Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1199, 152. löggjafarþing 272. mál: stéttarfélög og vinnudeilur (Félagsdómur).
Lög nr. 42 22. júní 2022.

Lög um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938 (Félagsdómur).


1. gr.

     Í stað orðsins „vinnusamningar“ í 3. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: kjarasamningar.

2. gr.

     39. gr. laganna orðast svo:
     Í Félagsdómi eiga sæti fimm dómarar sem skipaðir eru af ráðherra.
     Hæstiréttur skal tilnefna þrjá dómara, þar af forseta og varaforseta dómsins, og skulu þeir allir skipaðir ótímabundið. Hæstiréttur tilnefnir jafnframt tvo dómara til vara sem báðir skulu skipaðir ótímabundið. Þeir dómarar sem ráðherra skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar skulu vera skipaðir dómarar við Landsrétt eða héraðsdómstól á meðan þeir gegna embætti dómara við Félagsdóm. Skal Hæstiréttur gæta þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast meðal tilnefndra dómara nema hlutlægar ástæður leiði til annars.
     Tveir dómarar og jafnmargir til vara skulu tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambandi Íslands hins vegar og skulu þeir skipaðir til þriggja ára í senn. Þeir skulu uppfylla hæfisskilyrði 1.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016.
     Ef atvinnurekandi, sem er málsaðili, er ekki meðlimur í Samtökum atvinnulífsins skal sá dómari sem tilnefndur er af samtökunum víkja sæti. Í staðinn tilnefnir atvinnurekandinn dómara í málinu og skal hann hafa gert það í síðasta lagi við þingfestingu málsins, ella tilnefnir forseti dómsins dómarann. Sama á við þegar málsaðili er stéttarfélag eða samband stéttarfélaga utan heildarsamtaka launafólks gagnvart dómara sem tilnefndur er af Alþýðusambandi Íslands. Skal tilnefndur dómari uppfylla hæfisskilyrði 1.–6. tölul. 2. mgr. 29. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016.
     Þegar mál skv. 2. mgr. 44. gr. koma til meðferðar í Félagsdómi skulu þeir dómendur sem tilnefndir eru af Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands víkja sæti. Í þeirra stað tilnefna stefnandi og stefndi hvor sinn mann úr hópi 18 manna sem tilnefndir eru af Iðnsveinaráði Alþýðusambands Íslands og Samtökum iðnaðarins til þriggja ára í senn. Iðnsveinaráðið tilnefnir sex menn og Samtök iðnaðarins tólf menn. Samtökin tilnefna með sama hætti jafnmarga varamenn. Nú tilnefnir aðili ekki dómara eða ekki næst samkomulag um tilnefninguna milli aðila máls og nefnir forseti Félagsdóms þá dómara í hans stað úr hópi sömu manna.
     Ráðherra óskar eftir tilnefningum um dómara við Félagsdóm þegar það á við. Ráðherra skal vekja athygli starfandi dómara við Landsrétt og héraðsdómstóla á fyrirhugaðri skipun dómara í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar, sbr. 2. mgr.

3. gr.

     40. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra veitir þeim dómurum sem hann skipar í Félagsdóm samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar lausn frá embætti eftir sömu reglum og almennt gilda um veitingu lausnar frá embætti dómara samkvæmt lögum um dómstóla. Enn fremur veitir ráðherra dómurum við Félagsdóm lausn frá embætti sé þeim veitt lausn frá embætti dómara við Landsrétt eða héraðsdómstól, eftir því sem við á, án þess að þeir séu skipaðir dómarar að nýju við annan dómstól.

4. gr.

     42. gr. laganna orðast svo:
     Dómarar við Félagsdóm eru sjálfstæðir í dómstörfum og leysa þau af hendi á eigin ábyrgð. Við úrlausn máls fara dómarar við Félagsdóm eingöngu eftir lögum og lúta þar aldrei boðvaldi annarra.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „vinnusamningi“ tvívegis í 2. tölul. 1. mgr. kemur: kjarasamningi.
  2. Í stað orðsins „aðiljar“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: aðilar.
  3. Í stað tilvísunarinnar „I. og II. kafla laga um iðju og iðnað“ í 2. mgr. kemur: lög um handiðnað.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „aðiljar“ í 3. málsl. 1. mgr. og „aðilja“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: aðilar; og: aðila.
  2. Í stað orðsins „formann“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: forseta.


7. gr.

     46. gr. laganna orðast svo:
     Málsaðilar geta gefið þeim sem uppfylla skilyrði 1.–4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um lögmenn, nr. 77/1998, umboð til að reka mál sín fyrir Félagsdómi.

8. gr.

     48. gr. laganna orðast svo:
     Dómurinn er ekki starfhæfur nema hann sé fullskipaður. Þó getur forseti dómsins ákveðið að einn dómari eða fleiri haldi dómþing til að þingfesta mál, taka ákvörðun um rekstur máls eða kveða upp dóm.
     Dómarar við Félagsdóm sem hafa byrjað meðferð mála skulu ljúka þeim þrátt fyrir að skipunartími þeirra sé á enda.
     Dómarar við Félagsdóm sem tilnefndir eru af Hæstarétti víkja sæti eftir sömu reglum og gilda þegar dómurum við Hæstarétt ber að víkja sæti. Félagsdómur úrskurðar hvort dómari skuli víkja sæti.
     Dómara við Félagsdóm er heimilt að biðjast undan máli vegna tengsla við efni þess, aðila, fyrirsvarsmann eða lögmann þótt hann verði ekki talinn vanhæfur til að fara með það, enda sé beiðni hans studd haldbærum rökum. Forseti Félagsdóms tekur afstöðu til slíkrar beiðni.

9. gr.

     Í stað orðsins „Formaður“ í 49. og 68. gr. laganna kemur: Forseti.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „Formaður“ í 1. og 4. málsl. kemur: Forseti.
  2. Í stað orðsins „aðilja“ í 2. málsl. kemur: aðila.
  3. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  4.      Forseti ákveður stefnufrest, m.a. með hliðsjón af því hvort flýta þurfi rekstri máls.
         Stefnandi sér um birtingu og skal stefna birt af stefnuvotti á venjulegan hátt.


11. gr.

     51. gr. laganna fellur brott.

12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 52. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „stefndur“ í 1. tölul. kemur: stefndi.
  2. Í stað orðsins „málsaðiljar“ í 2. tölul. kemur: málsaðilar.


13. gr.

     Við 54. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr. og orðast svo:
     Dómurinn sér um að mál upplýsist sem best. Dómurinn getur krafið aðila um skýrslu ef hann álítur það nauðsynlegt til að upplýsa mál.

14. gr.

     55. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er að stefna vitnum fyrir Félagsdóm. Eftir kröfu aðila skal dómari láta vitni staðfesta framburð sinn með eiði eða drengskaparheiti að skýrslugjöf lokinni, eftir sömu reglum og gilda um meðferð einkamála í héraði.
     Dómurinn getur ákveðið að gefa skuli aðilaskýrslu eða að taka skuli vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi á varnarþingi hlutaðeigandi vitnis eða aðila.
     Um vitnaskyldu, sönnunargildi vitnaskýrslu, vitnaleiðslur, svo og um hegningu fyrir rangan framburð, gilda sömu reglur og um meðferð einkamála í héraði.

15. gr.

     56., 57. og 58. gr. laganna falla brott.

16. gr.

     Við 59. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Dómurinn getur hvenær sem er leitað álits sérfróðra aðila um ákveðið atriði.

17. gr.

     62. gr. laganna fellur brott.

18. gr.

     Í stað orðsins „aðilja“ í 1. mgr. 63. gr. og 1. mgr. 65. gr. laganna kemur: aðila.

19. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 64. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „formanns“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: forseta.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Félagsdómur skal kveða upp dóm svo fljótt sem þörf krefur, að teknu tilliti til þeirra hagsmuna sem eru í húfi hverju sinni. Hafi mál verið höfðað til að fá skorið úr um lögmæti boðaðrar vinnustöðvunar skal dómur kveðinn upp áður en fyrirhuguð vinnustöðvun hefst.


20. gr.

     69. gr. laganna orðast svo:
     Að öðru leyti en kveðið er á um í lögum þessum um meðferð mála fyrir Félagsdómi gilda ákvæði laga um meðferð einkamála, eftir því sem við á.

21. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir 39. gr. heldur skipun dómara við Félagsdóm til þriggja ára frá 1. nóvember 2019 gildi sínu út skipunartímann. Hið sama á við um gildi skipunar forseta Félagsdóms frá 1. september 2021.

22. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. júní 2022.