Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 847, 118. löggjafarþing 219. mál: skoðun kvikmynda (heildarlög).
Lög nr. 47 7. mars 1995.

Lög um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum.


1. gr.

     Bannað er að framleiða hér á landi eða flytja til landsins ofbeldiskvikmyndir. Enn fremur er bönnuð sýning, dreifing og sala slíkra mynda.
      Kvikmynd merkir í lögum þessum hvers kyns hreyfimyndaefni sem gert er með hvers konar tækni, þar með taldar leiknar kvikmyndir og teiknimyndir, hvort sem ætlað er til sýningar í kvikmyndahúsum, sjónvarpi eða öðrum myndflutningstækjum.
      Ofbeldiskvikmynd í skilningi laga þessara er kvikmynd þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar eða hrottalegar drápsaðferðir á mönnum og dýrum.
     Ákvæði laga þessara taka ekki til frétta- og fræðsluefnis.

2. gr.

     Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála er lög þessi taka til. Ráðherra skipar sex manna nefnd til þriggja ára í senn þannig: Þrjá að fengnum tillögum félagsmálaráðherra, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, einn að fengnum tillögum Félags kvikmyndagerðarmanna, einn að fengnum tillögum dómsmálaráðherra og einn án tilnefningar. Menntamálaráðherra skipar einn úr hópi framangreindra forstöðumann og skal kveðið á um verksvið hans í reglugerð. Nefndin starfar undir heitinu Kvikmyndaskoðun.
     Á vegum Kvikmyndaskoðunar fer fram skoðun allra kvikmynda sem ætlaðar eru til sýningar eða dreifingar hér á landi, sbr. þó 5. gr. Kvikmyndaskoðun metur hvort kvikmynd teljist vera ofbeldiskvikmynd í skilningi laga þessara og hvort kvikmyndin sé við hæfi barna.
     Setja skal í reglugerð nánari ákvæði um tilhögun skoðunar kvikmynda hjá Kvikmyndaskoðun.
     Þóknun Kvikmyndaskoðunar og annar rekstrarkostnaður vegna starfa hennar greiðist úr ríkissjóði samkvæmt sérgreindri fjárveitingu í fjárlögum.

3. gr.

     Telji Kvikmyndaskoðun kvikmynd vera ofbeldiskvikmynd í skilningi þessara laga úrskurðar hún að dreifing og sýning kvikmyndarinnar skuli vera bönnuð hér á landi.
     Teljist kvikmynd geta haft skaðleg áhrif á siðferði eða sálarlíf barna, að mati Kvikmyndaskoðunar, ákveður hún hvort banna skuli að sýna eða afhenda kvikmyndina börnum innan 16 ára aldurs eða á tilteknum aldursskeiðum innan þess aldurs samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Heimilt er Kvikmyndaskoðun að ákveða sérstök aldursmörk fyrir mismunandi myndmiðla.
     Bann skv. 1. mgr. 1. gr. tekur ekki til kvikmynda þar sem sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upplýsingagildis kvikmyndarinnar eða vegna listræns gildis hennar.
     Úrskurðir Kvikmyndaskoðunar skulu vera skriflegir og skal fylgja þeim rökstuðningur. Þeir skulu kynntir aðilum sem hlut eiga að máli og vera almenningi aðgengilegir. Úrskurðir Kvikmyndaskoðunar um efni kvikmynda eru endanlegir. Þó er Kvikmyndaskoðun heimilt, ef sérstök ástæða þykir til, að meta að nýju án endurgjalds sýningarhæfni kvikmynda sem áður hafa verið metnar.

4. gr.

     Þeim aðilum, sem framleiða kvikmyndir hér á landi, flytja þær til landsins eða ætla að sýna, dreifa og eða selja kvikmyndir hérlendis, er skylt að sjá til þess að Kvikmyndaskoðun fái þær umsvifalaust til skoðunar, sbr. þó 5. gr.
     Þeim aðilum, sem getið er í 1. mgr., ber að greiða skoðunargjöld sem renna í ríkissjóð. Skoðunargjöldin ákvarðast í reglugerð og skal fjárhæð þeirra taka mið af kostnaði vegna skoðunar kvikmynda.

5. gr.

     Sjónvarpsstöðvar, sem leyfi hafa til útvarps, annast skoðun kvikmynda sem sýna á í dagskrá, að höfðu samráði við Kvikmyndaskoðun. Menntamálaráðherra getur þó ákveðið að tiltekin kvikmynd skuli skoðuð af Kvikmyndaskoðun sem hefur þá úrskurðarvald um það hvort sýning kvikmyndarinnar brjóti gegn ákvæðum laga þessara.

6. gr.

     Kvikmyndaskoðun gefur út vottorð um skoðun kvikmyndar sem skal að skoðun lokinni látið skoðunarbeiðanda í té ásamt eintaki kvikmyndar gegn greiðslu skoðunargjalds.
     Sala, dreifing eða sýning kvikmyndar er óheimil nema fyrir liggi skoðunarvottorð Kvikmyndaskoðunar, sjá þó 5. gr.

7. gr.

     Aðilum skv. 1. mgr. 4. gr. er skylt að sjá til þess að öll eintök hinnar skoðuðu kvikmyndar séu merkt af Kvikmyndaskoðun. Dreifingaraðilar og sýnendur kvikmynda skulu láta niðurstöður Kvikmyndaskoðunar fylgja öllum auglýsingum og kynningu á kvikmyndum með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
     Kvikmyndaskoðun skal a.m.k. tvisvar á ári gefa út heildaryfirlit yfir skoðaðar kvikmyndir þar sem fram kemur mat á sýningarhæfni þeirra.

8. gr.

     Ef kvikmynd, sem sýna á í kvikmyndahúsi, er bönnuð börnum innan tiltekins aldurs ber forstöðumaður kvikmyndahússins ábyrgð á að banninu sé framfylgt. Bannið gildir einnig þó að barn sé í fylgd þess sem heimild hefur til að sjá viðkomandi kvikmynd.
     Óheimilt er að lána, leigja eða selja börnum eintak kvikmyndar ef hún er bönnuð börnum á viðkomandi aldri. Hver sá sem rekur myndbandaleigu ber ábyrgð á að banninu sé framfylgt að því er tekur til kvikmyndaefnis sem þar er á boðstólum.

9. gr.

     Barnaverndarnefndir og löggæslumenn skulu hafa reglubundið eftirlit með því að úrskurðum Kvikmyndaskoðunar sé framfylgt og að aðeins séu sýndar kvikmyndir eða þeim dreift sem merktar eru af Kvikmyndaskoðun.
     Tollyfirvöld og Kvikmyndaskoðun skulu koma sér saman um verklagsreglur í þeim tilgangi að hamla gegn innflutningi ofbeldiskvikmynda samkvæmt lögum þessum.

10. gr.

     Brot gegn ákvæðum laga þessara skulu varða sektum eða varðhaldi allt að sex mánuðum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
     Um rannsókn og meðferð mála vegna meintra brota á lögum þessum skal farið að hætti laga um meðferð opinberra mála.
     Heimilt er að gera upptækar kvikmyndir ef sýning, dreifing eða sala þeirra fer í bága við ákvæði laga þessara. Hið upptæka skal vera eign ríkissjóðs.

11. gr.

     Heimilt er ráðherra að setja reglur um skoðun tölvuforrita sem hafa að geyma gagnvirka leiki til að tryggja að notkun þeirra sé ekki í ósamræmi við tilgang laga þessara, sbr. 1.–3. gr. Skal þá haga slíkri skoðun með áþekkum hætti og skoðun kvikmynda að fengnum tillögum Kvikmyndaskoðunar.

12. gr.

     Menntamálaráðherra skal setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og þá falla jafnframt úr gildi lög nr. 33/1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Skipun núverandi skoðunarmanna og ráðning forstöðumanns fellur niður við gildistöku laga þessara. Menntamálaráðherra skipar skoðunarmenn og forstöðumann Kvikmyndaskoðunar frá og með sama tíma.

Samþykkt á Alþingi 24. febrúar 1995.