Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1108, 122. löggjafarþing 151. mál: verslunaratvinna (heildarlög).
Lög nr. 28 8. apríl 1998.

Lög um verslunaratvinnu.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Lög þessi taka til verslunar í atvinnuskyni hvort sem hún er gerð fyrir eigin reikning eða reikning annars manns eða í eigin nafni eða í nafni annars manns.
     Með orðinu verslun er átt við hvers kyns milligöngu um yfirfærslu á beinum eignarrétti að lausafé.
     Lög þessi taka þó ekki til sérákvæða annarra laga sem setja sérstök skilyrði varðandi tilteknar vörur eða tilteknar atvinnugreinar.
     Verði ágreiningur um hvort um verslun fari samkvæmt lögum þessum sker firmaskrárritari úr honum innan þrjátíu daga. Þeim úrskurði má áfrýja til viðskiptaráðuneytisins innan þrjátíu daga frá því að kæranda berst tilkynning um úrskurð firmaskrárritara. Úrskurður ráðuneytisins skal liggja fyrir innan þrjátíu daga frá því að kæra er móttekin.

2. gr.

     Til að stunda verslun á Íslandi eða í íslenskri landhelgi skal uppfylla skilyrði laga þessara og atvinnustarfsemin skal skráð í samræmi við lög um fyrirtækjaskrá, firmu og prókúruumboð.

3. gr.

     Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:
      föst starfsstöð: húsnæði eða annað rými þar sem rekin er, staðbundið og reglulega, verslun í atvinnuskyni,
      hreyfanleg starfsstöð: rými sem er færanlegt og þar sem rekin er reglulega verslun í atvinnuskyni, svo sem bifreiðar og dráttarvagnar,
      markaður: verslun í atvinnuskyni sem fram fer utan fastrar starfsstöðvar, hvort heldur sem er innan eða utan húss (sala á torgum),
      farandsala: verslun í atvinnuskyni utan fastrar starfsstöðvar, þar með taldar hreyfanlegar starfsstöðvar og markaðir,
      sjálfsali: tæki sem notað er til verslunar og afhendingar vöru gegn endurgjaldi.

II. KAFLI
Almenn skilyrði fyrir rétti til að stunda verslun.

4. gr.

     Skylt er að skrásetja í firma- eða hlutafélagaskrá eftir því sem við á verslun sem stunduð er skv. 1. gr. þessara laga.
     Dánarbú eða gjaldþrotabú hefur rétt til að stunda áfram verslun í samræmi við ákvæði laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.

5. gr.

     Á hinni föstu starfsstöð skal vera nafnspjald með nafni, kennitölu og heimilisfangi þess sem hefur skráð verslunarrekstur. Sjálfsalar skulu einnig merktir með sama hætti. Á bréfsefni, pöntunareyðublöðum og svipuðum skjölum þess sem skráð hefur verslun skal greina heiti verslunar, kennitölu og heimilisfang. Sama á við um verslun með fjarskiptatækni (fjarsölu) að svo miklu leyti sem því verður við komið.
     Ef kaupandi óskar þess er hverjum þeim sem stundar farandsölu samkvæmt ákvæðum laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim skylt að afhenda kaupanda nafnspjald með nafni, kennitölu og heimilisfangi þess sem skráð hefur verslunarrekstur.

6. gr.

     Firmaskrárritari lætur í té staðfestingu á því að verslun hafi verið skráð samkvæmt lögum þessum.

7. gr.

     Að því leyti sem ekki eru sett ákvæði um það í lögum þessum skulu samþykktir sveitarstjórna gilda um réttindi og skyldur þeirra sem stunda farandsölu, hvort sem hún er stunduð í atvinnuskyni eða ekki.

III. KAFLI
Um sölu notaðra lausafjármuna.

8. gr.

     Þegar notuðum lausafjármunum er veitt móttaka til endursölu eða umboðssölu skulu þeir skráðir og verðmerktir.

9. gr.

     Heimilt er ráðherra með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd skráningar og varðveislu skrárinnar.

10. gr.

     Sá sem verslun rekur samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal jafnan sýna fyllstu aðgát við kaup og sölu notaðra lausafjármuna. Telji hann ástæðu til skal hann krefja seljanda um persónuskilríki.
     Óheimilt er að kaupa eða veita móttöku notuðum lausafjármunum til endursölu frá ólögráða aðila.

IV. KAFLI
Um sölu notaðra ökutækja.

11. gr.

     Ákvæði þessa kafla gilda um sölu notaðra skráningarskyldra ökutækja sem fram fer með eftirgreindum hætti:
  1. Milliganga um sölu notaðra skráningarskyldra ökutækja þegar slík viðskipti eru þáttur í atvinnustarfsemi milligönguaðilans.
  2. Sala á notuðum skráningarskyldum ökutækjum í eigu seljandans þegar slík viðskipti eru þáttur í atvinnustarfsemi hans.

     Ákvæði þessa kafla taka ekki til nauðungarsölu notaðra ökutækja.

12. gr.

     Hver sá sem vill reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki skal hafa til þess sérstakt leyfi viðskiptaráðherra.
     Viðskiptaráðuneytið skal halda skrá yfir þá sem leyfi hafa til starfsemi samkvæmt kafla þessum.
     Heimilt er bifreiðasala að leggja inn til ráðuneytisins starfsleyfi sitt. Óheimilt er honum að segja upp starfsábyrgðartryggingu sinni fyrr en að fenginni staðfestingu ráðuneytisins á innlögn leyfisins.
     Verslun á grundvelli starfsleyfis skv. 1. mgr. skal rekin á fastri starfsstöð. Á fastri starfsstöð skal framkvæmdastjóri eða yfirmaður viðkomandi starfsemi fullnægja skilyrðum 1.–6. tölul. 1. mgr. 13. gr. Ákvæði 6. tölul. á þó ekki við um útibú hlutafélags eða einkahlutafélags sem hlotið hefur leyfi til sölu notaðra ökutækja.

13. gr.

     Leyfi skv. 12. gr. skal veitt til fimm ára í senn og verður einungis veitt einstaklingum eða lögaðilum sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
  1. Eru búsettir á Íslandi.
  2. Hafa náð tuttugu ára aldri.
  3. Eru lögráða og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og lögum um sölu notaðra ökutækja.
  4. Hafa forræði á búi sínu.
  5. Hafa lagt fram skírteini því til sönnunar að þeir hafi tekið ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi, aflað sér bankatryggingar eða lagt fram aðrar tryggingar sem ráðherra metur gildar og bæta viðskiptamönnum tjón er þeir kunna að baka þeim með störfum sínum sem bifreiðasalar. Nánari ákvæði um ábyrgðartrygginguna, m.a. um lágmarksfjárhæð og vátryggingarskilmála, skulu ákveðin með reglugerð.
  6. Hafa sótt námskeið og lokið þar prófi samkvæmt prófkröfum sem settar eru í reglugerð sem ráðherra ákveður. Kostnað vegna námskeiða og prófa skal greiða með kennslu- og prófgjöldum er viðskiptaráðuneytið ákveður. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði mæli sérstakar ástæður með því.

     Meiri hluti stjórnarmanna lögaðila skal fullnægja skilyrðum 1.–4. tölul. 1. mgr. Þó eru stjórnarmenn, sem búsettir eru í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, undanþegnir búsetuskilyrðum 1. tölul. Ráðherra getur veitt ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.
     Aðili sem sviptur hefur verið leyfi skv. 19. gr. skal sitja námskeið og standast prófkröfur, sbr. 6. tölul., áður en honum er veitt starfsleyfi á ný.

14. gr.

     Bifreiðasali skal afla upplýsinga, sem staðfestar skulu skriflega af seljanda, um akstur og ástand skráningarskylds ökutækis, svo og annarra þeirra upplýsinga sem kaupanda eru nauðsynlegar vegna kaupanna. Gögn þessi skulu fylgja afsali og skal bifreiðasali jafnframt varðveita þau í eitt ár frá söludegi viðkomandi ökutækis.
     Þá skal fylgja vottorð úr ökutækjaskrá sem sýnir ótvírætt að seljandi sé eigandi þess ökutækis sem selt er eða hafi umboð til sölunnar. Bifreiðasali skal staðfesta að fullnægjandi ástandslýsing, sbr. 1. mgr., fylgi ökutæki og einnig skal hann staðreyna upplýsingar um eiganda þess og hvort veðbönd hvíli á ökutækinu.
     Ráðherra er heimilt með reglugerð að mæla fyrir um þær lágmarksupplýsingar sem lagðar skulu fram við sölu notaðra ökutækja og fram eiga að koma í kaupsamningi og afsali vegna sölu þeirra. Þar á meðal er ráðherra heimilt að kveða á um sérstaka skrá þar sem fram komi fyrri eigendur og tjónaferill viðkomandi ökutækis.

15. gr.

     Bifreiðasali skal í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða. Hann skal gæta þess að viðskiptamenn hans njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör, svo og þess að aðila séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir skilmálar í samningum. Bifreiðasali ber ábyrgð á verkum starfsmanna sinna við sölu ökutækja sem væru þau verk hans sjálfs. Bifreiðasali skal, áður en gengið er frá afsali notaðs ökutækis, greina kaupanda með sannanlegum hætti frá þeim rétti hans að láta óháðan aðila meta ástand ökutækis, svo sem faggilta skoðunarstofu eða faggilt skoðunarverkstæði. Kostnað við slíkt mat skal kaupandi greiða nema um annað verði samið.
     Bifreiðasali skal með áberandi hætti vekja athygli á gjaldskrá fyrir söluþóknun, þar á meðal þegar um skipti á bifreiðum er að ræða. Einnig er skylt að leyfisbréf vegna starfseminnar liggi frammi á starfsstöð.
     Hafi bifreiðasali ástæðu til að ætla að ástandi ökutækis sé ábótavant ber honum að vekja athygli kaupanda á þeim annmarka.

16. gr.

     Bifreiðasali skal annast um að endanlega sé gengið frá kaupsamningi, afsali og öðrum skjölum vegna viðskipta á hans vegum og skal geta þess í skjölunum, þar á meðal í kauptilboðum, kaupsamningum, afsölum og skuldabréfum, hver samið hafi og greina nafn hans svo að eigi verði um villst.
     Bifreiðasali skal ábyrgjast að tilkynning um eigendaskipti sé send ökutækjaskrá án tafar.

17. gr.

     Hyggist bifreiðasali, fyrirtæki er hann starfar við eða aðrir starfsmenn við sölu notaðs ökutækis selja eigið ökutæki eða kaupa ökutæki sem þessum aðila hefur verið falið að annast sölu á skal viðskiptamanni kynnt það sérstaklega og þess jafnframt getið í kaupsamningi. Sama gildir um maka og náin skyldmenni bifreiðasala eða starfsmanna við söluna.

18. gr.

     Þeim einum er rétt að nefna sig bifreiðasala sem fengið hefur leyfi til sölu notaðra ökutækja samkvæmt lögum þessum.

19. gr.

     Eftirlit með starfsemi bifreiðasala er í höndum lögreglustjóra í því umdæmi þar sem starfsstöð bifreiðasala er.
     Nú fylgir bifreiðasali ekki lögum og reglum sem um starfsemi þessa gilda þrátt fyrir tilmæli lögreglustjóra eða fullnægir ekki lengur skilyrðum laganna og skal þá lögreglustjóri tilkynna það viðskiptaráðherra sem sviptir viðkomandi starfsleyfi.
     Nú rekur aðili starfsemi sem leyfi þarf til samkvæmt lögum þessum án tilskilinna réttinda og skal þá lögreglustjóri þegar í stað stöðva þá starfsemi, þar á meðal með lokun starfsstöðvar.

V. KAFLI
Frjáls uppboð.

20. gr.

     Þeim sem hafa skráð verslunarrekstur samkvæmt lögum þessum er heimilt að selja lausafjármuni á frjálsu uppboði nema aðrar takmarkanir séu gerðar í lögum eða reglum settum samkvæmt þeim.
     Frjáls uppboð utan fastrar starfsstöðvar eru háð leyfi lögreglustjóra í umdæmi því þar sem uppboð skal haldið hverju sinni. Rétt er lögreglustjóra að synja um leyfi ef almannahagsmunir krefjast eða hann telur að skipulagi uppboðsins sé verulega áfátt. Þetta á þó ekki við frjálst uppboð á listmunum sem fram fer í öðru húsnæði en fastri starfsstöð.

21. gr.

     Sá sem ber ábyrgð á frjálsu uppboði er í kafla þessum nefndur uppboðsstjóri.

22. gr.

     Uppboðsstjórar mega hvorki gera boð á uppboði sjálfir né láta aðra gera það fyrir sína hönd.

23. gr.

     Uppboðsstjóri skal kynna uppboðsskilmála skriflega og skulu þeir lesnir áður en uppboð hefst.
     Í uppboðsskilmálum skal gera grein fyrir gjöldum, er leggjast ofan á söluverð, greiðsluskilmálum, ef ekki er um staðgreiðslu að ræða, ásamt öðrum skilmálum sem uppboðsstjóra er skylt að geta og því hvenær ábyrgð á hinu selda flyst úr hendi seljanda til kaupanda.
     Kaupandi uppboðsmunar getur ekki borið fyrir sig galla á honum, nema hann svari ekki til þess heitis er hann var auðkenndur með við söluna, seljandi hafi haft svik í frammi eða almennt sé talið óheiðarlegt að skjóta sér undan ábyrgð.
     Uppboð eru opin almenningi og skulu munir vera til sýnis og skoðunar í hæfilegan tíma fyrir uppboðið.
     Þegar sérstaklega stendur á má veita aðilum leyfi til að halda lokað uppboð í því skyni að styrkja viðurkennt líknarstarf og kirkjustarf, menntir, vísindi og menningu.
     Á málverk, myndir og listmuni sem seldir eru á listmunauppboðum skal leggja 10% gjald er renni til listamannanna eða erfingja þeirra samkvæmt höfundalögum. Sé höfundaréttur fallinn niður eða fénu verður ekki ráðstafað rennur það til starfslauna handa myndlistarmönnum. Menntamálaráðherra getur sett nánari reglur um ráðstöfun gjaldsins að höfðu samráði við Samband íslenskra myndlistarmanna. Um undanþágu frá virðisaukaskatti vegna sölu á listmunauppboði vísast til 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

VI. KAFLI
Viðurlög við brotum.

24. gr.

     Með brot gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.
     Sá sem vanrækir tilkynningar til firmaskrár samkvæmt lögum þessum skal sæta sektum eða varðhaldi. Heimilt er að krefjast þess að verslun verði afmáð úr firmaskrá í samræmi við lög um fyrirtækjaskrá, firmu og prókúruumboð hafi skráð verslun ítrekað brotið gegn ákvæðum laga er um starfsemina gilda.
     Nú hefur sá sem ábyrgð ber á verslun verið dæmdur til greiðslu sektar vegna brots í starfi sínu og ber firmað þá ábyrgð á greiðslu sektar ef innheimta hefur orðið árangurslaus hjá sökunaut sjálfum. Ef ekki eru ákvæði í refsidómi um ábyrgð firma verður sektin því aðeins innheimt með aðför hjá því að dæmt sé um skyldu þess í sérstöku opinberu máli.
     Brot á samþykktum sveitarstjórna, sem settar verða samkvæmt lögum þessum, varða sektum.

VII. KAFLI
Gildistaka o.fl.

25. gr.

     Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um hana. Fyrir skráningu á verslun samkvæmt lögum þessum greiðist gjald til ríkissjóðs skv. 13. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.

26. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 41/1968, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum, lög nr. 61/1979, um sölu notaðra lausafjármuna, með síðari breytingum, lög nr. 36/1987, um listmunauppboð o.fl., með síðari breytingum, lög nr. 69/1994, um sölu notaðra ökutækja, með síðari breytingum, lög nr. 17/1936, um samþykktir um lokunartíma sölubúða, með síðari breytingum, svo og 1.–5. tölul. 11. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þegar útgefin verslunarleyfi koma til endurnýjunar skal skrá viðkomandi verslunarstarfsemi hjá firma- eða hlutafélagaskrá í samræmi við ákvæði laga þessara. Skráningu á verslunarstarfsemi skal lokið innan fimm ára frá gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 31. mars 1998.