Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 971, 125. löggjafarþing 237. mál: þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 15 14. apríl 2000.

Lög um breyting á ýmsum lögum vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.


I. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

1. gr.

     Á eftir orðunum „28. maí 1970“ í 1. mgr. 8. gr. a laganna, sbr. lög nr. 72/1993, kemur: eða alþjóðlegum samningum innan Schengen-samstarfsins.

II. KAFLI
Breyting á lögum um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl., nr. 69 12. desember 1963.

2. gr.

     Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, er orðast svo:
     Hafi dómþoli komið sér undan fullnustu refsingar að hluta til eða í heild með því að flýja til landsins er heimilt eftir beiðni frá til þess bæru stjórnvaldi í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð að úrskurða dómþola í gæsluvarðhald til að tryggja nærveru hans þar til fullnægjandi gögn með beiðni um fullnustu refsingar hafa borist eða ákvörðun um hvort fallist verði á beiðni er tekin. Í stað gæsluvarðhalds má beita úrræðum 110. gr. laga um meðferð opinberra mála ef slík úrræði teljast fullnægjandi til að tryggja nærveru dómþola.

III. KAFLI
Breyting á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13 17. apríl 1984.

3. gr.

     Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Með samningi við önnur ríki má ákveða að tiltekin brot skuli ekki talin stjórnmálaafbrot.

4. gr.

     Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Nú berst beiðni um framsal frá ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu og skulu þá lög þess ríkis gilda um rof fyrningarfrests.

5. gr.

     Á eftir 14. gr. laganna kemur ný grein, 14. gr. a, er orðast svo:
     Nú samþykkir sá sem óskast framseldur til ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu framsal og getur hann þá jafnframt lýst því yfir að heimilt sé að höfða mál gegn honum eða láta hann taka út refsingu í ríkinu, sem biður um framsal, fyrir annan refsiverðan verknað en þann sem greinir í framsalsbeiðni. Slík yfirlýsing er bindandi nema viðkomandi falli frá samþykki fyrir framsali. Samþykki og yfirlýsing skulu bókuð og samþykkt skriflega hjá lögreglu, ákæruvaldi eða í dómi.

6. gr.

     3. mgr. 22. gr. laganna orðast svo:
     Óheimilt er að verða við beiðni ef verknaðurinn sem hún er tilkomin vegna eða sambærilegur verknaður er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða ef hann samkvæmt ákvæðum í 5.–7. gr. getur ekki verið grundvöllur framsals. Síðara skilyrði 1. málsl. gildir ekki gagnvart ríkjum sem taka þátt í Schengen-samstarfinu. Varðandi beiðnir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð gildir fyrra skilyrði 1. málsl. eingöngu vegna stjórnmálaafbrota.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, nr. 56 19. maí 1993.

7. gr.

     Á eftir 1. mgr. 22. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Víkja má frá skilyrðum b-liðar 1. mgr. ef dómþoli hefur komið sér undan fullnustu refsingar að hluta til eða í heild með því að flýja til landsins. Sama gildir ef senda á dómþola úr landi eða vísa honum brott úr ríkinu sem biður um fullnustu.

8. gr.

     Við 25. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Hafi dómþoli komið sér undan fullnustu refsingar að hluta til eða í heild með því að flýja til landsins frá ríki sem biður um fullnustu er heimilt að beiðni þess ríkis að úrskurða dómþola í gæsluvarðhald til að tryggja nærveru hans þar til fullnægjandi gögn með beiðninni hafa borist eða ákvörðun um hvort fallist verði á beiðni er tekin. Í stað gæsluvarðhalds má beita úrræðum 110. gr. laga um meðferð opinberra mála ef slík úrræði teljast fullnægjandi til að tryggja nærveru dómþola.

9. gr.

     Við 2. mgr. 38. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Samþykki dómþola er þó ekki skilyrði þegar dómþoli hefur komið sér undan fullnustu refsingar að hluta til eða í heild með því að flýja frá landinu. Sama gildir ef senda á dómþola úr landi eða vísa honum brott að fullnustu lokinni.

V. KAFLI
Breyting á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996.

10. gr.

     Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr stafliður er orðast svo: að halda málaskrá um kærur sem berast lögreglu um afbrot með öllum nauðsynlegum upplýsingum sem mál varða, dagbók lögreglu með upplýsingum um erindi til lögreglu og úrlausn þeirra, skrá yfir handtekna menn og aðrar skrár sem nauðsynlegar eru í þágu löggæsluhagsmuna til að afstýra yfirvofandi hættu eða sporna við afbrotum. Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um þessar skrár.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um vegabréf, nr. 136 22. desember 1998.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. Orðið „og“ í f-lið fellur brott.
  2. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: hvar og hvenær íslenskir ríkisborgarar skuli bera og sýna vegabréf.


VII. KAFLI
Gildistaka.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 7. apríl 2000.