Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 534, 125. löggjafarþing 22. mál: iðnaðarlög (meistarabréf, útgáfa sveinsbréfa o.fl.).
Lög nr. 133 31. desember 1999.

Lög um breytingu á iðnaðarlögum, nr. 42 18. maí 1978, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
     Iðngreinar, sem reknar eru sem handiðnaður og löggiltar hafa verið í reglugerð iðnaðarráðherra, skulu ávallt reknar undir forstöðu meistara. Um löggildingu skal hafa samráð við menntamálaráðherra og landssamtök meistara og sveina.

2. gr.

     1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Hver maður getur leyst til sín meistarabréf ef hann fullnægir skilyrðum 3. gr., hefur lokið sveinsprófi, unnið síðan undir stjórn meistara í iðngrein sinni eitt ár minnst og jafnframt lokið meistaraprófi í iðninni frá meistaraskóla. Eigi sveinn ekki völ á starfi undir stjórn meistara í nýrri iðngrein sinni fyrstu fimm árin eftir löggildingu hennar telst tveggja ára starf hans í þeirri grein jafngilt starfi hjá meistara en lögreglustjóri skal gefa viðkomandi félagi iðnaðarmanna, m.a. landssamtökum meistara og sveina, kost á að segja álit sitt á því hvort völ sé á slíku starfi. Sama gildir í iðngreinum þar sem ekki er starfandi meistari eða þar sem sveinn á af öðrum ástæðum sannanlega engan kost á starfi undir stjórn meistara.

3. gr.

     Í stað 3. mgr. 12. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Iðnaðarráðherra gefur út sveinsbréf.
     Greiða skal gjald samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs fyrir iðnaðarleyfi, meistarabréf og sveinsbréf.

4. gr.

     Í stað orðanna „til missis iðnaðarleyfis og meistarabréfs“ í 16. gr. laganna kemur: til missis iðnaðarleyfis, meistarabréfs og sveinsbréfs.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Samtímis fellur úr gildi 3. málsl. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1999.