Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 415, 120. löggjafarþing 221. mál: varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum (yfirstjórn, rýmingarsvæði, ofanflóðasjóður o.fl.).
Lög nr. 151 28. desember 1995.

Lög um breytingar á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985, sbr. lög nr. 50/1995.


1. gr.

     Í stað orðanna „skipulagningu nýrra svæða“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: alla skipulagsgerð.

2. gr.

     3. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Veðurstofa Íslands skal annast gerð hættumats skv. 2. gr. á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum snjóflóða.
     Reglur um notkun á hættumati, flokkun hættusvæða og nýtingu þeirra, svo og gerð varnarvirkja, skulu settar af umhverfisráðherra, að höfðu samráði við Veðurstofuna.
     Almannavarnir ríkisins skulu annast gerð neyðaráætlana og sjá um leiðbeiningar og almenningsfræðslu um hættu af ofanflóðum í samvinnu við Veðurstofuna.

3. gr.

     4. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Þegar Veðurstofa Íslands, að höfðu samráði við lögreglustjóra og almannavarnanefnd, gefur út viðvörun um staðbundna snjóflóðahættu og lýsir yfir hættuástandi skal fólk flutt á brott úr öllu húsnæði á svæðum, sem tilgreind skulu í viðvörun Veðurstofunnar, í samræmi við gildandi neyðaráætlun. Svæði þessi skulu afmörkuð á sérstökum uppdráttum sem Veðurstofan skal sjá um að gera á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum snjóflóða. Skulu uppdrættirnir staðfestir af umhverfisráðherra og kynntir Almannavörnum ríkisins og almannavarnanefndum á hlutaðeigandi stöðum.
     Lögreglustjóri og almannavarnanefnd sjá um að rýma húsnæði skv. 1. mgr. og má beita valdi í því skyni ef þörf krefur. Á meðan hættuástand varir er öll umferð bönnuð um það svæði, sem rýmt hefur verið, nema með sérstöku leyfi lögreglustjóra.
     Veðurstofan tekur ákvörðun um það hvenær hættuástandi skuli aflétt, að höfðu samráði við lögreglustjóra og almannavarnanefndir.

4. gr.

     6. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Veðurstofa Íslands skal ráða starfsmenn til að kanna og fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af snjóflóðum og/eða skriðuföllum í þeim umdæmum þar sem þörf er á slíkum athugunum. Veðurstofan skal hafa samráð við hlutaðeigandi lögreglustjóra við ráðningu þessara starfsmanna.

5. gr.

     7. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Sveitarstjórn lætur, að fengnu samþykki nefndar skv. 8. gr., gera tillögu að varnarvirkjum fyrir hættusvæði sem byggð eru eða byggð verða samkvæmt aðalskipulagi.
     Sé hagkvæmara talið, til að tryggja öryggi íbúa gagnvart ofanflóðum, er sveitarstjórn heimilt að gera tillögu um að kaupa eða flytja húseignir í stað annarra varnaraðgerða sem ofanflóðasjóður fjármagnar að hluta eða öllu leyti samkvæmt þessum lögum.
     Greiðsla úr sjóðnum miðast við staðgreiðslumarkaðsverð sambærilegra húseigna í sveitarfélaginu utan hættusvæða. Við ákvörðun þess skal ekki tekið tillit til hækkunar á markaðsverði sem rekja má til ákvörðunar um kaup á húseignum á hættusvæði.
     Heimilt er að miða greiðslu úr sjóðnum við framreiknað kaupverð húseignar, sem keypt hefur verið á síðustu árum, ásamt mati á kostnaði núverandi eiganda af endurbótum hennar, ef fyrir liggur að staðsetning húseignar á hættusvæði eða í námunda við það hefur haft áhrif til lækkunar markaðsverðs.
     Eigi húseigandi ekki kost á sambærilegri húseign í sveitarfélaginu til kaups og byggi hann nýja húseign í sveitarfélaginu til íbúðar fyrir sig og fjölskyldu sína er heimilt að miða greiðslu úr sjóðnum við brunabótamat vátryggingafélags sem í gildi var á þeim tíma þegar ofanflóð féll. Sé ákveðið að inna greiðslu af hendi vegna yfirvofandi hættu, án þess að flóð hafi fallið, er við sömu aðstæður heimilt að miða hana við brunabótamat vátryggingafélags sem í gildi var við síðustu áramót. Sé brunabótamat hærra en endurstofnverð húseignar, að frádregnum afskriftum vegna aldurs og byggingarefnis eignarinnar, skal greiðsla miðast við endurstofnverð sem þannig er reiknað.
     Sjóðurinn greiðir ekki fyrir kaup á húseign, sem unnt er að flytja, nema heildarkostnaður við flutning sé hærri en kaupverð skv. 5. mgr.
     Hlutaðeigandi sveitarsjóður verður eigandi húseigna sem keyptar eru samkvæmt þessari grein.
     Náist ekki samkomulag um kaup á húseign er sveitarstjórn heimilt að taka eignina eignarnámi.
     Ekki má hefja byggingar á óbyggðum hættusvæðum né þétta þá byggð, sem fyrir er á hættusvæðum, fyrr en tilskildum varnarvirkjum hefur verið komið upp.

6. gr.

     8. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Tillaga sveitarstjórnar skv. 7. gr. ásamt framkvæmda- og kostnaðaráætlun skal lögð fyrir þriggja manna nefnd, skipaða fulltrúum umhverfisráðherra, félagsmálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fallist nefndin á tillöguna öðlast sú ákvörðun gildi að fenginni staðfestingu umhverfisráðherra.
     Ráðherra getur sett nánari reglur um störf nefndar skv. 1. mgr.

7. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: umhverfisráðherra.
  2. Við 2. tölul. 1. mgr. bætist: skv. 3. gr. og uppdrátta skv. 4. gr.
  3. Í stað orðanna „má allt að 100% af kostnaði“ í fyrri málslið 3. tölul. 1. mgr. kemur: skal allan kostnað.
  4. Í stað orðanna „hönnun og auka nýtingu“ í síðari málslið 3. tölul. 1. mgr. kemur: hættumat og hönnun.
  5. 1. málsl. 2. mgr. hljóðar svo: Umhverfisráðherra ákveður úthlutun úr ofanflóðasjóði að fengnum tillögum Veðurstofu Íslands, þegar um er að ræða úthlutun skv. 1.–3. tölul., en að fengnum tillögum nefndar skv. 8. gr., þegar um er að ræða úthlutun skv. 4.–5. tölul.


8. gr.

     Í stað orðanna „ofanflóðanefndar, sbr. 4. gr.“ í 13. gr. laganna kemur: nefndar skv. 8. gr.

9. gr.

     Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 14. gr. laganna kemur: Umhverfisráðherra.

10. gr.

     Á eftir 14. gr. laganna bætist við ný grein er hljóðar svo:
     Endurskoða skal lög þessi á árinu 1996 og skal stefnt að því að frumvarp til nýrra laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en í desembermánuði 1996.

11. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða I er hljóðar svo:
     Starfsmenn þeir, sem ráðnir hafa verið af lögreglustjórum skv. 6. gr. laganna, skulu sjálfkrafa verða starfsmenn Veðurstofu Íslands, enda skulu laun þeirra og önnur kjör ekki verða lakari við þá breytingu en um hefur verið samið.

12. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða II er hljóðar svo:
     Í þeim sveitarfélögum þar sem snjóflóð hafa fallið á árinu 1995 skal gilda svohljóðandi regla um heimild til greiðslu úr ofanflóðasjóði í stað ákvæðis 5. mgr. 7. gr.:
     Eigi húseigandi ekki kost á sambærilegri húseign í sveitarfélaginu til kaups og byggi hann nýja húseign í sveitarfélaginu til íbúðar fyrir sig og fjölskyldu sína er heimilt að miða greiðslu úr sjóðnum við brunabótamat. Sé brunabótamat hærra en endurstofnverð húseignar skal greiðsla miðast við endurstofnverð. Enn fremur er heimilt að inna af hendi greiðslu úr sjóðnum til húseiganda sem orðið hefur fyrir tjóni í snjóflóði á árinu 1995 þannig að heildargreiðsla til hans, að meðtöldum bótum frá Viðlagatryggingu Íslands, verði sambærileg við greiðslu til annarra húseigenda samkvæmt þessu ákvæði.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. desember 1995.