Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 851, 112. löggjafarþing 265. mál: ábyrgðadeild fiskeldislána.
Lög nr. 17 5. apríl 1990.

Lög um ábyrgðadeild fiskeldislána.


1. gr.

     Starfa skal sérstök deild við Ríkisábyrgðasjóð er nefnist ábyrgðadeild fiskeldislána. Þegar ábyrgðadeild hefur hafið fulla starfsemi, en þó eigi síðar en 1. júlí 1990, tekur hún við öllum skuldbindingum og eignum Tryggingasjóðs fiskeldislána sem stofnaður var með lögum nr. 3 frá 13. janúar 1989. Sjóðurinn lýtur stjórn fjármálaráðherra.

2. gr.

     Hlutverk ábyrgðadeildar fiskeldislána er að tryggja greiðslu eldislána sem bankar og aðrar lánastofnanir veita eða útvega innlendum fiskeldisfyrirtækjum þannig að rekstrar- og eldislán þeirra til fiskeldis geti numið allt að 75% af verðmæti eldisstofns. Skal það gert á þann hátt að deildin veitir sjálfskuldarábyrgð fyrir lánum, að hámarki 50% af verðmæti eldisstofns, til viðbótar við þau lán sem bankar og lánastofnanir veita viðkomandi fyrirtæki án ríkisábyrgðar. Heildarlán mega þó aldrei verða hærri en 75% af verðmæti eldisstofns. Heimilt er að veita sjálfskuldarábyrgðir fyrir lánveitingum banka og lánastofnana til hafbeitarfyrirtækja að uppfylltum skilyrðum skv. 2.-4. gr. laga þessara. Skal þá stjórnarnefnd deildarinnar móta sérstakar reglur fyrir veitingu slíkra sjálfskuldarábyrgða og skulu þær samþykktar af fjármálaráðherra í formi reglugerðar.

3. gr.

     Hvert fiskeldisfyrirtæki getur fengið sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 50% af verðmæti eldisstofns til eins árs í senn, þó aldrei lengur en samtals í fjögur ár. Á næstu tveimur árum á eftir lækkar hámarksábyrgð um sem næst helming á hvoru ári þar til sjálfskuldarábyrgð sjóðsins hverfur. Hámarkstími sem fyrirtæki getur fengið sjálfskuldarábyrgð í er sex ár. Heimildir til ábyrgðar skulu endurskoðaðar árlega af stjórnarnefnd deildarinnar.

4. gr.

     Það er skilyrði fyrir veitingu sjálfskuldarábyrgðar að viðkomandi fiskeldisfyrirtæki fái samningsbundin eldislán frá banka eða öðrum lánastofnunum án ríkisábyrgðar og að fyrirtækið hafi þær tryggingar sem fullnægja skilyrðum lánastofnunarinnar. Stjórnarnefnd sjóðsins getur sett frekari skilyrði um tryggingar. Ábyrgðadeildin skal taka veð í eldisstofni fyrir sjálfskuldarábyrgðum sem hún veitir.

5. gr.

     Fjármálaráðherra skal skipa fimm manna stjórnarnefnd, einn samkvæmt tilnefningu viðskiptaráðherra, einn samkvæmt tilnefningu landbúnaðarráðherra og þrjá án tilnefningar og skal formaður skipaður úr þeirra hópi. Jafnframt skulu skipaðir fimm varamenn með sama hætti. Stjórnarnefndin fjallar um allar umsóknir um sjálfskuldarábyrgðir samkvæmt lögum þessum og afgreiðir þær á grundvelli ítarlegs mats á stöðu og rekstraröryggi viðkomandi fyrirtækis. Fyrirtæki koma því aðeins til álita við veitingu sjálfskuldarábyrgða að grundvöllur teljist vera fyrir rekstri þeirra til lengri tíma. Stjórnarnefndin skal samþykkja kjör og form lána sem sjálfskuldarábyrgð er veitt fyrir.

6. gr.

     Fjármálaráðherra ákveður, að fengnum tillögum stjórnarnefndar, þau iðgjöld sem greidd skulu fyrir veitingu sjálfskuldarábyrgða. Iðgjöld skulu við það miðuð að deildin sé rekinn hallalaus. Tekjuafgangur leggst í sérstakan varasjóð. Skal honum varið til greiðslu þeirra ábyrgðaskuldbindinga sem á ábyrgðadeildina kunna að falla. Ef ekki er fé fyrir hendi í varasjóði til greiðslu krafna þá skal það sem á vantar greitt úr Ríkisábyrgðasjóði.

7. gr.

     Fjármálaráðherra setur með reglugerðum nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um starfsreglur stjórnarnefndar, tryggingar, iðgjöld, innlausn krafna, meðferð og innheimtu innleystra krafna og sjálfskuldarábyrgðir á lánveitingum banka og lánastofnana til hafbeitarfyrirtækja.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög þessi falla úr gildi í árslok 1999. Sama gildir um sjálfskuldarábyrgðir veittar á grundvelli þeirra.
     Með gildistöku laga þessara falla úr gildi 3. málsl. 1. mgr. 22. gr., 3. mgr. 22. gr. og setningarhlutinn „og nánari reglur um álagningu og innheimtu gjalda skv. 22. gr. ef til þess kemur“ úr 1. mgr. 23. gr. laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, sbr. lög nr. 3/1989, um breyting á þeim. Skuldaviðurkenningar, sem fiskeldisfyrirtæki hafa gefið út vegna áhættugjalds á grundvelli sömu lagaheimilda, falla einnig úr gildi. Hinn 1. júlí 1990 fellur úr gildi II. kafli laga nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, sbr. lög nr. 3/1989, um breyting á þeim. Ábyrgðir Framkvæmdasjóðs Íslands, sem byggjast á einfaldri ábyrgð Tryggingasjóðs fiskeldislána, falla niður samhliða því að Tryggingasjóður fiskeldislána er lagður niður.

Samþykkt á Alþingi 3. apríl 1990.