er á að öryggi íbúanna sitji á hakanum ef fjölgun lögreglumanna er ekki í takt við fjölda mála. Víðáttumikil þjónustusvæði sem fáir sinna eru einnig áhyggjuefni. Álagið hefur auk þess vaxið á þeim svæðum þar sem íbúum hefur fjölgað mikið á stuttum tíma. Við slíkar aðstæður þarf að fjölga lögreglumönnum en það er ekki nóg. Það þarf að styrkja allt stoðkerfið í kringum lögregluna, fjölga fólki sem tekur við málum frá lögreglumönnunum og kemur þeim í gegnum kerfið svo að færri þurfi að bíða lengi eftir lausn mála eða afplánun. Lagt er til að fjárframlög til almennrar löggæslu verði aukin um 1,5 milljarða kr. á ári út áætlunartímann.

Skatturinn.
    Efla þarf skatteftirlit og sjá til þess að Skatturinn geti rannsakað flókin skattsvikamál sem ná yfir landamæri með flóknum millifærslum. Talið er að um 100 milljarða kr. skattsvik eigi sér stað hér á landi á ári hverju. Fjármunir til eftirlits og rannsókna á skattsvikum skila sér margfalt til baka í ríkissjóð. Leggja þarf áherslu á að uppræta undanskot og svik í skattkerfinu bæði með verkefnum innan lands og alþjóðlegu samstarfi. Stuðla þarf að öflugri og virkari skattframkvæmd en verið hefur, einkum með tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á verkefnum skatteftirlits og skattrannsókna og vegna tæknibreytinga og þróunar í alþjóðaviðskiptum. Til að efla skattrannsóknir og skatteftirlit er lagt til að fjármagn til Skattsins verði aukið um hálfan milljarð kr. á ári út áætlunartímann.

Samkeppniseftirlit.
    Í kjölfar kórónuveirufaraldursins verða breytingar á fyrirtækjum, einkum í ferðaþjónustu. Samrunar eru þegar hafnir í þeirri grein og afleiddum atvinnugreinum. Styrkja þarf Samkeppniseftirlitið í núverandi efnahagsástandi. Auk þess er íslenskt viðskiptalíf lítið og einangrað, í samanburði við alþjóðleg markaðssvæði, og gríðarlegt hagsmunamál fyrir neytendur að hér sé heilbrigt samkeppnisumhverfi. Með veiku eftirliti geta fyrirtæki nýtt sér aðstæður til að skapa einokunarstöðu sem vinnur gegn hag almennings. 1. minni hluti leggur til að fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins verði aukin um 300 milljónir kr. á ári út áætlunartímabilið.

Fjármögnun.
    Nauðsynlegt er að endurskoða skattkerfið og nýta sem best hlutverk þess til að afla tekna til að standa undir velferðarkerfinu og jafna stöðu og kjör fólksins í landinu. Eignaójöfnuður hefur aukist hér á landi. Samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðherra í nóvember 2019 við fyrirspurn formanns Samfylkingarinnar námu heildareignir þeirra 5% framteljenda sem áttu mestar eignir við síðustu áramót rúmum tvö þúsund milljörðum kr., eða um 31,8% af heildareignum Íslendinga. Í svarinu kemur einnig fram að eignahæsta 1% framteljenda hafi átt tæpa 844 milljarða kr. eða um 12,8% heildareigna um áramótin. Auðugasta 0,1% átti tæplega 266 milljarða, um 4% heildareigna.
    Eignaójöfnuður hefur aukist um allan hinn vestræna heim líkt og hér heima. Innlendir sem erlendir sérfræðingar hafa mælt með stóreignaskatti til að fjármagna velferð og jafna leikinn. Það gerum við í Samfylkingunni líka.
    Nauðsynlegt er að ríkisstjórn Íslands marki sér skýra stefnu þegar kemur að grænu sköttum samhliða hvötum. Í því samhengi er mikilvægt að kolefnisgjald verði hækkað.
    Fjármagnstekjuskattur í hinum norrænu ríkjunum er hærri en hér á landi. Samfylkingin talar fyrir þrepaskiptum fjármagnstekjuskatti.
    Auðlindagjöld hér á landi eru allt of lág. Bent hefur verið á að veiðigjaldið gefi svipaðar tekjur og tóbaksgjaldið. Það er óásættanleg staða sem snúa þarf við með hærri og réttlátari veiðigjöldum.
    Með bættu skatteftirliti og skattrannsóknum gæti skattinnheimta batnað umtalsvert. Mikill árangur gæti það talist ef um 10% af þeim milljörðum sem sviknir eru undan skatti fengjust í ríkissjóð.

Lokaorð.
    Samfylkingin leggur til breytingar á fjármálaáætlun 2022–2026 sem nemur aukningu á útgjöldum frá 3,1% árið 2022 til 5,5% árið 2026 og réttlátri tekjuöflun sem jafnframt stuðlar að jöfnuði. Margar tillagnanna munu draga úr kostnaði til lengri tíma.
    Tillögur Samfylkingarinnar eru allar til að fjölga störfum, auka græna verðmætasköpun, bæta heilsu og öryggi fólksins í landinu og til að bæta kjör barnafólks og þeirra hópa sem verst eru settir í samfélaginu.
    Með fjármálaáætlun til næstu fimm ára hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstrihreyfingarinnar markað sér stefnu fyrir næsta kjörtímabil. Ríkisstjórnin hefur sýnt á spilin um hvað gert verði undir hennar stjórn haldi hún velli að loknum kosningum í september. Stjórnarflokkarnir munu að óbreyttu samþykkja stefnu niðurskurðar, áframhaldandi atvinnuleysis og ójafnaðar fyrir þinglok í vor.

Alþingi, 25. maí 2021.

Oddný G. Harðardóttir.