Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 498, 113. löggjafarþing 159. mál: starfsmannamál (framkvæmd kjarasamninga og félagsaðild).
Lög nr. 119 27. desember 1990.

Lög um starfsmannamál o.fl. í kjölfar breyttra verkaskiptaríkis og sveitarfélaga.


I. KAFLI
Um breyting á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 3. gr. bætist ný málsgrein er verði 2. mgr. og orðist svo:
     Heimilt er fjármálaráðherra að fela einstökum ríkisstofnunum að annast framkvæmd kjarasamninga fyrir sína hönd. Slíka heimild getur fjármálaráðherra afturkallað með sex mánaða fyrirvara. Skylt er ofangreindum aðilum að veita fjármálaráðuneytinu allar upplýsingar um launavinnslu, laun og samsetningu þeirra, launatengd gjöld og önnur þau atriði er máli skipta um framkvæmd laga, kjarasamninga og reglugerða er ráðuneytið setur.

2. gr.

     5., 6., 7. og 8. mgr. 6. gr. orðist svo:
     Þeir starfsmenn, sem eru félagar í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélögum og gerast ríkisstarfsmenn þann 1. nóvember 1990 eða 1. janúar 1991 á grundvelli laga nr. 75/1990, um breyting á lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónstu, skulu eiga þess kost að vera áfram í sama stéttarfélagi sem fer þá með samningsumboð fyrir þeirra hönd við ríkið.
     Starfsmenn, sem falla undir lög þessi og komu til starfa 1. janúar 1990 eða síðar í þau störf sem lög um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, nr. 87 31. maí 1989, taka til, skulu jafnframt eiga val um hvort þeir verða félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi eða í öðru því félagi ríkisstarfsmanna sem hefur samkvæmt lögum þessum samningsumboð fyrir viðkomandi starfsmenn. Það sama gildir um starfsmenn sem falla undir þessi lög og koma til starfa eftir 1. nóvember 1990 eða 1. janúar 1991 í þau störf sem lög nr. 75/1990 taka til.
     Hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélag skal hafa tilkynnt fjármálaráðuneytinu fyrir 15. janúar 1991 fyrir hvaða starfsmenn það fer með samningsumboð gagnvart ríkinu á grundvelli þessara laga.
     Hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélög hafa því aðeins samningsumboð gagnvart ríkinu fyrir starfsmenn skv. 5. og 6. mgr. þessarar greinar að tilkynningarskyldu hafi verið fullnægt skv. 7. mgr. þessarar greinar.

II. KAFLI
Um breyting á lögum nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana, með síðari breytingum.

3. gr.

     Við 9. gr. bætist ný málsgrein er verði 3. mgr. og orðist svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. geta fjármálaráðuneyti og viðkomandi ráðuneyti, ef um það er samkomulag, falið stjórnendum eða stjórnum stofnana að staðfesta ráðningarbréf starfsmanna. Slíka heimild getur fjármálaráðuneytið afturkallað einhliða með þriggja mánaða fyrirvara.

III. KAFLI
Um gildistöku.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1990.