Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 622, 126. löggjafarþing 333. mál: tollalög (ríkistollstjóri).
Lög nr. 155 22. desember 2000.

Lög um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, o.fl.


I. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. laganna:
 1. Skilgreining á tollyfirvaldi orðast svo: Tollstjórar.
 2. Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í skilgreiningu á hugtakinu „Rammaskeyti“ kemur: ráðherra.
 3. Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í skilgreiningu á hugtakinu „Gagnaflutningsnet“ kemur: ráðherra.
 4. Hugtakið „Tölvukerfi ríkistollstjóra“ verður: Tölvukerfi tollyfirvalda.


2. gr.

     Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: tollstjórum.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 2. mgr. kemur: tollyfirvalda.
 2. Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 4. mgr. kemur: ráðherra.
 3. Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 5. mgr. kemur: Ráðherra.
 4. Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 5. mgr. kemur: tollyfirvalda.
 5. Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 11. mgr. kemur: Ráðherra.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 1. mgr. kemur: Ráðherra.
 2. Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 2. mgr. kemur: Tollstjórinn í Reykjavík.
 3. Í stað orðsins „ríkistollstjóri“ í 3. mgr. kemur: ráðherra.


5. gr.

     Í stað 2.–4. mgr. 28. gr. laganna koma fjórar málsgreinar, svohljóðandi:
     Ráðherra ákveður með reglugerð hvar tollhafnir skuli vera, að fengnum tillögum viðkomandi tollstjóra, enda sé fullnægt skilyrðum 64. gr. laganna.
     Við ráðstöfun á hafnarsvæðum, hafnarlóðum og öðrum svæðum, sem ætluð eru til uppskipunar eða geymslu á ótollafgreiddum vörum, skulu sveitar- og hafnarstjórnir hafa samráð við viðkomandi tollstjóra.
     Séu skilyrði til tolleftirlits og vörslu á vörum í aðaltollhöfn eða tollhöfn ófullnægjandi getur ráðherra afturkallað tollhafnarréttindi að fenginni umsögn viðkomandi tollstjóra og tollstjórans í Reykjavík.
     Tollstjórinn í Reykjavík skal annast úttektir á aðaltollhöfnum og tollhöfnum í umboði ráðherra. Tollstjórinn í Reykjavík skal hafa samráð við viðkomandi tollstjóra við úttekt á aðaltollhöfnum og tollhöfnum.

6. gr.

     Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 1. mgr. 29. gr. laganna kemur: tollstjóranum í Reykjavík.

7. gr.

     30.–37. gr. laganna, ásamt fyrirsögnum, orðast svo:
Yfirstjórn tollamála.
     a. (30. gr.)
     Ráðherra er æðsti yfirmaður tollamála samkvæmt lögum þessum og hefur eftirlit með því að tollstjórar og ríkistollanefnd ræki skyldur sínar. Hann hefur rétt til að athuga aðflutnings- og útflutningsskýrslur og öll gögn varðandi þær og krefja framangreinda aðila skýringa á öllu því er varðar framkvæmd laga þessara. Sama skal gilda um framtöl og gögn varðandi þau sem um ræðir í lögum um tekjuskatt og eignarskatt og lögum um virðisaukaskatt og talin eru varða tollamál sem tekið hefur verið til athugunar.
     
Tollstjórar.
     b. (31. gr.)
     Tollstjórar eru tollstjórinn í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur og sýslumenn í öðrum stjórnsýsluumdæmum, sbr. lög nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, með síðari breytingum.
     Ráðherra skipar tollstjórann í Reykjavík til fimm ára í senn og skal hann fullnægja sömu almennu hæfisskilyrðum og héraðsdómarar til skipunar í embætti, sbr. lög nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, með síðari breytingum.
     Tollstjórar, hver í sínu tollumdæmi, annast álagningu og innheimtu tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum. Þeir annast jafnframt hver í sínu tollumdæmi eftirlit með innflutningi, umflutningi og útflutningi á vörum til og frá landinu og ferðum og flutningi fara og fólks til og frá landinu, svo og flutningi á ótollafgreiddum varningi innan lands, auk annars eftirlits lögum samkvæmt.
     Ráðherra skipar aðaldeildarstjóra og deildarstjóra til fimm ára í senn. Tollstjóri skipar aðra tollverði og ræður aðra starfsmenn við embætti sitt, sbr. 39. gr. Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um starfsheiti tollvarða.
     
     c. (32. gr.)
     Fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra geta ákveðið að þar sem henta þykir skuli lögreglumenn annast tolleftirlit jafnframt öðrum löggæslustörfum.
     Fela má starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands að annast tolleftirlit.
     Þegar lögreglumönnum, starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands eða öðrum er falið að vinna tollgæslustörf, án þess að þeir hafi tollgæslu að aðalstarfi, hafa þeir sömu heimildir til starfa og gegna sömu starfsskyldum og tollverðir.
     Tollstjórar geta falið tollvörðum að gegna almennum löggæslustörfum, hverjum í sínu tollumdæmi.
     
Eftirlit og samræming.
     d. (33. gr.)
     Ráðherra hefur eftirlit með því að tollframkvæmdin sé í samræmi við lög, reglur og önnur fyrirmæli varðandi tollamálefni og alþjóðasamninga um þau efni sem Ísland er aðili að. Hann getur kannað tollskjöl aðila og hvert það atriði er varðar framkvæmd laga þessara og annarra laga um tolla og aðra skatta eða gjöld sem lögð eru á af tollstjórum eða umboðsmönnum þeirra. Getur hann í því skyni krafist allra upplýsinga og gagna sem hann telur þörf á frá tollstjórum, umboðsmönnum þeirra og öðrum þeim sem fram koma gagnvart tollstjórum vegna tollafgreiðslu samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum, svo og þeim sem um ræðir í 24. og 122. gr.
     Tollstjórinn í Reykjavík skal í umboði ráðherra annast samræmingu tollframkvæmdar og eftirlits- og rannsóknarstarfa á tollsvæði íslenska ríkisins. Hann getur, að eigin frumkvæði eða samkvæmt kæru, hafið rannsókn á hverju því atriði er varðar innflutning, umflutning og útflutning á vörum til og frá landinu og ferðir og flutning fara og fólks til og frá landinu, svo og flutning á ótollafgreiddum varningi innan lands samkvæmt lögum þessum eða öðrum lagafyrirmælum. Aðrir tollstjórar skulu veita nauðsynlega aðstoð við framkvæmd starfanna.
     Ráðherra annast framkvæmd og samskipti við erlend tollyfirvöld samkvæmt þeim milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að og lúta að framkvæmd tollamála, nema annað sé þar ákveðið eða ráðherra ákveði annað.
     
     e. (34. gr.)
     Ráðherra setur, að fengnum tillögum tollstjórans í Reykjavík, reglur varðandi tollframkvæmd sem gilda skulu um starfsemi tollstjóra og umboðsmanna þeirra.
     Tollstjóranum í Reykjavík ber að veita tollstjórum og umboðsmönnum þeirra leiðbeiningar um tollframkvæmdina og kynna þeim dóma, úrskurði og aðrar ákvarðanir sem þýðingu kunna að hafa fyrir störf þeirra. Hann skal einnig gefa út leiðbeiningar, úrskurði og önnur gögn sem hann metur að rétt sé að kynna fyrirtækjum og almenningi.
     
     f. (35. gr.)
     Við embætti tollstjórans í Reykjavík skal vera tollskóli er veiti tollstarfsmönnum fræðslu í tollamálum. Gera má það að skilyrði fyrir ráðningu í fasta stöðu að viðkomandi hafi lokið prófi frá skólanum. Ráðherra setur nánari reglur um nám við skólann. Ráðherra er heimilt að ákveða að innheimt skuli gjald vegna kostnaðar sem hlýst af námskeiðshaldi við skólann fyrir aðra en tollstarfsmenn.
     
     g. (36. gr.)
     Tollstjórinn í Reykjavík skal sjá um þróun og rekstur þess tölvu- og upplýsingakerfis sem notað er af hálfu tollyfirvalda við tollafgreiðslu samkvæmt lögum þessum. Hann skal setja innflytjendum, útflytjendum, farmflytjendum og öðrum, sem senda tollyfirvöldum upplýsingar vegna tollafgreiðslu um gagnaflutningsnet, samskiptareglur.
     Ráðherra ákveður form tollskjala og eyðublaða sem notuð eru við tollframkvæmdina og hvaða atriði skuli tilgreina þar.
     
     h. (37. gr.)
     Telji tollstjórinn í Reykjavík rétt að ákvörðun um atriði sem lúta að framkvæmd laga þessara eða annarra laga um tollamál, m.a. ákvörðun um gjöld og skatta sem tollstjórar leggja á og innheimta, sé endurskoðuð getur hann skriflega og með rökstuddum hætti mælt fyrir um að málið skuli tekið upp að nýju, enda séu skilyrði 98. og 99. gr. uppfyllt ef um hækkun gjalda er að ræða.
     Ákvæði 1. mgr. taka ekki til úrskurðar og ákvörðunar tollstjóra skv. 100. og 142. gr.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
 1. Orðin „og ríkistollstjóri“ í 1. mgr. falla brott.
 2. Orðin „og ríkistollstjóra“ í 2. mgr. falla brott.


9. gr.

     Fyrirsögn VI. kafla orðast svo: Tollsvæði, tollumdæmi, tollhafnir, tollstjórar o.fl.

10. gr.

     Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 4. mgr. 46. gr. laganna kemur: Ráðherra.

11. gr.

     Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 2. mgr. 47. gr. laganna kemur: Ráðherra.

12. gr.

     1. mgr. 50. gr. laganna orðast svo:
     Tollstjórar annast rannsókn brota á lögum þessum að svo miklu leyti sem slík rannsókn er ekki í höndum lögreglu. Skulu þeir, hvenær sem þess er þörf, hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um refsivert brot. Hafi tollstjóri utan embættis tollstjórans í Reykjavík grun um að stórfelld tollsvik hafi verið framin skal hann þegar tilkynna það til tollstjórans í Reykjavík. Um rannsókn skulu að öðru leyti gilda ákvæði laga um meðferð opinberra mála.

13. gr.

     Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 53. gr. laganna kemur: Ráðherra.

14. gr.

     Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 70. gr. laganna kemur: Ráðherra.

15. gr.

     Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 3. mgr. 100. gr. laganna kemur: ráðherra.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Innflytjandi getur skotið úrskurði tollstjóra um endurákvörðun skv. 99. gr., úrskurði tollstjóra skv. 100. gr., þó ekki úrskurði sem kæranlegur er til ráðherra skv. 102. gr., og ákvörðun tollstjóra skv. 142. gr. til ríkistollanefndar innan 60 daga, talið frá póstlagningu úrskurðar eða ákvörðunar.
 3. Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 2. mgr. kemur: Tollstjórinn í Reykjavík.
 4. Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 4. mgr. kemur: tollstjóranum í Reykjavík.
 5. Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 11. mgr. kemur: ráðherra.


17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 102. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Heimilt er að skjóta úrskurðum tollstjóra, öðrum en þeim sem sæta kæru til ríkistollanefndar, til ráðherra innan 60 daga frá uppkvaðningu úrskurðar.
 3. Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 2. og 3. mgr. kemur: Ráðherra.
 4. Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 2. og 3. mgr. kemur: ráðherra.
 5. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Kærur til ráðherra.


18. gr.

     Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 4. mgr. 142. gr. laganna kemur: tollstjóranum í Reykjavík.

19. gr.

     Í stað orðsins „Ríkistollstjóri“ í 146. gr. laganna kemur: Ráðherra.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

20. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „ríkistollstjóri“ í 2. mgr. kemur: tollstjórinn í Reykjavík.
 2. Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 2. mgr. kemur: fjármálaráðherra.


III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

21. gr.

     Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 2. mgr. 36. gr. laganna kemur: fjármálaráðherra.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi, með síðari breytingum.

22. gr.

     Í stað orðsins „ríkistollstjóra“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: fjármálaráðherra.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

23. gr.

     8. tölul. 22. gr. laganna orðast svo: Tollstjórinn í Reykjavík og tollverðir.

VI. KAFLI
Breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum.

24. gr.

     4. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
     Tollstjórar, löglærðir fulltrúar þeirra og tollverðir fara með lögregluvald á sínu starfssviði og þegar þeir annast eða aðstoða við löggæslu.

VII. KAFLI
Starfsmenn, gildistaka o.fl.

25. gr.

     Við gildistöku laga þessara verður embætti ríkistollstjóra lagt niður og skulu starfsmönnum embættisins boðin störf hjá þeim tollyfirvöldum sem taka við verkefnum ríkistollstjóra, eftir því sem tök eru á. Um réttarstöðu starfsmanna embættisins fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

26. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001. Eftir gildistöku breytinga samkvæmt lögum þessum á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, skal fella meginmál breytinganna inn í þau lög, ásamt síðari breytingum, og gefa lögin út svo breytt.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Fjármálaráðherra og tollstjórinn í Reykjavík taka við almennum réttindum og skyldum embættis ríkistollstjóra og við samningum við þriðja aðila eftir því sem við getur átt samkvæmt ákvæðum laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 16. desember 2000.