Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 672, 122. löggjafarþing 343. mál: fæðingarorlof (feður).
Lög nr. 147 29. desember 1997.

Lög um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof.


I. KAFLI
Breytingar á lögum um fæðingarorlof, nr. 57/1987, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Auk réttar foreldra skv. 1. mgr. á faðir rétt á tveggja vikna fæðingarorlofi sem taka má hvenær sem er fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu eða heimkomu barns, þó skal réttur föður vera fjórar vikur ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarleg veikindi móður. Jafnframt á faðir rétt á fæðingarorlofi í tvær vikur til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt. Notfæri faðir sér ekki rétt samkvæmt þessari málsgrein fellur hann niður.
     Réttur föður til fæðingarorlofs er bundinn því skilyrði að hann sé í hjúskap eða skráðri óvígðri sambúð með móður barnsins.

2. gr.

     Í stað orðanna „hluta fæðingarorlofs“ í 3. málsl. 4. gr. laganna kemur: fæðingarorlof.

II. KAFLI
Breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

3. gr.

     Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr. a, svohljóðandi:
     Faðir á rétt á tveggja vikna fæðingarorlofi sem taka má hvenær sem er fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu eða heimkomu barns, þó skal réttur föður vera fjórar vikur ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarleg veikindi móður. Jafnframt á faðir rétt á fæðingarorlofi í tvær vikur til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt. Notfæri faðir sér ekki rétt samkvæmt þessari málsgrein fellur hann niður.
     Réttur föður til fæðingarorlofs er bundinn því skilyrði að hann sé í hjúskap eða skráðri óvígðri sambúð með móður barnsins.
     Faðir í fæðingarorlofi á rétt á greiðslu fæðingarstyrks í hlutfalli við lengd orlofsins. Þá á hann rétt á hlutfallslegri greiðslu fæðingardagpeninga í samræmi við ákvæði d-liðar 16. gr.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Ákvæði laga þessara skulu gilda um þá feður sem geta nýtt sér rétt samkvæmt lögunum við gildistöku þeirra.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1997.