Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1397, 125. löggjafarþing 405. mál: varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna.
Lög nr. 82 23. maí 2000.

Lög um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna.


I. KAFLI
Orðskýringar og almenn ákvæði.

1. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð og hugtök merkingu sem hér segir:
  1. Varnarsamningurinn: Varnarsamningur milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Ameríku á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins frá 5. maí 1951 og viðbætir við hann um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra frá 8. maí 1951 sem veitt var lagagildi með lögum nr. 110/1951.
  2. Afleiddir samningar: Samningar milli Íslands og Bandaríkjanna sem byggðir eru á varnarsamningnum samkvæmt orðanna hljóðan eða eðli máls.
  3. Varnarliðið: Liðsmenn í varnarstöð Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli úr herliði Bandaríkjanna og starfslið sem herliðinu fylgir og er í þjónustu þess, enda hafi menn þessir hvorki ríkisfang né fasta búsetu á Íslandi heldur dveljist þar vegna framkvæmdar varnarsamningsins, og skyldulið þeirra. Til varnarliðsins teljast einnig liðsmenn herafla annarra aðildarríkja Norður-Atlantshafssamningsins sem uppfylla sömu skilyrði. Þá teljast til varnarliðsins í skilningi laga þessara einstakar samningsstofnanir herliðs Bandaríkjanna, hvort heldur sjóhers, landhers eða flughers, og aðrir aðilar er fara með gerð samninga fyrir bandarísk stjórnvöld vegna varnarliðsins og starfsemi því tengdrar, hvort sem þau eru staðsett hér á landi eða í öðrum löndum.
  4. Verksamningar: Samningar íslenskra aðila við varnarliðið um framkvæmdir á Íslandi í þágu varna landsins sem unnar eru á kostnað Bandaríkjanna og/eða Atlantshafsbandalagsins.
  5. Samningar um kaup á vöru: Samningar við varnarliðið um kaup á vöru af hendi íslenskra aðila.
  6. Samningar um kaup á þjónustu: Samningar við varnarliðið um kaup á þjónustu af hendi íslenskra aðila.
  7. Starfssamningar: Vinnuréttarsamningar íslenskra aðila við varnarliðið.
  8. Forval: Opið forval til vals hæfra bjóðenda eftir auglýsingu utanríkisráðuneytisins.
  9. Samningstilkynning: Tilkynning varnarliðsins um lausa samninga á grundvelli varnarsamningsins eða afleiddra samninga.
  10. Íslensk fyrirtæki: Fyrirtæki, óháð rekstrarfyrirkomulagi, sem uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:
    1. Eru skráð á Íslandi og starfrækja höfuðstöðvar sínar hér á landi.
    2. Eru landfræðilega staðsett á Íslandi og lúta íslenskri lögsögu.
    3. Fyrirsvarsmenn og lykilstarfsfólk fyrirtækjanna eru búsett á Íslandi.
    4. Önnur skilyrði sem leiðir af einstökum afleiddum samningum, eftir því sem við á.
         Heimilt er eftir eðli máls og í ljósi þeirra verkefna sem um ræðir í hverju tilviki að setja enn fremur skilyrði um að:
    1. Meiri hluti stjórnarmanna fyrirtækjanna sé búsettur á Íslandi.
    2. Allt að 50 af hundraði veltu fyrirtækjanna séu af starfsemi þeirra á Íslandi.
    3. Allt að 80 af hundraði starfsliðs fyrirtækjanna séu búsett á Íslandi.

  11. Tengdir aðilar: Fyrirtæki eða einstaklingar sem falla undir eftirfarandi skilgreiningu:
    1. Aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilanum eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar. Fyrrnefndi aðilinn telst móðurfyrirtæki en hinn síðarnefndi dótturfyrirtæki.
    2. Aðilar, þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, hefur með öðrum hætti en greinir í 1. tölul. raunveruleg yfirráð yfir hinum. Fyrrnefndi aðilinn telst móðurfyrirtæki en hinn síðarnefndi dótturfyrirtæki.
    3. Lögaðilar, þar sem svo háttar til að sami aðili eða sömu aðilar, einstaklingar eða lögaðilar, eða tengdir aðilar skv. 1. eða 2. tölul., eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í báðum eða öllum lögaðilunum, enda nemi eignarhlutur hvers þeirra um sig a.m.k. 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðafjölda í viðkomandi lögaðilum. Sama á við ef aðili eða aðilar, einstaklingar eða lögaðilar, eða tengdir aðilar skv. 1. eða 2. tölul., sem eiga meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðila og hver um sig á a.m.k. 10% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í lögaðilanum, eiga ásamt viðkomandi lögaðila meiri hluta hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í öðrum lögaðila. Til eignarhluta og atkvæðisréttar einstaklinga í lögaðilum samkvæmt þessum tölulið telst jafnframt eignarhluti og atkvæðisréttur maka og skyldmenna í beinan legg.
  12. Íslenskir aðilar: Íslensk fyrirtæki og einstaklingar.
  13. Tilnefning íslenskra aðila: Tilkynning íslenskra stjórnvalda til varnarliðsins um þau íslensku fyrirtæki eða einstaklinga sem heimilt er að semja við skv. 2.–4. tölul. 6. gr. viðbætis við varnarsamninginn og ákvæðum afleiddra samninga.
  14. Varnarsvæði: Landsvæði þau sem íslensk stjórnvöld hafa lagt til varna landsins og lýst hafa verið samningssvæði samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins og utanríkisráðherra fer með yfirstjórn á, sbr. ákvæði laga nr. 106/1954, um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl., og ákvæði 10. tölul. 14. gr. auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 96/1969.


2. gr.

Almenn ákvæði.
     Ekkert ákvæði laga þessara skal skýrt þannig að það raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenskum málefnum.
     Ef brýnir öryggishagsmunir krefjast skal utanríkisráðherra heimilt að víkja frá málsmeðferðarreglum laga þessara.

3. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi taka til allra samninga milli íslenskra aðila og varnarliðsins sem byggjast á ákvæðum varnarsamningsins og afleiddra samninga. Til samninga í þessum skilningi teljast allir samningar, hverju nafni sem nefnast, þar með taldir verksamningar, samningar um kaup á vöru, samningar um kaup á þjónustu og starfssamningar.

4. gr.

Meginreglur.
     Utanríkisráðuneytið tekur á móti öllum samningstilkynningum varnarliðsins sem í felst beiðni um tilnefningu íslenskra aðila. Heimild íslenskra aðila til samninga við varnarliðið er bundin því skilyrði að þeir hljóti tilnefningu utanríkisráðuneytisins sem samningsaðilar, í samræmi við ákvæði gildandi milliríkjasamninga, sbr. nánar II. og III. kafla laga þessara. Utanríkisráðherra er þó heimilt í reglugerð að undanþiggja minni háttar samninga þessu skilyrði.
     Samningar íslenskra aðila við varnarliðið, sem gerðir eru án undanfarandi tilnefningar, eru ógildir. Sama gildir ef forsendur tilnefningar bresta á samningstíma eða ef tilnefnd fyrirtæki brjóta gegn ákvæðum 3. mgr. 8. gr. Samningar íslenskra og erlendra aðila við varnarliðið sem stríða gegn ákvæðum varnarsamningsins eða afleiddra samninga eru enn fremur ógildir.
     Utanríkisráðherra úrskurðar um gildi samninga skv. 2. mgr.
     Óheimilt er að vinna verk, flytja inn eða selja vöru, eða selja þjónustu eða vinnu á grundvelli samninga sem utanríkisráðherra hefur úrskurðað ógilda skv. 3. mgr. Þá er óheimilt að tollafgreiða vöru eða hafa milligöngu um greiðslu til eða frá útlöndum fyrir vöru eða þjónustu sem innt er af hendi á grundvelli slíkra samninga.

II. KAFLI
Starfssamningar.

5. gr.

Starfsauglýsingar og mat umsókna.
     Utanríkisráðuneytið auglýsir laus störf hjá varnarliðinu og tekur á móti umsóknum um þau, sbr. 4. tölul. 6. gr. viðbætis við varnarsamninginn. Ráðuneytið tilnefnir hæfa umsækjendur með hliðsjón af öryggishagsmunum.

6. gr.

Skipan og starfsemi kaupskrárnefndar.
     Íslenskir starfsmenn varnarliðsins á Íslandi skulu búa við sambærileg starfskjör og aðrir íslenskir launamenn. Utanríkisráðherra skipar kaupskrárnefnd sem úrskurðar um ráðningarkjör, launakjör og vinnuskilyrði íslenskra starfsmanna varnarliðsins þar sem varnarliðið er ekki aðili að kjarasamningum.
     Kaupskrárnefnd skal skipuð þremur mönnum til tveggja ára í senn. Einn skal skipaður að fenginni tilnefningu Alþýðusambands Íslands, annar að fenginni tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og formaður án tilnefningar. Úrskurðir kaupskrárnefndar eru fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi, nema í þeim tilvikum þar sem utanríkisráðherra heimilar í reglugerð kæru til kærunefndar kaupskrárnefndar.
     Utanríkisráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skipan, starfshætti og viðmiðunarreglur kaupskrárnefndar og kærunefndar kaupskrárnefndar.

III. KAFLI
Verksamningar og samningar um kaup á vöru eða þjónustu.

7. gr.

Skipan og starfsemi forvalsnefndar.
     Sérstök forvalsnefnd er utanríkisráðuneytinu til aðstoðar við meðferð annarra samninga en starfssamninga.
     Forvalsnefnd skal skipuð þremur mönnum til tveggja ára í senn. Utanríkisráðherra skipar fulltrúa utanríkisráðuneytisins sem formann nefndarinnar og tvo sérfróða menn á sviði útboða og samningsgerðar til viðbótar. Úrskurðum nefndarinnar verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.
     Utanríkisráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um skipan, starfshætti og viðmiðunarreglur forvalsnefndar.

8. gr.

Verklagsreglur við mat samninga.
     Utanríkisráðuneytið metur samningstilkynningar varnarliðsins í samráði við forvalsnefnd með hliðsjón af öryggishagsmunum og tilgreinir þau skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla til að teljast íslensk fyrirtæki, sbr. ákvæði j-liðar 1. gr., þar með talin sértæk skilyrði sem leiða kann af einstökum afleiddum samningum. Ráðuneytið auglýsir opið forval íslenskra viðskiptaaðila með hæfilegum fyrirvara og á áberandi hátt þar sem fram koma almenn og sértæk skilyrði, nema ákvæði 9. gr. eigi við.
     Að loknum forvalsfresti skal forvalsnefnd leggja mat á þá aðila sem tekið hafa þátt í forvalinu og velja hæfa aðila. Þeir skulu vera íslensk fyrirtæki, hafa viðhlítandi verkreynslu á samningssviðinu og tæknilega getu, tækjabúnað og nægilega fjárhagslega burði til að efna þann samning sem í boði er. Við mat á fyrirtækjum ber enn fremur að taka mið af íslenskum öryggishagsmunum og almennum öryggissjónarmiðum. Einnig skal ganga úr skugga um að fyrirtæki uppfylli sérstakar kröfur sem kann að leiða af einstökum afleiddum samningum. Utanríkisráðuneytið tilnefnir hæfa aðila samkvæmt ákvörðun forvalsnefndar til varnarliðsins.
     Tilnefndum fyrirtækjum er óheimilt að hafa samráð um tilboðsgerð við önnur fyrirtæki, sbr. ákvæði 10. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993. Tengdum aðilum er óheimilt að taka þátt í sama útboði vegna samninga við varnarliðið.
     Við framkvæmd forvals skal að öðru leyti byggt á verklagsreglum laga og reglugerða um opinber innkaup, eftir því sem við getur átt.

9. gr.

Undantekningar frá forvalsskyldu.
     Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. er utanríkisráðuneytinu heimilt, að fenginni umsögn forvalsnefndar, að víkja frá skyldunni um opið forval og tilnefna viðskiptaaðila án forvals þegar um sérstakar gerðir samninga er að ræða. Þetta gildir um eftirfarandi tilvik:
  1. Þegar ljóst er að aðeins einn aðili uppfyllir nauðsynleg skilyrði.
  2. Þegar um er að ræða samninga sem stafa af þeim lagaskyldum sem á sveitarfélög eru lagðar að íslenskum rétti og varnarliðinu ber að sinna fyrir hönd íbúa á varnarsvæðunum.
  3. Þegar um er að ræða samninga sem lúta að verkframkvæmd eða þjónustu sem felur í sér aðgang að trúnaðarupplýsingum í ríkum mæli og öryggishagsmunir mæla gegn forvali.

     Heimilt er utanríkisráðherra í reglugerð að kveða á um frekari undanþágur frá forvalsskyldu ef sérstakar ástæður mæla með því.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

10. gr.

Aðgangur og umferð um varnarsvæði.
     Íslenskum starfsmönnum og öðrum sem eru ekki á ábyrgð varnarliðsins er heimill aðgangur að varnarsvæðunum ef þeir eiga þangað lögmæt erindi og hafa gilda aðgangsheimild, útgefna af sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, í samræmi við ákvæði laga þessara og ákvæði loftferðalaga. Heimilt er að takmarka eða synja um aðgangsheimild af öryggisástæðum eða ef allsherjarregla krefst þess.
     Utanríkisráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um för manna inn og út af varnarsvæðunum og um dvöl manna á þeim. Brot á reglunum varða tímabundinni sviptingu aðgangsheimildar samkvæmt ákvörðun sýslumanns eða varanlegri við ítrekuð brot. Sérlega alvarleg brot varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

11. gr.

Undanþága varnarliðsins frá sköttum og gjöldum.
     Varnarliðið skal undanþegið sköttum og gjöldum með þeim hætti sem greinir í 7. gr. viðbætis við varnarsamninginn, sbr. og 48. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum. Að fenginni staðfestingu utanríkisráðherra nær undanþága þessi einnig til erlendra fyrirtækja sem starfa einvörðungu innan varnarsvæðanna og reka þar starfsemi í þágu varnarliðsins. Þá skal starfsemi Ratsjárstofnunar undanþegin sköttum og gjöldum á sama hátt. Einstakir liðsmenn varnarliðsins og skyldulið njóta tekju- og eignarskattsfrelsis, sbr. 1. tölul. 7. gr. viðbætis við varnarsamninginn, en greiða óbeina skatta og gjöld eins og menn heimilisfastir á Íslandi, sbr. 1. tölul. 6. gr. viðbætisins, þó með þeim undanþágum sem leiðir af 8. gr. hans og endurgreiðsluheimild 43. gr. laga um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

12. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 60/1943, um refsing fyrir óheimila för inn á bannsvæði herstjórnar og óheimila dvöl þar, og lög nr. 99/1943, um ábyrgð ríkissjóðs á tjóni, sem hlýst af veru herliðs Bandaríkja Norður-Ameríku hér á landi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. laga þessara taka ákvæði þeirra um samninga við varnarliðið, aðra en starfssamninga, ekki gildi fyrr en 1. maí 2001.
     Þrátt fyrir ákvæði laga þessara skal utanríkisráðuneytinu heimilt að tilnefna verktaka til samninga við varnarliðið án forvals og með óbreyttum kjörum vegna verklegra framkvæmda sem greiddar eru af bandarískum stjórnvöldum, í samræmi við samninga Íslands og Bandaríkjanna þar að lútandi.

II.
     Áður en samningar við varnarliðið, sem getið er um í lögum þessum og gerðir hafa verið fyrir gildistöku laganna og ekki sætt forvalsmeðferð, koma til framlengingar er heimilt, að tillögu forvalsnefndar, að ákveða að fram skuli fara forval og hæfir aðilar tilnefndir skv. III. kafla laganna. Sé þessi heimild nýtt gilda ákvæði 4. gr., svo og önnur ákvæði laganna eftir því sem við á.

Samþykkt á Alþingi 12. maí 2000.