Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 958, 123. löggjafarþing 350. mál: fangelsi og fangavist (samfélagsþjónusta).
Lög nr. 22 16. mars 1999.

Lög um breyting á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. mgr. 6. gr. laganna, sbr. 24. gr. laga nr. 83/1997, orðast svo:
     Í fangelsum skal starfa hæfilegur fjöldi fangavarða og annars starfsliðs. Ráðherra skipar yfirfangaverði til fimm ára í senn. Forstjóri fangelsismálastofnunar skipar fangaverði til fimm ára í senn. Áður en fangavörður er skipaður til starfa skal hann hafa lokið prófi frá Fangavarðaskóla ríkisins. Forstöðumaður fangelsis ræður aðra starfsmenn.

2. gr.

     Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Einnig getur fangelsismálastofnun leyft fanga að ljúka afplánun utan fangelsis enda stundi hann vinnu eða nám sem fangelsismálastofnun hefur samþykkt, búi á sérstakri stofnun eða heimili þar sem hann er undir eftirliti og vinnan eða námið er liður í aðlögun hans að samfélaginu á ný. Fangi skal greiða gjöld sem slíkar stofnanir eða heimili innheimta hjá vistmönnum.

3. gr.

     1. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
     Fangi skal vera einn í klefa nema sérstakar aðstæður eða húsrými komi í veg fyrir það og skal klefinn vera læstur að næturlagi. Fangelsismálastofnun getur ákveðið að klefar séu ólæstir í tilteknum fangelsum eða fangelsisdeildum eða í öðrum tilvikum þegar sérstakar ástæður mæla með.

4. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: Ef sérstakar ástæður mæla með er þó heimilt að víkja frá 1. og 2. tölul. 1. mgr. 23. gr.

5. gr.

     Á eftir IV. kafla laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 123/1997, kemur nýr kafli, IV. kafli A, Fullnusta vararefsingar með samfélagsþjónustu, með tveimur nýjum greinum, 26. gr. a og 26. gr. b, svohljóðandi:
     
     a. (26. gr. a.)
     Nú innheimtist fésekt ekki og lögreglustjóri hefur ákveðið að maður skuli afplána vararefsingu hennar og er þá heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta vararefsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 20 klukkustundir og mest 480 klukkustundir.
     Hafi dómþoli í einni eða fleiri refsiákvörðun verið dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi og gert að greiða fésekt verður vararefsing ekki fullnustuð með samfélagsþjónustu ef samanlögð fangelsisrefsing og vararefsing er lengri en eitt ár. Sama gildir ef fullnusta á í einu lagi vararefsingu samkvæmt fleiri en einni sektarákvörðun.
     
     b. (26. gr. b.)
     Ákvæði 23.–26. gr. laganna gilda um fullnustu vararefsingar samkvæmt þessum kafla að öðru leyti en því að í stað þess að umsókn um afplánun vararefsingar með samfélagsþjónustu sé send fangelsismálastofnun skal sektarþoli senda lögreglustjóra slíka beiðni skriflega eigi síðar en sjö dögum eftir að honum barst tilkynning um fyrirhugaða afplánun vararefsingar.
     Þegar lögreglustjóra berst beiðni um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu skal hann framsenda fangelsismálastofnun beiðnina til ákvörðunar ásamt gögnum máls og umsögn sinni.

6. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1999. Þó skal 5. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2000.

Samþykkt á Alþingi 3. mars 1999.