Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 514, 123. löggjafarþing 146. mál: leiklistarlög (heildarlög).
Lög nr. 138 23. desember 1998.

Leiklistarlög.


I. KAFLI
Markmið og yfirstjórn.

1. gr.

     Markmið laga þessara er að efla íslenska leiklist og aðrar sviðslistir og búa þeim hagstæð skilyrði.

2. gr.

     Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn leiklistarmála samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI
Þjóðleikhús.

3. gr.

     Þjóðleikhúsið er eign íslensku þjóðarinnar.

4. gr.

     Í Þjóðleikhúsinu skal iðka leiklist og þær listgreinar aðrar sem leiksviði eru tengdar.
     Þjóðleikhúsið skal í starfsemi sinni leitast við að glæða áhuga landsmanna á þessum listgreinum og stuðla að þróun þeirra. Það skal kosta kapps um að efla íslenska leikritun og vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna og meðferð íslenskrar tungu.

5. gr.

     Aðalverkefni Þjóðleikhússins er flutningur íslenskra og erlendra sjónleikja. Jafnframt skal það standa að flutningi á óperum og söngleikjum og listdanssýningum.
     Á hverju leikári skulu eitt eða fleiri viðfangsefni sérstaklega ætluð börnum.
     Á vegum Þjóðleikhússins skulu árlega farnar leikferðir sem víðast um landið. Einnig skulu farnar leikferðir til annarra landa og fengnir til Íslands erlendir listamenn, hvort tveggja eftir því sem aðstæður leyfa.

6. gr.

     Menntamálaráðherra skipar þjóðleikhússtjóra til fimm ára í senn, að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs. Skipaður skal maður með menntun á sviði lista og staðgóða þekkingu á starfi leikhúsa. Ætíð skal auglýsa embættið laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils.
     Þjóðleikhússtjóri er stjórnandi leikhússins og markar listræna stefnu þess í samráði við þjóðleikhúsráð. Hann stýrir leikhúsinu samkvæmt samþykktri starfs- og fjárhagsáætlun og ber ábyrgð á rekstri þess, bæði listrænum og fjárhagslegum.

7. gr.

     Menntamálaráðherra skipar fimm manna þjóðleikhúsráð. Félag íslenskra leikara tilnefnir einn fulltrúa og Félag leikstjóra á Íslandi annan en þrír eru skipaðir án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna. Ráðið skal skipað til fjögurra ára í senn, þó þannig að starfstími þeirra fulltrúa sem skipaðir eru án tilnefningar takmarkast við embættistíma ráðherrans sitji hann skemur. Fulltrúi starfsmanna leikhússins, kjörinn úr hópi þeirra til eigi skemmri tíma en eins árs í senn, á sæti á fundum þjóðleikhúsráðs með málfrelsi og tillögurétti.
     Þjóðleikhúsráð er stjórnarnefnd Þjóðleikhússins og skulu allar meiri háttar ákvarðanir um leikhúsreksturinn bornar undir ráðið. Það vinnur með þjóðleikhússtjóra að langtímaáætlun um starfsemina. Árleg starfs- og fjárhagsáætlun skal lögð fyrir þjóðleikhúsráð til samþykktar og ráðið hefur eftirlit með framkvæmd hennar.

8. gr.

     Um innra starfsskipulag Þjóðleikhússins má kveða á í reglugerð að fengnum tillögum þjóðleikhúsráðs.

9. gr.

     Þjóðleikhússtjóri ræður starfsmenn leikhússins og gerir við þá starfssamninga í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

10. gr.

     Þjóðleikhúsið skal kosta kapps um hagkvæmt samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna leiklist og öðrum þeim listgreinum er starfi þess tengjast. Það skal eftir föngum veita leikfélögum áhugamanna lið og gera leiklistarnemendum kleift að fylgjast með leikhússtarfinu.

11. gr.

     Þegar Þjóðleikhúsbyggingin er ekki notuð til reglubundinnar starfsemi leikhússins samkvæmt þessum lögum má nota hana til annarrar menningarstarfsemi.

12. gr.

     Kostnaður af rekstri Þjóðleikhússins greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum og eigið aflafé leikhússins hrekkur ekki til.

13. gr.

     Þjóðleikhúsbyggingin stendur ekki til tryggingar skuldbindingum Þjóðleikhússins.

III. KAFLI
Önnur leiklistarstarfsemi.

14. gr.

     Auk framlaga til Þjóðleikhússins veitir Alþingi árlega fé í fjárlögum til stuðnings annarri leiklistarstarfsemi, bæði atvinnumanna og áhugaleikfélaga. Slíkur fjárstuðningur getur auk almennrar leikstarfsemi tekið til barnaleikhúsa, brúðuleikhúsa, óperustarfsemi og listdans.
     Að því leyti sem framlög til einstakra aðila eru ekki ákveðin í fjárlögum hverju sinni annast menntamálaráðuneytið úthlutun þess fjár sem veitt er samkvæmt þessari grein. Úthlutun styrkja til atvinnuleikhópa skal ákveðin að fengnum tillögum leiklistarráðs, sbr. 17.–18. gr., en til starfsemi áhugaleikfélaga að fengnum tillögum Bandalags íslenskra leikfélaga. Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um undirbúning og tilhögun styrkveitinga.
     Um veitingu starfslauna til leikhúslistafólks fer samkvæmt ákvæðum laga um listamannalaun, nr. 35/1991, með síðari breytingum.

15. gr.

     Sveitarstjórnir veita fé til leiklistarstarfsemi í sveitarfélögum eftir því sem ákveðið er í árlegri fjárhagsáætlun þeirra.

16. gr.

     Heimilt er menntamálaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs að gera tímabundinn samning við rekstraraðila atvinnuleikhúss og hlutaðeigandi sveitarfélag eða sveitarfélög um fjárstuðning við leikhúsið, með fyrirvara um fjárveitingar í fjárlögum á samningstímanum. Heimilt er einnig að gera slíka samninga við lögaðila, félög eða stofnanir á sviði listdans, óperu og annarra sviðslista.
     Í þessum efnum skal taka sérstakt tillit til leiklistarstofnana og félaga sem lengi hafa notið fjárhagslegs stuðnings úr ríkissjóði.

IV. KAFLI
Leiklistarráð.

17. gr.

     Menntamálaráðherra skipar leiklistarráð til tveggja ára í senn. Í ráðinu skulu eiga sæti þrír fulltrúar. Leiklistarsamband Íslands tilnefnir einn, Bandalag sjálfstæðra atvinnuleikhúsa einn en einn er skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalfulltrúa í leiklistarráði meira en tvö starfstímabil í röð.

18. gr.

     Leiklistarráð gerir tillögu til menntamálaráðuneytisins um úthlutun fjár sem veitt er í fjárlögum til stuðnings atvinnuleikhópum, sbr. 14. gr.
     Ráðið veitir umsögn um leiklistarerindi sem menntamálaráðuneytið vísar til þess og getur einnig að eigin frumkvæði beint ábendingum og tillögum til ráðuneytisins um leiklistarmálefni.
     Þóknun fulltrúa í leiklistarráði og annar kostnaður við störf ráðsins greiðist úr ríkissjóði.

V. KAFLI
Önnur ákvæði.

19. gr.

     Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. Heimilt er að ákvæði er taka til starfsemi Þjóðleikhússins séu sett í sérstakri reglugerð.

20. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Um leið falla úr gildi leiklistarlög, nr. 33/1977, með síðari breytingum, og lög nr. 58/1978, um Þjóðleikhús, með síðari breytingum. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 35/1991, um listamannalaun, sbr. 9. gr. laga nr. 144/1996, breytist á þá lund að í stað orðanna „framkvæmdastjórn leiklistarráðs“ kemur: leiklistarráði.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Að loknum ráðningartíma núverandi þjóðleikhússtjóra skal miða upphaf skipunartíma þjóðleikhússtjóra samkvæmt þessum lögum við 1. janúar.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 1998.