Sögulegt yfirlit

Kílarvika

Í tengslum við Kílarvikuna svokölluðu, sem er fjölbreytileg hátíð í þýska sambandslandinu Slésvík-Holtsetalandi, býður þingið í Slésvík-Holtsetalandi þingmönnum frá Norðurlöndum, Eystrasaltsríkjum, Póllandi, Rússlandi og víðar að til tveggja daga ráðstefnu um málefni sem efst eru á baugi, t.d. öryggismál, umhverfismál o.s.frv. Að jafnaði fóru þrír alþingismenn á Kílarvikuna ár hvert, tilnefndir af þingflokkum og fór fulltrúi forsætisnefndar fyrir sendinefndinni.

Þátttöku í Alþingis í Kílarviku var hætt árið 2009.

Manarþing

Á eynni Mön fer árleg þingsetning fram í júlí undir berum himni á Þingvöllum eða Tynwald á máli þarlendra. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær þinghald á Mön hófst, en talið er að það hafi verið á ofanverðri 9. öld. Hugmyndin barst með víkingum og þess er fyrst getið á prenti árið 1228. Þekking Manarbúa á fyrirkomulagi þingstarfsins til forna er að mestu fengin úr íslenskum bókmenntum. Alþingi var boðið til hátíðarinnar ár hvert og var fulltrúi forsætisnefndar gestur við setninguþingsins byrjun júlí ár hvert.

Þátttöku Alþingis í Manarþingi var hætt árið 2009.

Þing öryggis- og varnarmála í Evrópu 

(VES-þingið, Assembly of WEU - The Interparliamentary European Security and Defence Assembly)

Vestur-Evrópusambandið (VES) var varnarbandalag Evrópuríkja sem stofnað var með Parísarsáttmálanum árið 1954. Bandalagið byggðist á Brussel-samningnum svokallaða frá árinu 1948 um sameiginlegar varnir aðildarríkjanna og samstarf þeirra um efnahags-, félags- og menningarmál. 

Á VES-þinginu sátu 370 fulltrúar. Það var samráðsvettvangur þjóðþinga aðildarríkjanna í öryggismálum og kom saman tvisvar á ári, í júní og desember. Þingið var ráðherraráði VES innan handar og ráðgefandi og hafði eftirlit með framkvæmd sameiginlegra varnarskuldbindinga. Í kjölfar yfirtöku Evrópusambandsins á verkefnum VES árið 2000 hafði VES-þingið það hlutverk í að vera tímabundið öryggis- og varnarmálaþing Evrópu og vettvangur þinglegrar meðferðar á sameiginlegri stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum. Þá fjallaði VES-þingið um milliríkjasamstarf Evrópuríkja á sviði hergagnaframleiðslu og rannsókna- og þróunarstarfs í hergögnum.

Nánar um þingið og ársskýrslur þess.

Þátttöku Alþingis á VES-þinginu var hætt árið 2011.