Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 821, 117. löggjafarþing 287. mál: eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru (heildarlög).
Lög nr. 22 29. mars 1994.

Lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.


I. KAFLI
Tilgangur, gildissvið og yfirstjórn.

1. gr.

     Tilgangur laga þessara er að tryggja bændum og öðrum notendum fullnægjandi vöru í samræmi við vörulýsingar og kröfur til landbúnaðarafurða um hollustuhætti.

2. gr.

     Lög þessi gilda um eftirlit með framleiðslu, geymslu og sölu á fóðri sem ætlað er búfé sem haldið er til matvælaframleiðslu og sölufóðri annarra dýra, svo og alla sáðvöru, tilbúinn áburð og önnur jarðvegsbætandi efni.

3. gr.

     Eftirlit með þeim vörum, sem lög þessi taka til, skal vera undir yfirstjórn landbúnaðarráðherra. Skal það nefnast aðfangaeftirlit og skipar ráðherra forstöðumann þess sem hefur á hendi umsjón með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar verða samkvæmt þeim.
     Til aðstoðar aðfangaeftirlitinu skipar landbúnaðarráðherra tvær nefndir til fjögurra ára í senn sem hafa það hlutverk að vera ráðgefandi um framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum þessum:
  1. Fóðurnefnd, skipuð þremur mönnum, einum tilnefndum af Búnaðarfélagi Íslands, einum tilnefndum af Rannsóknastofnun landbúnaðarins og dýralækni tilnefndum af yfirdýralækni. Ráðherra skipar formann nefndarinnar.
  2. Sáðvöru- og áburðarnefnd, skipuð þremur mönnum, einum tilnefndum af Búnaðarfélagi Íslands, einum tilnefndum af Rannsóknastofnun landbúnaðarins og einum skipuðum af landbúnaðarráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

II. KAFLI
Aðfangaeftirlit.

4. gr.

     Aðfangaeftirlitið skal halda skrá yfir þá aðila sem framleiða hér á landi eða flytja inn þær vörur sem lög þessi taka til. Óheimilt er að skrá framleiðanda eða innflutningsaðila sem ekki sýnir fram á fullnægjandi aðstöðu fyrir þá starfsemi sem tilkynnt er um.

5. gr.

     Óheimilt er að flytja til landsins, framleiða eða pakka hér á landi vörum sem lög þessi taka til nema tilkynna þær fyrst og láta skrá hjá aðfangaeftirlitinu sem staðfestir skráningu vörunnar. Aðfangaeftirlitið skal aðeins skrá vörur er þeim hefur verið lýst á fullnægjandi hátt.
     Landbúnaðarráðherra ákveður með reglugerð, að höfðu samráði við sérfræðinga Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og ráðunauta Búnaðarfélags Íslands, hvaða upplýsingar skylt er að láta fylgja vörum sem lög þessi ná yfir. Enn fremur skal kveðið á um merkingar og lýsingu á notkun einstakra vöruflokka.

6. gr.

     Aðfangaeftirlitið skal með sýnatökum fylgjast með að vörur þær, sem skráðar hafa verið, séu í samræmi við gildandi vörulýsingar. Aðfangaeftirlitið skal hafa aðgang að eftirlitsskyldum vörum hvar og hvenær sem þess er óskað. Kaupandi vöru getur óskað eftir því að fram fari sérstök athugun á vegum aðfangaeftirlitsins vegna gruns um að varan sé ófullnægjandi. Kostnað af ítrekuðum tilefnislausum rannsóknum greiðir kaupandi samkvæmt reikningi.
     Komi í ljós að vara uppfylli ekki uppgefnar vörulýsingar getur aðfangaeftirlitið krafist stöðvunar á dreifingu og sölu vörunnar.

7. gr.

     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um sýnatöku og önnur atriði er varða framkvæmd aðfangaeftirlitsins, svo og ákvæði um merkingar vöru og pökkun hennar og ákvæði um hámark óæskilegra efna eða bann við notkun þeirra.

III. KAFLI
Eftirlitssjóður.

8. gr.

     Til að standa straum af kostnaði við framkvæmd aðfangaeftirlitsins skal innheimta eftirlitsgjald sem miða skal við raunkostnað við eftirlit með vörum þeim sem lög þessi ná til. Sértækt eftirlitsgjald skal greiða eftir reikningi.
     Eftirlitsgjald af innfluttum vörum skal innheimt við tollafgreiðslu vörunnar. Af innlendri framleiðslu skal greiða gjaldið samkvæmt söluskýrslum sem skila ber tvisvar á ári. Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um innheimtu á eftirlitsgjöldum, upphæð þeirra, álagningu, gjalddaga og annað er lýtur að framkvæmd á innheimtu gjaldanna. Eftirlitsgjöld má taka fjárnámi.

IV. KAFLI
Refsiákvæði, gildistaka o.fl.

9. gr.

     Brot gegn lögum þessum og reglugerðum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum.
     Með mál vegna brota skal farið að hætti opinberra mála.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 53 16. maí 1978, um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur, og lög nr. 106 28. desember 1992, um breytingu á þeim lögum.

Samþykkt á Alþingi 24. mars 1994.