Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1143, 121. löggjafarþing 453. mál: fæðingarorlof (veikindi móður eða barns o.fl.).
Lög nr. 51 22. maí 1997.

Lög um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof.


I. KAFLI
Breytingar á lögum um fæðingarorlof, nr. 57/1987, með síðari breytingu.

1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Fæðingarorlof samkvæmt lögum þessum merkir leyfi frá launuðum störfum vegna:
 1. meðgöngu og fæðingar,
 2. frumættleiðingar barns yngra en fimm ára eða
 3. töku barns yngra en fimm ára í varanlegt fóstur.


2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á fæðingarorlofi í allt að sex mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. þó ákvæði 15. og 16. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, um lengingu fæðingarorlofs af sérstökum ástæðum. Skipti foreldrar með sér þessu fæðingarorlofi verður samanlagt orlof þeirra aldrei lengra en sex mánuðir.

3. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er konu að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Beri fæðingu að fyrir áætlaða töku fæðingarorlofs telst fæðingarorlofið hafið á fæðingardegi.
     Upphaf sex mánaða fæðingarorlofs vegna ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. 2. gr., miðast við þann tíma þegar barnið kemur á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef barn, sem ættleiða á, er sótt til útlanda skal ættleiðandi foreldri þó heimilt að hefja töku fæðingarorlofs við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.

4. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Tilkynna skal atvinnurekanda um töku fæðingarorlofs með 21 dags fyrirvara, nema sérstakar aðstæður geri það ókleift. Vilji móðir hefja störf að nýju áður en lokið er fæðingarorlofi skal hún á sama hátt tilkynna það atvinnurekanda með 21 dags fyrirvara. Faðir, sem ætlar að taka hluta fæðingarorlofs, skal tilkynna atvinnurekanda það með sama fyrirvara og jafnframt hve lengi hann verður frá störfum.

5. gr.

     5. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Um greiðslur í fæðingarorlofi fer samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar.

II. KAFLI
Breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Fæðingarstyrkur skal vera 27.758 kr. á mánuði í sex mánuði og greiðast móður við hverja fæðingu barns, sbr. þó 2. mgr. og ákvæði þessarar greinar um lengingu fæðingarorlofs af sérstökum ástæðum. Hefja má greiðslu fæðingarstyrks einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Að jafnaði skal móðir eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuðina fyrir fæðinguna. Nánar skal kveðið á um lögheimilisskilyrði í reglugerð.
 3. 3. mgr. orðast svo:
 4.      Greiða skal fæðingarstyrk í þrjá mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu greiðist fæðingarstyrkur í tvo mánuði.
 5. 5. mgr. orðast svo:
 6.      Framlengja skal greiðslu fæðingarstyrks um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt. Þurfi barn að dvelja á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu skal framlengja greiðslu fæðingarstyrks um þann dagafjölda sem barn dvelur á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjórum mánuðum. Framlengja skal og greiðslu fæðingarstyrks um allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Heimilt er að framlengja greiðslu fæðingarstyrks um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda móður eftir fæðingu. Þörf fyrir framlengingu vegna dvalar barns á sjúkrahúsi, sbr. 2. málsl., alvarlegs sjúkleika barns eða alvarlegra veikinda móður skal rökstudd með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg samkvæmt þessu ákvæði.
 7. 6. mgr. orðast svo:
 8.      Fæðingarstyrkur skal greiddur foreldri vegna frumættleiðingar og fósturforeldri vegna töku barns yngra en fimm ára í fóstur í sex mánuði frá þeim tíma þegar barnið kemur á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef barn, sem ættleiða á, er sótt til útlanda skal ættleiðandi foreldri þó heimilt að hefja töku fæðingarorlofs við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt. Nú eru fleiri börn en eitt ættleidd eða tekin í fóstur í einu og skal þá framlengja greiðslu fæðingarstyrks um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt.


8. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 16. gr. laganna:
 1. Í stað 1. málsl. a-liðar koma tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Foreldrar, sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi, eiga rétt á fæðingardagpeningum samkvæmt grein þessari, enda hafi þeir að jafnaði átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna og eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barnsins. Nánar skal kveðið á um lögheimilisskilyrði í reglugerð.
 2. Orðin „eða frumættleiðingu“ í f-lið falla brott.
 3. G-liður orðast svo: Taki foreldrar samanlagt ekki allt það fæðingarorlof sem þeir eiga rétt á, sbr. ákvæði laga um fæðingarorlof, fellur greiðsla fæðingardagpeninga niður fyrir þann tíma sem ekki er nýttur.
 4. Í stað orðanna „einn mánuð“ í h-lið kemur: þrjá mánuði.
 5. I-liður orðast svo: Þurfi barn að dvelja á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu skal framlengja greiðslu fæðingardagpeninga um þann dagafjölda sem barn dvelur á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjórum mánuðum. Framlengja skal og greiðslu fæðingardagpeninga um allt að þrjá mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris. Hvort foreldri sem er getur að ósk móður dvalið hjá barni þennan tíma. Heimilt er að framlengja fæðingarorlof um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda móður eftir fæðingu. Þörf fyrir framlengingu vegna dvalar barns á sjúkrahúsi, sbr. 1. málsl., alvarlegs sjúkleika barns eða alvarlegra veikinda móður skal rökstudd með vottorði læknis. Tryggingayfirlæknir skal meta hvort lenging fæðingarorlofs er nauðsynleg samkvæmt þessu ákvæði.
 6. 3. og 4. málsl. l-liðar orðast svo: Greiða skal fæðingardagpeninga í þrjá mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngutíma. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu greiðast fæðingardagpeningar í tvo mánuði.
 7. M-liður orðast svo: Ættleiðandi foreldrar vegna frumættleiðingar og fósturforeldrar eiga rétt til greiðslu fæðingardagpeninga í fæðingarorlofi vegna töku barns yngra en fimm ára, sbr. og 6. mgr. 15. gr.


9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Ákvæði laga þessara um frekari framlengingu fæðingarorlofs skulu gilda um foreldra sem voru í fæðingarorlofi 1. janúar 1997.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 1997.