Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 1997.  Útgáfa 121a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lögræðislög

1984 nr. 68 30. maíI. kafli.
1. gr. Maður er sjálfráða 16 ára gamall, nema sviptur sé sjálfræði, og fjárráða 18 ára gamall, nema sviptur sé fjárræði. Sá sem er sjálfráða og fjárráða er lögráða.
2. gr. Nú gengur maður, sem ólögráða er fyrir æsku sakir, í hjónaband, og er hann þá lögráða upp frá því, nema sviptur sé lögræði.

II. kafli.
3. gr. Svipta má mann lögræði, sjálfræði einu saman, fjárræði einu sér eða hvoru tveggja:
    a. Ef hann er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms.
    b. Ef hann stofnar efnahag sínum eða vandamanna sinna í hættu með óhæfilegri eyðslusemi, annarri ráðlausri breytni eða hirðuleysi um eignir sem eru í umráðum hans.
    c. Ef hann sökum ofdrykkju, notkunar ávana- og fíkniefna eða annarra lasta er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé, verður öðrum til byrði, vanrækir framfærsluskyldur eða raskar þráfaldlega opinberum hagsmunum.
    d. Ef nauðsyn ber til að vista hann án samþykkis hans í sjúkrahúsi sökum fyrirmæla í heilbrigðislöggjöfinni.
    e. Ef hann vegna líkamlegs vanþroska, heilsubrests eða annarra vanheilinda á óhægt með að ráða persónulegum högum sínum eða fé og æskir sjálfur lögræðissviptingar af þeim sökum.
Veita skal lögræðissviptum manni á ný sjálfræði, fjárræði eða hvort tveggja eftir því sem við á ef aðstæður lögræðissviptingar eru ekki lengur fyrir hendi.
4. gr. 1)
    1)L. 92/1991, 79. gr.
5. gr. Sóknaraðili að lögræðissviptingarmáli getur verið:
    a. Maki varnaraðila, ættingjar hans í beinan legg og systkin.
    b. Lögráðamaður aðila.
    c. Sá sem skyldur er að lögum að framfæra aðila og sá sem framfærslurétt hefur á hendur honum að lögum.
    d. Sá sem næstur er erfingi aðila að lögum eða samkvæmt erfðaskrá sem ekki er afturtæk.
    e. Félagsmálastofnun eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar á dvalarstað varnaraðila.
    f. Dómsmálaráðuneytið, þegar gæsla almannahags gerir þess þörf eða þegar það telur réttmætt að gera kröfuna vegna tilmæla aðila sjálfs, vandamanna, læknis hans eða vina, eða vegna vitneskju um hag aðila er það hefur fengið á annan hátt.
Enn fremur getur maður sjálfur óskað eftir úrskurði dóms um að hann skuli vera sviptur lögræði.
6. gr. Kröfu um lögræðissviptingu skal bera upp við héraðsdómara … 1) þar sem maður sá, er krafan varðar, á heima eða dvelst. Nú er hvorki kunnugt um heimili hans né dvalarstað og skal þá með mál farið þar sem varnaraðili átti síðast heimili eða dvalarstað.
Krafa skal vera skrifleg og tilgreina hvort krafist sé sviptingar sjálfræðis, fjárræðis eða hvors tveggja. Þar skal grein gerð fyrir aðild sóknaraðila, ástæðum sem taldar eru vera til sviptingarinnar og öðru því sem máli skiptir. Kröfugerð fylgi skrifleg gögn eftir því sem við verður komið.
Sóknaraðili getur afturkallað kröfu sína á hvaða stigi máls sem er.
    1)L. 92/1991, 79. gr.
7. gr. Dómari skal taka málið fyrir svo fljótt sem unnt er. Hann kallar varnaraðila fyrir dóm og kynnir honum kröfuna nema ástandi hans sé svo háttað samkvæmt vottorði yfirlæknis á sjúkrahúsi eða annars embættislæknis að það sé tilgangslaust.
Dómari skipar varnaraðila verjanda og gefur honum kost á að bera fram ósk um hver skipaður verði. Óskylt er þó að skipa verjanda ef varnaraðili samþykkir kröfu um lögræðissviptingu, nema svo standi á sem í a-lið 1. mgr. 3. gr. segir. Þá er óskylt að skipa verjanda ef varnaraðili hefur sjálfur ráðið sér lögmann til þess að gæta réttar síns, svo og ef maður óskar þess sjálfur að hann verði sviptur lögræði.
Dómari getur krafið sóknaraðila um gögn til stuðnings kröfu hans. Hann getur einnig aflað gagna af sjálfsdáðum. Ef sérstök ástæða er til getur hann leitað aðstoðar lögreglustjóra til öflunar gagna.
Nú hefur maður sjálfur óskað eftir lögræðissviptingu og metur dómari allt að einu hvort ástæða sé til sviptingar.
Eftir að gagnaöflun er lokið og varnaraðila eða verjanda hans hefur verið gefinn kostur á að flytja eða leggja fram vörn kveður dómari upp úrskurð í málinu.
8. gr. 1)
[Dómari skal senda sýslumanni endurrit úrskurðar um lögræðissviptingu, svo og dómsmálaráðuneytinu, en það heldur spjaldskrá um lögræðissvipta menn hér á landi.] 1)
Ef um fjárræðissviptingu er að tefla skal dómari einnig annast um að niðurstaða úrskurðarins sé þegar birt í Lögbirtingablaði. Ef sá, sem sviptur er fjárræði, á fasteign eða hér skrásett skip eða hann rekur atvinnu sem geta ber eða getið er á verslanaskrá, þá skal skrá athugasemd um úrskurðinn á varnarþingi fasteignar eða skips og á verslanaskrá. Dómari sendir eftirrit af úrskurðinum yfirlögráðanda og öðrum þeim stjórnvöldum sem um hann þurfa að vita.
    1)L. 92/1991, 79. gr.
9. gr. Nú telur sá, sem lögræðissviptingar krafðist, að ástæður til sviptingar séu ekki lengur fyrir hendi og getur hann þá borið fram tilmæli til héraðsdómara, þar sem hinn lögræðissvipti maður dvelst, um að lögræðissvipting verði úr gildi felld. Slík tilmæli getur hinn lögræðissvipti einnig borið fram, en óskylt er að sinna þeim nema sex mánuðir hið skemmsta séu liðnir frá sviptingu.
Tilmæli skulu vera skrifleg og studd gögnum um breyttar aðstæður hins lögræðissvipta. Ef lögræðissvipting hefur verið reist á ástæðum er greinir í a-lið 1. mgr. 3. gr. skal tilmælunum að jafnaði ekki sinnt nema þeim fylgi meðmæli læknis.
Dómari gefur þeim, er málið varðar, kost á að tjá sig um tilmæli um niðurfellingu lögræðissviptingar og að afla gagna er málið varða, og er einnig heimilt að afla gagna af sjálfsdáðum. Að gagnaöflun lokinni kveður dómari upp úrskurð um það hvort lögræðissvipting skuli úr gildi felld eða ekki.
Þegar lögræðissvipting er felld úr gildi annast dómari um að afskráning og aflýsing lögræðissviptingar fari fram.
10. gr. Dómsathöfnum þeim, sem um ræðir í þessum kafla, má skjóta til æðra dóms með kæru, og fer um hana eftir [almennum reglum um kæru í einkamálum] 1) eftir því sem við á.
Eigi frestar kæra framkvæmd úrskurðar.
Eftirrit af dómi Hæstaréttar skal senda dómsmálaráðuneytinu og héraðsdómara málsins. Nú er úrskurði héraðsdóms breytt í Hæstarétti og gerir héraðsdómari þá þegar þær ráðstafanir sem við eiga, sbr. 4. mgr. 9. gr.
    1)L. 91/1991, 161. gr.
11. gr. 1)
1) Þóknun skipaðs verjanda og annan málskostnað skal greiða úr ríkissjóði.
Ef kæra til Hæstaréttar hefur verið bersýnilega tilefnislaus má … 1) gera kæranda að endurgreiða ríkissjóði kærumálskostnaðinn.
    1)L. 92/1991, 79. gr.

III. kafli.
12. gr. Sjálfráða maður ræður einn öðru en fé sínu, nema lög mæli sérstaklega fyrir á annan veg.
13. gr. Sjálfráða maður verður ekki vistaður í sjúkrahúsi gegn vilja sínum.
Þó má hefta frelsi manns ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða ofnautn áfengis eða ávana- og fíkniefna. Slík frelsisskerðing má eigi standa lengur en tvo sólarhringa nema til komi samþykki dómsmálaráðuneytisins.
Með samþykki dómsmálaráðuneytisins má vista mann gegn vilja sínum til meðferðar í sjúkrahúsi ef fyrir hendi eru ástæður þær sem greinir í 2. mgr. og vistun þykir óhjákvæmileg að mati læknis. Um slíka vistun fer skv. 14.–17. gr. hér á eftir.
14. gr. Beiðni um sjúkrahúsvistun manns gegn samþykki hans geta þeir aðilar lagt fram sem taldir eru í a-, b- og e-liðum 1. mgr. 5. gr. hér að framan.
15. gr. Beiðni um vistun skal beina til dómsmálaráðuneytis.
Beiðni skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja gögn um aðild beiðanda, sbr. 5. gr., um ástæður fyrir kröfugerð og annað er máli skiptir. Með beiðni skal fylgja læknisvottorð þar sem gerð er grein fyrir sjúkdómnum og nauðsyn vistunar. Læknisvottorð skal að jafnaði eigi vera eldra en þriggja daga þegar það berst ráðuneytinu.
16. gr. Dómsmálaráðuneytið skal þegar í stað taka beiðni um vistun til afgreiðslu. Það skal kanna málavexti, og getur eftir því sem ástæða er til aflað skýrslna þeirra manna sem málinu eru kunnugir.
Dómsmálaráðuneytið skal án óþarfs dráttar ákveða hvort vistun skuli heimiluð eða ekki. Ákvörðun skal vera skrifleg og skal tilkynnt þeim er beiðni ber fram, en þar að auki yfirlækni á hlutaðeigandi stofnun ef beiðni er samþykkt.
17. gr. Á vegum dómsmálaráðuneytisins skal starfa trúnaðarlæknir sem ráðuneytið getur leitað umsagnar hjá ef þörf krefur áður en heimild er veitt til vistunar. Trúnaðarlæknir ráðuneytisins hefur jafnan heimild til að kanna ástand sjúklings sem dvelst í sjúkrahúsi gegn vilja sínum.
18. gr. Heimilt er þeim, sem vistaður hefur verið í sjúkrahúsi án samþykkis síns skv. 14.–17. gr. hér að framan, að leita úrlausnar dómstóla um ákvörðun ráðuneytisins um vistunina og skal trúnaðarlæknir ráðuneytisins sjá um að sjúklingum sé gerð grein fyrir þeim rétti.
Krafa skal vera skrifleg og borin upp við héraðsdómara sem greinir í 1. mgr. 6. gr. hér að framan.
Dómari skal taka málið fyrir án tafar. Hann kynnir beiðnina dómsmálaráðuneytinu sem skal láta dómaranum í té gögn þau sem vistunin er reist á ásamt athugasemdum sínum ef því er að skipta. Dómari skal gefa sóknaraðila kost á að skýra mál sitt.
Dómari kveður síðan upp úrskurð um hvort vistun skuli haldast eða hún falli niður.
Að öðru leyti fer um mál þessi samkvæmt II. kafla laga þessara eftir því sem við á.
19. gr. Vistun manns í sjúkrahúsi má eigi gegn vilja hans haldast lengur en nauðsyn krefur.
Vistun lýkur þegar yfirlæknir telur hennar ekki lengur þörf, og eigi síðar en 15 sólarhringum frá því hún hófst, nema áður hafi verið gerð krafa fyrir dómi um að hann verði sviptur sjálfræði.

IV. kafli.
20. gr. Fjárráða maður ræður einn fé sínu, nema öðruvísi sé sérstaklega um mælt í lögum.
21. gr. Ófjárráða maður ræður sjálfur sjálfsaflafé sínu sem hann hefur þegar unnið fyrir. Maður, sem sviptur hefur verið fjárræði, ræður þó aðeins því sjálfsaflafé sem hann hefur unnið sér inn eftir að úrskurður gekk um sviptinguna.
Ófjárráða maður ræður sjálfur gjafafé sínu, þar með taldar dánargjafir, nema gefandi hafi mælt fyrir á annan veg eða lög kveði sérstaklega öðruvísi á. Ef maður hefur verið sviptur fjárræði ræður hann þó aðeins því gjafafé sem hann hefur fengið eftir að úrskurðurinn gekk um sviptingu fjárræðis.
Ef um tiltölulega mikið sjálfsaflafé eða gjafafé er að tefla eða fari hinn ófjárráða maður ráðlauslega með féð getur yfirlögráðandi, án tillits til fyrirmæla gefanda ef því er að skipta, tekið eða heimilað lögráðamanni að taka féð að nokkru eða öllu leyti til varðveislu og ræður hinn ófjárráða maður þá ekki því fé meðan sú ráðstöfun helst.
Forráð ófjárráða manns yfir sjálfsaflafé og gjafafé taka einnig til arðs af því fé, svo og verðmætis er í stað þess kemur. Ekki heimila þau ófjárráða manni að stofna til skuldar né veðsetja fjármuni.
22. gr. Löggerningar ólögráða manns, sem hann hafði ekki heimild til að gera, binda hann ekki.
Nú hefur maður verið sviptur lögræði og binda hann þá ekki löggerningar sem fara í bág við lögræðissviptingu og hann gerir eftir uppkvaðningu úrskurðar, enda hafi úrskurðurinn, ef um fjárræðissviptingu er að tefla, verið birtur í Lögbirtingablaði innan tveggja vikna frá uppkvaðningu. Gildir skulu eldri löggerningar, nema sá maður, sem löggerningnum er beint til, hafi vitað um lögræðissviptinguna eða mátt vera um hana kunnugt.
23. gr. Nú hefur ólögráða maður sjálfur gert samning sem hann skorti heimild til að gera og getur þá hinn aðili samningsins riftað honum, nema samningurinn hafi annaðhvort verið staðfestur af lögráðamanni eða honum hafi verið fullnægt svo skuldbindandi sé fyrir hinn ólögráða mann.
Nú veit maður að hann semur við ólögráða mann og hefur ekki ástæðu til að ætla að samþykki lögráðamanns sé fyrir hendi og getur hann þá ekki riftað samningnum fyrr en liðinn er tilskilinn frestur til að afla staðfestingar lögráðamanns ef um slíkan frest hefur verið samið, en ella hæfilegur tími til þeirrar málaleitunar.
Ef maður hefur gert vinnusamning við ósjálfráða mann og svo er ástatt sem segir í upphafi undanfarandi málsgreinar þá getur hann ekki riftað samningnum meðan hinn ósjálfráða maður efnir hann af sinni hálfu.
Ákvörðun um riftun samnings má jafnt tilkynna hinum ólögráða manni sjálfum sem lögráðamanni hans.
24. gr. Nú veldur lögræðisskortur ógildingu samnings og skal þá hvor aðila skila aftur þeim verðmætum sem hann hefur veitt viðtöku. Ef ekki er unnt að skila hlut aftur skal aðili greiða verð hans eftir því sem hér segir:
    a. Samningsaðili hins ólögráða manns skal greiða fullt verð hlutarins. Honum ber þó eigi að bæta hlut sem hann átti að skila aftur samkvæmt samningi aðila ef rýrnun eða eyðilegging hlutarins stafar af eiginleikum hans sem fyrir hendi voru þegar hann var afhentur. Hafi aðili fengið hlutinn eða verðmætið að gjöf eða til geymslu frá hinum ólögráða manni má færa niður bætur úr hendi hans eftir því sem sanngjarnt þykir.
    b. Hinn ólögráða maður skal greiða fégjald að því leyti sem verðmætin hafa orðið honum að notum.
Nú hefur hinn ólögráða maður haft svik í frammi eða á annan hátt brotið af sér við gerð samnings eða afhendingu umsaminna verðmæta eða hann hefur á saknæman hátt valdið því að hlutur hefur farið forgörðum er honum bar samkvæmt samningnum eða vegna riftunar samningsins að skila aftur og skal hann þá bæta samningsaðila sínum tjón hans. Dómstólar geta þó fært bótafjárhæð niður með hæfilegu tilliti til þess hve mikil sökin var og tjónið, til efnahags hins ólögráða manns og annarra atvika.
Nú sannast í opinberu máli að hinn ólögráða maður hefur gerst sekur um refsivert athæfi í sambandi við gerð samnings eða framkvæmd og skal hann þá bæta tjón eftir almennum reglum.

V. kafli.
25. gr. Foreldrar barns, sem er ósjálfráða fyrir æsku sakir, og þeir, sem barni koma í foreldris stað, ráða persónulegum högum þess. Nefnast þau lögráð forsjá, og fer um hana samkvæmt ákvæðum barnalaga, nr. 9/1981. 1)
    1)l. 20/1992.
26. gr. Þeir, sem fara með forsjá barns samkvæmt því sem segir í 36., 37. og 38. gr. laga nr. 9/1981, 1) skulu einnig hafa á hendi fjárhald þess meðan það er ófjárráða fyrir æsku sakir.
    1)l. 20/1992.
27. gr. Nú er maður með dómsúrskurði sviptur lögræði (sjálfræði, fjárræði eða hvoru tveggja) og skal þá yfirlögráðandi skipa honum lögráðamann.
Svo skal og yfirlögráðandi skipa þeim manni lögráðamann sem ófjárráða er fyrir æsku sakir er lögborins lögráðamanns nýtur eigi eða hann æskir lausnar frá starfi af ástæðum sem yfirlögráðandi metur gildar, svo og er fjármálum barns þykir ekki nægilega borgið í höndum hans.
28. gr. Skipa má ólögráða manni sérstakan lögráðamann til þess að reka tiltekið erindi fyrir hann er þess gerist þörf. Skal það jafnan gert er fastur lögráðamaður hefur eiginna hagsmuna að gæta við þann erindrekstur.
29. gr. Skipaður lögráðamaður skal vera lögráða og fjár síns ráðandi, ráðvandur og ráðdeildarsamur og að öðru leyti vel til starfans fallinn.
Nú hefur foreldri ákveðið hver vera skuli að því látnu lögráðamaður barns er það hefur forsjá fyrir og skal þá skipa hann lögráðamann, nema annað þyki hentara vegna hagsmuna barnsins.
30. gr. [Sýslumenn eru yfirlögráðendur hver í sínu umdæmi. Ákvörðun sýslumanns í þeim efnum má skjóta til dómsmálaráðuneytisins til endurskoðunar innan mánaðar frá því hlutaðeiganda varð hún kunn.] 1)
Lögráðamönnum er skylt að hegða sér eftir fyrirmælum yfirlögráðenda og dómsmálaráðuneytisins.
    1)L. 92/1991, 79. gr.
31. gr. Lögráðamaður ósjálfráða manns ræður persónulegum högum hans, þar á meðal vistráðum og vinnusamningum, nema öðruvísi sé mælt í lögum. Lögmæt ráðstöfun lögráðamanns bindur ósjálfráða mann svo sem sjálfráða hefði hann gert.
32. gr. Lögráðamaður ófjárráða manns ræður fyrir fé hans, nema lög mæli um á annan veg. Lögmæt ráðstöfun lögráðamanns bindur ófjárráða mann svo sem fjárráða hefði hann gert.
33. gr. Lögráðamaður skal varðveita og ávaxta með trúmennsku og hagsýni það fé skjólstæðings síns sem er í umráðum hans. Hann skal bæta skjólstæðingi sínum tjón af lögráðamannsstörfum sínum ef hann veldur því af ásetningi eða gáleysi.
34. gr. Lögráðamaður hefur ekki ráðstöfunarrétt á því fé skjólstæðings síns sem yfirlögráðandi hefur tekið í sínar vörslur.
35. gr. Ekki er unnt að binda ófjárráða mann við ábyrgð eða tryggingu fyrir þriðja mann.
[Yfirlögráðandi] 1) getur þó veitt undanþágu frá 1. mgr. þegar sérstaklega stendur á vegna hagsmuna hins ófjárráða.
    1)L. 92/1991, 79. gr.
36. gr. Lögráðamaður skal leita samþykkis yfirlögráðanda til allra ráðstafana varðandi fjárhaldið sem eru mikils háttar eða óvenjulegar, svo sem kaup og sölu á lausafé ef um tiltölulega mikið verðmæti er að tefla, leigu á fasteign um óvenjulega langan tíma eða með öðrum óvenjulegum kjörum og til ráðningar forstjóra fyrir atvinnufyrirtæki ófjárráða manns. Samþykki yfirlögráðanda þarf og til þess að gengið sé á eignir ófjárráða manns til greiðslu kostnaðar af framfærslu hans, námi eða öðru.
37. gr. Samþykki [yfirlögráðanda] 1) þarf til þess að binda ófjárráða mann við kaup eða sölu fasteignar eða skips, til lagningar veðbanda eða annarra eignarhafta á fasteign eða skip, svo og til kaupa eða sölu á atvinnufyrirtæki.
Fasteign, skip eða atvinnufyrirtæki ófjárráða manns skal eigi láta af hendi nema honum sé auðsýnilegur hagur að því.
    1)L. 92/1991, 79. gr.
38. gr. Reiðufé ófjárráða manna skal ávaxta tryggilega eins og best er á hverjum tíma að mati [yfirlögráðanda]. 1)
Lána má fé ófjárráða manna gegn fyrsta veðrétti í fasteign, en ekki má lánsfjárhæðin fara fram úr 2/ 3 hlutum af fasteignamati eignarinnar.
    1)L. 92/1991, 79. gr.
39. gr. Í veðskuldabréfum fyrir láni af fé ófjárráða manna skal meðal annars taka fram að lánið sé allt þegar afturkræft ef vanskil verða á greiðslu vaxta eða afborgana, og má þá [krefjast nauðungarsölu á veðinu án dóms eða aðfarar]. 1)
    1)L. 90/1991, 91. gr.
40. gr. Lögráðamaður skal gera yfirlögráðanda grein fyrir fjárhaldinu og ráðstöfunum sínum hvenær sem hann krefst þess, svo og er fjárhaldi slítur.
Ef starf lögráðamanns ófjárráða manns er sérstaklega umfangsmikið getur yfirlögráðandi … 1) ákveðið honum þóknun fyrir fjárhaldið af árlegum tekjum skjólstæðings hans.
Dómsmálaráðuneytið getur sett nánari fyrirmæli um störf lögráðamanna og eftirlit yfirlögráðanda með þeim.
    1)L. 92/1991, 79. gr.
41. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1984.