Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 510, 123. löggjafarþing 115. mál: almenn hegningarlög (mútur til opinbers starfsmanns).
Lög nr. 147 22. desember 1998.

Lög um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (mútur til opinbers starfsmanns).


1. gr.

     Við 6. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fyrir háttsemi, sem greinir í samningi um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum frá 21. nóvember 1997.

2. gr.

     109. gr. laganna, sbr. 33. gr. laga nr. 82/1998, orðast svo:
     Hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni gjöf eða annan ávinning til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að 3 árum eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi.
     Sömu refsingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opinberum starfsmanni eða starfsmanni opinberrar alþjóðastofnunar í því skyni að ná eða halda viðskiptum eða öðrum ótilhlýðilegum ávinningi í alþjóðaviðskiptum.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 1998.