Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 661, 112. löggjafarþing 370. mál: ráðstafanir vegna kjarasamninga (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 7 28. febrúar 1990.

Lög um ráðstafanir vegna kjarasamninga.


I. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

1. gr.

     1. mgr. 10. gr. orðist svo:
     Sjóðfélagar greiða 4% af föstum launum sínum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót í iðgjald til sjóðsins. Launagreiðanda ber að halda iðgjöldum eftir af launum sjóðfélaga og greiða þau sjóðnum innan tveggja vikna frá útborgun launanna.

2. gr.

     3. mgr. 10. gr. orðist svo:
     Launagreiðendur greiða 6% af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót, er sjóðfélagi tekur hjá þeim, í iðgjöld til sjóðsins og skal greiða þau sjóðnum samtímis iðgjöldum sjóðfélaga.

3. gr.

     1. málsl. 6. mgr. 12. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 47/1984, orðist svo: Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem á hverjum tíma fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast.

II. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana.

4. gr.

     3. gr. orðist svo:
     Þegar starfsmaður, sem lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, taka til, er ráðinn í þjónustu ríkisins skal það gert með skriflegum gerningi. Tekið skal fram hvort um er að ræða skipun, setningu eða ráðningu með gagnkvæmum uppsagnarfresti.
     Starfsmaður, sem fellur undir skilgreiningu 1. mgr. og er ráðinn í starf sem heimilað er til að minnsta kosti eins árs, skal að loknum reynslutíma, sem tiltekinn er í vinnusamningi, teljast ráðinn með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti nema starfsmaður óski annars. Nýtur hann þá þeirra réttinda og ber þær skyldur sem lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, kveða á um.
     Starfsmaður, sem fellur undir skilgreiningu 1. mgr. og er ráðinn til sumar- eða afleysingastarfa með eins mánaðar gagnkvæmum uppsagnarfresti, nýtur sömu réttinda og ber sömu skyldur og starfsmaður skv. 2. mgr. að öðru leyti en því sem leiða má af lengd uppsagnarfrests.

III. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 91/1989, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.

5. gr.

     2. mgr. 3. gr. orðist svo:
     Stofn til álagningar skattsins á hús og mannvirki, að undanteknum útihúsum í sveitum, skal vera afskrifað endurstofnverð þeirra margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins. Stofn til álagningar fasteignaskatts á aðrar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra.

6. gr.

     Við 5. gr. bætist ný málsgrein, 5. mgr., sem orðist svo:
     Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt af útihúsum í sveitum ef þau eru einungis nýtt að hluta eða standa ónotuð.

IV. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

7. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða bætist nýr stafliður sem orðist svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 10. og 12. gr. laga þessara skal verðlagsnefnd búvöru fella niður, að hluta eða öllu leyti, framreikning verðlagsgrundvallar 1. mars 1990 og 1. júní 1990 og útreikning grundvallarins 1. september 1990 í samræmi við samkomulag Stéttarsambands bænda og aðila vinnumarkaðarins frá 1. febrúar 1990.

V. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

8. gr.

     
  1. Síðasti málsliður lokamálsgreinar 19. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 25/1984, orðist svo: Með reglugerð skal þeim fjárhæðum breytt a.m.k. árlega miðað við 1. júlí til samræmis við almennar hækkanir bóta og annarra tekna milli ára.
  2. Við 19. gr. bætist ný málsgrein sem orðist svo:
  3.      Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða að aðrar tekjufjárhæðir skv. 1. mgr. gildi um lífeyristekjur en aðrar tekjur.


VI. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

9. gr.

     Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo:
     Á árinu 1990 og 1991 er Atvinnuleysistryggingasjóði heimilt að greiða þeim, sem þegið hafa atvinnuleysisbætur í samtals fjóra mánuði eða lengur á tólf mánaða tímibili, sambærilega uppbót og kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins gera ráð fyrir. Í reglugerð, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur, að fengnum tillögum stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, skal setja nánari reglur um uppbótina.

VII. KAFLI
Um breytingu á lögum nr. 23/1985, um ríkisábyrgð á launum, með síðari breytingum.

10. gr.

     4. gr. laganna orðist svo:
     Ábyrgð ríkissjóðs tekur til eftirfarandi krafna í bú vinnuveitanda sem viðurkenndar hafa verið sem forgangskröfur í búið skv. 84. gr. laga nr. 3/1878 (sbr. 1. gr. laga nr. 23/1979), sbr. þó 9. gr.:
  1. kröfu launþega um vinnulaun fyrir sex síðustu starfsmánuði hans hjá vinnuveitanda, að því leyti sem það tímabil fellur innan tímamarka þeirra sem vinnulaunakröfu fylgir forgangsréttur í búi, þar með talinn hluti launa sem haldið hefur verið eftir af vinnuveitanda skv. IX. kafla laga nr. 86/1988,
  2. kröfu launþega um orlofslaun sem fallið hafa til vegna launa hans á yfirstandandi orlofsári og á næstliðnu orlofsári ef þau áttu að koma til útborgunar á síðustu sex starfsmánuðum launþegans hjá hlutaðeigandi vinnuveitanda, enda falli þessi tímabil innan þeirra tímamarka sem kröfunni fylgir forgangsréttur í búi,
  3. kröfu viðurkennds lífeyrissjóðs vegna vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda, launþega og vinnuveitanda, að því leyti sem það tímabil fellur innan tímamarka þeirra sem kröfunni fylgir forgangsréttur í búi, enda hafi tilraunir til innheimtu verið reyndar af hálfu hlutaðeigandi lífeyrissjóðs þar eð krafan hefði mátt vera honum kunn,
  4. bóta vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna riftunar eða uppsagnar vinnusamnings. Sá sem krefst bóta samkvæmt þessum lið skal sýna fram á að hann hafi leitað eftir annarri atvinnu, t.d. með vottorði vinnumiðlunar,
  5. bóta til launþega, sem vinnuveitanda ber að greiða vegna tjóns af völdum vinnuslyss, eða til þess sem tilkall á til bóta vegna dauðsfalls launþega, enda fylgi bótakröfunni forgangsréttur í búi vinnuveitandans,
  6. dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kröfum samkvæmt stafliðum a–e frá gjalddaga þeirra til þess dags sem félagsmálaráðherra ákveður að kröfuna skuli greiða úr ríkissjóði,
  7. kostnaðar sem launþegi eða sá er krefst bóta samkvæmt e-lið hefur orðið að greiða vegna nauðsynlegra ráðstafana til innheimtu kröfu sinnar.

     Ábyrgð ríkissjóðs á greiðslum skv. a- og d-liðum þessarar greinar skal þó ekki nema hærri fjárhæð, miðað við einn mánuð, en sem nemur þreföldum atvinnuleysisbótum eins og þær eru ákveðnar hæstar á hverjum mánuði, án tillits til barnafjölda.
     Ábyrgð ríkissjóðs nær til greiðslna skv. f- og g-liðum 1. mgr. þó að þær kröfur njóti ekki forgangsréttar í búi vinnuveitanda.

11. gr.

     5. gr. laganna orðist svo:
     Eftirtaldir launþegar geta þó ekki krafið ríkissjóð um greiðslu krafna skv. a- til d- liðum 1. mgr. 4. gr.:
  1. Þeir sem sæti áttu í stjórn gjaldþrota félags eftir að fjárhag þess tók verulega að halla. Þetta á þó ekki við um þá sem sæti eiga í varastjórn félags nema þeir hafi gegnt stjórnarstörfum á umræddu tímabili.
  2. Þeir sem átt hafa 5% hlutafjár eða meira í gjaldþrota hlutafélagi.
  3. Forstjóri, framkvæmdastjóri og þeir aðrir, sem vegna starfa sinna hjá hinum gjaldþrota vinnuveitanda, áttu að hafa þá yfirsýn yfir fjárhag fyrirtækisins að þeim mátti ekki dyljast að gjaldþrot þess væri yfirvofandi á þeim tíma sem unnið var fyrir vinnulaununum.
  4. Maki þess sem ástatt er um sem segir í a–c-liðum, svo og skyldmenni hans í beinan legg og maki skyldmennis í beinan legg. Leiði ákvæði þetta til mjög ósanngjarnrar niðurstöðu að mati félagsmálaráðherra getur hann ákveðið að heimila greiðslu til þessara launþega úr ríkissjóði á grundvelli laganna.


12. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 7. gr. laganna.
  1. Í stað orðsins „nafnnúmer“ í a- og b-liðum 1. mgr. komi orðið: kennitala.
  2. Á eftir c-lið 1. mgr. komi nýr stafliður sem orðist svo: sundurliðun kröfu, svo sem í vinnulaun, orlof, bætur, vexti, kostnað og til hvaða tímabils krafan nær.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein sem orðist svo:
  4.      Sá sem gerir greiðslukröfu á hendur ríkissjóði á grundvelli laga þessara má ekki aðhafast neitt það sem rýrt gæti endurkröfurétt ríkissjóðs á hendur þrotabúi. Er honum óheimilt, án sérstaks leyfis félagsmálaráðherra, að samþykkja að kröfur fái komist að við gjaldþrotaskipti sem ekki hefur verið lýst fyrir lok kröfulýsingarfrests. Brjóti launþegi eða umboðsmaður hans gegn þessu ákvæði hefur það í för með sér að ábyrgð ríkissjóðs á kröfu hans fellur niður.


13. gr.

     Fyrri málsgrein 8. gr. laganna orðist svo:
     Sá sem fer með skipti á þrotabúi skal svo fljótt sem auðið er láta félagsmálaráðherra í té skriflega umsögn um hverja þá kröfu í þrotabúið sem til álita kemur að njóti ábyrgðar ríkissjóðs eftir lögum þessum. Í umsögninni skulu eftirfarandi atriði tilgreind:
  1. hvenær bú hafi verið tekið til skipta og hver fari með málefni þess,
  2. hvenær kröfulýsingarfresti í búið hafi lokið,
  3. hvaða kröfum hafi verið lýst í búið sem ríkisábyrgð kunni að fylgja samkvæmt lögum þessum,
  4. hvort eða að hverju marki viðurkenndur hafi verið forgangsréttur kröfunnar í búið,
  5. hvort skilað hafi verið til innheimtuaðila ríkissjóðs þeim hluta launa sem vinnuveitanda bar að halda eftir samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ef það hefur ekki verið gert skal enn fremur eftir föngum gerð grein fyrir þeim fjárhæðum sem vinnuveitanda bar að halda eftir af launum launþega,
  6. hvort ákvæði 5. gr. eigi við um kröfuna eða ekki.


14. gr.

     Í stað orðsins „innköllunar“ í síðari málslið 1. mgr. 9. gr. laganna komi orðin: auglýsingar um skiptalok.

15. gr.

     10. gr. laganna, sbr. 8. gr. laga nr. 51/1989, orðist svo:
     Ef launþegi hefur framselt launakröfu sína á hendur vinnuveitanda áður en bú vinnuveitandans var tekið til gjaldþrotaskipta nýtur krafan ekki ríkisábyrgðar eftir lögum þessum. Þetta á þó ekki við ef krafan hefur verið framseld stéttarfélagi launþegans, né heldur ef krafan hefur verið að fullu eða að hluta framseld Atvinnuleysistryggingasjóði.

16. gr.

     Á eftir fyrri málslið 1. mgr. 11. gr. laganna komi nýr málsliður sem orðist svo: Þegar félagsmálaráðherra ákveður greiðslu kröfu samkvæmt lögum þessum skal hann jafnframt tilkynna viðkomandi innheimtuaðila ríkissjóðs hvaða fjárhæð hefur verið dregin frá kröfu launþega vegna ákvæða laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

17. gr.

     Á eftir 15. gr. laganna bætist ný grein sem orðist svo:
     Félagsmálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um hvernig framkvæmd laganna skuli háttað.

VIII. KAFLI
Gildistaka.

18. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði VII. kafla taka til krafna í bú sem tekin verða til gjaldþrotaskipta eftir gildistöku laganna.
     Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella ákvæði þeirra inn í meginmál hlutaðeigandi laga og gefa þau út svo breytt.

Samþykkt á Alþingi 23. febrúar 1990.