Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga

1936 nr. 7 1. febrúar


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. febrúar 1936. Breytt með: L. 11/1986 (tóku gildi 1. maí 1986). L. 14/1995 (tóku gildi 9. mars 1995; 1. gr. kom til framkvæmda skv. fyrirmælum í 3. gr.; EES-samningurinn: XIX. viðauki tilskipun 93/13/EBE). L. 151/2001 (tóku gildi 31. des. 2001; EES-samningurinn: XIX. viðauki tilskipun 93/13/EBE). L. 72/2003 (tóku gildi 10. apríl 2003). L. 108/2006 (tóku gildi 1. nóv. 2006 skv. augl. C 1/2006). L. 98/2009 (tóku gildi 1. okt. 2009 nema 69. og 70. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2010). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

I. kafli. Um samningsgerð.
1. gr.
Ákvæðum þessa kafla skal beita ef eigi leiðir annað af löggerningnum sjálfum eða af verslunartísku eða annarri venju.
2. gr.
Hafi sá maður, sem boðist hefir til að gera samning (tilboðsgjafi), krafist svars innan ákveðins frests (samþykkisfrests), verður svar, sem tekur tilboðinu (samþykki), að vera komið til hans áður sá frestur sé liðinn.
Sé tilboð gert í bréfi, telst fresturinn frá þeim degi, er bréfið var dagsett. Sé tilboð gert í símskeyti, telst fresturinn frá þeirri stund, er skeytið var afhent á símastöð þess staðar, er það var sent frá.
3. gr.
Hafi sá maður, sem tilboð hefir gert í bréfi eða símskeyti, ekki kveðið á neinn samþykkisfrest, verður samþykkið að vera komið til hans áður en liðinn er sá tími, sem hann mátti ætla að til þess þyrfti, er hann gerði tilboðið. Sé eigi annað ljóst af atvikum málsins, skal frestur þessi reiknaður svo, að gert sé ráð fyrir, að tilboðið komi fram á réttum tíma, að gagnaðili hafi nægilegan tíma til umhugsunar, áður en hann svarar, og að svari hans seinki eigi á leiðinni. Sé tilboð gert í símskeyti, skal einnig svara því með símskeyti, ef svarið kemur eigi jafnsnemma fram með öðrum hætti.
Hafi tilboð verið gert munnlega og frestur eigi veittur til samþykkis, verður að samþykkja það þegar í stað.
4. gr.
Komi samþykki of seint fram, skal skoða það sem nýtt tilboð.
Þetta gildir þó ekki, ef sendandi samþykkisins ætlar, að samþykkið hafi komið fram í tæka tíð og tilboðsgjafa má vera það ljóst. Ef svo er, skal tilboðsgjafi skýra sendanda, án ástæðulausrar tafar, frá því, ef hann vill eigi taka samþykkinu. Að öðrum kosti telst samningur gerður.
5. gr.
Nú er tilboði hafnað, og skuldbindur það þá eigi tilboðsgjafa lengur, þótt samþykkisfrestur sé enn ekki liðinn.
6. gr.
Svar, sem felur í sér samþykki á tilboði, en vegna viðbótar, takmörkunar eða fyrirvara er í ósamræmi við það, skal skoða sem höfnun hins fyrra tilboðs og um leið sem nýtt tilboð.
Þetta gildir þó ekki, ef sendandi samþykkisins ætlar að samþykkið sé í samræmi við tilboðið og tilboðsgjafa má vera það ljóst. Ef svo er, skal tilboðsgjafi skýra sendanda frá því, án ástæðulausrar tafar, ef hann vill eigi taka samþykkinu. Að öðrum kosti telst samningur gerður, þess efnis, sem í samþykkinu fólst.
7. gr.
Sé tilboð eða svar við tilboði kallað aftur, er afturköllunin gild, ef hún kom til gagnaðilja áður en eða samtímis því, að tilboðið eða svarið kom til vitundar hans.
8. gr.
Nú hefir tilboðsgjafi lýst því yfir, að hann muni skoða þögn gagnaðilja síns sem samþykki, eða að það er með öðrum hætti ljóst, að hann væntir ekki skýrra svara, og er gagnaðilja þó samt sem áður skylt að svara fyrirspurn um það, hvort hann vilji samþykkja tilboðið. Geri hann það ekki, er tilboðið fallið niður.
9. gr.
Hafi maður sett orðin „án skuldbindingar“, eða önnur orð sömu merkingar, í orðsendingu, sem að öðrum kosti mundi teljast tilboð, þá er sú orðsending eigi tilboð, heldur skal skoða hana sem áskorun um að gera tilboð, þess efnis, sem í orðsendingunni felst. Komi slíkt tilboð, innan sennilegs tíma, frá einhverjum, sem orðsendingunni hefir verið beint til, og sá, sem það tilboð fær, má ætla, að það sé gert vegna orðsendingarinnar, þá skal hann, án ástæðulausrar tafar, skýra tilboðsgjafa frá því, ef hann vill ekki taka tilboðinu. Að öðrum kosti telst hann hafa samþykkt það.

II. kafli. Um umboð.
10. gr.
Geri umboðsmaður löggerning í nafni umbjóðanda og innan takmarka umboðs síns, þá skapar sá löggerningur rétt og skyldu fyrir umbjóðanda, án þess, að frekari löggerningur, frá umboðsmanni eða umbjóðanda, þurfi til að koma.
Sé maður, samkvæmt samningi við annan mann, í stöðu, er eftir lögum eða venju felur í sér heimild til þess að reka erindi hins innan vissra takmarka, þá telst hann hafa umboð til þess að gera þá löggerninga, sem innan þeirra takmarka eru.
11. gr.
Hafi umboðsmaður, er hann gerði löggerning, brotið í bág við þau fyrirmæli, er umbjóðandi gaf honum, og hafi þriðja manni verið þetta ljóst eða mátt vera það ljóst, þá er sá löggerningur ekki skuldbindandi fyrir umbjóðanda, enda þótt hann sé innan takmarka umboðsins.
Sama gildir, enda þótt þriðji maður sé grandlaus, ef um þau umboð er að ræða, sem getið er í 18. gr.
12. gr.
Nú vill umbjóðandi afturkalla eitthvert umboða þeirra, sem ræðir um í 13.–16. gr., og skal hann þá gæta þess, sem fyrir er mælt í greinum þessum, eftir því sem við á, og það eins, þótt hann hafi skýrt umboðsmanninum frá því, að umboðið skuli eigi lengur vera í gildi. Eigi fyrirmæli fleiri en einnar af greinum þessum við um sama umboð, skal þeirra allra gæta.
Hafi umboð verið kallað aftur með þeim hætti, sem segir í 13. gr., þá getur þriðji maður sá, er þá afturköllun fékk, eigi borið það fyrir sig, að umboðið hefði einnig átt að afturkalla með öðrum hætti.
13. gr.
Hafi umbjóðandi komið umboðinu til vitundar þriðja manns með yfirlýsingu, sem beint var til þess manns sérstaklega, þá er það umboð afturkallað, er sérstök yfirlýsing umbjóðanda, um að það skuli eigi gilda lengur, er komin til þess þriðja manns.
14. gr.
Umboð, sem umbjóðandi hefir birt í blöðum eða með öðrum álíka almennum hætti, verður afturkallað með yfirlýsingu, er birt sé með sama hætti og umboðið var birt.
Verði því eigi við komið, skal birta afturköllun umboðsins með öðrum álíka tryggilegum hætti. Ef umbjóðandi óskar þess, getur hann fengið fyrirmæli valdsmanns þess, er getur um í 17. gr., um það, hversu birtingu þessari skuli hagað.
Þinglýsing umboðs telst ekki almenn birting þess.
15. gr.
Umboð þau, sem ræðir um í 2. mgr. 10. gr., teljast afturkölluð, er umboðsmaðurinn lætur af starfanum.
16. gr.
Skriflegt umboð, sem fengið er umboðsmanni í hendur, til þess að hann sýni það þriðja manni, er afturkallað, ef því, eftir kröfu umbjóðanda, er skilað honum aftur eða það er eyðilagt.
Umboðsmanni er skylt að skila umboðinu aftur, er umbjóðandi krefst þess.
17. gr.
Nú leiðir umbjóðandi líkur að því, að umboð, slíkt sem um er rætt í 16. gr., sé glatað eða að hann af öðrum ástæðum geti ekki fengið það aftur innan hæfilegs tíma, og má þá fá það lýst ógilt.
Beiðni um ógildingu skal senda héraðsdómara á lögheimili umbjóðanda eða á þeim stað, er umbjóðandi síðast átti lögheimili. Þyki dómara ástæða til þess að taka beiðnina til greina gefur hann út úrskurð um, að umboðið skuli vera ógilt, þegar úrskurðurinn hefir verið birtur í Lögbirtingablaðinu einu sinni og liðinn er tiltekinn tími, sem eigi má vera lengri en 14 dagar frá þeirri birtingu. Dómarinn getur kveðið svo á í úrskurðinum, að hann skuli, auk birtingarinnar í Lögbirtingablaðinu, einnig birtur með öðrum hætti.
Úrskurði dómara samkvæmt grein þessari verður eigi áfrýjað til æðra dóms.
18. gr.
Umboð, sem felst aðeins í yfirlýsingu umbjóðanda til umboðsmannsins, verður afturkallað, er yfirlýsing umbjóðanda, um að umboðið skuli eigi gilda framar, er komin til umboðsmannsins.
19. gr.
Nú hefir umboð verið afturkallað eða lýst ógilt, en umbjóðandi hefir sérstaka ástæðu til að ætla, að umboðsmaður muni samt sem áður gera löggerning sín vegna við ákveðinn þriðja mann, sem umbjóðandi má ætla, að sé ókunnugt um, að umboðið er fallið úr gildi, og verður hann þá að skýra þriðja manni frá því, ef honum er það unnt. Að öðrum kosti verður löggerningurinn skuldbindandi fyrir hann, ef þriðji maður var grandlaus.
20. gr.
Nú hefir umboð hvorki verið afturkallað né lýst ógilt, en umbjóðandi hefir bannað umboðsmanninum að nota það eða á annan veg gefið til kynna, að hann vilji eigi, að umboðið sé lengur í gildi, og verður þá löggerningur, sem umboðsmaðurinn gerir samkvæmt því umboði, eigi skuldbindandi fyrir umbjóðanda, ef þriðja manni var þetta kunnugt eða honum mátti vera það kunnugt.
21. gr.
Andist umbjóðandi, heldur umboðið samt sem áður gildi sínu, nema sérstakar ástæður sýni, að það skuli falla úr gildi. Löggerningur, sem umboðsmaðurinn gerir samkvæmt umboðinu, verður þó jafnan gildur gagnvart dánarbúi umbjóðanda, ef þriðja manni var ókunnugt um andlát umbjóðanda og áhrif þess á heimild umboðsmannsins til að gera löggerninginn og eigi varð ætlast til þess, að honum væri þetta kunnugt. Sé um þau umboð að ræða, sem getur um í 18. gr., er löggerningurinn þó því aðeins gildur, að umboðsmanninum hafi eigi heldur verið um þetta kunnugt eða mátt vera það.
Nú er dánarbú umbjóðanda tekið til opinberrar skiptameðferðar, og fellur þá umboðið úr gildi.
22. gr.
Hafi umbjóðandi verið sviptur lögræði, öðlast þriðji maður ekki frekari rétt á hendur honum, með löggerningi við umboðsmanninn, en hann hefði öðlast, ef hann hefði gert gerninginn við umbjóðanda sjálfan. Þegar svo stendur á, að þriðji maður hefði eigi getað borið gerninginn fyrir sig gagnvart umbjóðanda, ef hann hefði vitað um lögræðissviptinguna eða mátt vera um hana kunnugt, þá getur hann eigi heldur borið gerninginn fyrir sig, ef umboðsmanninum var kunnugt um lögræðissviptinguna eða mátti vera um hana kunnugt, er hann gerði gerninginn, og um þau umboð var að ræða, sem getur um í 18. gr.
23. gr.
Ef bú umbjóðanda hefir verið tekið til gjaldþrotaskipta, öðlast þriðji maður ekki frekari rétt á hendur þrotabúinu, með löggerningi við umboðsmanninn, en hann hefði öðlast, ef hann hefði gert gerninginn við þrotamanninn sjálfan. Hafi gerningurinn verið gerður samkvæmt umboði, sem ræðir um í 18. gr., getur þriðji maður eigi borið hann fyrir sig, hafi umboðsmanninum verið kunnugt um gjaldþrotin eða mátt vera um þau kunnugt, er hann gerði gerninginn.
24. gr.
Nú hefir umbjóðandi andast, verið sviptur lögræði eða bú hans verið tekið til gjaldþrotaskipta, og getur þá umboðsmaður samt sem áður gert þá gerninga samkvæmt umboði sínu, sem nauðsynlegir eru til þess að verja búið eða umbjóðanda tjóni, fram til þess, að búið eða lögráðamaður umbjóðanda geta gert þær ráðstafanir, sem gera þarf.
25. gr.
Sá, sem kemur fram sem umboðsmaður annars manns, ábyrgist, að hann hafi nægilegt umboð. Sanni hann eigi, að hann hafi slíkt umboð eða að gerningur sá, sem hann gerði, hafi verið samþykktur af þeim manni, sem hann taldi sig hafa umboð frá, eða að gerningurinn af öðrum ástæðum sé skuldbindandi fyrir þann mann, skal hann bæta það tjón, sem þriðji maður verður fyrir við það, að gerningnum verður eigi beitt gegn þeim manni, sem sagður var vera umbjóðandi.
Þetta gildir þó eigi, ef þriðji maður vissi eða mátti vita, að sá maður er gerninginn gerði, hafði eigi nægilegt umboð, né heldur ef sá maður, sem gerninginn gerði, fór eftir umboði, sem var ógilt af ástæðum, sem honum var ókunnugt um og þriðji maður gat eigi búist við, að honum væri kunnugt um.
26. gr.
Ákvæði þessa kafla um umboð til að gera löggerninga gilda einnig, eftir því sem við á, um umboð til að taka við löggerningum fyrir umbjóðanda hönd.
27. gr.
Um afturköllun prókúruumboðs, sem tilkynnt hefir verið til verslunarskrár, fer eftir ákvæðum 7. og 32. gr. laga um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð frá 13. nóvember 1903. Hafi afturköllunin verið skrásett og birt með lögboðnum hætti, þarf umbjóðandi eigi einnig að kalla umboðið aftur með öðrum hætti.

III. kafli. Um ógilda löggerninga.
28. gr.
Hafi maður með ólögmætum hætti verið neyddur til að gera löggerning, og nauðungin er fólgin í líkamlegu ofbeldi eða hótunum um að beita því þegar í stað, þá er sá löggerningur eigi skuldbindandi fyrir þann mann, sem neyddur var.
Nú hefir þriðji maður beitt nauðunginni, en sá maður, sem löggerningnum var beint til, var grandlaus, og verður þá sá, sem neyddur var, ef hann vill bera nauðungina fyrir sig, að skýra honum frá því, án ástæðulausrar tafar, eftir að nauðunginni létti af. Að öðrum kosti er hann skuldbundinn samkvæmt löggerningnum.
29. gr.
Hafi maður með ólögmætum hætti neytt annan mann til að gera löggerning, og þó eigi beitt slíkri nauðung, sem ræðir um í 28. gr., þá er sá löggerningur eigi skuldbindandi fyrir þann, sem neyddur var, ef sá maður, sem tók við löggerningnum, hefir sjálfur beitt nauðunginni eða hann vissi eða mátti vita, að löggerningurinn var gerður vegna ólögmætrar nauðungar af hálfu annars manns.
30. gr.
Löggerningur skuldbindur eigi þann mann, sem gerði hann, ef hann var fenginn til þess með svikum, og sá maður, sem við löggerningnum tók, beitti sjálfur svikunum eða hann vissi eða mátti vita, að gerningurinn var gerður fyrir svik annars manns.
Hafi sá, sem tók við löggerningnum, sviksamlega skýrt rangt frá atvikum, sem ætla mátti að skiptu máli um löggerninginn, eða hann hefir sviksamlega þagað yfir slíkum atvikum, skal líta svo á, sem gerningurinn hafi verið gerður fyrir þau svik, nema það sannist, að þessi atriði hafi engin áhrif haft um það, að löggerningurinn var gerður.
31. gr.
[Hafi nokkur maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða léttúð eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér hagsmuna eða áskilja sér þá þannig að bersýnilegur mismunur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því er fyrir þá kom eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, skal gerningur sá, er þannig er til kominn, ógildur gagnvart þeim aðila er á var hallað með honum. Sama gildir þótt annar maður en sá, sem gerningurinn var gerður við, eigi sök á misferli því sem getið er í 1. málsl. þessarar greinar, enda sé þeim, er haginn átti að hafa af gerningnum, það kunnugt eða megi vera það kunnugt.] 1)
    1)L. 11/1986, 1. gr.
32. gr.
[Löggerningur, sem vegna misritunar eða annarra mistaka af hálfu þess er gerði hann hefur orðið annars efnis en til var ætlast, er ekki skuldbindandi fyrir þann sem gerði hann ef sá maður, sem löggerningnum var beint til, vissi eða mátti vita að mistök hefðu átt sér stað.
Nú er löggerningur sendur í símskeyti og aflagast hann í meðförum símans og er hann þá eigi skuldbindandi fyrir sendanda í þeirri mynd sem hann kemur fram í, og það enda þótt móttakandi sé grandlaus. Sama gildir sé munnlegum löggerningi, sem boðbera er falið að skila, skilað röngum.
Eigi sendandi sök á mistökunum skal honum skylt að bæta móttakanda það tjón sem hann hefur orðið fyrir af þeim. Nú fær sendandi vitneskju um mistökin og skal hann þá, án ástæðulausrar tafar, skýra gagnaðilja frá því ef hann ætlar að bera þau fyrir sig. Að öðrum kosti gildir löggerningurinn svo sem hann var er hann kom til móttakanda nema því aðeins að móttakandi hafi vitað um mistökin eða mátt um þau vita.] 1)
    1)L. 11/1986, 2. gr.
33. gr.
[Löggerning, sem ella mundi talinn gildur, getur sá maður, er við honum tók, eigi borið fyrir sig ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi voru þegar löggerningurinn kom til vitundar hans og ætla má að hann hafi haft vitneskju um.] 1)
    1)L. 11/1986, 3. gr.
34. gr.
[Nú hefur skriflegur löggerningur verið gerður til málamynda og hefur sá maður, sem við gerningnum tók, framselt grandlausum þriðja manni rétt sinn samkvæmt honum og verður það þá eigi borið fram gegn þeim manni að gerningurinn hafi verið gerður til málamynda.] 1)
    1)L. 11/1986, 4. gr.
35. gr.
[Hafi kröfuhafi gegn vilja sínum misst kvittun fyrir peningaupphæð er skuldari samt sem áður laus mála ef hann í grandleysi greiðir, á gjalddaga eða eftir, gegn afhendingu kvittunarinnar.] 1)
    1)L. 11/1986, 5. gr.
36. gr.
[Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, [sbr. þó 36. gr. c]. 1) Hið sama á við um aðra löggerninga.
Við mat skv. 1. mgr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.] 2)
    1)L. 14/1995, 1. gr. 2)L. 11/1986, 6. gr.
[36. gr. a.
Ákvæði 36. gr. a–d gilda um samninga, m.a. samningsskilmála, sem ekki hefur verið samið um sérstaklega enda séu samningarnir liður í starfsemi annars aðilans, atvinnurekanda, en í meginatriðum ekki liður í starfsemi hins aðilans, neytanda, sbr. þó 36. gr. d. Ákvæðin gilda einnig um samninga milli neytenda sem atvinnurekandi stendur að fyrir annan aðilanna.
Á atvinnurekandanum hvílir sönnunarbyrðin fyrir því að samið hafi verið sérstaklega um samning og hann falli ekki undir 1. mgr.] 1)
    1)L. 14/1995, 2. gr.
[36. gr. b.
Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.
[Regla 2. málsl. 1. mgr. gildir ekki þegar aðilar eða stofnanir sem hafa það hlutverk að vernda neytendur geta gripið til aðgerða samkvæmt landslögum til að fá úr því skorið hvort samningsskilmálar sem ætlaðir eru til almennrar notkunar séu ósanngjarnir.] 1)] 2)
    1)L. 151/2001, 1. gr. 2)L. 14/1995, 3. gr.
[36. gr. c.
Ákvæði 36. gr. gilda um samninga skv. 1. mgr. 36. gr. a, þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr.
Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.
Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.] 1)
    1)L. 14/1995, 4. gr.
[36. gr. d.
Ef ákvæði samnings tengist náið landsvæði EES-ríkja þannig að samningurinn sé t.d. gerður þar eða einhver samningsaðila búi þar og samingsákvæði kveður á um að löggjöf lands utan Evrópska efnahagssvæðisins skuli gilda um samninginn skal ákvæðið ekki gilda um ósanngjarna samningsskilmála ef neytandinn fær við það lakari vernd gegn slíkum skilmálum en samkvæmt viðeigandi löggjöf lands á efnahagssvæðinu. [Ef ákvæði samnings tengist landsvæði aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja með samsvarandi hætti skal neytandinn eigi njóta lakari verndar en samkvæmt löggjöf viðkomandi lands á svæðinu.] 1)] 2)
    1)L. 108/2006, 67. gr. 2)L. 14/1995, 5. gr.
37. gr.
[Hafi maður, í því skyni að varna samkeppni, áskilið sér hjá öðrum manni að sá maður reki eigi verslun eða aðra atvinnu, eða hann ráði sig eigi til starfa við slíkt fyrirtæki, þá er það loforð eigi bindandi fyrir þann mann ef telja verður, þegar litið er til allra atvika, að skuldbinding þessi sé víðtækari en nauðsynlegt er til þess að varna samkeppni eða hún skerði með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi þess manns sem tókst þessa skyldu á herðar. Við mat á hinu síðastnefnda atriði skal einnig hafa hliðsjón af því hverju það varðar rétthafann að þessi skuldbinding sé haldin.
Hafi starfsmaður við verslun eða annað fyrirtæki tekið á sig slíka skuldbindingu, sem getur um í 1. mgr., gagnvart þeim, sem fyrirtækið rekur, og skuldbinding hans á að gilda eftir að ráðningu hans við fyrirtækið er lokið þá er sú skuldbinding ógild ef honum er sagt upp stöðunni eða vikið úr henni án þess að hann hafi sjálfur gefið nægilega ástæðu til þess eða ef hann sjálfur fer löglega úr stöðunni sakir þess að sá, sem fyrirtækið rekur, vanefnir skyldur sínar við hann.] 1)
    1)L. 11/1986, 7. gr.

IV. kafli. Almenn ákvæði.
38. gr.
Nú er gildi samnings eða annars löggernings samkvæmt lögum þessum komið undir því, að sá maður, sem löggerningnum er beint til, hafi eigi haft eða mátt hafa vitneskju um tiltekin atvik eða að hann að öðru leyti hafi verið grandlaus, og skal þá á það líta, sem hann vissi eða mátti vita á þeirri stund, er löggerningurinn kom til vitundar honum. Þegar sérstaklega stendur á, má þó einnig líta á þá vitneskju, sem hann fékk eða mátti hafa fengið eftir þann tíma, en áður en löggerningurinn hafði áhrif um ráðstafanir hans.
39. gr.
[Nú hefur maður afhent tilkynningu skv. 4., 6., 9., 19., 28. og 32. gr. laga þessara til flutnings með síma, pósti eða öðru því flutningstæki sem gilt þykir að nota og kemur það þá eigi honum að sök þótt þeirri tilkynningu seinki eða hún komist eigi til skila.] 1)
    1)L. 11/1986, 8. gr.
40. gr.
Lög þessi gilda eigi um löggerninga, er lúta að málefnum, sem reglur persónuréttarins, sifjaréttarins eða erfðaréttarins gilda um.
[40. gr. a.
[Ráðherra] 1) er heimilt á grundvelli EES-tilskipunar 93/13/EBE um ósanngjarna samningsskilmála að kveða nánar á með reglugerð um framkvæmd ákvæða laga þessara um ósanngjarna samningsskilmála.] 2)
    1)L. 126/2011, 12. gr. 2)L. 151/2001, 2. gr.