Ferill 575. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1252  —  575. mál.
Síðari umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um tillögu til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásthildi Knútsdóttur, Helgu Sif Friðjónsdóttir, Ingibjörgu Sveinsdóttur og Önnu Birgit Ómarsdóttur frá heilbrigðisráðuneytinu, Eddu Dröfn Daníelsdóttur og Guðbjörgu Pálsdóttur frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Eydísi Kristínu Sveinbjarnardóttur frá Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Steinunni Bergmann frá Félagsráðgjafafélagi Íslands, Ingibjörgu Þorsteinsdóttur og Maríu Guðlaugu Hrafnsdóttur frá Sjúkratryggingum Íslands, Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur og Sigrúnu Daníelsdóttur frá embætti landlæknis, Gyðu Dögg Einarsdóttur frá Félagi sálfræðinga í heilsugæslu, Álfheiði Guðmundsdóttur og Karítas Ósk Björgvinsdóttur frá Félagi skólasálfræðinga, Tryggva Guðjón Ingason og Önnu Maríu Frímannsdóttur frá Sálfræðingafélagi Íslands, Liv Önnu Gunnell og Jón Steinar Jónsson frá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Eirík Örn Arnarson og Kristbjörgu Þórisdóttur frá Félagi sérfræðinga í klínískri sálfræði, Málfríði Hrund Einarsdóttur frá Hugarafli, Pétur Maack Þorsteinsson frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Ágúst Ólaf Ágústsson og Söndru B. Franks frá Sjúkraliðafélagi Íslands, Kristínu Siggeirsdóttur frá Janus endurhæfingu ehf., Unni Helgu Óttarsdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Sigrúnu Birgisdóttur frá Einhverfusamtökunum og Elínu Ebbu Ásmundsdóttur og Grím Atlason frá Geðhjálp.
    Umsagnir bárust frá Eiríki Erni Arnarsyni, embætti landlæknis, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi sálfræðinga í heilsugæslu, Félagi sérfræðinga í klínískri sálfræði, Félagi skólasálfræðinga, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Hugarafli, Janus endurhæfingu ehf., Landssamtökunum Þroskahjálp, Einhverfusamtökunum, Sálfræðingafélagi Íslands, Sjúkraliðafélagi Íslands, Sjúkratryggingum Íslands og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.
    Þá barst nefndinni minnisblað frá heilbrigðisráðuneytinu.
    Með tillögunni er lagt til að samþykkt verði stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem leggur áherslu á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu á félagslegum grunni og stuðning við heilsueflingu á öllum æviskeiðum. Það eru sameiginlegir hagsmunir á heimsvísu að auka áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu sem er í samræmi við stjórnarsáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Þrátt fyrir að ýmislegt hafi áunnist á síðustu árum er ljóst að enn skortir heildstæða og samhæfða nálgun í geðheilbrigðismálum allt frá geðrækt, forvörnum og snemmbærum úrræðum til geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum og á milli velferðarþjónustukerfa og við dómskerfi. Framsetning tillögunnar tekur þannig mið af því og er sett fram með hliðsjón af fjórum kjarnaþáttum og áherslum sem munu endurspeglast í þeim aðgerðum sem heilbrigðisráðuneytið mun móta.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Flestir umsagnaraðilar eru jákvæðir gagnvart tillögunni og leggja til að hún verði samþykkt. Meiri hlutinn vill þó sérstaklega leggja áherslu á eftirfarandi atriði.

Snemmtæk íhlutun.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar. Meiri hlutinn bendir á að til staðar verði að vera úrræði til að veita þjónustu þeim börnum sem eiga við geðræn vandamál að stríða. Aukin þekking og reynsla hafa leitt af sér aukinn skilning á mikilvægi þessa tímabils í lífi einstaklinga. Í ljósi mikilvægis þessara fyrstu ára bendir meiri hlutinn á nauðsyn þess að leggja frekari áherslu á að koma í veg fyrir geðheilsuvandamál á þessu tímabili.
    Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að litið verði til fyrstu 1.000 daga barnsins hvað varðar geðheilsu og vellíðan á fyrstu æviárunum, samanber skýrslu landlæknis um framtíðarsýn og tillögur að aðgerðum frá því í júní árið 2021. Þar koma fram aðgerðir sem brýnt er að ráðast í á næstu árum, m.a. að koma á fót undirbúningsnámskeiði fyrir alla verðandi foreldra í meðgönguvernd, stefnumótun um hvernig skuli vinna með geðheilsu á meðgöngu og á fyrstu árum barnsins og hvaða aðferðir skuli notaðar, efla samtal og upplýsingagjöf til verðandi foreldra um geðheilsu og vellíðan á meðgöngu og setja það í formlegri farveg til að tryggja að allir verðandi foreldrar fái slíka leiðsögn og fræðslu. Fjölga þurfi sérhæfðu fagfólki innan heilsugæslunnar sem hefur þekkingu á geðheilsu verðandi foreldra, nýbakaðra og geðheilsu ungra barna og sérþekkingu á málefnum erlendra foreldra. Þá er lagt til að efla samfellu og samstarf milli meðgöngu- og ung- og smábarnaverndar og skoða möguleikann á því að gera það að einu kerfi auk annarra aðgerða sem nefndar eru í skýrslunni. Meiri hlutinn telur mikilvægt að skoða sóknarfæri til að efla geðheilsu í æsku og líta þar til verndandi þátta sem vega hvað þyngst hvað geðheilsu varðar er tengjast æskuárunum. Þar er vert að skoða hvort skólinn sé ákjósanlegasti vettvangurinn til að ná til barna og unglinga með geðrækt og forvörnum.

Gagnreyndar og fyrirbyggjandi aðgerðir.
    Margir umsagnaraðilar leggja áherslu á gagnreyndar og fyrirbyggjandi meðferðir í bland við ábyrga lyfjameðferð. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi gagnreyndra og fjölbreyttra aðferða við meðferð geðraskana í ljósi bestu þekkingar sem fyrir hendi er hverju sinni og að lögð verði áhersla á þverfaglega mönnun og fjölgun fagstétta. Meiri hlutinn tekur undir þetta og ítrekar það sem segir í greinargerð að heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu. Geðheilbrigðisþjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur annars staðar í velferðarþjónustu.
    Umsagnaraðilar lýsa yfir áhyggjum af mikilli notkun geðlyfja hérlendis og ofuráherslu heilbrigðiskerfisins á sjúkdómsvæðingu geðsjúkdóma og þar með notkun lyfja. Meiri hlutinn tekur undir áhyggjur umsagnaraðila og leggur áherslu á að stuðlað verði að ábyrgri lyfjanotkun samhliða gagnreyndum og fyrirbyggjandi meðferðum.

Notendasamráð og mælaborð geðheilsu.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir stofnun Geðráðs þar sem stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur koma saman og fjalla um málaflokkinn. Í umsögn Geðhjálpar kemur fram að samtökin hafi lengi talað fyrir stofnun slíks ráðs en lögð er áhersla á að samhliða stofnun þess verði tekið upp svokallað mælaborð geðheilsu.
    Meiri hlutinn tekur undir ábendingar Geðhjálpar og leggur áherslu á mikilvægi söfnunar tölfræðiupplýsinga og mikilvægi þess að árangursmæla gæði og þjónustuna sem er veitt. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu sem kom út í apríl 2022 er ein af sjö ábendingum að efla þarf söfnun upplýsinga, greiningu og utanumhald. Til þess þarf að skoða hvaða kerfi er unnið með við skráningu upplýsinganna og árangur þeirra meðferða sem veittar eru og skoða það heildstætt með þeim hagaðilum sem munu vinna með kerfin. Meiri hlutinn bendir á að í Geðráði koma saman allir helstu hagsmunaaðilar og ef öll gögn og tölfræði verða þar fyrir hendi ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að hægt sé að útbúa mælaborð geðheilsu. Fyrir er til staðar mælaborð lýðheilsu sem birtir tölulegar upplýsingar er varða lýðheilsu í landinu með gagnvirkum og myndrænum hætti. Slíkur gagnagrunnur er varðar geðheilsu væri til þess fallinn að auðvelda vinnslu og aðgengi að upplýsingum um geðheilbrigðismál og átta sig betur á hver staðan er hverju sinni.

Breytingartillaga.
Upplýsingaskráning.
    Til að tryggja góða yfirsýn og markvissa stefnumótun í geðheilbrigðismálum þarf að efla söfnun upplýsinga, meðferð gagna og bæta aðgengi að þeim. Að mati meiri hlutans er hægt að bregðast við ábendingum Ríkisendurskoðunar með þeim áhersluþáttum sem settir eru fram í geðheilbrigðisstefnunni en meiri hlutinn vill þó leggja áherslu á að fara þarf í vinnu við að efla söfnun upplýsinga, greiningu og utanumhald og leggur til breytingu þar að lútandi.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við áhersluþátt 4 bætist nýr liður, svohljóðandi: Efld verði skráning og söfnun upplýsinga um geðheilbrigðismál á Íslandi og stuðlað verði að tryggri meðferð gagna og bættu aðgengi að þeim.

    Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 28. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis, sbr. 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, lýsir sig samþykka álitinu.
    

Alþingi, 13. júní 2022.

Líneik Anna Sævarsdóttir,
form.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Guðrún Hafsteinsdóttir. Orri Páll Jóhannsson.
Óli Björn Kárason.