Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1493, 122. löggjafarþing 593. mál: eftirlit með skipum (farþegaflutningar).
Lög nr. 74 15. júní 1998.

Lög um breytingu á lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, með síðari breytingum, og siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum um eftirlit með skipum, nr. 35 30. apríl 1993, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Lögin gilda þó um öll skip sem flytja farþega í atvinnuskyni á sjó, ám eða vötnum án tillits til stærðar.
  2. Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

     Farþegaflutningar í atvinnuskyni, þar með taldar skoðunar- og veiðiferðir ferðamanna, með skipum sem lög þessi gilda um eru háðir leyfi Siglingastofnunar Íslands. Skal slíkt leyfi gefið út þegar leitt er í ljós að fullnægt er ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, svo og ákvæðum annarra laga og reglugerða sem gilda um skip í farþegaflutningum. Fyrir slík skip skal fjöldi í hverri áhöfn ákveðinn af Siglingastofnun Íslands með hliðsjón af gerð skips, fyrirkomulagi þess og búnaði, svo og farsviði þess og útivist, þannig að fjöldi í áhöfn og skipting starfa fullnægi skilyrðum um að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi farþega, skipverja og skips. Skipstjóri skal varðveita um borð í skipi skjal er sannar gildi leyfisins. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um útgáfu og skilyrði leyfis samkvæmt þessari málsgrein, svo og um gjald fyrir útgáfu leyfisins.

II. KAFLI
Breyting á siglingalögum, nr. 34 19. júní 1985, með síðari breytingum.

2. gr.

     Við 145. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Farsala sem sjálfur annast flutninginn er skylt að kaupa vátryggingu hjá tryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi gegn tjóni sem hann ber ábyrgð á samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Nú annast farsali ekki flutninginn og er þeim sem flutninginn annast þá skylt að kaupa vátryggingu hjá tryggingafélagi með starfsleyfi hér á landi gegn tjóni sem verða kann og hann ber ábyrgð á samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Vátryggingarfjárhæðir skulu nægja til greiðslu bóta eftir ákvæðum laga þessara um takmörkun ábyrgðar. Skipstjóri skal varðveita um borð í skipi skjal er sannar gildi vátryggingarinnar og framvísa því þegar löggæslumaður eða starfsmaður Siglingastofnunar Íslands krefst þess.

III. KAFLI
Gildistaka.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Hafi Siglingastofnun Íslands fyrir gildistöku laga þessara áritað á haffærisskírteini skips að heimilt sé að stunda farþegaflutninga með skipinu skal slíkt leyfi, þrátt fyrir ákvæði 1. gr., halda gildi sínu til þess tíma er gildistími haffærisskírteinisins rennur út. Eftir þann tíma eru farþegaflutningar með skipinu háðir leyfi skv. 1. gr.
     Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. er þeim sem skylt er að kaupa vátryggingu samkvæmt þeirri grein veittur frestur til þess að kaupa trygginguna til 1. ágúst 1998.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 1998.