Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 530, 118. löggjafarþing 209. mál: útflutningur hrossa (heildarlög).
Lög nr. 161 31. desember 1994.

Lög um útflutning hrossa.


1. gr.

     Útflutningur á hrossum er heimill án sérstakra leyfa nema þegar um er að ræða úrvalskynbótagripi. Útflutningshross skulu vera á aldrinum fjögurra mánaða til 15 vetra. Þó má flytja úr landi eldri kynbótahross en þá einungis í flugvélum. Óheimilt er að flytja úr landi fylfullar hryssur sem gengnar eru með sjö mánuði eða lengur.

2. gr.

     Öll hross sem flutt eru úr landi skulu heilbrigðisskoðuð af embættisdýralækni. Skoðun skal ávallt miða við þær kröfur sem gerðar eru í innflutningslandi. Einungis er heimilt að flytja úr landi heilbrigð og rétt sköpuð hross og skulu þau merkt með þeim hætti að ekki verði um villst. Dýralæknir á útflutningshöfn skal ganga úr skugga um að útflytjendur skili skrá yfir útflutningshross og að merkingar séu í samræmi við þá skrá og upprunavottorð. Skrá þessi fylgir hrossunum í flutningsfari. Heimilt er yfirdýralækni að ráða sérstakan dýralækni til að hafa eftirlit með útflutningi hrossa.
     Gjald fyrir skoðun á útflutningshrossum greiðist úr útflutningssjóði.

3. gr.

     Flutningsfar fyrir hross og öll aðstaða, svo sem rými, loftræsting, brynningartæki og aðstaða til fóðrunar, skal vera með þeim hætti að sem best verði að hrossunum búið. Yfirdýralæknir eða fulltrúi hans skal líta eftir að reglum um aðbúnað sé fylgt.
     Á tímabilinu 1. nóvember til 15. apríl er einungis heimilt að flytja hross til útlanda með viðurkenndum flutningaskipum eða með flugvélum.

4. gr.

     Hrossum, sem flutt eru úr landi, skal fylgja vottorð frá Búnaðarfélagi Íslands er staðfesti uppruna hrossins og ætterni.
     Innlendir hrossaræktendur og samtök þeirra eiga forkaupsrétt að úrvalskynbótagripum sem áformað er að flytja úr landi. Búnaðarfélag Íslands getur óskað eftir því við landbúnaðarráðuneytið að það fresti útflutningi á þeim í allt að tvær vikur á meðan forkaupsréttur er boðinn. Við boð á forkaupsrétti skal miða við uppgefið útflutningsverð.
     Hrossaræktarnefnd, sem starfar skv. 5. og 6. gr. laga nr. 84/1989, um búfjárrækt, skal árlega ákveða mörk kynbótamats sem hross þarf að hafa til að teljast úrvalskynbótagripur.

5. gr.

     Útflutningsgjald skal leggja á hvert útflutt hross og skal það innheimt við útgáfu upprunavottorðs. Það skal vera 8.000 kr. að hámarki og breytast árlega, 1. febrúar, samkvæmt vísitölu búfjárræktar sem útgefin er af Hagstofu Íslands. Útflutningsgjaldið greiðist í sérstakan útflutningssjóð í vörslu landbúnaðarráðuneytisins og er ætlað að standa undir kostnaði við skoðun á útflutningshrossum, útgáfu upprunavottorða; 5% af gjaldinu skal greiða í stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins sem starfar skv. 15. gr. laga nr. 84/1989, um búfjárrækt, og 15% af gjaldinu skal greiða í Búnaðarmálasjóð. Eftirstöðvum hvers árs skal varið til útflutnings- og markaðsmála, að fengnum tillögum útflutnings- og markaðsnefndar.
     Reikninga sjóðsins skal birta árlega í Stjórnartíðindum og þeir endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun.

6. gr.

     Skipa skal fimm manna nefnd, útflutnings- og markaðsnefnd, er hafi það hlutverk að vera ráðgefandi um málefni er snerta útflutning á hrossum og gera tillögur um ráðstöfun á eftirstöðvum útflutningsgjalds, sbr. 5. gr. Búnaðarfélag Íslands, Félag hrossabænda, yfirdýralæknir og hrossaútflytjendur skulu tilnefna aðila í nefndina en ráðherra skipar formann án tilnefningar.

7. gr.

     Landbúnaðarráðherra fer með framkvæmd laga þessara og setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þeirra, þar með talið kröfur um heilbrigði er taki mið af kyni og aldri hrossa sem flytja á úr landi, skoðun og merkingu útflutningshrossa, aðstöðu í útflutningshöfn og meðferð þeirra upplýsinga sem útflytjanda er skylt að leggja fram og sem upprunavottorð byggist á.

8. gr.

     Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

9. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 15. apríl 1995. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 64/1958, um útflutning hrossa, svo og lög nr. 67/1969, lög nr. 39/1986, 53. gr. laga nr. 10/1983, lög nr. 40/1993 og lög nr. 41/1994, um breytingar á þeim lögum.

Samþykkt á Alþingi 28. desember 1994.