Ferill 317. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 327  —  317. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007 (neytendasamningar).

Flm.: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Tómas A. Tómasson, Wilhelm Wessman.


1. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fyrningarfrestur samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. gildir ekki um kröfur sem byggjast á lánssamningum við neytendur.

2. gr.

    Við 20. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hafi fyrningu gjaldfallinnar kröfu sem byggist á neytendasamningi verið slitið samkvæmt ákvæðum þessa kafla verður henni ekki slitið aftur.

3. gr.

    Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hafi krafa sem byggist á neytendasamningi fallið niður skv. 1. mgr. er óheimilt að innheimta hana eða gera tilraun þess. Hafi slík krafa fyrnst að hluta er óheimilt að innheimta hinn fyrnda hluta hennar eða gera tilraun til þess.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

5. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Innheimtulög, nr. 95/2008: Á eftir 2. mgr. 6. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Við innheimtu kröfu sem byggist á neytendasamningi skal innheimtuaðili veita upplýsingar um fyrningartíma kröfunnar með vísan til þeirra lagareglna sem marka þann tíma og leiðbeina um andmælarétt.
                      Óheimilt er að innheimta kröfu á grundvelli neytendasamnings sem er fallin niður vegna fyrningar eða gera tilraun til þess. Hafi slík krafa fyrnst að hluta er óheimilt að innheimta hinn fyrnda hluta hennar eða gera tilraun til þess.
     2.      Lög um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020: 26. gr. laganna fellur brott ásamt fyrirsögn.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta byggist á frumvarpi sem var lagt fram á 152. löggjafarþingi (82. mál) og er nú lagt fram með nokkrum nýjum ákvæðum sem styðja markmið þess.
    Með frumvarpinu er aðallega lagt til að fyrningarfrestur kröfuréttinda vegna lánssamninga við neytendur falli ekki lengur undir sérreglu 5. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, heldur muni þá gilda meginregla 3. gr. sömu laga um fjögurra ára fyrningarfrest.
    Þá verði fyrningarslitum allra krafna á hendur neytendum sett takmörk svo að kröfuhafi geti ekki slitið fyrningu endurtekið til að framlengja líftíma kröfu heldur aðeins í eitt skipti. Jafnframt komi skýrt fram í lögum um fyrningu kröfuréttinda og innheimtulögum að óheimilt sé að innheimta kröfur á grundvelli hvers konar samninga við neytendur sem eru fallnar niður vegna fyrningar ásamt því að innheimtuaðilum sé skylt að upplýsa neytanda um fyrningartíma og andmælarétt. Enn fremur er lagt til í samræmi við anda frumvarpsins að fella úr gildi undanþágu námslána frá þeim takmörkunum sem eru á fyrningartíma eftir gjaldþrot. Markmið frumvarpsins er að auka þannig vernd neytenda sem lenda í greiðsluerfiðleikum.
    Með lánssamningum við neytendur er átt við alla slíka samninga sem eru eða hafa verið boðnir almenningi að undirgangast, eins og þeir hafa verið skilgreindir hverju sinni, svo sem í lögum um neytendalán, nr. 33/2013, eða lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016.
    Með neytendasamningum er átt við alla samninga sem falla undir tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála sem var innleidd með 36. gr. a – 36. gr. d laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, og einnig samninga samkvæmt öðrum sértækari lögum á sviði neytendaréttar, svo sem lögum um neytendasamninga, nr. 16/2016, lögum um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, áðurnefndum lögum um neytendalán, nr. 33/2013, lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, o.fl.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Nauðsyn þess að koma til móts við neytendur í greiðsluerfiðleikum kom bersýnilega í ljós í kjölfar bankahrunsins árið 2008. Margir sem höfðu jafnvel misst heimili sín voru skráðir á vanskilaskrá með árangurslausu fjárnámi fyrir meintum eftirstöðvum húsnæðislána sem framlengdi erfiðleika þeirra um allt að áratug eða meira vegna þeirra áhrifa sem slíkt hefur. Til samræmis við markmið frumvarpsins er því lagt til að fyrningartími krafna á grundvelli lánssamninga við neytendur verði styttur úr tíu árum í fjögur ár til þess að gera neytendum örlítið hægara um vik að endurskipuleggja fjármál sín án þess að leita gjaldþrotaskipta.

Um 2. gr.

    Með greininni er lagt til að ekki verði hægt að slíta fyrningu gjaldfallinnar kröfu sem byggist á neytendasamningi oftar en einu sinni. Þannig yrði girt fyrir að kröfuhafar samkvæmt slíkum samningum geti framlengt líftíma kröfu með því að slíta fyrningu endurtekið eins og þeir hafa getað gert hingað til. Þessu er ætlað að stuðla að því markmiði frumvarpsins að auka vernd neytenda sem lenda í greiðsluerfiðleikum.

Um 3. gr.

    Til að stuðla frekar að því að markmiðum frumvarpsins verði náð er með þessari grein lagt til að áréttað verði að óheimilt sé að gera tilraun til þess að innheimta fyrndar kröfur sem byggjast á neytendasamningum. Það er einnig í samræmi við tilgang laga um fyrningu kröfuréttinda sem er sá að tryggja að endi verði bundinn á skuldbindingar sem stofnað hefur verið til og að viðskiptum verði lokið innan hæfilegs tíma frá því að til þeirra var stofnað.
    Jafnframt er tekið fram að sé slík krafa fyrnd að hluta sé óheimilt að innheimta þann hluta hennar. Þetta getur til dæmis átt við ef höfuðstóll kröfu er ófyrndur en áfallnir vextir eða önnur gjöld fyrnd að hluta og er þá óheimilt að innheimta þann hluta heildarkröfunnar.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 5. gr.

    Með sömu rökum og að framan greinir um einstök ákvæði frumvarpsins og til stuðnings við markmið þess eru lagðar til eftirfarandi breytingar á öðrum lögum.
1. Innheimtulög, nr. 95/2008.
    Til samræmis við 3. gr. og markmið frumvarpsins er lagt til að í innheimtulögum komi skýrt fram að óheimilt sé að innheimta fyrndar kröfur á hendur neytendum. Sama eigi við ef krafa er fyrnd að hluta en þá sé óheimilt að innheimta þann hluta sem er fyrndur. Jafnframt verði innheimtuaðilum gert skylt að upplýsa neytendur um fyrningartíma krafna með vísan til þeirra lagareglna sem byggt er á og veita leiðbeiningar um andmælarétt. Það myndi stuðla að því að neytendur yrðu betur upplýstir um rétt sinn og gætu þannig gætt hans betur.
2. Lög um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020.
    Eins og kom fram í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna er undanþága námslána frá fyrningartíma í kjölfar gjaldþrotaskipta í andstöðu við meginreglu skuldaskilaréttar um jafnræði kröfuhafa. Auk þess felur hún í sér mismunun milli skuldara eftir tegund skulda og hverjum er skuldað, sem kann að brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Stytting fyrningar og sérstök skilyrði fyrningarslita í kjölfar gjaldþrotaskipta sem voru lögfest með lögum nr. 142/2010 hafa reynst mikilvæg úrræði fyrir einstaklinga sem geta ekki fundið aðra leið út úr óviðráðanlegum skuldavanda. Jafnframt hefur Hæstiréttur Íslands ítrekað hafnað því að Menntasjóður námsmanna, sem áður hét Lánasjóður íslenskra námsmanna, hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra kröfuhafa af því að kröfur hans fyrndust ekki samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti. Enn fremur hefur komið í ljós að Menntasjóður námsmanna virðist túlka ákvæðið þannig að það eigi einnig við um námslán sem voru tekin í gildistíð eldri laga þegar engin slík undanþága var til staðar, en vafi leikur á því hvort slík afturvirkni standist enda hefur hún íþyngjandi áhrif. Samkvæmt framangreindu er því lagt til að ákvæði 26. gr. laga um Menntasjóð námsmanna falli brott.