Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1040, 113. löggjafarþing 340. mál: leikskóli.
Lög nr. 48 27. mars 1991.

Lög um leikskóla.


I. KAFLI
Gildissvið.

1. gr.

     Lög þessi taka til starfsemi leikskóla. Leikskólinn annast að ósk foreldra uppeldi barna fram að skólaskyldualdri undir handleiðslu sérmenntaðs fólks í uppeldismálum. Leikskóli er samkvæmt lögum þessum fyrir börn frá þeim tíma að fæðingarorlofi lýkur til 6 ára aldurs.

II. KAFLI
Markmið.

2. gr.

     Tilgangur laganna er að veita börnum góða umönnun og örugg uppeldisskilyrði.
     Leikskólinn skal í samráði við foreldra eða aðra forráðamenn veita börnum á leikskólaaldri uppeldi og menntun.
     Samkvæmt lögum þessum skal meginmarkmið með uppeldisstarfi í leikskóla vera:

        —    að búa börnum örugg leikskilyrði og hollt uppeldisumhverfi,

        —    að gefa börnum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta barnahópsins undir leiðsögn fóstra,

        —    að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega svo að þau fái notið bernsku sinnar,

        —    að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og jafna uppeldisaðstöðu þeirra í hvívetna,

        —    að efla kristilegt siðgæði barna og leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,

        —    að rækta tjáningar- og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt.


III. KAFLI
Hlutverk sveitarfélaga.
Stofnun og rekstur leikskóla.

3. gr.

     Til að stuðla að framkvæmd þess markmiðs sem getið er um í 1. mgr. 2. gr. skal stofna leikskóla. Stofnun leikskóla og rekstur er á ábyrgð sveitarfélaga en fagleg yfirstjórn málaflokksins samkvæmt lögum þessum er á hendi menntamálaráðuneytis.
     Sveitarfélag gerir árlega könnun á því hversu margir foreldrar óska eftir leikskólavistun. Á grundvelli þeirrar könnunar verði gerð áætlun um uppbyggingu leikskóla í viðkomandi sveitarfélagi til a.m.k. tveggja ára í senn. Sveitarfélögum er samkvæmt lögum þessum skylt að hafa forustu um að tryggja börnum þann lögvarða lágmarksrétt til þjónustu sem lög þessi gera ráð fyrir. Til þess að setja á stofn leikskóla þarf starfsleyfi frá menntamálaráðuneytinu. Heimilt er að veita leikskóla starfsleyfi þótt börnin dvelji þar ekki daglega eða einungis hluta úr ári.

4. gr.

     Í samráði við hlutaðeigandi sveitarfélag er öðrum aðilum heimilt að reka leikskóla. Skilyrði þessa er að viðkomandi hafi fengið starfsleyfi og meðmæli sveitarfélags og reki leikskólann samkvæmt lögum þessum.

5. gr.

     Bygging og rekstur leikskóla skal vera í umsjón sveitarstjórna og skulu þær sjá um framkvæmd þessara laga, hver í sínu sveitarfélagi. Skólanefnd eða sérstök leikskólanefnd fer með stjórn leikskóla, nema þar sem sveitarstjórn felur félagsmálanefnd að fara með málið.
     Sé skólanefnd eða sérstakri leikskólanefnd falin stjórn leikskóla skal starfsfólk leikskóla kjósa einn fulltrúa til setu í nefndinni og skal hann hafa málfrelsi og tillögurétt. Enn fremur kjósa samtök foreldra einn fulltrúa til setu í nefndinni með málfrelsi og tillögurétt.

6. gr.

     Menntamálaráðuneytið skal í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga setja í reglugerð almenn ákvæði um húsnæði leikskóla: heildarrými, aðstöðu til einstaklingsþjálfunar, leikrými barna, búnað, vinnuaðstöðu starfsfólks, svo og útileiksvæði.
     Í reglugerðinni skulu einnig vera viðmiðunarákvæði um barnafjölda og starfslið leikskóla.
     Enn fremur skal kveða á um það í reglugerð hverjir skuli vera umsagnaraðilar um hönnun og byggingu leikskóla.

IV. KAFLI
Yfirstjórn.

7. gr.

     Menntamálaráðuneytið fer með mál þau er lög þessi taka til. Það veitir leyfi til leikskólareksturs. Það hefur með höndum eftirlit með því að fullnægt sé ákvæðum sem lög þessi og reglugerð mæla fyrir um. Það mótar uppeldisstefnu leikskóla, sér um útgáfu uppeldisáætlunar, sbr. 13. gr., sinnir þróunar- og rannsóknarstarfi og er stjórnendum leikskóla til ráðuneytis um starfsemina.

8. gr.

     Landinu skal skipt í leikskólaumdæmi. Leikskólaumdæmi skulu vera þau sömu og fræðsluumdæmi samkvæmt grunnskólalögum. Tengja skal starfsemi fræðsluskrifstofa grunnskóla og störf umdæmisfóstra leikskóla, þar með talin starfsemi kennslugagnamiðstöðva fyrir bæði skólastigin.
     Leikskólinn skal stuðla að því í samráði við grunnskóla að eðlileg tengsl skapist á milli þessara skólastiga. Menntamálaráðuneytið setur með reglugerð nánari ákvæði um samstarf leikskóla og grunnskóla.

9. gr.

     Í hverju leikskólaumdæmi skal starfa umdæmisfóstra. Umdæmisfóstra leikskóla skal í samvinnu við rekstraraðila og hlutaðeigandi nefndir sinna ráðgjöf og faglegu eftirliti með uppeldi og menntun í þeim leikskólum umdæmisins þar sem ekki eru aðrir leikskólafulltrúar eða umsjónarfóstrur á vegum sveitarfélaga. Umdæmisfóstra stuðlar að samstarfi leikskóla umdæmisins og samvinnu leikskóla og grunnskóla.
     Umdæmisfóstra er starfsmaður ríkisins. Við ráðningu í starf umdæmisfóstru skal taka tillit til starfsreynslu í leikskóla og framhaldsmenntunar. Umsjónarfóstra getur verið starfsmaður fræðsluskrifstofu. Nánar skal kveðið á um störf umdæmisfóstra í erindisbréfi. Ráðning umdæmisfóstra er ákveðin í fjárlögum hverju sinni.

V. KAFLI
Starfsfólk og foreldrar.

10. gr.

     Við hvern leikskóla skal vera leikskólastjóri. Leikskólastjóri, og starfslið er annast fóstrustörf, skal hafa fóstrumenntun, svo og þeir sem annast faglega umsjón og eftirlit með leikskólum á vegum rekstraraðila.
     Leikskólastjóri stjórnar starfi leikskólans í umboði rekstraraðila eftir því sem nánar segir í lögum þessum og reglugerðum er settar verða samkvæmt þeim. Í samráði við rekstraraðila ber leikskólastjóri ásamt starfsfólki ábyrgð á að móta heildarstefnu í uppeldis- og menntamálum leikskólans og að áætlanir þar um séu gerðar í samræmi við 13. gr.
     Ársskýrsla um starfsemi leikskóla skal send sveitarstjórn og umdæmisfóstru viðkomandi umdæmis. Sveitarstjórn skal setja starfsfólki erindisbréf í samræmi við lög þessi og reglugerð er sett verði samkvæmt þeim.

11. gr.

     Leikskólastjóri skal halda reglulega fundi með starfsfólki um stjórn heimilisins og velferð hvers einstaks barns.

12. gr.

     Skylt er rekstraraðila leikskóla að skipuleggja tengsl milli foreldra barnanna og leikskólans í því skyni að efla samstarf þessara aðila um velferð barnsins.

VI. KAFLI
Uppeldisáætlun.

13. gr.

     Menntamálaráðuneytið setur leikskólum uppeldisáætlun þar sem m.a. skal kveðið á um uppeldis- og menntunarhlutverk leikskólans og meginstefnu varðandi starfshætti.
     Í uppeldisáætlun verði gildi leiksins sem uppeldis- og kennslutækis leiðandi hugtak.
     Menntamálaráðuneytið hefur uppeldisáætlun leikskóla stöðugt til endurskoðunar og gerir tillögur um breytingar þegar þörf er talin á.

VII. KAFLI
Réttur leikskólabarna til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar.

14. gr.

     Börn á leikskólaaldri, sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, eiga rétt á henni innan leikskólans, undir handleiðslu fóstra, þroskaþjálfa og annarra sérfræðinga. Þjálfunin getur verið einstaklingsbundin og í hópi innan almennrar leikskóladeildar eða á sérhæfðum deildum.
     Markmið þjálfunarinnar er m.a. að auka færni barnsins miðað við þroskastig þess. Ákvörðun um þjálfun og tilhögun hennar skal tekin í samráði við foreldra barnsins og ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu leikskólans, að undangenginni greiningu og mati sálfræðiþjónustunnar eða annarra lögboðinna greiningaraðila.
     Stefnt skal að því að barnið sæki leikskóla í sínu skólahverfi. Þó skal gefinn kostur á að leita annarra úrræða sem henta barninu betur með tilliti til þjónustu. Fatlað barn, sem sækir skóla utan síns skólahverfis, á rétt á flutningsþjónustu sem greiðist af ríkinu, sbr. lög nr. 41/1983, um málefni fatlaðra.

15. gr.

     Leikskólar skulu þannig byggðir og reknir að þeir geti sinnt fötluðum börnum á leikskólaaldri.
     Heimilt er þó að veita undanþágu frá þessu ákvæði.
     Í reglugerð skal kveðið nánar á um starfsemi, húsnæði og starfsmannahald almennra leikskóladeilda vegna veru fatlaðra barna, svo og sérhæfðra deilda.

VIII. KAFLI
Leikskólarannsóknir og þróunarstarf.

16. gr.

     Menntamálaráðuneytið stuðlar að þróunar-, tilrauna- og rannsóknarstarfi innan leikskólanna. Í því skyni skal árlega varið fé í þróunarsjóð samkvæmt ákvörðun Alþingis með fjárlögum. Menntamálaráðuneytið afgreiðir umsóknir og ákveður skiptingu fjárins.

17. gr.

     Til þess að sinna tímabundnum rannsóknar- og þróunarverkefnum á vegum menntamálaráðuneytisins má ráða sérstaka starfsmenn.

18. gr.

     Í rannsókna-, þróunar- og tilraunaskyni er ráðuneytinu heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum laga og reglugerða.

IX. KAFLI
Ráðgjafarþjónusta.

19. gr.

     Allir leikskólar eiga rétt á sérhæfðri ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu og skal hún að jafnaði skipulögð í tengslum við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu fræðsluumdæmisins, sbr. lög um grunnskóla.
     Menntamálaráðuneytið gerir í samráði við umdæmisfóstrur heildaráætlun um framkvæmd þessarar þjónustu.

20. gr.

     Hlutverk ráðgjafar- og sálfræðiþjónustunnar er:

        —    að annast sérfræðilega ráðgjöf og fræðslu fyrir starfsfólk leikskóla og foreldra leikskólabarna um uppeldi og umönnun barnanna,

        —    að annast frumgreiningu og/eða vísa í sérhæfðari greiningaraðila ef þess gerist þörf að mati ráðgjafarþjónustunnar; enn fremur að hafa umsjón og eftirlit með aðstoð og þjálfun barnanna,

        —    að annast ýmis rannsóknastörf og athuganir í sambandi við ráðgjafarþjónustuna.


21. gr.

     Menntamálaráðuneytið setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd og starfssvið ráðgjafar- og sálfræðiþjónustunnar.

X. KAFLI
Heilsuvernd og hollustuhættir.

22. gr.

     Um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit á leikskólum fer eftir lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu.

23. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi lög nr. 112/1976 að öðru leyti en því er lýtur að skóladagheimilum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
      Uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili — markmið og leiðir, gefin út af menntamálaráðuneytinu 1985, tekur með lögum þessum gildi sem fyrsta uppeldisáætlun leikskóla.

II.
     Stefnt skal að því að sveitarfélög nái markmiðum 3. gr. innan 10 ára.

III.
     Heimilt er menntamálaráðuneytinu að fela fræðsluskrifstofum að annast þau svæðisbundnu stjórnunarverkefni sem gert er ráð fyrir í IV. kafla laganna þar til skipulag það, sem þar er gert ráð fyrir, er að fullu komið til framkvæmda.

Samþykkt á Alþingi 18. mars 1991.