Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 688, 111. löggjafarþing 2. mál: eignarleigustarfsemi.
Lög nr. 19 4. apríl 1989.

Lög um eignarleigustarfsemi.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     „Eignarleiga“ merkir í lögum þessum leigustarfsemi á lausafé eða fasteignum þar sem leigusali selur leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma samkvæmt sérstökum skilmálum um eignar- eða afnotarétt að lágmarksleigutíma liðnum. Til eignarleigu telst því:
     „Fjármögnunarleiga“ er merkir í lögum þessum þá samningsaðstöðu samkvæmt eignarleigusamningi að leigusali hefur afsalað að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala. Eignarréttur helst þó hjá leigusala.
     „Kaupleiga“ er merkir í lögum þessum þá samningsaðstöðu samkvæmt eignarleigusamningi að leigusali hefur afsalað að verulegu leyti áhættu og rétti til arðs sem tengist eignarrétti leigusala og jafnframt veitt leigutaka sjálfkrafa rétt til að eignast hið leigða í lok leigutíma.
     „Rekstrarleiga“ er merkir í lögum þessum þá samningsaðstöðu samkvæmt eignarleigusamningi að fyrir hendi sé eignarleiga sem ekki telst vera fjármögnunarleiga né kaupleiga samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

2. gr.

     „Eignarleigustarfsemi“ samkvæmt lögum þessum telst vera sú starfsemi að veita, hafa milligöngu um eða bjóða fram lánveitingar og ábyrgð á skuldum vegna fjármögnunar annarra aðila.
     Ákvæði laga þessara taka þó ekki til lánveitinga þeirra sem stunda framleiðslu og verslun til venjulegra viðskiptavina.
     Rísi ágreiningur um það hvort starfsemi teljist til eignarleigustarfsemi samkvæmt lögum þessum sker ráðherra úr.

3. gr.

     „Eignarleigufyrirtæki“ merkir í lögum þessum fyrirtæki sem hefur að meginstarfsemi eignarleigu samkvæmt lögum þessum.
     „Víkjandi lán“ merkir í lögum þessum lán sem eignarleigufyrirtæki tekur gegn útgáfu sérstakrar skuldarviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en fimm ár og að við gjaldþrot félagsins eða slit þess fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur félaginu en endurgreiðslu hlutafjár.

II. KAFLI
Eignarleigufyrirtæki.

4. gr.

     Eignarleigustarfsemi er einungis heimil eignarleigufyrirtæki sem hefur starfsleyfi viðskiptaráðherra.
     Skilyrði fyrir veitingu slíks starfsleyfis eru:
  1. Fyrirtækið sé hlutafélag og nemi innborgað hlutafé þess a.m.k. 10 milljónum króna.
  2. Meiri hluti stjórnar félagsins skal vera búsettur hér á landi.
  3. Framkvæmdastjóri félagsins skal vera búsettur hér á landi og vera ríkisborgari Norðurlandaríkis. Skal hann vera fjárráða og með óflekkað mannorð.
  4. Löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarstofa annist endurskoðun hjá eignarleigufyrirtæki.


5. gr.

     Eignarleigufyrirtæki er óheimilt að hafa með höndum aðra starfsemi en eignarleigu eða skylda starfsemi á sviði fjármálaþjónustu. Eignarleigufyrirtækið má þó eigi jafnframt stunda verðbréfamiðlun eða rekstur verðbréfasjóðs.
     Tilgangur fyrirtækisins skal skýrt afmarkaður í samþykktum félagsins.

6. gr.

     Eigið fé eignarleigufyrirtækis, að viðbættum víkjandi lánum, skal á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar 10% af heildarskuldbindingum þess.

7. gr.

     Eignarleigufyrirtæki ber að haga starfsemi sinni á þann veg að viðskiptamenn þess njóti jafnræðis um upplýsingar um verð og önnur viðskiptakjör. Skal, að teknu tilliti til hags og þekkingar viðskiptamanna, kappkostað að veita þeim greinargóðar upplýsingar um þá kosti og kjör sem þeim standa til boða.

8. gr.

     Eignarleigusamningar skulu vera skriflegir. Í þeim skal, auk leigugjalds, geta eftirtalinna atriða:
  1. Tegundar þeirrar eignarleigu sem samningurinn kveður á um, sbr. 1. gr. laga þessara.
  2. Lágmarksleigutíma.
  3. Vaxtaákvæða og annars kostnaðar leigutaka af viðskiptunum, þar á meðal lántökugjalds ef um það er að ræða.
  4. Ákvæða um rétt leigusala og leigutaka til riftunar eignarleigusamningsins og um skilmála riftunar.
  5. Ákvæða um vátryggingar og bótaábyrgð gagnvart þriðja aðila.
  6. Hvort, með hvaða hætti og hvaða kjörum leigutaki fái áframhaldandi afnot hins leigða að leigutíma loknum.


9. gr.

     Starfsmönnum eignarleigufyrirtækis ber að gæta þagmælsku um öll viðskipti sem það annast og um persónulega hagi viðskiptamanna þess sem þeir öðlast vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema starfsmönnum sé gert að veita upplýsingar um þessi efni með dómsúrlausn eða sé að lögum skylt að veita þær. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

III. KAFLI
Eftirlit.

10. gr.

     Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skal hafa eftirlit með að ekki sé starfrækt eignarleigufyrirtæki nema að fengnu leyfi viðskiptaráðherra, sbr. 4. gr. laga þessara. Bankaeftirlitið skal gæta þess að slík starfsemi fullnægi ætíð að öðru leyti skilyrðum laga þessara, reglugerða og samþykkta sem um starfsemina gilda. Bankaeftirlitinu skal heimill aðgangur að öllum gögnum og upplýsingum hjá eignarleigufyrirtækjum sem að mati bankaeftirlitsins varða starfsemina og nauðsynlegar eru við framkvæmd eftirlitsins. Gögn og upplýsingar skulu látin í té í því formi og svo oft sem bankaeftirlitið óskar eftir vegna eftirlits og hagskýrslugerðar. Að öðru leyti skulu gilda um eftirlitið sömu reglur og gilda um eftirlit með innlánsstofnunum, sbr. IV. kafla laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, og reglugerðir settar samkvæmt þeim, eftir því sem við getur átt. Ákvæði þessarar greinar taka einnig til endurskoðenda eignarleigufyrirtækja.

11. gr.

     Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands skal hafa eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum eignarleigufyrirtækja í samræmi við þær reglur sem gilda um starfsemi þess.

12. gr.

     Hafi stjórn eignarleigufyrirtækis eða endurskoðandi þess ástæðu til að ætla að eigið fé þess sé undir því lágmarki sem ákveðið er í 6. gr. ber þeim þegar í stað að tilkynna það bankaeftirliti Seðlabanka Íslands.
     Er bankaeftirlitinu berst tilkynning að hætti 1. mgr. eða það telur af öðru tilefni ástæðu til að ætla að eigið fé eignarleigufyrirtækis sé undir lágmarki 6. gr. skal það krefja endurskoðanda eignarleigufyrirtækis þegar í stað um reikningsuppgjör sem hann skal afhenda innan tveggja vikna frá því honum berst krafan.
     Komi fram í reikningsuppgjöri að hætti 2. mgr. að eigið fé eignarleigufyrirtækis fullnægi ekki ákvæðum 6. gr. skal stjórn hlutafélagsins án tafar boða til hluthafafundar til ákvörðunar og afhenda síðan bankaeftirlitinu greinargerð þar sem fram kemur til hverra ráðstafana félagið hyggst grípa af þessu tilefni. Skal bankaeftirlitið þegar afhenda ráðherra reikningsuppgjör endurskoðanda og greinargerð stjórnar ásamt umsögn sinni.
     Þegar ráðherra hafa borist gögn skv. 3. mgr. er honum heimilt að veita hlutaðeigandi eignarleigufyrirtæki frest í allt að fjóra mánuði til þess að auka eigið fé að lágmarki skv. 6. gr. Séu til þess ríkar ástæður að mati ráðherra er honum heimilt að framlengja þennan frest í allt að fjóra mánuði til viðbótar. Heimilt er að stytta eða fella niður áður ákveðinn frest ef ástæða þykir til.

13. gr.

     Ráðherra er heimilt að afturkalla starfsleyfi eignarleigufyrirtækis ef veittur frestur skv. 12. gr. ber eigi árangur eða sýnt þykir að slíta beri fyrirtækinu. Skal ráðherra senda skiptaráðanda á varnarþingi eignarleigufyrirtækisins kröfu um að bú þess verði tekið til skipta.
     Brjóti stjórn eignarleigufyrirtækis ítrekað fyrirmæli laga og reglna settra samkvæmt þeim getur ráðherra með sama hætti og um getur í 1. mgr. þessarar greinar afturkallað starfsleyfi eignarleigufyrirtækis, enda hafi bankeftirlit Seðlabanka Íslands áður gert skriflegar athugasemdir varðandi reksturinn.
     Ráðherra er heimilt að svipta eignarleigufyrirtæki starfsleyfi um stundarsakir ef hafin er opinber rannsókn vegna meintra brota á lögum þessum í starfsemi eignarleigufyrirtækis.

IV. KAFLI
Viðurlög.

14. gr.

     Það varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að sex mánuðum að starfrækja eignarleigufyrirtæki, sbr. 4. gr. laga þessara, án starfsleyfis viðskiptaráðherra. Sömu refsingu varða brot á II. kafla laga þessara. Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
     Með brot skv. 1. mgr. þessarar greinar skal farið að hætti opinberra mála.

V. KAFLI
Gildistaka o.fl.

15. gr.

     Viðskiptaráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

16. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þeir, sem við gildistöku laga þessara stunda starfsemi sem lög þessi taka til, skulu uppfylla ákvæði laganna eigi síðar en sex mánuðum frá gildistöku þeirra. Mæli sérstakar ástæður með því er viðskiptaráðherra heimilt að veita lengri frest, þó aldrei lengri en eitt ár frá því sem ákveðið hefur verið í fyrri málslið þessa bráðabirgðaákvæðis.

Samþykkt á Alþingi 21. mars 1989.