Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1243, 121. löggjafarþing 301. mál: staða þjóðkirkjunnar.
Lög nr. 78 26. maí 1997.

Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.


I. KAFLI
Heiti og undirstaða.

1. gr.

     Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.
     Ríkisvaldinu ber að styðja og vernda þjóðkirkjuna.
     Skírn í nafni heilagrar þrenningar og skráning í þjóðskrá veitir aðild að þjóðkirkjunni.

II. KAFLI
Réttarstaða.

2. gr.

     Þjóðkirkjan nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka.
     Þjóðkirkjan, einstakar sóknir og stofnanir hennar njóta sjálfstæðrar eignhelgi og koma fram sem sjálfstæðir aðilar gagnvart almannavaldinu eftir því sem við getur átt.

3. gr.

     Íslenska ríkið greiðir þjóðkirkjunni árlegt framlag sem miðist við að það nægi til reksturs hennar ásamt öðrum tekjustofnum hennar, lögbundnum sem ólögbundnum.
     Launagreiðslum til starfandi presta þjóðkirkjunnar og annarra starfsmanna hennar skal hagað samkvæmt því sem greinir í 60. gr.

4. gr.

     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur með höndum tengsl við þjóðkirkjuna af hálfu ríkisvaldsins að því er varðar fjárlagagerð. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur jafnframt yfirumsjón með því að ríkisvaldið veiti þjóðkirkjunni þann stuðning sem því ber að veita henni lögum samkvæmt og hefur umsjón með því að þjóðkirkjan og stofnanir hennar fari að lögum.
     Um stöðu þjóðkirkjunnar sem opinbers trúfélags fer eftir I. kafla laga um trúfélög, nr. 18/1975, eftir því sem við getur átt.

III. KAFLI
Stjórn og starfsskipan.
1. Almennt.

5. gr.

     Þjóðkirkjan ræður starfi sínu innan lögmæltra marka.

2. Biskup Íslands.
Almennt.

6. gr.

     Ísland er eitt biskupsdæmi.
     Biskup Íslands fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar ásamt öðrum kirkjulegum stjórnvöldum eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Hann hefur aðsetur í Reykjavík.

Biskupskosning.

7. gr.

     Kjörgengur til biskupsembættis er hver guðfræðikandídat sem fullnægir skilyrðum til þess að gegna prestsembætti í þjóðkirkjunni.

8. gr.

     Kirkjuþing setur reglur um kosningu biskups Íslands.

Skipun biskups Íslands.

9. gr.

     Forseti Íslands skipar biskup Íslands.

Starfssvið biskups Íslands o.fl.

10. gr.

     Biskup Íslands hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu. Hann er forseti kirkjuráðs. Hann fylgir eftir reglum er kirkjuþing setur, samþykktum kirkjuþings og markaðri stefnu þess og prestastefnu og hefur ákvörðunarvald um einstök mál, nema þau heyri undir önnur stjórnvöld þjóðkirkjunnar samkvæmt lögum þessum.
     Biskup vígir kirkjur. Biskup vígir presta og djákna og setur þeim vígslubréf.
     Heimilt er biskupi að vígja til prestsembættis og djáknaþjónustu einstaklinga sem hafa verið kallaðir til þjónustu af evangelísk-lúterskum fríkirkjusöfnuðum í landinu.

Um kirkjuaga og lausn ágreiningsmála á kirkjulegum vettvangi.

11. gr.

     Biskup Íslands hefur yfirumsjón með kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar og beitir sér fyrir lausn ágreiningsefna sem rísa kunna á kirkjulegum vettvangi. Vegna agabrota getur hann gripið til þeirra úrræða sem lög og kirkjuhefð leyfa.

Úrskurðarnefnd.

12. gr.

     Nú rís ágreiningur á kirkjulegum vettvangi eða starfsmaður þjóðkirkjunnar er borinn sökum um siðferðis- eða agabrot og getur þá hver sá sem hagsmuna á að gæta borið málið undir úrskurðarnefnd sem biskup Íslands skipar til fjögurra ára í senn.
     Úrskurðarnefnd skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Skal einn tilnefndur af leikmönnum á kirkjuþingi og einn af prestastefnu. Formaður skal skipaður án tilnefningar og sé hann löglærður.
     Varði mál meint agabrot starfsmanna þjóðkirkjunnar eða embættisfærslu prests sérstaklega getur nefndin lagt til að hlutaðeigandi verði vikið úr starfi meðan um mál hans er fjallað og skal þá annar settur til að gegna starfi hans á meðan.
     Í úrskurði vegna agabrota getur nefndin gripið til eftirfarandi úrræða:
 1. lagt til að starfsmanni verði veitt áminning, eftir atvikum með skilyrðum eða leiðbeiningum eða nánari fyrirmælum um rétta starfshegðun,
 2. mælt fyrir um að hann skuli fluttur til í starfi,
 3. mælt fyrir um að hann skuli ekki gegna núverandi starfi eða sambærilegu starfi eða köllun á kirkjulegum vettvangi um ákveðið tímabil eða til frambúðar eða
 4. lagt til endanlega brottvikningu hans úr hvaða starfi sem er á kirkjulegum vettvangi sem valdsvið nefndarinnar nær til.

     Kirkjuþing setur nánari ákvæði um úrskurðarnefnd í starfsreglur skv. 59. gr.

Áfrýjunarnefnd.

13. gr.

     Niðurstöðu úrskurðarnefndar skv. 12. gr. má skjóta til áfrýjunarnefndar sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Hafa málsaðilar og kirkjuráð heimild til áfrýjunar. Áfrýjunarfrestur er þrjár vikur. Um úrræði þau sem áfrýjunarnefnd getur gripið til með úrskurði gildir hið sama og frá var greint um úrskurðarnefnd í 12. gr. Um réttaráhrif kærðs úrskurðar gilda ákvæði 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
     Áfrýjunarnefnd er skipuð þremur löglærðum mönnum sem fullnægi almennum skilyrðum til þess að vera skipaðir hæstaréttardómarar og sé einn þeirra formaður. Skulu þeir allir skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Við meðferð einstakra mála skal nefndin skipuð tveimur sérfróðum mönnum til viðbótar sem nefndin kveður sjálf til starfans.
     Úrskurðir áfrýjunarnefndar, sem skulu vera rökstuddir og að jafnaði kveðnir upp innan sex vikna frá því að mál barst nefndinni, eru endanlegir og bindandi innan valdsviðs þjóðkirkjunnar.
     Kirkjuþing setur nánari ákvæði um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd í starfsreglur skv. 59. gr.
     Kirkjulegir framkvæmdarvaldshafar skv. 23. gr. skulu framfylgja úrskurðum skv. 12. og 13. gr., undir yfirumsjón kirkjuráðs, og fylgjast jafnframt með því að farið sé eftir úrskurðum er snerta starfsemi eða framferði einstakra starfsmanna.
     Um hæfi nefndarmanna skv. 12. og 13. gr. gilda ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, svo og almenn ákvæði þeirra laga um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd skv. 12. gr. og áfrýjunarnefnd skv. 13. gr. að því marki sem starfsreglur, er settar verða skv. 59. gr., mæla eigi fyrir á annan veg.

Kenningarnefnd.

14. gr.

     Biskup Íslands skipar ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni samkvæmt nánari ákvæðum í starfsreglum, sbr. 59. gr.

Um staðgengil biskups Íslands.

15. gr.

     Í forföllum biskups Íslands kveður hann þann vígslubiskup sem eldri er að biskupsvígslu til þess að gegna embætti sínu um stundarsakir. Hið sama gildir sé biskup Íslands vanhæfur til meðferðar einstaks máls sem undir hann ber að lögum.
     Nú fellur biskup Íslands frá eða lætur af embætti og skal þá sá vígslubiskup, sem eldri er að biskupsvígslu, gegna embætti hans þar til biskupskjör hefur farið fram og nýr biskup Íslands hefur fengið skipun í embætti sitt.

3. Vígslubiskupar.
Almennt.

16. gr.

     Vígslubiskupar skulu vera tveir með aðsetur á hinum fornu biskupsstólum, í Skálholti í Biskupstungum og á Hólum í Hjaltadal. Þeir hafi tilsjón með kristnihaldi í umdæmum sínum og séu biskupi til aðstoðar um kirkjuleg málefni og annist þau biskupsverk er biskup Íslands felur þeim. Nánari ákvæði um starfssvið vígslubiskupa skal setja í starfsreglur, sbr. 59. gr.
     Forseti Íslands skipar vígslubiskupa.

Kosning vígslubiskupa.

17. gr.

     Um kosningu og kjörgengi vígslubiskupa gilda sömu reglur og um biskupskjör eftir því sem við getur átt, sbr. 7. og 8. gr. Kirkjuþing setur nánari reglur um kosningu vígslubiskups í hvoru vígslubiskupsumdæmi fyrir sig.

Vígslubiskupsumdæmi o.fl.

18. gr.

     Umdæmi vígslubiskups í Skálholti nær yfir Múla-, Austfjarða-, Skaftafells-, Rangárvalla-, Árness-, Kjalarness-, Reykjavíkur-, Borgarfjarðar-, Snæfellsness- og Dala-, Barðastrandar- og Ísafjarðarprófastsdæmi.
     Umdæmi vígslubiskups á Hólum nær yfir Húnavatns-, Skagafjarðar-, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.
     Kirkjuþing getur ákveðið aðra skipan vígslubiskupsumdæma. Öðlast hin nýja skipan þá fyrst gildi er tvö kirkjuþing hafa samþykkt slíka tillögu óbreytta.

Biskupafundur.

19. gr.

     Biskup Íslands skal kalla vígslubiskupa til fundar svo oft sem þurfa þykir og nánar skal kveðið á um í starfsreglum, sbr. 59. gr. Biskupafundur skal m.a. búa þau mál er varða kenninguna, helgisiði og helgihald í hendur prestastefnu og gera tillögur um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma til kirkjuþings, sbr. 50. gr.

4. Kirkjuþing.
Almennt.

20. gr.

     Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka.
     Málefni, er varða kenningu kirkjunnar og agavald, heyra þó undir biskup Íslands, sbr. 10., 11., 19. og 28. gr.
     Samþykktir um kenningarleg málefni, guðsþjónustuhald, helgisiði, skírn, fermingu og altarissakramenti verða að sæta umfjöllun prestastefnu áður en þær hljóta endanlega afgreiðslu á kirkjuþingi.
     Kirkjuþing kýs stjórn prestssetrasjóðs.

Skipan kirkjuþings.

21. gr.

     Á kirkjuþingi á sæti 21 fulltrúi kjörinn til fjögurra ára í senn. Eru níu þeirra prestar og tólf leikmenn úr hópi sóknarnefndafólks.
     Kjördæmi kirkjuþings eru:
 1. Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.
 2. Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.
 3. Kjalarnessprófastsdæmi.
 4. Borgarfjarðar-, Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi.
 5. Barðastrandar- og Ísafjarðarprófastsdæmi.
 6. Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi.
 7. Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.
 8. Múla- og Austfjarðaprófastsdæmi.
 9. Skaftafells-, Rangárvalla- og Árnessprófastsdæmi.

     Í hverju kjördæmi er kjörinn einn prestur og einn leikmaður, nema í 1., 2. og 3. kjördæmi þar sem kjörnir skulu tveir leikmenn úr hverju kjördæmi.
     Rétt til setu á kirkjuþingi eiga biskup Íslands og vígslubiskupar, kirkjuráðsmenn, kirkjumálaráðherra eða fulltrúi hans og fulltrúi guðfræðideildar Háskóla Íslands. Hafa þeir allir málfrelsi og tillögurétt en atkvæðisrétt hafa þeir ekki.
     Kirkjuþing kýs þingforseta úr röðum leikmanna.
     Kirkjuþing skal halda ár hvert. Óski þriðjungur kirkjuþingsmanna eftir er skylt að kalla kirkjuþing saman innan viku frá því að krafa um slíkt var sett fram.
     Kirkjuþing setur nánari ákvæði um kjör til kirkjuþings og þingsköp í starfsreglur, sbr. 59. gr.

Fastanefndir kirkjunnar.

22. gr.

     Kirkjuþing kýs við upphaf hvers kjörtímabils fastanefndir kirkjunnar samkvæmt nánari reglum skv. 59. gr.

Kirkjuleg stjórnvöld.

23. gr.

     Stjórnvöld þjóðkirkjunnar og stofnana hennar fara með stjórnsýslu í öllum efnum, þar með talda ráðningu og lausn starfsmanna, og bera ábyrgð gagnvart kirkjuþingi.
     Kirkjuþing skal sjá til þess að reikningshald kirkjulegra embætta, stofnana og sjóða hljóti fullnægjandi endurskoðun.
     Kirkjuþing getur haft frumkvæði að frumvörpum til laga um kirkjuleg málefni og beint þeim tilmælum til ráðherra að þau verði flutt á Alþingi.
     Ráðherra leitar umsagnar og tillagna kirkjuþings um lagafrumvörp um kirkjuleg málefni er hann hyggst flytja á Alþingi.

5. Kirkjuráð.
Almennt.

24. gr.

     Kirkjuráð fer með framkvæmdarvald í málefnum þjóðkirkjunnar.

Skipan kirkjuráðs.

25. gr.

     Kirkjuráð er, auk biskups Íslands, skipað fjórum mönnum, tveimur guðfræðingum og tveimur leikmönnum sem kirkjuþing kýs og skulu varamenn kosnir með sama hætti. Kosið skal í kirkjuráð á fyrsta kirkjuþingi að aflokinni kosningu. Kirkjuráðsmenn sitja þar til nýtt kirkjuráð hefur verið kjörið.

Starfssvið kirkjuráðs.

26. gr.

     Kirkjuráð fer með framkvæmd sameiginlegra málefna þjóðkirkjunnar, þar á meðal verkefna sem lög og stjórnvaldsreglur ætla því og erinda sem vísað er til þess m.a. af hálfu kirkjuþings, prestastefnu, samtökum leikmanna, Alþingis og ráðherra.
     Ákvörðunum kirkjulegra stjórnvalda, sem heyra undir lögsögu kirkjuráðs, má skjóta til kirkjuráðs til endanlegrar úrlausnar. Undanskildar eru ákvarðanir úrskurðar- og áfrýjunarnefnda skv. 12. og 13. gr., svo og ákvarðanir biskups skv. 11. gr. og um kenningu kirkjunnar, sbr. 10., 19., 20. og 28. gr. Varði málskot ákvörðun biskups Íslands er hann hefur áður tekið víkur hann sæti í kirkjuráði meðan það mál er til meðferðar þar og tekur þá sá vígslubiskup, sem eldri er að biskupsvígslu, sæti hans.
     Ákvörðunum kirkjuráðs á framkvæmdasviði kirkjulegrar stjórnsýslu verður eigi áfrýjað til kirkjuþings en fjalla má um málefnið á kirkjuþingi að frumkvæði einstakra kirkjuþingsmanna.
     Um málsmeðferð í kirkjuráði, svo og meðal annarra kirkjulegra stjórnvalda, skal fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eftir því sem við getur átt, leiði annað eigi af ákvæðum laga eða starfsreglna sem kirkjuþing setur skv. 59. gr. Hið sama á almennt við um sérstakt hæfi kirkjulegra stjórnvalda til meðferðar einstakra mála.

27. gr.

     Kirkjuráð í samráði við forseta kirkjuþings undirbýr fundi kirkjuþings og fylgir eftir samþykktum þess.
     Kirkjuráð undirbýr af hálfu þjóðkirkjunnar tillögur til fjárveitinga til hennar á fjárlögum.
     Kirkjuráð hefur yfirumsjón með ráðstöfun fjár sem veitt er af opinberri hálfu til kirkjulegrar starfsemi.
     Kirkjuráð hefur forræði og forsjá um Skálholtsstað, svo sem greinir í lögum nr. 32/1963, og hefur þau afskipti af málefnum Skálholtsskóla er greinir í lögum nr. 22/1993.

6. Prestastefna.

28. gr.

     Biskup Íslands boðar til almennrar prestastefnu og er forseti hennar.
     Á prestastefnu eiga setu og atkvæðisrétt vígslubiskupar og allir starfandi þjóðkirkjuprestar skv. 33. gr., svo og fastir kennarar guðfræðideildar Háskóla Íslands með guðfræðimenntun og guðfræðingar sem gegna föstum störfum á vegum þjóðkirkjunnar. Aðrir prestar og guðfræðingar eiga rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti enda séu þeir innan safnaða er starfa á játningargrundvelli evangelísk-lúterskrar kirkju.
     Á prestastefnu skal fjalla um málefni prestastéttarinnar, svo og önnur kirkjuleg málefni. Prestastefna hefur tillögu- og umsagnarrétt um mál er varða kenningu kirkjunnar og helgisiði og annars heyra undir biskup og kirkjuþing, sbr. 10., 11. og 20. gr.

7. Prófastar.
Almennt.

29. gr.

     Biskup Íslands útnefnir prófasta úr hópi presta. Nánari reglur um skipan þeirra og störf skal setja í starfsreglur, sbr. 59. gr.
     Prófastar eru fulltrúar biskups Íslands í prófastsdæmum og trúnaðarmenn hans og hafa í umboði hans almenna tilsjón með kirkjulegu starfi þar.
     Biskup getur útnefnt prófasta til að hafa umsjón með tilteknum þáttum kirkjulegrar þjónustu.

Héraðsfundir og héraðsnefndir.

30. gr.

     Héraðsfundi skal halda í hverju prófastsdæmi ár hvert. Héraðsfundur er vettvangur prófastsdæmis til þess að ræða um sameiginleg málefni þjóðkirkjunnar í prófastsdæminu og önnur þau málefni sem lög leggja til hans eða stjórnvöld kirkjumála vísa þangað til umfjöllunar, umsagnar eða úrlausnar eða safnaðarfundir, sóknarnefndir, sóknarprestar og starfsmenn sókna óska eftir að þar verði rædd.

31. gr.

     Héraðsnefnd prófastsdæmis skal starfa á milli héraðsfunda og er hún framkvæmdanefnd héraðsfundar. Prófastur er formaður héraðsnefndar en héraðsfundur kýs aðra nefndarmenn til tveggja ára í senn. Héraðsnefnd fer með stjórn héraðssjóðs.

32. gr.

     Nánari reglur um héraðsfundi og héraðsnefndir skal setja í starfsreglur, sbr. 59. gr.

8. Prestar.
Almennt.

33. gr.

     Þjónandi prestur þjóðkirkjunnar er hver sá sem á grundvelli köllunar og vígslu gegnir föstu prestsstarfi í þjóðkirkjunni. Hann lýtur tilsjón kirkjulegra stjórnvalda í kirkjulegum efnum þótt hann gegni launuðu starfi á vegum aðila sem ekki heyra undir þjóðkirkjuna.

34. gr.

     Í hverju prestakalli skal vera einn sóknarprestur. Sóknarprestur er hirðir safnaðar og gegnir prests- og predikunarembætti samkvæmt vígslubréfi og eftir því sem reglur og venjur segja til um.

35. gr.

     Í fjölmennum prestaköllum er heimilt að skipa fleiri presta en einn. Séu prestar fleiri en einn í prestakalli skulu þeir undir forustu sóknarprests skipta með sér störfum í samræmi við almennar starfsreglur þar að lútandi, sbr. 59. gr.

36. gr.

     Biskupi Íslands er heimilt að ákveða að í prófastsdæmum starfi héraðsprestar. Ráðningartími héraðspresta skal vera allt að þremur árum í senn.

Embættisgengi presta o.fl.

37. gr.

     Ráðherra skipar í embætti sóknarpresta. Biskup Íslands skipar í önnur prestsembætti, sbr. 35., 36., 44. og 45. gr.

38. gr.

     Almenn skilyrði til skipunar eða setningar í prestsembætti eru þessi:
 1. 25 ára aldur. Biskup Íslands getur þó veitt undanþágu frá því ákvæði.
 2. Embættispróf frá guðfræðideild Háskóla Íslands eða frá viðurkenndri guðfræðideild eða guðfræðiskóla, og skal biskup Íslands leita umsagnar guðfræðideildar Háskóla Íslands um hið síðarnefnda.
 3. Að kandídat hafi ekki gerst sekur um athæfi sem ætla má að rýri álit hans og sé ósamboðið manni í prestsstarfi.

     Áður en kandídat hlýtur vígslu skal hann hafa hlotið starfsþjálfun samkvæmt nánari ákvæðum í starfsreglum, sbr. 59. gr.
     Að öðru leyti verður kandídat að fullnægja almennum skilyrðum 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Val á presti.

39. gr.

     Þegar prestakall eða prestsstaða losnar eða nýtt prestakall er stofnað auglýsir biskup Íslands embættið með fjögurra vikna umsóknarfresti hið skemmsta.
     Nánari reglur um val á sóknarpresti og presti skv. 35. gr., m.a. um skilyrði til almennra kosninga, skal setja í starfsreglur skv. 59. gr.

40. gr.

     Ráðherra veitir þeim embætti sóknarprests sem hlotið hefur bindandi val en ákvarðar að öðrum kosti veitingu, að fenginni tillögu biskups. Biskup Íslands veitir þeim embætti prests skv. 35. gr. sem hlotið hefur bindandi val en ákvarðar að öðrum kosti veitingu.
     Embætti sóknarprests og prests skv. 35. gr. skal veitt til fimm ára í senn, sbr. 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Komi fram tillaga í söfnuðinum um að embættið skuli auglýst laust til umsóknar skal hún afgreidd á safnaðarfundi og er hún því aðeins gild að hún komi fram a.m.k. átta mánuðum fyrir lok fimm ára skipunartímans. Skylt er að leita álits úrskurðarnefndar skv. 12. gr. með atbeina biskups Íslands áður en kjörmenn eða aðrir sambærilegir aðilar afgreiða tillögu þar að lútandi. Kjósi meiri hluti kjörmanna að embættið verði auglýst skal sú samþykkt send biskupi Íslands er leggur hana fyrir ráðherra til ákvörðunar.

41. gr.

     Hafi enginn sótt um prestakall eða embætti er ráðherra heimilt að setja prest í embættið í allt að eitt ár samkvæmt tillögu biskups. Prestakallið eða embættið skal auglýst að nýju að setningartímanum liðnum.

Almennt um skyldur presta.

42. gr.

     Skylt er sóknarpresti að taka við kalli sínu jafnskjótt og föng eru á eftir að hann hefur hlotið skipun eða ráðningu. Biskup Íslands getur þó veitt presti, er situr jörð, frest til næstu fardaga til að taka við embættinu.
     Nú er prestssetur í prestakalli, og er þá presti skylt að hafa þar aðsetur og lögheimili nema biskup heimili annað um stundarsakir, að fenginni umsögn prófasts og viðkomandi sóknarnefnda.

43. gr.

     Nánari ákvæði um starfsskyldur presta skulu settar í starfsreglur, sbr. 59. gr.

Sérþjónustuprestar.
Almennt.

44. gr.

     Þar sem almennri prestþjónustu verður ekki við komið, svo sem á sjúkrastofnunum, við fangelsi og meðal heyrnarlausra, skal kalla til presta sem að jafnaði hafa sérmenntun til starfans.
     Biskupi Íslands er heimilt að samþykkja að ráðnir séu prestar á vegum stofnana og félagasamtaka. Teljast þeir prestar vera þjónandi prestar þjóðkirkjunnar, sbr. 33. gr.
     Biskup Íslands setur sérþjónustuprestum ráðningarbréf, í samvinnu við þær stofnanir sem þeir eru ráðnir til, auk vígslubréfs.

Prestar er starfa erlendis.

45. gr.

     Biskupi Íslands er heimilt að samþykkja að prestar séu ráðnir til starfa meðal Íslendinga erlendis.

Nánari ákvæði.

46. gr.

     Nánari ákvæði um sérþjónustupresta skal setja í almennar starfsreglur, sbr. 59. gr.

9. Djáknar.

47. gr.

     Þjónandi djákni þjóðkirkjunnar er hver sá sem á grundvelli köllunar og vígslu gegnir fastri djáknaþjónustu í þjóðkirkjunni.
     Djáknar eru ráðnir af sóknarnefnd í samráði við sóknarprest til þess að gegna sérstaklega tilgreindum störfum á sviði líknar- og fræðslumála innan safnaðar.
     Heimilt er í samráði við viðkomandi sóknarnefnd og sóknarprest og/eða sjúkrahúsprest að ráða djákna til starfa á sjúkrastofnun.
     Til að hljóta ráðningu og vígslu sem djákni þarf hlutaðeigandi að hafa lokið viðeigandi prófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands og hlotið tilskilda starfsþjálfun á vegum þjóðkirkjunnar. Hafi umsækjandi um djáknastarf lokið prófi frá erlendum djáknaskóla skal biskup Íslands leita umsagnar guðfræðideildar Háskóla Íslands.
     Um þjónustu djákna fer nánar eftir ákvæðum í starfsreglum, sbr. 59. gr.

10. Sóknir og prestaköll.
Almennt.

48. gr.

     Sóknin er grunneining þjóðkirkjunnar og starfsvettvangur hennar á hverjum stað. Ein eða fleiri sóknir mynda prestakall.

49. gr.

     Kirkjusókn er félag þess fólks innan þjóðkirkjunnar sem býr innan sóknarmarka.
     Kirkjusókn er sjálfstæð fjárhagsleg og félagsleg eining en tengist öðrum sóknum innan sama prestakalls, ef um það er að ræða, með samstarfi eða á annan hátt sem héraðsfundur kann að mæla fyrir um eða einstakar sóknarnefndir stofna til. Þá tengjast kirkjusóknir öðrum sóknum innan prófastsdæmis með sameiginlegum héraðsfundi.
     Sóknarmenn eru allir þeir sem lögheimili eiga í sókn, miðað við 1. desember næstliðinn, hafa hlotið skírn og eru skráðir í þjóðkirkjuna.
     Sóknarmenn eiga rétt á kirkjulegri þjónustu í sókn sinni og bera sameiginlega skyldur eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum eða með lögmæltum ákvörðunum.

Skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma.

50. gr.

     Kirkjuþing setur starfsreglur skv. 59. gr. um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma. Í umræddum starfsreglum skulu m.a. vera reglur varðandi skiptingu kirkjusóknar og sameiningu sókna og um sóknarmörk, svo og um niðurlagningu kirkju eða tilfærslu.

51. gr.

     Þingvallaprestakalli gegni prestur er ráðherra skipar til fimm ára í senn að fengnum tillögum biskups og Þingvallanefndar.

Safnaðarfundir.

52. gr.

     Aðalsafnaðarfund skal að jafnaði halda fyrir maílok ár hvert. Þar skulu rædd málefni sóknarinnar, þar á meðal þau mál sem lögmælt er að undir fundinn séu borin, svo og þau mál sem héraðsfundur, sóknarprestur, prófastur, biskup Íslands eða kirkjumálaráðherra skýtur þangað. Aðalsafnaðarfundur er vettvangur starfsskila og reikningsskila af hendi sóknarnefndar og einstakra nefnda innan sóknarinnar.
     Aðalsafnaðarfundur fer með ákvörðunarvald innan sóknarinnar í málum þeim sem undir fundinn heyra samkvæmt lögum eða lögmæltum ákvörðunum.
     Aðra safnaðarfundi skal halda ef meiri hluti sóknarnefndar óskar þess eða einn fjórði hluti sóknarmanna sem atkvæðisrétt eiga á safnaðarfundum.
     Sóknarmenn njóta kosningarréttar og kjörgengis á safnaðarfundum þegar þeir eru fullra sextán ára.

Skipun, störf og starfshættir sóknarnefnda.
Almennt.

53. gr.

     Í hverri kirkjusókn er sóknarnefnd sem annast rekstur og framkvæmdir á vegum sóknarinnar og styður kirkjulegt starf í sókninni ásamt sóknarpresti og starfsmönnum sóknarinnar.
     Sóknarnefnd skal kosin til fjögurra ára í senn.
     Sóknarnefndarmenn eru þrír í sóknum þar sem sóknarmenn eru færri en 300, en ella fimm, þó svo að þegar sóknarmenn eru 1.000 hið fæsta mega sóknarnefndarmenn vera sjö og níu ef sóknarmenn eru 4.000 eða fleiri, allt miðað við 1. desember næstliðinn. Fjölga skal sóknarnefndarmönnum, ef því er að skipta, á næsta aðalsafnaðarfundi þegar kjör sóknarnefndarmanna á fram að fara, eftir að þeir verða 1.000 eða 4.000 hið fæsta. Nú fækkar sóknarmönnum niður fyrir greind mörk og ákveður aðalsafnaðarfundur þá hvort fækka skuli sóknarnefndarmönnum.
     Kjósa skal a.m.k. jafnmarga varamenn og aðalmenn eru og taka þeir sæti í forföllum aðalmanna eftir þeirri röð sem þeir voru kosnir í. Heimilt skal sóknarnefnd að kveðja varamenn sér til liðsinnis þegar hún telur ástæðu til.

Hlutverk og starfshættir.

54. gr.

     Sóknarnefnd er ásamt sóknarpresti í fyrirsvari fyrir sóknina gagnvart stjórnvöldum og einstökum mönnum og stofnunum. Hún hefur umsjón með kirkju safnaðarins og safnaðarheimili. Kirkjuþing setur ákvæði um afnot af kirkju og safnaðarheimili í starfsreglur, sbr. 59. gr.
     Sóknarnefnd skal gæta réttinda kirkju og gera prófasti viðvart ef út af bregður.

55. gr.

     Um stöðu, starf og starfshætti sóknarnefnda skal setja nánari ákvæði í starfsreglur, sbr. 59. gr.

Safnaðarfulltrúar.

56. gr.

     Sóknarnefnd kýs safnaðarfulltrúa og varamann hans úr sínum hópi til fjögurra ára í senn.

Starfsmenn kirkjusókna.

57. gr.

     Kirkjuþing skal setja ákvæði um stöðu og störf starfsmanna sókna, þar á meðal organista, í starfsreglur, sbr. 59. gr.

Leikmannastefna.

58. gr.

     Biskup Íslands boðar til almennrar leikmannastefnu til að fjalla um málefni leikmanna, safnaða, hlutverk og störf sóknarnefnda, svo og um önnur mál er lúta að þjónustu kirkjunnar við söfnuði landsins og kristileg félagasamtök. Nánari reglur um leikmannastefnu skal setja í starfsreglur, sbr. 59. gr.

IV. KAFLI
Starfsreglur.

59. gr.

     Um aðra starfsmenn þjóðkirkjunnar en þá sem fyrr hafa verið taldir fer eftir almennum reglum um starfshætti hennar er kirkjuþing setur og hafi að geyma nánari fyrirmæli um stjórnun og starfshætti kirkjunnar á grundvelli laga þessara. Í reglum þessum skal m.a. kveðið á um hlutverk starfsmanna þjóðkirkjunnar eftir því sem við getur átt.
     Kirkjuþing setur jafnframt nánari reglur um tiltekna þætti kirkjustarfsins sem eigi er fjallað um í hinum almennu reglum sem getið er um í 1. mgr. Þá staðfestir kirkjuþing stofnskrár og nánari reglur um stjórn og starfsemi stofnana er starfa á vegum þjóðkirkjunnar en kirkjuráð staðfestir endurskoðaða reikninga þeirra stofnana og birtir þá síðan í skýrslu sinni til kirkjuþings.
     Kirkjuráð gefur út reglur þær og stofnskrár er um ræðir í 1. og 2. mgr. ásamt breytingum sem kunna að verða gerðar á þeim. Skulu reglur og stofnskrár, sem og breytingar á þeim, birtast á prenti í síðasta lagi innan fjögurra vikna frá því að kirkjuþing samþykkti þær. Ber kirkjuráði að hafa eftirlit með því að eintök þeirra séu aðgengileg fyrir almenning frá þeim tíma, auk þess sem kirkjuráð annast dreifingu þeirra og kynningu með tilhlýðilegum hætti.
     Hafi eigi verið á annan veg mælt í reglum þeim sem hér um ræðir öðlast þær, sem og breytingar, bindandi gildi á þrítugasta degi frá útgáfudegi þeirra. Eftir þann tíma ber öllum starfsmönnum þjóðkirkjunnar, sem og öðrum þeim sem reglunum er ætlað að binda, að fara eftir þeim.

V. KAFLI
Launagreiðslur og réttarstaða starfsmanna.

60. gr.

     Ríkið standi skil á launum biskups Íslands, vígslubiskupa, 138 starfandi presta og prófasta þjóðkirkjunnar og 18 starfsmanna biskupsstofu.
     Fjölgi skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við þjóðskrá í árslok 1996 skal ríkið greiða laun eins prests til viðbótar því sem greinir í 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við þjóðskrá í árslok 1996 lækkar tala starfandi presta í 1. mgr. um einn. Sama á við um frekari fækkun.
     Fjölgi prestum um tíu, sbr. það sem greinir í 2. mgr., skal ríkið greiða laun eins starfsmanns á biskupsstofu til viðbótar því sem greinir í 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki prestum um tíu, sbr. það sem greinir í 2. mgr., lækkar tala starfsmanna á biskupsstofu í 1. mgr. um einn. Sama á við um frekari fækkun.
     Um greiðslu launa til framangreindra starfsmanna þjóðkirkjunnar fer eftir lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, með áorðnum breytingum, eða lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, með áorðnum breytingum, eftir því sem við getur átt.
     Launagreiðslur annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar eru ríkinu óviðkomandi.

61. gr.

     Þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar, sem þiggja laun úr ríkissjóði, sbr. 60. gr., njóta réttinda og bera skyldur sem opinberir starfsmenn eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum nr. 70/1996, svo og öðrum lögum er kveða á um réttarstöðu opinberra starfsmanna, sbr. þó 12. og 13. gr.
     Nánari ákvæði um réttarstöðu starfsmanna þjóðkirkjunnar skulu sett í starfsreglur, sbr. 59. gr.

VI. KAFLI
Jarðeignir kirkna.

62. gr.

     Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, eru eign íslenska ríkisins. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
     Greiðslur til Kristnisjóðs vegna seldra kirkjujarða falla niður. Þó skal ríkissjóður greiða árlega, næstu átta ár, upphæð er svarar til fastra árslauna eins sóknarprests.

VII. KAFLI
Gildistaka og brottfall laga.

63. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.

64. gr.

     Við gildistöku laga þessara falla eftirtalin lagaákvæði brott svo sem hér segir:
 1. 1. mgr. 3. gr., 7. gr., 1. mgr. 8. gr., 9.–19. gr., 1. málsl. 1. mgr. 27. gr. og 35.–45. gr. laga nr. 62/1990, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands.
 2. 1.–2. gr., 11. gr., 14.–15. gr., 1. mgr. 16. gr., 19. gr., 22. gr., 29. gr. og 36. gr. laga nr. 25/1985, um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl.
 3. 1.–5. gr., 1. mgr. 12. gr., 13. gr. og II. kafli laga nr. 48/1982, um kirkjuþing og kirkjuráð íslensku þjóðkirkjunnar.
 4. 1. gr. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 96/1980, um biskupskosningu.
 5. 1. gr. laga nr. 44/1987, um veitingu prestakalla.
 6. B-liður 19. gr. og b- og c-liður 20. gr. laga nr. 35/1970, um Kristnisjóð o.fl.
 7. Í stað orðanna „Kirkjuráð“ og „kirkjuráðs“ í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 137/1993, um prestssetur, kemur: Kirkjuþing, og: kirkjuþings.

     Eftirtalin lög falla úr gildi 31. desember 1998:
 1. Lög nr. 96/1980, um biskupskosningu.
 2. Lög nr. 48/1982, um kirkjuþing og kirkjuráð íslensku þjóðkirkjunnar.
 3. Lög nr. 25/1985, um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl.
 4. Lög nr. 44/1987, um veitingu prestakalla.
 5. Lög nr. 62/1990, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands.


Samþykkt á Alþingi 13. maí 1997.