Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1300, 117. löggjafarþing 544. mál: jöfnun á flutningskostnaði olíuvara (heildarlög).
Lög nr. 103 20. maí 1994.

Lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara.


1. gr.

     Flutningskostnaður á olíuvörum innan lands skal jafnaður eins og nánar greinir í lögum þessum.
     Jöfnun á flutningskostnaði nær til flutninga á bifreiðabensíni, gasolíu, öðrum olíum og blöndum til brennslu, flugvélabensíni og flugsteinolíu (þotueldsneyti) til innanlandsflugs, þó ekki á olíum ætluðum til útflutnings, svo sem til millilandasiglinga, millilandaflugs, erlendra skipa og erlendra flugvéla.
     Jöfnun flutningskostnaðar samkvæmt lögum þessum nær til flutnings á bensíni og öðrum olíuvörum sjóleiðis frá innflutningshöfnum til annarra hafna á landinu sem geta tekið við bensíni og olíuvörum með leiðslu úr tankskipi. Jafnframt nær jöfnun flutningskostnaðar til landflutninga á bensíni og dísilolíu með tankbifreið til allra útsölustaða í byggð, þ.e. utan hálendis, frá næstu innflutningshöfn eða næstu höfn sem getur tekið við bensíni og dísilolíu frá tankskipi úr olíuleiðslu.

2. gr.

     Leggja skal flutningsjöfnunargjald á allar olíuvörur, sem fluttar eru til landsins og ætlaðar eru til nota innan lands, sbr. 1. gr., og rennur gjaldið í sérstakan sjóð — flutningsjöfnunarsjóð olíuvara.
     Samkeppnisstofnun, að fenginni tillögu stjórnar flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara, ákveður gjald á olíuvörum skv. 1. mgr. fyrir minnst þrjá mánuði í senn og skal fjárhæð flutningsjöfnunargjalds hvers flokks, sbr. 4. gr., við það miðuð að tekjur af gjaldinu nægi til að greiða flutningskostnað á því magni af framangreindum olíuvörum sem flytja þarf frá næstu innflutningshöfn eða olíuhöfn til þeirra olíuhafna eða útsölustaða sem jöfnun flutningskostnaðar nær til svo að fullnægt verði eftirspurn eftir þeim olíuvörum sem dreift er þaðan.

3. gr.

     Innflytjendur, sem annast innanlandssölu á olíu í öllum landshlutum, sbr. 1. gr., skulu reikna og greiða flutningsjöfnunargjaldið til flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara af sölu í hverjum mánuði eigi síðar en á síðasta virkum degi að þremur mánuðum liðnum frá lokum sölumánaðar.
     Aðrir innflytjendur bensíns og olíu, sbr. 1. gr., skulu greiða flutningsjöfnunargjaldið við innheimtu aðflutningsgjalda miðað við innflutt móttekið magn.
     Tollstjórinn í Reykjavík og sýslumenn utan Reykjavíkur annast innheimtu gjaldsins og skulu þeir skila því til flutningsjöfnunarsjóðs.

4. gr.

     Greiða skal úr flutningsjöfnunarsjóði olíuvara kostnað við flutning olíu frá innflutningshöfn eða olíuhöfn til þeirra olíuhafna og útsölustaða sem jöfnun flutningskostnaðar nær til samkvæmt lögum þessum.
     Mynda skal innan flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara sérstaka reikninga fyrir eftirfarandi flokka: 1) bifreiðabensín, 2) gasolíu, 3) aðrar olíur og blöndur til brennslu og 4) flugsteinolíu (þotueldsneyti). Færa skal tekjur af flutningsjöfnunargjaldi hvers flokks á sérstakan reikning og sömuleiðis útgjöld vegna jöfnunar flutningskostnaðar. Stefnt skal að því að ná jafnvægi milli álagðra flutningsjöfnunargjalda og útgjalda vegna flutningsjöfnunar hvers flokks innan almanaksársins.

5. gr.

     Ekki má leggja flutningsjöfnunargjald á einn flokk til að greiða flutningskostnað á öðrum flokki skv. 4. gr. Verði tekjuafgangur á reikningum flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara í árslok skal hann yfirfærast til næsta árs. Ef tekjur sjóðsins á almanaksári hrökkva ekki fyrir útgjöldum skal greiða það sem á vantar af fyrstu tekjum sjóðsins næsta ár.
     Nú hrekkur flutningsjöfnunargjald af einum flokki ekki til greiðslu á kröfum þess flokks og skulu þá innstæður á reikningum annarra flokka notaðar til greiðslu þessara krafna til bráðabirgða. Slíkar bráðabirgðagreiðslur skulu endurgreiddar af hækkuðu flutningsjöfnunargjaldi af umræddum flokki á næsta flutningsjöfnunartímabili.

6. gr.

     Stjórn flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara skal skipuð þremur mönnum sem viðskiptaráðherra skipar til tveggja ára í senn. Einnig skal skipa varamenn. Forstjóri Samkeppnisstofnunar eða staðgengill hans er formaður stjórnarinnar, ráðherra skipar einn stjórnarmann án tilnefningar en jafnframt situr í henni einn stjórnarmaður, tilnefndur sameiginlega af þeim olíufélögum, sem annast olíudreifingu í öllum landshlutum, eða meiri hluta félaganna. Þó má viðskiptaráðherra ákveða að í stað eins sameiginlegs fulltrúa sitji í stjórninni einn fulltrúi frá hverju slíku olíufélagi. Olíufélögin sameiginlega eða meiri hluti þeirra fer saman með eitt atkvæði við ákvarðanatöku í stjórn sjóðsins.

7. gr.

     Stjórn flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara og Samkeppnisstofnun sjá um daglegan rekstur og greiðslur á kostnaði við flutningsjöfnun í samræmi við lög þessi, reglur og ákvarðanir stjórnar sjóðsins.

8. gr.

     Stjórn flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara úrskurðar hvað teljast skuli flutningskostnaður. Er stjórninni skylt að ákveða að jöfnun flutningskostnaðar milli innflutningshafnar, olíuhafnar og útsölustaða skuli takmörkuð við kostnað af þeim flutningsháttum sem ódýrastir eru á hverjum tíma. Enn fremur skal stjórninni heimilt að synja um greiðslu tiltekins kostnaðar úr sjóðnum að hluta til eða að fullu ef stjórnin telur að um misnotkun á jöfnunarkerfinu sé að ræða.

9. gr.

     Allur kostnaður af starfsemi flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara greiðist af tekjum sjóðsins og skal tekið tillit til þess við ákvörðun flutningsjöfnunargjalds.
     Fé það, sem á hverjum tíma er í flutningsjöfnunarsjóði, skal ávaxtað í banka á sérstökum reikningi.

10. gr.

     Að undanteknum fyrirmælum um jöfnun flutningskostnaðar samkvæmt lögum þessum skal um verðlagningu á olíuvörum fara eftir samkeppnislögum, nr. 8 25. febrúar 1993, með síðari breytingum, og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

11. gr.

     Viðskiptaráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um framkvæmd laga þessara. Þar er m.a. heimilt að fella niður flutningsjöfnunargjald af olíuvörum í sérstökum tilvikum sem byggjast á samningum um rekstur olíufrekra iðjuvera hér á landi. Flutningsjöfnunarsjóður jafnar ekki flutningskostnað í slíkum tilvikum. Það er jafnframt heimilt að ákveða að fjölga eða fækka útsölustöðum sem jöfnun flutningskostnaðar með tankbifreið nær til að fenginni tillögu þar um frá stjórn flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara.

12. gr.

     Lög þessi öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar að þremur mánuðum liðnum frá samþykkt þeirra. Jafnframt falla þá úr gildi lög nr. 81 4. júlí 1985, um flutningsjöfnunarsjóð og innflutningsjöfnun olíu og bensíns.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Flutningsjöfnunarsjóður olíuvara tekur frá gildistöku laga þessara við eignum og skuldbindingum flutningsjöfnunarsjóðs olíu og bensíns, sbr. lög nr. 81 4. júlí 1985.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 1994.