Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1064, 115. löggjafarþing 422. mál: vernd barna og ungmenna (heildarlög).
Lög nr. 58 2. júní 1992.

Lög um vernd barna og ungmenna.


I. KAFLI
Markmið og stjórn barnaverndarmála.

1. gr.

Markmið barnaverndar.
     Markmið barnaverndar er að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði. Skal það gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Í barnaverndarstarfi skal jafnan það ráð upp taka sem ætla má að barni eða ungmenni sé fyrir bestu. Skal barnaverndarstarfi hagað þannig að það stuðli að stöðugleika í uppvexti barna og ungmenna.
     Með börnum er samkvæmt lögum þessum átt við einstaklinga innan 16 ára aldurs, en ungmenni eru einstaklingar 16–18 ára.
     Þar sem talað er um foreldra í lögum þessum er einnig átt við aðra þá sem hafa forsjá barna með höndum, sbr. 6. mgr. 29. gr. barnalaga.

2. gr.

Stjórn barnaverndarmála.
     Starf til verndar börnum og ungmennum rækja samkvæmt lögum þessum félagsmálaráðuneytið, barnaverndarnefndir og barnaverndarráð og eru í lögum þessum nefnd barnaverndaryfirvöld.

3. gr.

Hlutverk félagsmálaráðuneytis varðandi barnaverndarmál.
     Félagsmálaráðuneytið fer með yfirstjórn barnaverndarmála og skal sérstök deild innan þess annast samræmingu og heildarskipulag þeirra.
     Ráðuneytið skal hafa frumkvæði að þróunarstarfi og rannsóknum á sviði barnaverndar. Það skal enn fremur veita barnaverndarnefndum leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi fjölskylduvernd og úrlausn barnaverndarmála. Það skal hafa eftirlit með störfum allra barnaverndarnefnda á landinu, heimta frá þeim ársskýrslur og gefa árlega út skýrslu um starfsemi barnaverndaryfirvalda. Ræki barnaverndarnefnd ekki störf þau sem henni eru falin í lögum þessum skal ráðuneytið krefja hana skýrslna og halda henni til að rækja skyldu sína. Ef ráðuneytinu þykir ástæða til getur það lagt fyrir barnaverndarnefnd að gera sérstakar ráðstafanir í máli hvort sem hún hefur fjallað um það áður eða ekki. Nú verður ráðuneytið þess áskynja að barnaverndarnefnd hefur kveðið upp úrskurð sem er andstæður lögum og getur ráðuneytið þá skotið málinu til endanlegs úrskurðar barnaverndarráðs.
     Ráðuneytið skal hlutast til um að settar verði á fót stofnanir skv. 51. gr. laga þessara. Það hefur einnig eftirlit og umsjón með stofnunum þar sem börn eru vistuð á vegum barnaverndarnefnda. Ráðuneytið hefur yfirumsjón með vistun barna og ungmenna utan foreldrahúsa. Það skal annast fræðslustarfsemi fyrir þá sem starfa að barnaverndarmálum, m.a. með útgáfustarfsemi og námskeiðum.

4. gr.

Meginþættir í starfi barnaverndarnefnda.
      Forvarnir. Barnaverndarnefndir skulu setja fram tillögur og ábendingar um atriði sem stuðla að því að búa börnum og ungmennum góð uppeldisskilyrði og benda á félagsleg atriði sem eru andstæð því uppeldismarkmiði.
      Eftirlit og leitarstarf. Barnaverndarnefndir skulu hafa eftirlit með aðbúnaði, hátterni og uppeldisskilyrðum barna og ungmenna í þeim tilgangi að greina sem fyrst vanda þeirra sem búa við ófullnægjandi aðstæður, sæta illri meðferð eða eiga í félagslegum erfiðleikum. Barnaverndarnefndir skulu einnig hafa sérstakt eftirlit með aðbúnaði barna sem dveljast á uppeldisstofnunum í umdæmi nefndarinnar, svo sem á dagvistum barna, sumardvalarheimilum og barnaheimilum hvers konar, að svo miklu leyti sem eftirlit er ekki falið öðrum samkvæmt lögum.
      Úrræði. Barnaverndarnefndir skulu beita þeim úrræðum samkvæmt lögum þessum sem best eiga við hverju sinni og heppilegust þykja til að tryggja hagsmuni og velferð barns eða ungmennis. Þær geta úrskurðað um töku barns af heimili og dvöl á fósturheimili eða uppeldisstofnun ef önnur úrræði þykja ekki henta til að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í lögum þessum.
      Önnur verkefni. Einnig hafa barnaverndarnefndir með höndum önnur þau verkefni sem þeim eru falin í öðrum lögum.

5. gr.

Sérstakar skyldur barnaverndaryfirvalda.
     Barnaverndarnefndarmenn, barnaverndarráðsmenn, fulltrúar þessara aðila og annað starfslið á vegum þeirra hljóta þá vernd sem opinberum starfsmönnum er tryggð og bera skyldur samkvæmt því. Ber þeim að sýna börnum og ungmennum, er þeir fjalla um mál þeirra, alla nærgætni og mega ekki skýra óviðkomandi mönnum frá því sem þeir verða vísir í starfa sínum um einkamál manna og heimilisháttu.

II. KAFLI
Um barnaverndarnefndir.

6. gr.

Kosning og kjörgengi í barnaverndarnefnd.
     Á vegum sveitarfélaga skulu starfa barnaverndarnefndir. Borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórnir í kaupstöðum kjósa barnaverndarnefndir, sbr. þó 2. mgr. Minni sveitarfélög skulu sameinast um kosningu barnaverndarnefndar. Heimilt er sveitarstjórn að fela héraðsnefnd eða stjórn byggðasamlags kosningu barnaverndarnefndar er nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag eða semja um svæðisbundið samstarf með öðrum hætti en að framan greinir.
     Heimilt er sveitarstjórn að fela félagsmálaráði (félagsmálanefnd) störf barnaverndarnefndar og í þeim tilvikum skal gæta þeirra sjónarmiða sem nefnd eru í 5. mgr. um kjör barnaverndarnefnda.
     Barnaverndarnefnd skal skipuð fimm mönnum og jafnmörgum varamönnum.
     Barnaverndarnefnd skal að jafnaði skipuð bæði konum og körlum. Nefndarmenn skulu vera kunnir að grandvarleik og bera gott skyn á mál þau sem barnaverndarnefnd fjallar um. Leitast skal við að kjósa lögfræðing í barnaverndarnefnd þar sem slíks er kostur og enn fremur fólk með sérþekkingu á málefnum barna.
     Um kjörgengi í barnaverndarnefnd fer eftir sömu reglum og um kjörgengi í sveitarstjórn, sbr. 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986. Kosning fer eftir 57. gr. sömu laga eftir því sem við á.

7. gr.

Starfslið barnaverndarnefnda.
     Barnaverndarnefnd skal að fenginni heimild hlutaðeigandi sveitarstjórna ráða sérhæft starfslið. Skal við það miðað að hægt sé að veita foreldrum, forráðamönnum barna og stofnunum, er annast uppeldi, viðhlítandi ráðgjöf, fræðslu og leiðbeiningar samkvæmt lögum þessum. Jafnframt skal miðað við að nægilegir möguleikar séu til félagslegra og sálfræðilegra rannsókna á börnum er með þurfa vegna könnunar og meðferðar barnaverndarmála.
     Heimilt er barnaverndarnefnd að semja við stofnanir, svo sem félagsmálastofnanir, fræðsluskrifstofur, svæðisstjórnir eða heilsugæslustöðvar, um sameiginlegt starfsmannahald og sérfræðiþjónustu, svo og leita til sérfræðinga í einstökum málum.
     Barnaverndarnefnd er heimilt að fela starfsmönnum sínum könnun og meðferð einstakra mála eða málaflokka og skal hún setja um það reglur sem héraðsnefnd eða sveitarstjórn staðfestir. Ákvörðun um þvingunaraðgerð getur barnaverndarnefnd þó ein tekið, sbr. þó 47. gr.

8. gr.

Valdsvið og samstarf barnaverndarnefnda.
     Barnaverndarnefnd, þar sem barn er dvalfast, á úrlausn um málefni þess, sbr. þó 3. mgr.
     Nú flyst barn úr umdæmi nefndar eftir að hún hefur tekið mál þess til meðferðar og skal þá barnaverndarnefnd á hinu nýja heimili barnsins taka við meðferð málsins. Ber fyrri barnaverndarnefndinni skylda til að tilkynna hinni síðari um flutninginn og fyrri afskipti sín af málefnum barnsins. Félagsmálaráðuneytið getur þó heimilað að nefnd sú, sem haft hefur málið til meðferðar, fari áfram með það ef það varðar aðgerðir á grundvelli 2. mgr. 22. gr., 24. gr. eða 25. gr. laganna. Skulu barnaverndarnefndir þá veita hver annarri upplýsingar til skýringar málum og liðsinni við framkvæmd barnaverndarráðstafana.
     Ef barnaverndarnefnd ráðstafar barni eða ungmenni til dvalar í annað umdæmi fer hún áfram með málið. Hún getur þó farið þess á leit að barnaverndarnefnd í dvalarumdæmi barns beri tilteknar skyldur. Barnaverndarnefndinni í dvalarumdæmi barnsins ber að tilkynna nefndinni sem ráðstafaði barninu ef aðstæður þess breytast þannig að ástæða þyki til sérstakrar íhlutunar.

III. KAFLI
Um barnaverndarráð.

9. gr.

Skipan barnaverndarráðs.
     Félagsmálaráðherra skipar þriggja manna barnaverndarráð til fjögurra ára í senn og þrjá menn til vara. Formaður ráðsins skal fullnægja skilyrðum til þess að vera skipaður héraðsdómari, sbr. 5. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, með síðari breytingum. Ráðsmenn skulu vera kunnir að grandvarleik og hafa sérþekkingu á málefnum barna og ungmenna. Ráðherra tilnefnir formann og varaformann barnaverndarráðs.
     Ráðherra ákveður laun barnaverndarráðsmanna og greiðast þau úr ríkissjóði ásamt öðrum kostnaði við ráðið.

10. gr.

Hlutverk barnaverndarráðs.
     Hlutverk barnaverndarráðs er að fara með úrskurðarvald í þeim málum sem skotið er til ráðsins samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 49. gr.
     Barnaverndarráð skal hafa sérhæfða starfsmenn í þjónustu sinni og enn fremur annað starfsfólk við hæfi. Barnaverndarráð getur einnig leitað álits sérfræðinga utan ráðsins þegar ástæða þykir til.

11. gr.

Fundir barnaverndarráðs.
     Barnaverndarráð er ályktunarfært ef allir ráðsmenn sitja fund og tveir þeirra fylgjast að máli. Varamaður tekur sæti ef ráðsmaður hefur boðað forföll eða er vanhæfur, sbr. 4. mgr. 49. gr., sbr. 42. gr.
     Barnaverndarráð heldur fundi eftir þörfum.
     Úrskurðir ráðsins skulu skráðir í fundagerðarbók. Í reglugerð, er félagsmálaráðherra setur, skulu sett ákvæði um starfsháttu barnaverndarráðs.

IV. KAFLI
Tilkynningarskylda og aðrar skyldur við barnaverndaryfirvöld.

12. gr.

Tilkynningarskylda almennings.
     Hverjum, sem verður þess vís að barni sé misboðið, uppeldi þess sé vanrækt eða aðbúnaði þess svo áfátt að barninu geti stafað hætta af, er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd þar sem barnið dvelst.
     Annars er hverjum manni rétt að gera barnaverndarnefnd viðvart um hvert það tilvik sem telja má að barnaverndarnefnd eigi að láta sig skipta.

13. gr.

Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum og ungmennum.
     Hverjum, sem stöðu sinnar vegna hefur afskipti af málefnum barna og ungmenna og verður í starfa sínum var við óviðunandi misfellur á uppeldi og aðbúð barna eða ungmenna, er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart.
     Sérstaklega er fóstrum, dagmæðrum, kennurum, prestum, læknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum og öðrum þeim, sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf, skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna og ungmenna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að málefnum barns sé þannig komið að barnaverndarnefnd ætti að hafa afskipti af þeim. Tilkynningarskylda gengur að þessu leyti framar ákvæðum laga um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

14. gr.

Tilkynningarskylda lögreglu og dómara.
     Skylt er löggæslumanni að gera barnaverndarnefnd viðvart þegar hann hefur til meðferðar mál barns eða ungmennis.
     Þegar brot eru framin annaðhvort af börnum eða ungmennum eða gegn þeim skal löggæslumaður eða dómari þegar í stað tilkynna það barnaverndarnefnd og veita henni þess kost að fylgjast með rannsókn máls. Sé barn innan 16 ára aldurs skal jafnframt gefa barnaverndarnefnd kost á að láta fulltrúa sinn eða starfsmann vera viðstaddan þegar barnið er yfirheyrt. Getur dómari og krafist þess ef honum þykir þörf.
     Barnaverndarnefnd er skylt að tilkynna foreldri barns ef mál, er varðar barnið, er til meðferðar hjá lögreglu eða dómstólum, sbr. 1. og 2. mgr., enda mæli hagsmunir barnsins ekki gegn því. Óski foreldri eftir því að vera viðstatt yfirheyrslu yfir barni sínu yngra en 16 ára skal það að jafnaði heimilt. Dómari úrskurðar um þetta atriði ef ágreiningur verður og sætir úrskurður hans ekki kæru.

15. gr.

Nafnleynd tilkynnanda.
     Ef sá sem tilkynnir barnaverndarnefnd óskar nafnleyndar gagnvart öðrum en nefndinni skal það virt nema sérstakar ástæður mæli því gegn.

16. gr.

Samstarf við barnaverndarnefndir.
     Öllum þeim, sem stöðu sinnar vegna hafa afskipti af málefnum barna og ungmenna, svo sem starfsfólk heilbrigðisþjónustu, skóla, dagvistarheimila barna og löggæslu, er skylt að stuðla að því að barnaverndarstarf komi að sem mestum notum og skulu hafa samvinnu við barnaverndaryfirvöld í því skyni.
     Barnaverndaryfirvöld skulu með sama hætti hafa samstarf við þá sem stöðu sinnar vegna hafa þekkingu á málefnum barna og ungmenna.
     Skylt er skólum og dagvistarheimilum að hafa náið samstarf við barnaverndarnefndir varðandi stuðning við börn og fjölskyldur þeirra sem standa höllum fæti félagslega.
     Stofnanir á sviði félags- og heilbrigðismála, svo sem áfengismeðferðarstofnanir og geðdeildir, skulu skipuleggja þjónustu sína við foreldra barna þannig að tillit verði tekið til hagsmuna barnanna.
     Skylt er lögreglu, dómstólum og fangelsismálayfirvöldum að hafa samvinnu við barnaverndarnefndir og veita þeim aðstoð við úrlausn barnaverndarmála.
     Félagsmálaráðherra setur reglugerð um samvinnu barnaverndaryfirvalda við aðrar stofnanir í samráði við þau ráðuneyti sem viðkomandi stofnanir heyra undir.

V. KAFLI
Skyldur barnaverndaryfirvalda gagnvart einstökum börnumog ungmennum og fjölskyldum þeirra.

17. gr.

Skyldur foreldra.
     Foreldrum ber að gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum barna, sbr. 29. gr. barnalaga. Skylt er barnaverndarnefnd að aðstoða foreldra við að gegna foreldraskyldum sínum, en grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt þessum kafla ef nauðsyn ber til. Að jafnaði skal þess gætt að almenn úrræði til stuðnings við fjölskyldu verði reynd áður en gripið er til þvingunarúrræða. Þó skal ávallt það ráð upp taka sem ætla má að barni eða ungmenni sé fyrir bestu.

18. gr.

Könnun máls.
     Nú fær barnaverndarnefnd rökstuddan grun um að
 1. líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin sökum vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra eða
 2. barn eða ungmenni stefni heilsu sinni eða þroska í hættu með hegðun sinni
  og er nefndinni þá skylt að kanna málið án tafar.

     Skal kosta kapps um að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barna eða ungmenna sem í hlut eiga, tengsl þeirra við foreldra eða aðra og aðbúð þeirra á heimili, skólagöngu þeirra og hegðun á heimili og utan þess, svo og um andlegt og líkamlegt ásigkomulag þeirra. Skal leita aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur.
     Um heimildir barnaverndarnefndar og starfsmanna hennar við könnun mála gilda að öðru leyti ákvæði 43. gr.
     Foreldrum eða þeim sem barnið dvelst hjá er skylt að veita liðsinni sitt til þess að könnun máls geti gengið greiðlega fyrir sig, enda skal barnaverndarnefnd sýna þeim er málið snertir alla nærgætni. Könnunin skal ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefur.

19. gr.

Áætlun um meðferð máls.
     Nú er í ljós leitt að aðbúnaði, umönnun eða uppeldi barns er áfátt vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra eða barn stefnir eigin heilsu eða þroska í hættu með hegðun sinni, t.d. afbrotum eða neyslu vímuefna, og skal barnaverndarnefnd þá láta gera skriflega áætlun um meðferð málsins.
     Í áætluninni skal tilgreint hvernig hagsmunir barnsins verði best tryggðir, m.a. hvaða aðstoð foreldrum verði veitt til að gera þeim kleift að fara með forsjá barnsins og einnig hvað foreldrum beri að gera fyrir sitt leyti til að mega fara áfram með forsjá þess.

20. gr.

Skráning barna í áhættuhópi.
     Barnaverndarnefnd skal halda sérstaka skrá um þau börn og ungmenni í umdæmi sínu sem hún telur að sé hætta búin skv. 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. í þeim tilgangi að tryggja yfirsýn og samfellda málsmeðferð í slíkum málum. Nú breytast aðstæður þannig að mati nefndar að barn telst ekki lengur í áhættuhópi og skal nafn þess þá ekki standa lengur á skránni. Foreldrum skal að jafnaði gerð grein fyrir að barn þeirra sé á skrá, sbr. 3. mgr. 43. gr., nema það komi í bága við hagsmuni barnsins að mati nefndarinnar. Ráðuneytið setur reglugerð um fyrirkomulag skráningar og meðferð upplýsinga í samræmi við lagaákvæði þetta og lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989.

21. gr.

Stuðningsúrræði.
     Nú leiðir könnun máls í ljós að þörf er aðgerða barnaverndarnefndar og skal hún þá í samvinnu við foreldra, og eftir atvikum barn eða ungmenni, veita aðstoð eftir því sem við á með því að
 1. leiðbeina foreldrum um uppeldi og aðbúnað barns,
 2. útvega barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu,
 3. útvega barni eða ungmenni dagvist, skólavist, atvinnu eða möguleika til hollrar tómstundaiðju,
 4. beita almennum úrræðum til úrbóta samkvæmt öðrum lögum, svo sem lögum um félagslega þjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðra,
 5. aðstoða foreldra við að leita sér meðferðar vegna veikinda, áfengis- eða vímuefnaneyslu eða annarra persónulegra vandamála,
 6. vista barn um skamman tíma utan heimilis á vistheimili eða fósturheimili,
 7. taka við forsjá barns með samþykki foreldra, sbr. 44. gr., útvega því varanlegt fósturheimili og hlutast til um að barninu verði skipaður lögráðamaður.

     Ráðuneytið skal setja reglugerð um úrræði skv. b-lið þessarar greinar.

22. gr.

Skylda barnaverndarnefndar við börnog ungmenni í hættu vegna eigin hegðunar.
     Nú stefnir barn eða ungmenni eigin heilsu eða þroska í hættu með hegðun sinni, svo sem með neyslu áfengis eða annarra vímuefna, afbrotum eða annarri jafnskaðlegri hegðun, og skal barnaverndarnefnd þá veita sérstaka aðstoð með viðtölum, ráðgjöf, vistun á unglingaheimili eða öðrum tiltækum stuðningsaðgerðum.
     Þegar svo stendur á sem í 1. mgr. segir er barnaverndarnefnd heimilt í samráði við foreldra að vista barn til skammtímameðferðar og rannsóknar í allt að fjórar vikur í senn á viðeigandi stofnun. Ef vistun er gegn vilja barns sem orðið er 12 ára skal það fá tækifæri til að tala máli sínu fyrir nefndinni með liðsinni sérstaks talsmanns ef því er að skipta, sbr. 2. og 3. mgr. 46. gr. Heimilt er að gefa barni undir 12 ára aldri kost á að tjá sig með sama hætti óski barnið þess.
     Nú telur barnaverndarnefnd ekki hjá því komist að vista ungmenni gegn vilja þess á stofnun vegna þess að það stefnir eigin heilsu eða þroska í alvarlega hættu með vímuefnaneyslu og getur nefndin þá leitað samþykkis dómsmálaráðuneytis fyrir vistun ungmennis á sjúkrahúsi eða deild Unglingaheimilis ríkisins fyrir vímuefnaneytendur í samræmi við ákvæði lögræðislaga, nr. 68/1984.

23. gr.

Skylda barnaverndarnefndar við barn eða ungmennisem verður fyrir áreitni, ofbeldi eða öðrum afbrotum.
     Nú hefur barn eða ungmenni orðið fyrir áreitni, ofbeldi eða öðrum afbrotum og skal þá barnaverndarnefnd aðstoða það með ráðgjöf eða meðferð eftir því sem við á. Barnaverndarnefnd er þá heimilt að fylgjast með rannsókn máls, sbr. 2. mgr. 14. gr. Svo og getur nefndin skipað barninu sérstakan talsmann ef því er að skipta, sbr. 3. mgr. 46. gr.
     Nú verður barnaverndarnefnd þess vís að ábótavant er framkomu manns sem starfa sinna vegna hefur samskipti við börn og skal hún þá láta málið til sín taka og koma með ábendingar til úrbóta.

24. gr.

Úrræði án samþykkis foreldra.
     Nú telur barnaverndarnefnd sýnt að heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra og getur barnaverndarnefnd þá með úrskurði
 1. kveðið á um eftirlit með heimili,
 2. gefið fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barnsins, svo sem dagvistun þess, skólasókn, læknisþjónustu, meðferð eða þjálfun,
 3. kveðið á um töku barns af heimili, kyrrsetningu þess á fóstur- eða vistheimili, læknisskoðun, innlögn á sjúkrahús eða aðra stofnun til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu,
 4. ákveðið að ekki megi fara með barnið úr landi.

     Ákvarðanir samkvæmt grein þessari skulu ávallt vera tímabundnar og eigi standa lengur en þörf krefur hverju sinni og skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti.

25. gr.

Forsjársvipting.
     Barnaverndarnefnd getur með úrskurði svipt foreldra, annað eða bæði, forsjá barns ef
 1. uppeldi, daglegri umönnun eða samskiptum foreldra við barnið er alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska,
 2. barn er sjúkt eða fatlað og foreldrar tryggja því ekki viðeigandi meðferð, þjálfun eða kennslu,
 3. barninu er misþyrmt, misboðið kynferðislega ellegar það má þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu,
 4. telja má fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, alvarlegrar geðveilu, mikils greindarskorts, eða hegðun foreldra er líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.

     Úrskurður um forsjársviptingu skal því aðeins kveðinn upp að ekki sé unnt að beita öðrum aðgerðum til úrbóta skv. 21. gr. og 24. gr. eða slíkar aðgerðir hafa verið fullreyndar án nægilegs árangurs. Úrskurð á grundvelli d-liðar fyrri málsgreinar, þegar um er að ræða nýfætt barn sem enn hefur ekki flust í umsjá foreldra, er einungis heimilt að kveða upp hafi viðeigandi aðgerðir skv. 21. gr. verið reyndar til þrautar án árangurs.

26. gr.

Skipan lögráðamanns.
     Hafi foreldrar verið sviptir forsjá barns hverfur forsjá þess til nefndarinnar að svo stöddu en jafnframt ber henni að hlutast til um að yfirlögráðandi skipi barninu lögráðamann, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögræðislaga, nr. 68/1984. Barnaverndarnefnd tekur forsjá barns í sínar hendur ef það verður forsjárlaust og hlutast á sama hátt til um að því verði skipaður lögráðamaður.

27. gr.

Börnum skal tryggð góð umsjá.
     Þegar barnaverndarnefnd ráðstafar barni í samræmi við ákvæði f- og g-liða 21. gr., 2. og 3. mgr. 22. gr., c-lið 1. mgr. 24. gr., 25. gr. og 26. gr. skal hún tafarlaust tryggja því góða umsjá. Skal barnaverndarnefnd gera skriflega áætlun svo sem um hvort og hvernig barnið fer að nýju til foreldra eða hvort því skuli komið í varanlegt fóstur.
     Leitast skal við að finna systkinum sameiginlegar lausnir í samræmi við þarfir þeirra.
     Nú verður barn 16 ára á heimili þar sem barnaverndarnefnd hefur komið því fyrir og er nefndinni þá skylt að aðstoða það áfram svo lengi sem þörf krefur.

28. gr.

Brottvikning heimilismanns.
     Ef barnaverndarnefnd þykir barni eða ungmenni háski búinn af háttsemi eða framferði heimamanns, svo sem vegna ofbeldis á heimili, ógnana eða hótana eða vegna vímuefnaneyslu eða annars athæfis er um getur í 63.–66. gr., en barninu eða ungmenninu gæti annars liðið vel á heimilinu, er nefndinni skylt, ef umvandanir eða aðrar ráðstafanir koma ekki að haldi, að leita um brottvikningu hans af heimilinu með beinni aðfarargerð, sbr. 12. kafla aðfararlaga. Er honum þá skylt að víkja manni brott af heimili um stundarsakir eða til frambúðar ef hann bætir ekki ráð sitt, sbr. 61. gr.

VI. KAFLI
Um ráðstöfun barna í fóstur.

29. gr.

Fóstur.
     Með fóstri er í lögum þessum átt við að barnaverndarnefnd feli sérstökum fósturforeldrum forsjá eða umsjá barns þegar
 1. kynforeldrar samþykkja það,
 2. barn er forsjárlaust,
 3. kynforeldrar hafa verið sviptir forsjá eða barn er í umsjá barnaverndarnefndar um tíma.

     Fóstur getur verið tvenns konar, varanlegt eða tímabundið. Með varanlegu fóstri er átt við að það haldist þar til forsjárskyldur falla niður samkvæmt lögum. Fara fósturforeldrar þá að jafnaði með forsjá barns skv. 29. gr. barnalaga, nema annað þyki betur henta þörfum barns og hagsmunum að mati barnaverndarnefndar. Að jafnaði skal ekki gerður samningur um varanlegt fóstur fyrr en að liðnum reynslutíma sem skal ekki vera lengri en eitt ár.

30. gr.

Fósturforeldrar.
     Barnaverndarnefnd ber að velja fósturforeldra af kostgæfni og með tilliti til aðstæðna þeirra, hæfni og reynslu sem heppilegra uppalenda. Enn fremur skal velja fósturforeldra sérstaklega út frá hagsmunum og þörfum viðkomandi barns.
     Barnaverndarnefnd ber að aðstoða og undirbúa fósturforeldra áður en fóstur hefst og enn fremur veita þeim stuðning og leiðbeiningar meðan fóstur varir eftir því sem nauðsyn ber til. Fulltrúi barnaverndarnefndar skal koma á fósturheimili eigi sjaldnar en einu sinni á ári hverju.

31. gr.

Fóstursamningur.
     Kveða skal á um fóstur í skriflegum samningi milli fósturforeldra og barnaverndarnefndar. Í fóstursamningi skal kveðið á um:
 1. hver fer með forsjá barns og að hvaða leyti, sbr. 29. gr.,
 2. áætlaðan fósturtíma, þ.e. tímabundið fóstur eða varanlegt,
 3. framfærslu barns og annan kostnað, svo sem fósturlaun, sbr. 32. gr.,
 4. umgengni barns við kynforeldra og aðra,
 5. stuðning barnaverndarnefndar við barn og fósturforeldra meðan fóstrið varir,
 6. annað sem máli kann að skipta.

     Félagsmálaráðuneytið skal útbúa sérstök eyðublöð fyrir fóstursamninga.

32. gr.

Framfærsla og annar kostnaður vegna barns í fóstri.
     Hafi barnaverndarnefnd ráðstafað barni eða ungmenni í fóstur eða á annan hátt samkvæmt lögum þessum skal Tryggingastofnun ríkisins greiða með því umsaminn lífeyri, en framfærslusveit barns endurgreiðir Tryggingastofnuninni. Að öðru leyti greiðist kostnaður vegna barnsins úr sveitarsjóði.
     Allan kostnað, sem barnaverndarnefnd kann að hafa af hvers konar ráðstöfun barna og ungmenna úr öðrum umdæmum, skulu sveitarsjóðir þeirra umdæma endurgreiða ef ekki er öðruvísi ákveðið í lögum.
     Barnaverndarnefnd skal tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um fóstursamning samkvæmt nánari reglum er Tryggingastofnun setur.

33. gr.

Umgengni barns í fóstri við kynforeldra.
     Barn, sem er í fóstri, með eða án samþykkis kynforeldra, á rétt á umgengni við þá og aðra sem eru barninu nákomnir. Kynforeldrum er rétt og skylt að rækja umgengni og samneyti við barn og hlíta nánari skilmálum er að því lúta samkvæmt ákvörðun barnaverndarnefndar.
     Kveða skal á um umgengni í fóstursamningi, sbr. d-lið 31. gr.
     Ef sérstök atvik valda því að mati barnaverndarnefndar að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum getur nefndin úrskurðað að umgengnisréttar njóti ekki við eða breytt fyrri ákvörðun um umgengnisrétt með úrskurði. Jafnframt getur nefndin í þeim tilvikum lagt bann við hvers konar samskiptum foreldra og barns.
     Barnaverndarnefnd getur kveðið upp úrskurð um að halda dvalarstað barns leyndum ef hagsmunir barnsins krefjast þess.
     Barnaverndarnefnd á úrlausnarvald um umgengni barna í fóstri við kynforeldra sína.

34. gr.

Réttur barns í fóstri til þess að vita málsatvik.
     Eftir atvikum skal barnaverndarnefnd gera barni ljóst hvers vegna því var komið í fóstur að svo miklu leyti sem heppilegt er vegna aldurs þess og þroska. Með sama hætti skal gera barni grein fyrir þeim áformum sem barnaverndarnefnd hefur og varða barnið.

35. gr.

Nefnd er heimilt að úrskurða að barn sé kyrrt í fóstri.
     Nú óska foreldrar, sem samþykkt hafa fóstur, eftir því að fóstursamningi verði rift og skal barnaverndarnefnd þá taka málið til meðferðar. Við úrlausn máls skal fyrst og fremst taka mið af velferð barnsins. Barnaverndarnefnd er þá jafnan heimilt að úrskurða að barn, sem er í fóstri, skuli vera kyrrt hjá fósturforeldrum ef þar fer vel um það og hagsmunir barns mæla með því.

36. gr.

Samþykki barnaverndarnefndar.
     Enginn má taka barn í fóstur nema með samþykki barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi hans og ekki má ráðstafa barni í fóstur nema til aðila sem fengið hefur meðmæli barnaverndarnefndar.

37. gr.

Vanræksla fósturforeldra.
     Nú kemst barnaverndarnefnd að raun um að þeir sem hafa barn í fóstri vanrækja uppeldishlutverk sitt og skal hún þá gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til verndar barni eða ungmenni. Getur nefndin lagt bann við því að fósturforeldrar þessir taki börn framvegis í fóstur.

38. gr.

Endurskoðun fóstursamnings.
     Ef aðstæður fósturforeldra breytast, svo sem vegna skilnaðar, andláts eða búferlaflutninga, ber að tilkynna barnaverndarnefnd um það og skal þá endurskoða fóstursamning ef ástæða þykir til. Fósturforeldrar geta og óskað endurskoðunar á fóstursamningi.

39. gr.

Skráning og framkvæmd.
     Félagsmálaráðuneytið heldur skrá um börn í varanlegu fóstri.
     Félagsmálaráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd laganna varðandi fóstur.

VII. KAFLI

40. gr.

Foreldrar vista sjálfir börn sín utan heimilis.
     Foreldrar geta falið öðrum daglega umönnun og uppeldi barna sinna, enda brjóti það ekki í bága við hagsmuni barnsins. Foreldrum ber þó að tilkynna barnaverndarnefnd þegar barni er komið fyrir hjá öðrum og dvöl er ætlað að standa lengur en sex mánuði. Dveljist barn hjá vandamönnum þarf þó ekki að tilkynna um ráðstöfun nema henni sé ætlað að vara til frambúðar. Skilyrðislaust þarf að tilkynna nefndinni ef dvöl barns hefur varað í þann tíma sem áður greinir.
     Tilkynningarskylda skv. 1. mgr. gildir ekki þegar vistun er nauðsynleg vegna skólagöngu barnsins, þegar barn er vistað í opinberri stofnun vegna heilsu sinnar eða þroska eða þegar barn er orðið 15 ára.
     Þegar barnaverndarnefnd fær tilkynningu eins og segir í 1. mgr. eða fær upplýsingar á annan hátt um vistun sem tilkynningarskyldan gildir um skal hún kanna hvort þörf er fyrir stuðning við foreldra sem gæti gert þeim kleift að hafa barnið hjá sér. Ef svo er ekki skal nefndin kanna hvort hag og þörfum barns sé fullnægt á væntanlegum dvalarstað þess. Könnun má fella niður ef fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir um dvalarheimilið.
     Hafi barn verið í umsjá annarra, sbr. 1. mgr., í þrjá mánuði eða lengur samkvæmt þessari grein getur barnaverndarnefnd bannað flutning þess að svo stöddu. Barnaverndarnefnd verður þó, innan þriggja mánaða, að kveða upp úrskurð um dvalarstað barnsins. Barnaverndarnefnd er þá heimilt að úrskurða að ráðstöfun skuli haldast ef vel fer um barnið og flutningur stríðir gegn hag þess og þörfum.

VIII. KAFLI
Málsmeðferð.

41. gr.

Ályktunarhæfi.
     Barnaverndarnefnd er ályktunarfær þegar fullur helmingur nefndarmanna situr fund enda sé formaður eða varaformaður á fundi. Nú hamlar nauðsyn barnaverndarnefndarmanni fundarsókn og skal hann þá gera formanni viðvart með fyrirvara ef unnt er. Boðar formaður þá varamann í hans stað.

42. gr.

Um vanhæfi nefndarmanna.
     Um vanhæfi nefndarmanna til meðferðar einstakra mála gilda lagareglur um vanhæfi héraðsdómara til að fara með einkamál eftir því sem við getur átt. Sama á við um starfsfólk barnaverndarnefnda.

43. gr.

Rannsóknarskylda og heimildir.
     Áður en barnaverndarnefnd ræður máli til lykta skal afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns eða ungmennis, sbr. 2.–4. mgr. 18. gr.
     Við rannsókn á högum barns eða ungmennis er barnaverndarnefnd, starfsmönnum hennar eða öðrum, sem hún kann að fela það sérstaklega, heimilt að taka skýrslur af foreldrum eða forráðamönnum barns eða ungmennis og kveðja fyrir sig til yfirheyrslu hvern þann í umdæmi hennar er um kann að bera. Um rétt þeirra til að skorast undan að gefa skýrslu gilda ákvæði laga um meðferð einkamála. Svo getur hún og krafist vitnaleiðslu fyrir dómi til skýringar á máli. Heimilt er að ræða við barn í einrúmi.
     Að jafnaði skal foreldri eða forráðamanni barns eða ungmennis greint frá því að haldið sé uppi fyrirspurnum um hagi þess samkvæmt grein þessari.
     Barnaverndarnefnd eða starfsmönnum hennar er því aðeins heimilt að fara á einkaheimili, barnaheimili eða annan þann stað þar sem börn dveljast til rannsóknar á högum barns eða ungmennis að fyrir liggi samþykki foreldris eða forráðamanns þess eða á grundvelli dómsúrskurðar, sbr. þó niðurlag 47. gr. Dómari metur á grundvelli 18. gr. hvenær þörf er á að fara á heimili.

44. gr.

Samþykki foreldra.
     Samþykki foreldris skv. f- og g-liðum 21. gr. og a-lið 29. gr. skal vera skriflegt og undirritað í viðurvist tveggja manna er votta að foreldri hafi verið gerð full grein fyrir eðli og réttaráhrifum ráðstöfunarinnar.

45. gr.

Úrskurðir barnaverndarnefnda.
     Málum, er varða ráðstafanir gagnvart börnum, ungmennum eða forráðamönnum þeirra skv. 24. gr., 25. gr., 3.–5. mgr. 33. gr., 35. gr., 4. mgr. 40. gr. og 4. mgr. 46. gr., skal ráðið til lykta með úrskurði. Ef lögfræðingur á ekki sæti í nefndinni skal sýslumaður eða löglærður fulltrúi hans taka sæti í henni með fullum réttindum og skyldum.
     Fjórir nefndarmenn hið fæsta af fimm eða sex skulu standa að úrskurði. Úrskurður skal vera skriflegur og rökstuddur. Þar skal rekja málavexti og greina forsendur og niðurstöður. Úrskurð skal tilkynna með ábyrgðarbréfi eða á annan jafntryggilegan hátt og skal vekja athygli aðila á að heimilt sé að skjóta máli til barnaverndarráðs, sbr. 49. gr.

46. gr.

Meðferð úrskurðarmála.
     Áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð skv. 45. gr. ber að leiðbeina foreldrum eða öðrum forráðamönnum barns eða ungmennis um réttarstöðu þeirra samkvæmt lögum þessum. Jafnframt skal veita þeim kost á að tjá sig um málið fyrir barnaverndarnefnd, munnlega eða skriflega, þar á meðal með liðsinni lögmanna. Eftir atvikum skal barnaverndarnefnd veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð.
     Að jafnaði ber að veita barni kost á að tjá sig um mál og er það skylt ef mál varðar barn 12 ára eða eldra.
     Þegar sérstaklega stendur á er barnaverndarnefnd heimilt að skipa barni eða ungmenni sérstakan talsmann.
     Barnaverndarnefnd skal með nægilegum fyrirvara láta aðilum í té öll skrifleg gögn sem byggt er á við úrlausn málsins. Nefndin getur ákveðið með rökstuddum úrskurði að tiltekin gögn skuli ekki afhent ef það skaðar hagsmuni barnsins eða heitið hefur verið trúnaði. Á sama hátt getur nefndin ákveðið að aðilar geti kynnt sér gögn án þess að þau verði afhent.

47. gr.

Neyðarráðstafanir.
     Ef vinda þarf bráðan bug að ráðstöfun sem ber undir barnaverndarnefnd getur formaður hennar eða starfsmaður í umboði hans framkvæmt hana, en leggja skal hann málið fyrir barnaverndarnefnd til staðfestingar án tafar og eigi síðar en innan viku. Ef ráðstöfun felur í sér aðgerðir á grundvelli c- og d-liða fyrri málsgreinar 24. gr. skal hún staðfest með fullnaðarúrskurði barnaverndarnefndar innan tveggja mánaða. Við þessar aðstæður er heimilt að fara inn á heimili þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 43. gr. enda sé ástæða til að ætla að barn sé í bráðri hættu.

48. gr.

Valdbeiting.
     Ef beita verður valdi til að hrinda ákvörðun barnaverndarnefndar eða barnaverndarráðs í framkvæmd samkvæmt lögum þessum heyrir slík valdbeiting undir sýslumann ef brýna nauðsyn ber til. Fulltrúi barnaverndarnefndar eða barnaverndarráðs skal þó ávallt vera viðstaddur ef til slíkra ráðstafana þarf að grípa til að gæta hagsmuna barnsins.

49. gr.

Málskot.
     Foreldrar, forráðamenn barns eða aðrir þeir, sem eru barninu nákomnir, geta skotið úrskurði barnaverndarnefndar til fullnaðarúrskurðar til barnaverndarráðs innan fjögurra vikna frá því að viðkomanda var kunnugt um úrskurð barnaverndarnefndar. Er barnaverndarráði skylt að taka málið til skjótrar meðferðar og úrlausnar.
     Málskot til barnaverndarráðs frestar ekki framkvæmd ákvörðunar barnaverndarnefndar. Þegar sérstaklega stendur á getur barnaverndarráð þó ákveðið að framkvæmd samkvæmt ályktun barnaverndarnefndar skuli frestað uns ráðið hefur fellt úrskurð sinn. Að jafnaði skal barnaverndarráð kveða upp fullnaðarúrskurð innan sex mánaða frá því að málinu var skotið til ráðsins.
     Barnaverndarráð getur metið að nýju bæði lagahlið málsins og sönnunargögn þess. Það getur ýmist staðfest úrskurðinn að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu, þar á meðal mælt fyrir um aðrar ráðstafanir en barnaverndarnefnd hefur ákveðið. Þá getur ráðið einnig vísað málinu til nefndarinnar til meðferðar að nýju, svo og aflað gagna sjálft eða fyrir atbeina barnaverndarnefnda eða með öðrum hætti ef því er að skipta.
     Að öðru leyti gilda ákvæði 42.–43. gr. og 45.–46. gr. um málsmeðferð fyrir barnaverndarráði. Barnaverndarráð getur að auki mælt fyrir um formlegan málflutning fyrir ráðinu.

50. gr.

Endurupptaka mála.
     Nú breytast aðstæður foreldra verulega frá því að samþykki var veitt eða úrskurður var kveðinn upp þannig að ætla megi að foreldrar séu nú hæfir til þess að fara með forsjá barns og geta þeir þá farið fram á að barnaverndarnefnd taki mál þeirra upp á ný. Barnaverndarnefnd metur hvort mál skuli endurupptekið og afgreiðir beiðnina með bókun. Við úrlausn málsins skal velferð barns ávallt ganga fyrir.

IX. KAFLI
Um stofnanir.

51. gr.

Heimili fyrir börn og ungmenni.
     Heimili, sem undir kafla þennan falla, eru: hvers konar vistheimili eða meðferðarheimili fyrir börn eða unglinga, hjálparstöðvar eða neyðarathvarf fyrir unglinga, sumardvalarheimili, sumarbúðir eða önnur heimili sem taka börn og ungmenni til uppeldis, umönnunar eða aðhlynningar, um langan tíma eða skamman, enda falli þau ekki undir önnur lög.
     Félagsmálaráðuneytið skal hlutast til um að settar verði á fót stofnanir eða heimili sem nauðsynleg eru til að barnaverndarnefndum sé unnt að rækja störf sín samkvæmt lögum þessum.
     Félagsmálaráðuneytinu er skylt að reka unglingaheimili, svo og meðferðarheimili fyrir börn sem eiga við hegðunarerfiðleika að stríða. Ráðherra skipar slíkum heimilum þriggja manna stjórnarnefnd til fjögurra ára í senn og setur í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi þeirra. Kostnaður slíkra heimila greiðist úr ríkissjóði.
     Barnaverndarnefndir, ein eða fleiri saman, skulu hafa tiltæk úrræði með rekstri vistheimila eða á annan hátt til að veita börnum viðtöku vegna aðstæðna á heimili þeirra, svo sem vegna forfalla foreldra, vanrækslu eða illrar meðferðar á barni eða til könnunar á aðstæðum þeirra, sbr. 18. gr.
     Heimilt er félagasamtökum eða öðrum aðilum að setja á stofn heimili eða stofnanir til stuðnings börnum og ungmennum að fengnu leyfi félagsmálaráðherra.

52. gr.

Leyfi til að reka heimili.
     Óheimilt er að setja á stofn eða reka heimili skv. 51. gr. nema leyfi félagsmálaráðherra komi til. Leita skal umsagnar barnaverndarnefndar þar sem heimilið er ef nefnd sú á ekki hlut að rekstrinum.
     Félagsmálaráðuneytið skal semja og gefa út nánari reglur og leiðbeiningar um stjórn, starfsfólk, m.a. hæfisskilyrði og menntun, og alla aðbúð á þeim heimilum sem um getur í 51. gr.

53. gr.

Eftirlit með heimilum.
     Barnaverndarnefnd hefur í umdæmi sínu eftirlit með heimilum sem rekin eru samkvæmt ákvæðum þessa kafla nema eftirlit sé falið öðrum samkvæmt lögum. Barnaverndarnefnd skal fylgjast með högum og aðbúnaði barna á slíkum heimilum og gæta þess vandlega að ekki séu rekin í umdæmi hennar önnur heimili fyrir börn en þau sem hlotið hafa leyfi samkvæmt lögum þessum.
     Líkamlegum eða andlegum refsingum má ekki beita á heimilum eða stofnunum fyrir börn og ungmenni.
     Ef meðferð barns á barnaheimili eða uppeldisstofnun er óhæfileg eða rekstri slíks heimilis eða stofnunar á annan hátt ábótavant skal barnaverndarnefnd leitast við með leiðbeiningum og áminningum að bæta úr því sem áfátt er. En komi það ekki að haldi skal hún leggja málið fyrir félagsmálaráðuneytið. Ef ráðuneytið fær eigi úr bætt getur það svipt heimili eða stofnun rétti til áframhaldandi rekstrar.

X. KAFLI
Almenn verndarákvæði.

54. gr.

Eftirlit með vinnu barna og ungmenna.
     Barnaverndarnefnd skal hafa eftirlit með því að barni eða ungmenni sé ekki ofþjakað við þunga eða óholla vinnu, með löngum vinnutíma, vökum eða óreglulegum vinnuháttum. Að öðru leyti fer um eftirlit með vinnu barna og ungmenna eftir lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980.

55. gr.

Varnir gegn vímuefnaneyslu.
     Barnaverndarnefnd skal vinna gegn hvers konar vímuefnaneyslu barna og ungmenna í umdæmi sínu. Nefndin skal einnig stuðla að því að þeir sem selja, útvega eða veita börnum eða ungmennum vímuefni sæti ábyrgð lögum samkvæmt.

56. gr.

Eftirlit með sýningum og skemmtunum.
     Barnaverndarnefnd skal eftir því sem hún telur ástæðu til hafa eftirlit með leiksýningum og hvers konar opinberum sýningum eða skemmtunum öðrum en kvikmyndasýningum. Þeim er veitir forstöðu skemmtun eða sýningu sem ætla má að börn muni sækja er skylt að kveðja til barnaverndarnefnd eða fulltrúa hennar og gefa nefndinni kost á að kynna sér efni sýningar á undan almenningi. Ef barnaverndarnefnd telur að skemmtun sé með einhverjum hætti skaðsamleg börnum getur hún bannað að börn innan ákveðins aldurs fái aðgang að henni. Forstöðumenn skemmtunar skulu geta banns um hana á sinn kostnað í auglýsingum og bera ábyrgð á að bann sé haldið.

57. gr.

Útivistartími barna.
     Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu að sama skapi ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir. Sveitarstjórnir geta þó breytt þessum aldursmörkum og tímasetningum með sérstakri samþykkt.

58. gr.

Aðgangur barna og ungmenna að dansleikjum og öðrum skemmtunum.
     Börnum, yngri en 16 ára, er óheimill aðgangur og dvöl á dansleikjum öðrum en sérstökum unglinga- eða fjölskylduskemmtunum sem haldnar eru af skólum, æskulýðsfélögum eða öðrum þeim sem til þess hafa leyfi. Forstöðumönnum dansleikja er skylt að fylgjast með að ákvæði þetta sé haldið að viðlagðri afturköllun almenns skemmtanaleyfis um lengri eða skemmri tíma.
     Börnum eða ungmennum, innan 18 ára aldurs, er óheimill aðgangur og dvöl á stöðum sem hafa leyfi til áfengisveitinga, sbr. og 20. gr. áfengislaga, nr. 82/1969, nema í fylgd með foreldri, öðrum forsjáraðila eða maka. Þeim sem leyfi hefur til áfengisveitinga er skylt að sjá til þess að ákvæði þetta sé haldið að viðlagðri leyfissviptingu.
     Ungmenni, innan 18 ára aldurs, mega ekki starfa á stöðum sem hafa leyfi til áfengisveitinga nema það sé liður í viðurkenndu iðnnámi.
     Þegar börnum eða ungmennum er bannaður aðgangur að skemmtunum, öðrum en á stöðum sem leyfi hafa til áfengisveitinga, skal miða aldursmörk við fæðingarár en ekki fæðingardag.

XI. KAFLI
Refsiákvæði.

59. gr.

     Það varðar sektum eða varðhaldi að koma vísvitandi röngum eða villandi upplýsingum á framfæri við barnaverndarnefnd um atriði sem lög þessi taka til.

60. gr.

     Nú lætur maður hjá líða að tilkynna barnaverndarnefnd um svo illa meðferð eða slæman aðbúnað barns eða ungmennis að lífi þess eða heilsu sé hætta búin þá varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.

61. gr.

     Ef maður hefur samband, heimsækir eða ónáðar barn eða ungmenni gegn banni barnaverndarnefndar eða brýtur gegn úrskurði fógeta eða sýslumanns um að víkja af heimili, sbr. 28. gr., varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.

62. gr.

     Hver, sem nemur á brott barn eða ungmenni sem barnaverndarnefnd hefur ráðstafað samkvæmt lögum þessum eða kemur því til leiðar að brotið er gegn slíkri ráðstöfun, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.

63. gr.

     Ef þeir sem hafa barn eða ungmenni í sinni umsjá
 1. misþyrma því andlega eða líkamlega,
 2. misbjóða því kynferðislega eða á annan hátt,
 3. vanrækja það andlega eða líkamlega þannig að lífi eða heilsu þess er hætta búin,

     þá varðar það varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

64. gr.

     Hver, sem beitir barn eða ungmenni refsingum, hótunum eða ógnunum og ætla má að slíkt skaði barnið andlega eða líkamlega, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að þremur árum.

65. gr.

     Ef maður hvetur barn eða ungmenni til lögbrota, lauslætis, áfengis- eða fíkniefnaneyslu eða leiðir það með öðrum hætti á siðferðilega glapstigu þá varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að fjórum árum.

66. gr.

     Hver, sem sýnir barni eða ungmenni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.

67. gr.

     Um rannsókn og meðferð brota, sem refsing er lögð við í lögum þessum, fer að hætti opinberra mála.

Niðurlagsákvæði.

68. gr.

     Lög þessi taka gildi 1. janúar 1993. Falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 20. maí 1992.