Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1281, 117. löggjafarþing 550. mál: leikskólar (heildarlög).
Lög nr. 78 19. maí 1994.

Lög um leikskóla.


I. KAFLI
Gildissvið.

1. gr.

     Lög þessi taka til starfsemi leikskóla. Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og er fyrir börn undir skólaskyldualdri. Er þá miðað við 1. september það ár sem börnin verða 6 ára. Leikskóli annast í samræmi við lög þessi að ósk foreldra uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri undir handleiðslu sérmenntaðs fólks í leikskólauppeldi.

II. KAFLI
Markmið.

2. gr.

     Samkvæmt lögum þessum skal meginmarkmið með uppeldi í leikskóla vera:

    —     að veita börnum umönnun, búa þeim hollt uppeldisumhverfi og örugg leikskilyrði,

    —     að gefa börnum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta barnahópsins undir leiðsögn leikskólakennara,

    —     að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega svo að þau fái notið bernsku sinnar,

    —     að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og jafna uppeldisaðstöðu þeirra í hvívetna,

    —     að efla kristilegt siðgæði barna og leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,

    —     að rækta tjáningar- og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt.

III. KAFLI
Yfirstjórn.

3. gr.

     Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til. Það gætir þess að farið sé eftir ákvæðum sem lög þessi og reglugerð með þeim mæla fyrir um, sbr. 6. gr.

4. gr.

     Menntamálaráðuneytið mótar uppeldisstefnu leikskóla, sinnir þróunar- og tilraunastarfi og mati á uppeldisstarfi leikskóla og er stjórnendum þeirra til ráðuneytis um starfsemina.
     Uppeldisstefnan er fagleg stefnumörkun. Þar skal kveðið á um uppeldis- og menntunarhlutverk leikskólans, gildi leiksins og meginstefnu varðandi starfshætti og innra gæðamat.
     Menntamálaráðuneytið hefur uppeldisstefnu leikskóla stöðugt til endurskoðunar, sér um útgáfu hennar og breytingar þegar þörf er talin á.

5. gr.

     Menntamálaráðuneytið stuðlar að þróunar- og tilraunastarfi innan leikskólans. Í því skyni skal árlega varið fé í þróunarsjóð með fjárlögum samkvæmt ákvörðun Alþingis. Menntamálaráðuneytið ákveður skiptingu fjárins.

6. gr.

     Menntamálaráðherra skal, að fengnum tillögum starfshóps menntamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga, setja reglugerð um starfsemi leikskóla. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um gæðaeftirlit menntamálaráðuneytisins með starfsemi leikskóla, gerð áætlana um uppbyggingu leikskóla, samstarf leikskóla við foreldra og grunnskóla, um heilsugæslu, um öryggi barna, um lágmarkskröfur til húsnæðis og aðbúnaðar barna og starfsfólks í leikskólum að svo miklu leyti sem kjarasamningar taka ekki til þeirra atriða, um lengd daglegs dvalartíma barna í leikskólum, um aðstoð og þjálfun barna skv. 16. gr., um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu leikskóla og starfssvið hennar og um starfsemi, húsnæði og starfsmannahald í leikskólum með sérstöku tilliti til fatlaðra barna sem þar dvelja.

IV. KAFLI
Hlutverk sveitarfélaga.Stofnun og rekstur leikskóla.

7. gr.

     Bygging og rekstur leikskóla skal vera á kostnað og í umsjón sveitarstjórna og sjá þær um framkvæmd þessara laga, hver í sínu sveitarfélagi, þeim er skylt að hafa forustu um að tryggja börnum dvöl í góðum leikskóla. Heimilt er öðrum aðilum að reka leikskóla að fengnu samþykki viðkomandi sveitarstjórnar. Tilkynna skal menntamálaráðuneytinu um stofnun nýs leikskóla. Sveitarstjórnir skulu árlega senda menntamálaráðuneytinu ársskýrslu um starfsemi leikskóla.

8. gr.

     Sveitarfélög skulu ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti meta þörf fyrir leikskólarými. Á grundvelli þess mats verði gerð áætlun til þriggja ára í senn um uppbyggingu leikskóla í viðkomandi sveitarfélagi og skal við gerð hennar höfð hliðsjón af heildarhagsmunum sveitarfélagsins. Endurskoða skal áætlunina á tveggja ára fresti. Áætlun um uppbyggingu leikskóla skal send menntamálaráðuneytinu.

9. gr.

     Leikskólanefnd, kjörin af sveitarstjórn, fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar. Einn fulltrúi starfsfólks leikskóla og einn fulltrúi foreldra leikskólabarna eiga rétt til setu á fundum leikskólanefndar með málfrelsi og tillögurétti. Heimilt er sveitarstjórn að sameina nefndir þannig að ein nefnd fari með verkefni á fleiri en einu sviði, sbr. 58. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986. Þar sem sveitarfélög hafa sameinast um rekstur leikskóla skulu þau öll eiga fulltrúa í þeirri nefnd sem fer með málefni leikskóla.

10. gr.

     Sveitarstjórn/skólaskrifstofur skulu stuðla að eðlilegum tengslum og samstarfi leikskóla og grunnskóla og vera samstarfsvettvangur þeirra í viðkomandi sveitarfélagi.

11. gr.

     Í sveitarfélögum skulu að jafnaði starfa leikskólafulltrúar sem eru starfsmenn sveitarfélaga. Leikskólafulltrúi skal í umboði leikskólanefndar og í samvinnu við leikskólastjóra sinna ráðgjöf og eftirliti með starfsemi í leikskólum innan sveitarfélagsins og stuðla að samstarfi þeirra innbyrðis. Sveitarfélög geta ráðið sameiginlegan leikskólafulltrúa, hvort sem þau reka sameiginlegan leikskóla eða ekki. Leikskólafulltrúi skal hafa leikskólakennaramenntun.

V. KAFLI
Starfsfólk leikskóla og samstarf við foreldra.

12. gr.

     Við hvern leikskóla skal vera leikskólastjóri sem stjórnar starfi leikskólans í umboði rekstraraðila eftir því sem nánar segir í lögum þessum og reglugerð er sett verður samkvæmt þeim. Leikskólastjóri og það starfslið er annast uppeldi og menntun barna skal hafa menntun leikskólakennara.
     Leikskólastjóri ber ábyrgð á að gera áætlanir um uppeldisstarf leikskólans í samræmi við lög þessi. Leikskólastjóri skal árlega gera rekstraraðila grein fyrir starfsemi leikskóla.
     Sveitarstjórn setur starfsfólki leikskóla erindisbréf í samræmi við lög þessi og reglugerð er sett verður samkvæmt þeim.

13. gr.

     Leikskólastjóri skal halda reglulega fundi með starfsfólki um starfsemi leikskólans og velferð hvers barns.

14. gr.

     Leikskólastjóra er skylt að stuðla að samstarfi milli foreldra barnanna og starfsfólks leikskólans með velferð barnanna að markmiði. Sé óskað eftir stofnun foreldrafélags skal leikskólastjóri aðstoða við stofnun þess.

VI. KAFLI
Réttur leikskólabarna til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar. Ráðgjafarþjónusta.

15. gr.

     Börn á leikskólaaldri, sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, eiga rétt á henni innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga.

16. gr.

     Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir leikskóla skal veita foreldrum barna og starfsfólki leikskóla nauðsynlega ráðgjöf og þjónustu sem nánar verður kveðið á um í reglugerð um starfssvið þjónustunnar. Ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta fyrir leikskóla getur verið rekin sameiginlega með ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla.

17. gr.

     Leikskólar skulu þannig byggðir og reknir að þeir geti sinnt fötluðum börnum.

VII. KAFLI
Gildistaka.

18. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi lög nr. 48/1991. Lög þessi raska ekki gildi ákvæða laga nr. 112/1976 sem lúta að skóladagheimilum.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Í lögum þessum tekur starfsheitið leikskólakennari til þeirra sem lokið hafa viðurkenndu fóstrunámi.

Samþykkt á Alþingi 7. maí 1994.