Ferill 152. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 154  —  152. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (endurbótalýsing verðbréfa).


Frá utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/337 frá 16. febrúar 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) 2017/1129 að því er varðar ESB-endurbótalýsingu og markvissar aðlaganir fyrir fjármálamilliliði og tilskipun 2004/109/EB að því er varðar notkun á sameiginlega rafræna skýrslusniðinu fyrir árleg reikningsskil, til að stuðla að endurbótum í kjölfar COVID-19-hættuástandsins.


Greinargerð.

1. Inngangur.

    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 (sbr. fskj. I) og fella inn samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/337 frá 16. febrúar 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) 2017/1129 að því er varðar ESB-endurbótalýsingu og markvissar aðlaganir fyrir fjármálamilliliði og tilskipun 2004/109/EB að því er varðar notkun á sameiginlega rafræna skýrslusniðinu fyrir árleg reikningsskil, til að stuðla að endurbótum í kjölfar COVID-19-hættuástandsins (sbr. fskj. II).
    Í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru lagði framkvæmdastjórn ESB áherslu á að tryggja greiðsluhæfi og aðgengi að fjármagni til að styðja við endurbætur eftir efnahagslega áfallið sem COVID-19-heimsfaraldurinn hefur valdið. Í því skyni samþykkti framkvæmdastjórnin fjölda ráðstafana undir heitinu Endurbótapakki fyrir fjármagnsmarkaði. Ein þeirra ráðstafana, sem felst í þeirri reglugerð sem hér er felld inn í EES-samninginn, var breyting á fyrirkomulagi lýsinga í því skyni að gera útgefendum og aðilum á fjármálamarkaði kleift að draga úr kostnaði og losa um fjármagn fyrir endurbótaferlið. Lýsing er samheiti yfir skjöl sem gefa þarf út vegna almenns útboðs verðbréfa eða töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum markaði og er ætlað að gera fjárfestum kleift að taka upplýsta fjárfestingarákvörðun. Endurbótalýsing verðbréfa er einfaldaðra fyrirkomulag slíkrar upplýsingagjafar. Hér er því um ívilnandi ráðstöfun að ræða fyrir fjármálafyrirtæki. Nánar er gert grein fyrir efni reglugerðarinnar í þriðja hluta greinargerðarinnar.
    Reglugerðin tók gildi innan ESB 18. mars 2021 og gildir tímabundið til 31. desember 2022. Stefnt er að því að sameiginlega EES-nefndin muni taka ákvörðun um að fella gerðina inn í EES-samninginn á fundi nefndarinnar 10. desember nk. Innleiðing gerðarinnar hér á landi kallar á lagabreytingar og því þyrftu íslensk stjórnvöld að öllu óbreyttu að setja stjórnskipulegan fyrirvara við ákvörðunina.
    Gildistími reglugerðarinnar er afar skammur og hefur hún þegar tekið gildi innan ESB. EFTA-ríkin hafa ríka hagsmuni af því að fyrirtæki innan þeirra sitji við sama borð og aðrir aðilar á innri markaðnum hvað varðar aðgengi að fjármagni við endurfjármögnun í kjölfar COVID-19-hættuástandsins. Af þeim sökum er afar mikilvægt að fyrirhuguð ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn öðlist gildi eins fljótt og auðið er. Til þess að svo megi verða, og þar sem innleiðing gerðanna í landsrétt kallar á lagabreytingar, eru tvær leiðir í boði. Í fyrsta lagi að umrædd ákvörðun verði tekin án stjórnskipulegs fyrirvara af Íslands hálfu með því að Alþingi hafi fyrirfram samþykkt þingsályktun um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar áður en ákvörðunin er tekin í sameiginlegu EES-nefndinni. Í öðru lagi, ef ákvörðunin verður tekin með slíkum fyrirvara, að Alþingi samþykki þingsályktun um staðfestingu ákvörðunarinnar eins fljótt og auðið er, svo að unnt sé að tilkynna um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara, með það að markmiði að ákvörðunin öðlist gildi sem fyrst.
    Verði tillaga þessi til þingsályktunar samþykkt áður en gerðin verður felld inn í EES-samninginn felst í ályktuninni að ríkisstjórninni verður heimilt að samþykkja umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar án þess að setja stjórnskipulegan fyrirvara. Samþykki Alþingi þingsályktunartillöguna hins vegar eftir að gerðin hefur verið felld inn í EES-samninginn felst í ályktuninni að ríkisstjórninni verður heimilt að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara sem settur hefur verið vegna ákvörðunarinnar.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni fyrrnefndrar reglugerðar en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Einnig er fjallað um þær lagabreytingar sem gera þarf hér á landi vegna innleiðingar þeirra og hugsanleg áhrif.

2. Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þó er um að ræða tiltölulega lágt hlutfall af heildarfjölda þeirra gerða sem ESB samþykkir. Í nýlegu svari utanríkisráðherra til Alþingis kemur þannig fram að frá árinu 1994 til og með árinu 2020 hafi Ísland tekið upp um 14,5% þeirra gerða sem ESB samþykkti á sama tímabili.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Almennt hafa íslensk stjórnvöld einungis gert stjórnskipulegan fyrirvara þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér á landi en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið, að samningurinn horfi til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Innleiðing ofangreindra reglugerða hér á landi kallar á lagabreytingar. Sem áður segir eru ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem kalla á lagabreytingar almennt teknar með stjórnskipulegum fyrirvara og í kjölfarið leitað heimildar Alþingis fyrir staðfestingu ákvörðunarinnar. Setning stjórnskipulegs fyrirvara af hálfu eins samningsaðila EES-samningsins hefur í för með sér að viðkomandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar öðlast ekki gildi fyrr en eftir að viðkomandi ríki lýsir því yfir að það aflétti fyrirvaranum. Ef fleiri en eitt ríki tilkynna um stjórnskipulegan fyrirvara öðlast ákvörðunin ekki gildi fyrr en síðasta ríkið hefur tilkynnt um afléttingu fyrirvarans. Sem fyrr segir felur samþykki þingsályktunartillögunnar eftirfarandi í sér:
     1.      Verði þingsályktunartillagan samþykkt áður en umrædd ákvörðun er tekin í sameiginlegu EES-nefndinni verður stjórnvöldum heimilt að samþykkja ákvörðunina án stjórnskipulegs fyrirvara.
     2.      Verði þingsályktunartillagan samþykkt eftir að umrædd ákvörðun hefur verið tekin í sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara verður stjórnvöldum heimilt að aflétta þeim stjórnskipulega fyrirvara.

3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/337 frá 16. febrúar 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) 2017/1129 að því er varðar ESB-endurbótalýsingu og markvissar aðlaganir fyrir fjármálamilliliði og tilskipun 2004/109/EB að því er varðar notkun á sameiginlega rafræna skýrslusniðinu fyrir árleg reikningsskil, til að stuðla að endurbótum í kjölfar COVID-19-hættuástandsins.
    Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1129 er mælt fyrir um kröfur um gerð, staðfestingu og dreifingu lýsingar sem birta skal þegar verðbréf eru boðin í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði innan EES. Lýsing er samheiti yfir skjal eða skjöl sem gefa þarf út vegna almenns útboðs verðbréfa eða töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum markaði.
    Tvær meginbreytingar felast í reglugerð (ESB) 2021/337. Annars vegar er hámarksundanþága lánastofnana frá skyldunni um að birta lýsingu ef um er að ræða útboð eða ef verðbréf, sem ekki eru hlutabréfatengd og sem gefin eru út, eru tekin til viðskipta á skipulegum markaði með samfelldum og endurteknum hætti, hækkuð úr 75 milljónum evra í 150 milljónir evra fjárhæð á tólf mánaða tímabili. Hækkuninni er ætlað að gefa lánastofnunum svigrúm til að styðja við fyrirtæki sem þurfa á fjármögnun að halda.
    Hins vegar kveður reglugerðin á um nýtt, tímabundið og styttra form lýsingar, svokölluð endurbótalýsing ESB, til fyllingar við áður útgefnar lýsingar. Endurbótalýsingunni er ætlað að auðvelda endurfjármögnun í kjölfar heimsfaraldursins samhliða því að tryggja að kröfum um samræmda, einfalda og auðskiljanlega upplýsingagjöf sé fullnægt.
    Einnig eru gerðar breytingar á tilskipun 2004/109/EB að því er varðar notkun á sameiginlega rafræna skýrslusniðinu fyrir árleg reikningsskil en þær breytingar hafa ekki áhrif á Íslandi.
    Allar framgreindar breytingar fela í sér tímabundnar ívilnandi reglur fyrir fjármálafyrirtæki vegna COVID-19.
    Samkvæmt reglugerðinni fellur heimild til að notast við endurbótalýsingu ESB og hámarksundanþáguna úr gildi 31. desember 2022.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Upptaka ofangreindra reglugerða í EES-samninginn og innleiðing þeirra hér á landi kallar á lagabreytingar. Gerðin verður innleidd með breytingum á lögum um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði, nr. 14/2020, og verður frumvarp þar að lútandi lagt fram á 152. löggjafarþingi.
    Fjármálaeftirlitinu verður falin framfylgd gerðanna. Fjármála- og efnahagsráðuneytið gerir hvorki ráð fyrir verulegum áhrifum á stjórnsýslu né því að útgjöld ríkisins aukist vegna innleiðingar gerðarinnar.

5. Samráð við Alþingi.
    Í reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála er kveðið á um að ESB-gerðir, sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn en taka ekki gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis, skuli sendar utanríkismálanefnd til umfjöllunar. Gerðin hefur verið send Alþingi til samræmis við framangreindar reglur en samráðsferlinu var ekki lokið við framlagningu tillögunnar. Sem fyrr segir er afar brýnt að engin töf verði á að umrædd reglugerð verði tekin upp í EES-samninginn og innleidd í EFTA-ríkjunum innan EES sem fyrst. Meðal annars af þeim sökum ber nauðsyn til að leita eftir samþykki Alþingis með þingsályktunartillögu þessari.


Fylgiskjal I.


Drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
    
www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0154-f_I.pdf


Fylgiskjal II.


Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/337 frá 16. febrúar 2021 um breytingu á reglugerð (ESB) 2017/1129 að því er varðar ESB-endurbótalýsingu og markvissar aðlaganir fyrir fjármálamilliliði og tilskipun 2004/109/EB að því er varðar notkun á sameiginlega rafræna skýrslusniðinu fyrir árleg reikningsskil, til að stuðla að endurbótum í kjölfar COVID-19 hættuástandsins.

    

www.althingi.is/altext/pdf/152/fylgiskjol/s0154-f_II.pdf