Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1115, 121. löggjafarþing 330. mál: Bókasafnssjóður höfunda.
Lög nr. 33 16. maí 1997.

Lög um Bókasafnssjóð höfunda.


1. gr.

     Lög þessi taka til afnota bóka í almenningsbókasöfnum, sbr. lög nr. 50/1976, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, sbr. lög nr. 71/1994, skólasöfnum, sbr. lög um grunnskóla, nr. 66/1995, með síðari breytingum, og lög um framhaldsskóla, nr. 80/1996, og bókasöfnum í stofnunum sem kostuð eru af ríkissjóði eða sveitarfélögum.
     Lögin taka til bóka á prenti, í hljóðriti og í stafrænu formi.

2. gr.

     Í fjárlögum ár hvert skal veita framlag til Bókasafnssjóðs höfunda sem úthlutað er úr samkvæmt lögum þessum til rithöfunda, þýðenda, myndhöfunda og annarra rétthafa, enda séu bækur þeirra notaðar í þeim bókasöfnum sem lögin taka til.

3. gr.

     Rétt til úthlutunar vegna afnota bóka í bókasöfnum eiga samkvæmt lögum þessum:
  1. Rithöfundar, enda hafi bækur þeirra verið gefnar út á íslensku, nema um sé að ræða þýðingu eða endursamið verk, endursögn eða staðfærslu á texta úr erlendu máli.
  2. Þýðendur, svo og þeir sem enduryrkja, endursegja eða staðfæra erlendar bækur á íslensku.
  3. Myndhöfundar og tónskáld, enda séu hugverk þeirra hluti af þeim bókum sem getið er í 1. tölul. eða gefin út sem sjálfstæð rit á Íslandi.
  4. Aðrir sem átt hafa þátt í ritun þeirra bóka sem getið er í 1. og 3. tölul., enda sé framlag þeirra skráð í Íslenska bókaskrá frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

     1. mgr. á jafnframt við um bækur sem hljóðritaðar hafa verið eða skráðar til afnota og útlána með öðrum hætti.

4. gr.

     Rétt til úthlutunar eftir andlát rétthafa skv. 3. gr. eiga:
  1. Eftirlifandi maki.
  2. Eftirlifandi einstaklingur sem var í sambúð með rétthafa þegar hann lést, enda hafi sambúðin staðið í fimm ár hið skemmsta.
  3. Börn yngri en 18 ára, enda sé hitt foreldrið látið eða njóti ekki réttar samkvæmt lögum þessum.

     Séu framangreindir vandamenn fleiri en einn skiptist úthlutunin jafnt á milli þeirra.
     Rétthafar samkvæmt þessari grein fá aðeins helming af þeirri greiðslu sem rétthafa skv. 3. gr. hefði borið.

5. gr.

     Úthluta skal árlega styrkjum úr Bókasafnssjóði eftir nánari ákvörðun stjórnar sjóðsins með hliðsjón af reglugerð, sbr. 2. mgr. 6. gr. Enn fremur skal úthluta til rétthafa í samræmi við lög þessi miðað við fjölda útlána bóka samkvæmt skrá um afnot bóka í bókasöfnum sem lög þessi gilda um. Fyrir hljóðrit og útgáfur í stafrænu formi er úthlutað á sama hátt.
     Úthlutun skv. 3. og 4. gr. skal ákveðin á grundvelli skýrslna frá almenningsbókasöfnum, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, skólasöfnum og öðrum bóka- og gagnasöfnum, að svo miklu leyti sem útlán þessara bókasafna eru tölvuskráð.
     Fjárhæðir lægri er 1.000 kr. eru ekki greiddar út. Hámarksfjárhæð til einstakra rétthafa er 300.000 kr. Þessi mörk skulu endurskoðuð árlega með hliðsjón af verðlagsbreytingum.

6. gr.

     Stjórn Bókasafnssjóðs höfunda annast úthlutun samkvæmt lögum þessum. Skal hún skipuð af menntamálaráðherra til fjögurra ára, þannig: Tveir samkvæmt tilnefningu frá Rithöfundasambandi Íslands, einn samkvæmt tilnefningu frá Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, einn samkvæmt tilnefningu frá Myndstefi – Myndhöfundasjóði Íslands og formaður stjórnar án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki skulu tilnefndir í stjórn sömu menn tvisvar í röð.
     Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um úthlutun og aðra starfsemi sjóðsins, svo og um skráningarskyldu bókasafna og annarra gagnasafna og skýrslugerð þeirra.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998. Um leið fellur úr gildi 14. gr. laga um almenningsbókasöfn.

Samþykkt á Alþingi 7. maí 1997.