Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 466, 120. löggjafarþing 119. mál: vatnsveitur sveitarfélaga (heimæðar, vatnsgjald).
Lög nr. 149 28. desember 1995.

Lög um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991.


1. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Sveitarfélag er eigandi vatnsveitu þess og sér um lagningu allra vatnsæða hennar, þ.e. aðalæða, dreifiæða og heimæða. Sveitarfélag annast og kostar viðhald vatnsæðanna.
     Heimæðar, sem lagðar hafa verið fyrir 1. janúar 1992 og liggja yfir einkalóðir, verða eign vatnsveitu sveitarfélags í framhaldi af endurnýjun vatnsveitunnar á þeim. Eignarhald á öðrum heimæðum skal vera óbreytt nema um annað náist samkomulag milli sveitarstjórnar og eiganda heimæðarinnar. Eigandi heimæðar kostar viðhald hennar.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Eigandi eða rétthafi lóðar við veg eða opið svæði, þar sem dreifiæð liggur, á rétt á að fá eina heimæð lagða frá vatnsveitulögn. Óski hann þess að fá fleiri en eina heimæð inn á lóðina af hagkvæmnisástæðum skal hann hlíta þeim reglum um tæknileg atriði sem sveitarstjórn setur og skal sú heimæð teljast hans einkaeign, nema sérstakt samkomulag hafi verið gert við sveitarstjórn um annað. Beiðni um lagningu heimæðar skal send til sveitarstjórnar. Eiganda ber að greiða gjald fyrir lagningu heimæðar. Sveitarstjórn ákveður fjárhæð heimæðargjalds. Gjaldið skal miðað við gerð, stærð og lengd heimæða og má það nema allt að meðalkostnaði við lagningu heimæða í sveitarfélaginu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Gjalddagi þess skal ákveðinn í gjaldskrá, sbr. 11. gr., en heimæðargjald getur þó fyrst fallið í gjalddaga við útgáfu byggingarleyfis eða úthlutun lóðar sem er í eigu sveitarfélags.
  3. Við bætist ný málsgrein er verður 5. mgr. og orðast svo:
  4.      Vatnsinntak skal að jafnaði vera á þeirri hlið húss sem snýr að vatnslögn þeirri sem leggja á heimæð frá, nema sveitarstjórn samþykki annars konar fyrirkomulag. Sveitarstjórn er heimilt að gera kröfu um gerð, staðsetningu og frágang inntaksrýmis.

3. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Sveitarstjórn er heimilt að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatnsins geta notið og skal við það miðað að gjaldið ásamt öðrum tekjum standi straum af stofnkostnaði ogrekstri vatnsveitu. Álagningarstofn vatnsgjalds skal vera afskrifað endurstofnverð húss og mannvirkis margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins, sbr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Stofn til álagningar vatnsgjalds á aðrar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra.
     Nú liggur matsverð fullfrágenginnar fasteignar eigi fyrir við álagningu vatnsgjalds, en fasteign getur notið vatns frá vatnsveitu sveitarfélagsins, sbr. 1. mgr., og er þá sveitarstjórn heimilt að ákveða upphæð vatnsgjaldsins með hliðsjón af því hver verður líklegur álagningarstofn fullfrágenginnar eignar og ber þá að taka mið af fasteignamati sambærilegra fasteigna í sveitarfélaginu.
     Verði ágreiningur um gjaldstofn skv. 2. mgr. skal vísa honum til úrskurðar Fasteignamats ríkisins. Þeim úrskurði má skjóta til yfirfasteignamatsnefndar ríkisins. Úrskurðum nefndarinnar má skjóta til dómstóla.
     Sveitarstjórn ákveður upphæð vatnsgjalds sem má nema allt að 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni. Sveitarstjórn er heimilt að ákveða hámark og lágmark vatnsgjalds miðað við rúmmál húseigna. Sveitarstjórn er enn fremur heimilt að miða vatnsgjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar og/eða notkunar samkvæmt mæli. Álagning skv. 2. og 3. málsl. verði þó aldrei hærri en segir í 1. málsl. þessarar málsgreinar. Gjalddagar vatnsgjalds skulu vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu vatnsgjalds hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts, sbr. 4. gr. laga nr. 4/1995.

4. gr.

     2. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1995.