Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 397, 121. löggjafarþing 181. mál: Þróunarsjóður sjávarútvegsins.
Lög nr. 152 27. desember 1996.

Lög um breytingu á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Hlutverk Þróunarsjóðs sjávarútvegsins er að taka við þróunarsjóðsgjöldum skv. 4. og 6. gr., fara með og selja eignir og hlutabréf í eigu sjóðsins skv. 11. gr., fara með og selja hlutabréf í eigu hlutafjárdeildar skv. 12. gr., innheimta skuldabréf í eigu atvinnutryggingadeildar skv. 13. gr. og greiða skuldbindingar sjóðsins. Þá skal Þróunarsjóður sjávarútvegsins taka lán til að fjármagna kaup eða smíði á rannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnunina.

2. gr.

     2. málsl. 2. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

     7. gr., 8. gr., 9. gr., 10. gr. og 11. gr. laganna falla brott.

4. gr.

     2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
     Fyrir 1. september ár hvert skal stjórn sjóðsins leggja fyrir sjávarútvegsráðherra til staðfestingar sundurliðaða rekstrar- og greiðsluáætlun fyrir næsta starfsár.

5. gr.

     15. gr. laganna orðast svo:
     Stjórn sjóðsins er heimilt að taka lán, þó ekki með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings, í því skyni að jafna misræmi milli tekna af þróunarsjóðsgjöldum skv. 4. og 6. gr., sem og innborgana af skuldabréfum í eigu sjóðsins og afborgana og vaxta af lánum sem sjóðurinn á að standa skil á.

6. gr.

     17. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997. Kemur 2. gr. til framkvæmda þegar umboði núverandi stjórnar lýkur og 6. gr. kemur til framkvæmda við gerð efnahags- og rekstrarreiknings ársins 1998. 4. gr. laganna (nr. 92/1994) fellur úr gildi 31. desember 2008, 5. gr. þeirra fellur úr gildi frá og með gjaldárinu 1997 og 6. gr. þeirra frá og með því fiskveiðiári er hefst 1. september 2008. Að öðru leyti gilda lögin til 31. desember 2009. Skulu eignir sjóðsins umfram skuldir að loknum gildistíma laganna renna til Hafrannsóknastofnunarinnar og andvirði þeirra varið til hafrannsókna.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Við lögin bætist ný málsgrein við ákvæði til bráðabirgða I er orðast svo:
     Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt á árinu 1997 að taka að láni og endurlána Þróunarsjóði sjávarútvegsins allt að 1.000 m.kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á staðfestingardegi laganna. Skal láninu varið til að fjármagna kaup eða smíði á rannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnunina.

II.
     Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal greiða styrk til úreldingar krókabáta á sóknardögum til 1. júlí 1997. Skal úreldingarstyrkur nema allt að 80% af húftryggingarverðmæti. Gilda ákvæði 7. og 8. gr. laga nr. 92/1994, sem og ákvæði til bráðabirgða II, sbr. lög nr. 89/1995, að öðru leyti um styrkveitingu þessa. Skal það styrkhlutfall, sem ákveðið er á grundvelli þessa ákvæðis, einnig gilda um krókabáta á sóknardögum sem úreltir eru á tímabilinu frá 1. október 1996 til gildistöku laga þessara, sbr. lög nr. 109/1996.

III.
     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða IV er orðast svo:
     Umsóknir um styrki vegna úreldingar fiskiskipa sem borist hafa Þróunarsjóði sjávarútvegsins fyrir gildistöku laga þessara skulu afgreiddar í samræmi við þágildandi ákvæði laga nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum. Til að stuðla að þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis er stjórn sjóðsins heimilt þrátt fyrir ákvæði 3. gr. að leggja fram framleiðslutæki, þar með talin skip sem keypt hafa verið fyrir gildistöku laga þessara, sem hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækjum utan Íslands eða hlutafélögum sem stofnuð eru hér á landi til að taka þátt í sjávarútvegsverkefnum erlendis. Um innheimtu ógoldinna þróunarsjóðsgjalda sem á hafa verið lögð fyrir gildistöku laga þessara skulu gilda ákvæði laga nr. 92/1994, með síðari breytingum, eins og þau voru fyrir gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 1996.