154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

Störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það var hart tekist á um breytingar á útlendingalögunum í þessum sal á síðasta þingi og ekki að ástæðulausu, enda kaus meiri hlutinn hér að fara gegn öllum góðum ráðum þeirra sem gerst þekkja til í útlendingamálum. Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Í gær boðaði félags- og vinnumarkaðsráðherra fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga á sinn fund til að tilkynna einhliða aðgerðir ráðherrans um breytingar á reglugerðum og samningum við Rauða krossinn. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að hér er verið að grípa til nýs stjórnunarstíls á Íslandi. Það eru „dírektíf“ gefin út og sveitarfélögum, sem á stundum eru mærð í þessum sal og eru talin sjálfstæð, er tilkynnt hvernig hlutirnir eigi að vera þegar ríkisstjórnin er komin í svo vond mál með afleiðingar ákvarðana sinna að hún þarf að senda afleiðingarnar annað. En það er auðvitað eins og allir hér vita fyrir neðan virðingu hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra að ganga fram með þessum hætti og tala með þeim hætti sem hann hefur gert hér undanfarna daga og vikur í þessu tiltekna máli. Tilgangur hins umdeilda 30 daga ákvæðis var ekki sá að senda fólk aftur til sveitarfélaganna. Það var það aldrei. Það átti að senda skilaboð út í heim um að hér væri fólk ekki velkomið og að halda einhverju öðru fram er ekkert annað en að slá ryki í augu fólks og kjósenda. Og kannski er kominn tími til þess, frú forseti, að Vinstri græn horfist í augu við prinsippleysi sitt í útlendingamálum og hvernig þau hafa gengið bak allra sinna loforða og þeirra grunngilda sem flokkurinn hefur hingað til sagst standa fyrir. (SÞÁ: Kannski ætti formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga …)