Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1040, 125. löggjafarþing 328. mál: eftirlit með útlendingum.
Lög nr. 25 9. maí 2000.

Lög um breyting á lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Útlendingur sem kemur til landsins skal, nema annað sé ákveðið í reglum sem dómsmálaráðherra setur, hafa vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki.
     Útlendingur þarf að hafa vegabréfsáritun til að mega koma til landsins nema annað sé ákveðið í reglum sem dómsmálaráðherra setur. Þetta gildir ekki um útlending með dvalarleyfi útgefið af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu. Sama á einnig við um útlending með bráðabirgðadvalarleyfi útgefið af þátttökuríki í samstarfinu, enda hafi hann einnig ferðaskilríki útgefið af sama ríki.
     Vegabréfsáritun útgefin af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu hefur gildi hér á landi ef það kemur fram í árituninni.
     Dómsmálaráðherra getur sett reglur um skyldu til að hafa vegabréfsáritun þegar farið er um flugvöll.
     Samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur má gefa út sérstök ferðaskilríki handa útlendingi sem ekki getur með öðrum hætti aflað sér vegabréfs eða annars kennivottorðs.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Hver sá sem kemur til landsins skal þegar í stað gefa sig fram við vegabréfaeftirlitið eða næsta lögregluyfirvald. Einnig skal hver sá sem fer af landi brott gefa sig fram við vegabréfaeftirlitið eða næsta lögregluyfirvald. Þetta gildir þó ekki um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins.
     Koma til landsins og för úr landi skal fara fram á stöðum og afgreiðslutímum sem dómsmálaráðherra hefur ákveðið með auglýsingu. Með leyfi hlutaðeigandi lögreglustjóra má víkja frá þessu. Einnig er heimilt að fara yfir innri landamæri Schengen-svæðisins utan viðurkenndra landamærastöðva.
     Í reglum sem dómsmálaráðherra setur skal nánar kveðið á um landamæraeftirlit og heimild til að víkja frá ákvæðum 1. og 2. mgr. um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins.

3. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Dómsmálaráðherra getur sett reglur um skyldu stjórnanda loftfars sem kemur til landsins eða fer þaðan, svo og stjórnanda skips sem siglir yfir mörk landhelginnar á leið til eða frá íslenskri höfn, til að láta lögreglunni í té skrá um farþega og áhöfn.

4. gr.

     Við 4. gr. laganna, sbr. lög nr. 133/1993, bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Heimilt er að semja við önnur ríki sem taka þátt í Schengen-samstarfinu um að sendiráð þeirra eða ræðismenn gefi út vegabréfsáritun.

5. gr.

     2. og 3. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
     Útlendingum með dvalarleyfi útgefið af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu er óheimilt án sérstaks leyfis að dvelja hér lengur en þrjá mánuði. Sama á við um útlending með bráðabirgðadvalarleyfi útgefið af þátttökuríki í samstarfinu, enda hafi hann einnig ferðaskilríki útgefið af sama ríki.
     Öðrum útlendingum en greinir í 1. og 2. mgr. er óheimilt án sérstaks leyfis að dvelja hér lengur en þrjá mánuði á sex mánaða tímabili frá þeim degi þegar þeir komu fyrst til landsins eða ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu. Dómsmálaráðherra getur sett reglur um að útlendingar megi dvelja hér lengur ef um það hefur verið samið við önnur ríki.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Ef hann getur ekki framvísað gögnum til staðfestingar á tilgangi dvalar og aðstæðum meðan á dvöl stendur.
  2. Ef hann er skráður í Schengen-upplýsingakerfið í því skyni að honum verði meinuð landganga.
  3. Ef hann telst geta ógnað allsherjarreglu, þjóðaröryggi eða alþjóðasamskiptum ríkisins eða annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Dómsmálaráðherra getur sett reglur um undanþágu frá ákvæðum 1. mgr. að því er varðar útlending sem hefur dvalarleyfi eða vegabréfsáritun útgefna af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.


7. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:
     Útlendingur sem færður er úr landi samkvæmt lögunum skal greiða kostnað af brottför sinni. Útlendingurinn skal einnig greiða kostnað af gæslu eða fylgd með honum úr landi þegar þörf er á slíkum ráðstöfunum vegna þess að útlendingurinn fer ekki úr landi af sjálfsdáðum. Krafan er aðfararhæf og hún getur að auki verið grundvöllur þess að útlendingi verði síðar meinuð landganga. Lögreglunni er heimilt að leggja hald á farseðla sem finnast í fórum útlendings til notkunar við brottför.
     Nú er útlendingi, sem komið hefur til landsins með skipi eða loftfari, meinuð landganga skv. 10. gr. og skal þá eigandi farsins eða leigutaki, og á þeirra vegum stjórnandi þess eða umboðsmaður hér á landi, annaðhvort taka útlendinginn um borð á ný eða flytja hann úr landi á annan hátt eða greiða kostnað sem hið opinbera hefur af því að færa útlendinginn úr landi. Á sama hátt er þeim skylt að taka fylgdarmenn um borð og greiða kostnað af fylgd með útlendingnum úr landi ef lögreglan telur þess þörf.
     Kostnaður við að færa útlending úr landi sem ekki fæst greiddur skv. 1. eða 2. mgr. greiðist úr ríkissjóði.
     Ábyrgð skv. 2. mgr. og 2. mgr. 3. gr. gildir ekki þegar farið er um innri landamæri Schengen-svæðisins.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
 1. Í stað 4. og 5. tölul. 2. mgr. koma þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
  1. Kemur til landsins eða fer úr landi utan landamærastöðva eða afgreiðslutíma þeirra.
  2. Hjálpar útlendingi til að dvelja ólöglega hér á landi eða aðstoðar hann í hagnaðarskyni við að dvelja ólöglega í ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.
  3. Hjálpar útlendingi við að koma ólöglega til landsins eða aðstoðar hann í hagnaðarskyni við að komast ólöglega til annars ríkis sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu.
 2. 6. tölul. 2. mgr. verður 7. tölul.
 3. Við bætist ný málsgrein, sem verður 3. mgr., svohljóðandi:
 4.      Nú er útlendingur fluttur til landsins án þess að hafa fullnægjandi ferðaskilríki og er þá heimilt að gera eiganda flutningsfars, leigutaka eða stjórnanda þess sekt. Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila má gera honum sekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga.
 5. 4. mgr. (er verður 5. mgr.) orðast svo:
 6.      Sá sem á hlutdeild í því að útlendingur kemst ólöglega inn í landið skal, auk refsiábyrgðar, skyldur til að greiða þann kostnað sem fellur á hið opinbera vegna ólöglegrar dvalar útlendingsins hér á landi og heimsendingar hans.


9. gr.

     Við 19. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Íslenskum stjórnvöldum er heimilt að veita erlendum stjórnvöldum upplýsingar um útlendinga vegna beiðni um dvalarleyfi, vegabréfsáritun eða hæli að því marki sem nauðsynlegt er til að fullnægja skuldbindingum Íslands vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu.
     Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um hvaða upplýsingar skulu veittar skv. 2. mgr. og um skilyrði sem þarf að fullnægja til að upplýsingar verði veittar.

10. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 25. mars 2001.

Samþykkt á Alþingi 26. apríl 2000.