Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 13. september 2022. Útgáfa 152c. Prenta í tveimur dálkum.
Innheimtulög
2008 nr. 95 12. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. janúar 2009. Breytt með: L. 98/2009 (tóku gildi 1. okt. 2009 nema 69. og 70. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2010). L. 60/2010 (tóku gildi 19. júní 2010). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 78/2012 (tóku gildi 5. júlí 2012). L. 55/2018 (tóku gildi 22. júní 2018). L. 141/2018 (tóku gildi 1. jan. 2019). L. 16/2019 (tóku gildi 9. mars 2019). L. 91/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020 nema 133. gr. sem tók gildi 16. júlí 2019).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.
I. kafli. Gildissvið o.fl.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um frum- og milliinnheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi. Þau gilda þó ekki um innheimtu opinberra aðila á sköttum og gjöldum og löginnheimtu.
Með fruminnheimtu er átt við innheimtuviðvörun skv. 7. gr. Með milliinnheimtu er átt við innheimtuaðgerðir sem hefjast eftir að skuldari hefur fengið innheimtuviðvörun skv. 7. gr. og áður en löginnheimta hefst. [Með löginnheimtu er átt við innheimtumeðferð á grundvelli 24. gr. a laga um lögmenn, nr. 77/1998.] 1) Innheimtuaðili er einstaklingur eða lögaðili sem annast innheimtu, [þ.m.t. vörslusviptingu]. 2)
1)L. 60/2010, 8. gr. 2)L. 78/2012, 1. gr.
2. gr. Frávíkjanleg ákvæði.
Heimilt er með samningi milli kröfuhafa og skuldara í atvinnurekstri að víkja frá ákvæðum 7. gr. Heimilt er með samningi milli kröfuhafa og innheimtuaðila að víkja frá ákvæðum 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. Önnur ákvæði laganna eru ófrávíkjanleg.
II. kafli. Skilyrði til að mega stunda innheimtu.
3. gr. Skilyrði til að mega stunda innheimtu fyrir aðra.
Innheimtuaðilar mega því aðeins stunda innheimtu fyrir aðra:
a. að þeir hafi fengið innheimtuleyfi skv. 15. gr., sbr. 4. gr.;
b. að innheimtan sé stunduð frá fastri starfsstöð hér á landi nema annað leiði af alþjóðasamningum sem binda Ísland; og
c. að starfsábyrgðartrygging skv. 14. gr. sé í gildi.
[Lögmenn, lögmannsstofur og lögaðilar sem eru að öllu leyti í eigu eins eða fleiri lögmanna eða lögmannsstofa, svo og opinberir aðilar, viðskiptabankar og sparisjóðir, aðrar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, mega þó stunda innheimtu án innheimtuleyfis.] 1)
1)L. 55/2018, 1. gr.
4. gr. Veiting innheimtuleyfis.
Innheimtuleyfi er veitt á grundvelli umsóknar frá einstaklingi sem:
a. er lögráða og hefur undanfarin fimm ár hvorki farið fram á eða verið í greiðslustöðvun né bú hans verið tekið til gjaldþrotaskipta;
b. hefur [gott orðspor] 1) …; 2)
c. býr yfir nægilegri þekkingu eða starfsreynslu til að geta gegnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt;
d. hefur lögheimili hér á landi nema annað leiði af alþjóðasamningum sem binda Ísland;
e. er ekki í vanskilum með vörsluskatta;
[f. hefur gilda starfsábyrgðartryggingu skv. 14. gr.] 3)
Innheimtuleyfi er einnig veitt samkvæmt umsókn frá lögaðila enda fullnægi framkvæmdastjóri eða yfirmaður viðkomandi starfsemi skilyrðum [a–e-liðar] 3) 1. mgr. Lögaðilinn skal fullnægja skilyrðum [a-, e- og f-liðar] 3) 1. mgr.
1)L. 141/2018, 26. gr. 2)L. 16/2019, 1. gr. 3)L. 55/2018, 2. gr.
5. gr. Innheimta eigin peningakröfu.
Ef aðili kaupir kröfur í þeim tilgangi að innheimta þær sjálfur í atvinnuskyni þarf innheimtuleyfi samkvæmt lögum þessum.
III. kafli. Samband innheimtuaðila og skuldara.
6. gr. Góðir innheimtuhættir.
Innheimta skal vera í samræmi við góða innheimtuhætti.
Það telst m.a. brjóta í bága við góða innheimtuhætti að beita óhæfilegum þrýstingi eða valda óþarfa tjóni eða óþægindum.
[6. gr. a.
Innheimtuaðili skal, hvort sem er við frum- eða milliinnheimtu, afla skriflegs samþykkis skuldara áður en lausafé er tekið úr vörslum skuldara, enda sé skuldari í vanskilum með afborganir eða lánskostnað. Skal innheimtuaðili jafnframt láta skuldara í té afrit skriflegs samþykkis í síðasta lagi samtímis afhendingu lausafjármunar. Liggi slíkt samþykki ekki fyrir verður innheimtuaðili að leita aðfarar eftir reglum aðfararlaga, nr. 90/1989.] 1)
1)L. 78/2012, 2. gr.
7. gr. Innheimtuviðvörun.
Eftir gjalddaga kröfu skal kröfuhafi eða innheimtuaðili senda skuldara eina skriflega viðvörun þess efnis að vænta megi frekari innheimtuaðgerða verði krafa eigi greidd innan tíu daga frá sendingu viðvörunar. Veita má lengri frest til greiðslu.
Í viðvörun komi fram:
a. nöfn, kennitölur og heimilisföng skuldara, kröfuhafa eða umboðsmanns hans og innheimtuaðila;
b. lýsing á kröfu;
c. fjárhæð kröfu og skal sundurliða hver sé höfuðstóll og hverjar séu viðbótarkröfur, svo sem dráttarvextir og innheimtuþóknun;
d. greiðslustaður; og
e. að greiðslufall skuldara geti leitt til málshöfðunar eða annarra innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga og aukins kostnaðar fyrir skuldara.
Þeir sem stunda innheimtu vegna eigin starfsemi og falla ekki undir 2. mgr. 3. gr. geta sent innheimtuviðvörun skv. 1.–2. mgr. fyrir gjalddaga enda komi eigi til greiðslu innheimtuþóknunar vegna viðvörunarinnar skv. c-lið sé krafa greidd í síðasta lagi tíu dögum eftir gjalddaga.
Krafa telst greidd ef greiðsla hefur borist áður en fresturinn er liðinn eða greiðslan er sannanlega sett í ábyrgðarpóst fyrir lok frestsins.
Ef hætta er á að möguleikum á fullnustu kröfu verði spillt eða aðrir mikilvægir hagsmunir eru í húfi má víkja frá ákvæðum þessarar greinar um sendingu viðvörunar.
Ef skuldari hefur sannanlega hreyft mótbárum gegn peningakröfu er heimilt að bera ágreining um réttmæti kröfunnar undir dómstóla án þess að fyrst sé gætt ákvæða þessarar greinar.
8. gr. Umboð innheimtuaðila.
Greiðsla skuldara til innheimtuaðila eða samningur við innheimtuaðila um greiðslu, m.a. eftirgjöf að nokkru eða öllu leyti, hefur sama gildi fyrir skuldara og greitt hafi verið til kröfuhafa sjálfs eða samið við hann um greiðsluna. Samningar um greiðslu skulu vera skriflegir óski skuldari þess.
IV. kafli. Samband innheimtuaðila og kröfuhafa.
9. gr. Upplýsingaskylda innheimtuaðila.
Innheimtuaðili skal eftir beiðni veita kröfuhafa upplýsingar um gang innheimtu. Ljúki innheimtu samkvæmt lögum þessum án eftirfarandi innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga skal innheimtuaðili að beiðni kröfuhafa afhenda honum skriflegt uppgjör er sýni hvað skuldari hafi verið krafinn um, hve mikið hann hafi greitt og hvenær og hver sé krafa innheimtuaðila um þóknun fyrir vinnu og útlagðan kostnað.
10. gr. Meðferð innheimtufjár.
Innheimtuaðili skal án ástæðulauss dráttar greiða kröfuhafa innheimt fé. Innheimtuaðila er heimilt að halda eftir fé sem nemur fjárhæð þóknunar til hans og útlagðs kostnaðar.
Innheimtuaðili, sem stundar innheimtu fyrir aðra, skal halda innheimtufénu aðskildu frá eigin fé. Skal féð án ástæðulauss dráttar lagt á vörslufjárreikning en opinberir aðilar, viðskiptabankar og sparisjóðir, aðrar lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki, sem mega stunda innheimtu án innheimtuleyfis skv. 2. mgr. 3. gr., eru þó undanþegnir þessari skyldu. Sérákvæði um vörslufjárreikninga lögmanna haldast. [Innheimtuaðili er ekki eigandi innstæðu á vörslufjárreikningi og innstæðan er ekki hæft andlag aðfarargerða hjá honum og stendur utan skuldaraðar við skipti á búi hans.] 1)
1)L. 55/2018, 3. gr.
V. kafli. Greiðsla innheimtukostnaðar og hámarksfjárhæð hans.
11. gr. Ábyrgð skuldara á greiðslu innheimtukostnaðar.
Ef skuldari hefur greitt innan greiðslufrests skv. 7. gr. verður hann aðeins krafinn um kostnað vegna innheimtuviðvörunar, sbr. 12. gr. Ef greiðsluseðill og innheimtuviðvörun hafa í slíku tilviki verið sameinuð skv. 3. mgr. 7. gr. verður hann þó eigi krafinn um kostnað vegna viðvörunarinnar. Ef brotið hefur verið gegn 7. gr., þannig að innheimtuviðvörunin þjóni ekki tilgangi sínum, verður skuldari aðeins krafinn um kostnað vegna viðvörunarinnar.
12. gr. Hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar.
[Ráðherra] 1) getur ákveðið í reglugerð 2) hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar, sem heimilt er að krefja skuldara um samkvæmt lögum þessum. Skal fjárhæðin taka mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur getur talist. Heimilt er að innheimta viðbót vegna umdeildra peningakrafna þar sem þörf hefur verið á sérfræðilegri ráðgjöf.
1)L. 126/2011, 495. gr. 2)Rg. 37/2009, sbr. 133/2010 og 401/2015.
VI. kafli. Ýmis ákvæði.
13. gr. Þagnarskylda.
Innheimtuaðili og starfsmenn hans eru bundnir þagnarskyldu um persónuhagi og rekstrar- eða viðskiptamál og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í innheimtustarfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
14. gr. Starfsábyrgðartrygging.
Innheimtuaðili, sem stundar innheimtu á grundvelli leyfis skv. 4. gr., skal hafa starfsábyrgðartryggingu sem tryggir skuldara og kröfuhafa bætur ef þeir verða fyrir fjárhagstjóni sem leyfishafinn ber skaðabótaábyrgð á og rakið verður til gáleysis í störfum hans eða starfsmanna hans. Slíka tryggingu má setja með því að kaupa vátryggingu hjá vátryggingafélagi eða setja bankaábyrgð hjá banka eða sparisjóði sem hefur heimild til að starfa hér á landi. Trygging skal nema minnst 5.500.000 kr. vegna hvers einstaks tjónsatburðar. Heildarfjárhæð tryggingabóta innan hvers vátryggingarárs eða ábyrgðarárs skal nema minnst 16.500.000 kr. Falli vátrygging eða bankaábyrgð úr gildi skal hlutaðeigandi vátryggingafélag eða ábyrgðaraðili tilkynna það vátryggingar- eða ábyrgðartaka og viðkomandi eftirlitsaðila þegar í stað. Tryggingartíma telst ekki lokið fyrr en liðnar eru átta vikur frá því að vátryggingafélagið eða ábyrgðaraðilinn tilkynnti vátryggingar- eða ábyrgðartaka og eftirlitsaðila um tryggingarslit eða niðurfellingu ábyrgðar.
Ef leyfishafi hefur samhliða innheimtustarfsemi með höndum lögmannsstörf og hefur ábyrgðartryggingu telst hann hafa fullnægt tryggingarskyldu sinni samkvæmt lögum þessum.
15. gr. Leyfisveiting og eftirlitsaðilar.
Fjármálaeftirlitið fer með leyfisveitingu samkvæmt lögum þessum, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 4. og 5. gr., og annast almennt eftirlit með framkvæmd þeirra.
[Gagnvart lögmönnum, lögmannsstofum og lögaðilum í eigu lögmanna eða lögmannsstofa skv. 2. mgr. 3. gr. fer Lögmannafélag Íslands með eftirlit samkvæmt lögum þessum og lögum um lögmenn.] 1)
Eftirlitsaðilar skv. 1. og 2. mgr. skulu samræma verklagsreglur sínar um eftirlit samkvæmt lögum þessum.
1)L. 55/2018, 4. gr.
16. gr. Eftirlit.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi þeirra aðila sem það hefur veitt innheimtuleyfi samkvæmt lögum þessum, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 5. gr., svo og þeirra aðila sem taldir eru upp í 2. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., að lögmönnum undanskildum. Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins gilda lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.
Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist sérhverra gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðila eða þriðja aðila að viðlögðum dagsektum.
Sé leyfisskyld starfsemi stunduð án þess að leyfi hafi verið veitt getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að slíkri starfsemi verði hætt. Jafnframt er heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
Þeir aðilar sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með skulu taka þátt í greiðslu rekstrarkostnaðar þess með greiðslu eftirlitsgjalds í samræmi við ákvæði laga þar um.
17. gr. Svipting innheimtuleyfis.
Fjármálaeftirlitið getur svipt leyfishafa innheimtuleyfi skv. 4. gr., sbr. 1. mgr. 3. gr. og 5. gr., ef:
a. hann hefur brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum; eða
b. skilyrði fyrir veitingu leyfis eru ekki lengur til staðar.
[17. gr. a. Niðurfelling innheimtuleyfis.
Innheimtuleyfi innheimtuaðila fellur niður:
a. sé það ekki nýtt innan tólf mánaða frá útgáfu innheimtuleyfis;
b. afsali innheimtuaðili innheimtuleyfi sínu með ótvíræðum hætti; eða
c. séu liðnir meira en sex mánuðir síðan starfsemi var hætt.
Afsali innheimtuaðili innheimtuleyfi sínu skv. b-lið 1. mgr. skal hann gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja réttarstöðu viðskiptavina sinna og gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir ráðstöfunum sínum. Hann skal jafnframt upplýsa viðskiptamenn sína um afsal innheimtuleyfis.
Fjármálaeftirlitið skal staðfesta niðurfellingu innheimtuleyfis. Innheimtuaðila er óheimilt að segja upp starfsábyrgðartryggingu fyrr en að fenginni staðfestingu Fjármálaeftirlitsins á niðurfellingu leyfis.] 1)
1)L. 55/2018, 5. gr.
18. gr. Stjórnvaldssektir.
Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem það hefur eftirlit með og brýtur gegn:
a. 3. gr. um skilyrði til að mega stunda innheimtu fyrir aðra;
[b. 6. gr. a um vörslusviptingu]; 1)
[c.] 1) 7. gr. um innheimtuviðvörun;
[d.] 1) 3. mgr. 16. gr. telji eftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilins leyfis;
[e.] 1) sátt milli Fjármálaeftirlitsins og aðila, sbr. 19. gr.;
[f.] 1) reglugerð [ráðherra] 2) skv. 12. gr. um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Stjórnvaldssektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10.000 til 20.000.000 kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50.000 til 50.000.000 kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. taka tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila eða hvort um ítrekað brot er að ræða. [Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar.] 3) Sektirnar renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Séu stjórnvaldssektir eigi greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektanna. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssektar eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema unnt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Frestur rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á ætluðu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
1)L. 78/2012, 3. gr. 2)L. 126/2011, 495. gr. 3)L. 91/2019, 67. gr.
19. gr. Sættir.
Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.
20. gr. Sektir eða fangelsi.
Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta, eða eiga hlutdeild í því að brjóta, af ásetningi gegn ákvæðum 13. gr. um þagnarskyldu.
Þá varðar það sömu refsingu að gefa, eða eiga hlutdeild í því að gefa, af ásetningi vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um hagi fjármálafyrirtækis, er fellur undir lög þessi, eða annað er það varðar, opinberlega eða til Fjármálaeftirlitsins, annarra opinberra aðila eða viðsemjenda sinna.
Um mál út af broti samkvæmt þessari grein skal fara að hætti laga um meðferð opinberra mála.
21. gr. Reglugerðarheimild.
[Ráðherra] 1) getur með reglugerð 2) sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. [Seðlabanki Íslands] 3) getur sett reglur 4) um framkvæmd eftirlits.
1)L. 126/2011, 495. gr. 2)Rg. 37/2009, sbr. 133/2010 og 401/2015. 3)L. 91/2019, 68. gr. 4) Rgl. 981/2016.
22. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009. …