Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 613, 126. löggjafarþing 310. mál: ráðstafanir í ríkisfjármálum 2001 (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 174 21. desember 2000.

Lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 2001.


Um breytingu á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum.

1. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., sbr. 3.–6. gr. laganna, skulu tekjur af sérstökum eignarskatti umfram 500 m.kr. renna í ríkissjóð á árinu 2001.

Um afnám laga nr. 12/1952, um ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila.

2. gr.

     Lögin falla úr gildi 1. janúar 2001.

3. gr.

     Ríkissjóður yfirtekur eignir og skuldir erfðafjársjóðs miðað við stöðu þeirra 31. desember 2000.

Um breytingu á lögum nr. 83/1984, um erfðafjárskatt.

4. gr.

     Í stað orðanna „til erfðafjársjóðs“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: í ríkissjóð.

Um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingu.

5. gr.

  1. 1. tölul. 39. gr. laganna fellur brott.
  2. Þrátt fyrir ákvæði 40. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 161/1996, um hlutverk Framkvæmdasjóðs fatlaðra greiðist á árinu 2001 af ráðstöfunarfé sjóðsins kostnaður við félagslega hæfingu og endurhæfingu skv. 27. gr. laganna og kostnaður vegna starfsemi stjórnarnefndar skv. 52. gr. laganna.

Um breytingu á erfðalögum, nr. 8/1962.

6. gr.

  1. Í stað orðsins „erfðafjársjóð“ í fyrri málslið 1. mgr. 55. gr. laganna kemur: ríkissjóð.
  2. Síðari málsliður 1. mgr. 55. gr. laganna fellur brott.

Gildistaka.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001.

Samþykkt á Alþingi 16. desember 2000.